Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Stórkostleg mynd af hrikalegu landi

Norðan VatnajökulsHér er ein hrikalegasta mynd sem ég hef séð. Auðvitað er hún af einu afskekktasta svæði landsins, norðan Vatnajökuls og sunnan Öskju.

Tók myndina leyfislaust af Facbook-síðu Eldfjalla- og jarðvárhóps Háskóla Íslands. Vonandi er mér fyrirgefið. Bætti inn á hana helstu örnefnum.

Takið eftir þessum hrikalegu „götum“ í landslaginu, Trölladyngju og gígnum á Urðarhálsi. Sannarlega tröllslegt og ógnandi. Sólin að segjast í norðvestri og varpar löngum skuggum á landslagið. 

Eitt sinn var vorum við þrjú á ferð þarna með yngri syni mínum, þá fjögurra ár. Kvöldsett var og við þau fullorðnu vorum eðlilega að tala um eldgos, hraun og óáran sem fylgir. Tók ég þá allt í einu eftir því að litli drengurinn minn var kominn úr aftursætinu og niður á gólf í bílnum þar sem hann lá í hnipri. Hann hafði einfaldlega skelfst við þetta tal okkar og hélt að á öllu væri von.

Auðvitað stoppaði ég bílinn, tók hann í fangið og útskýrði fyrir honum það sem um hafði verið að ræða. Hann sagðist bara hafa viljað lenda í neinu eldgosi og taldi sig öruggari á gólfinu en í sætinu ...

Núna um tuttugu og einu ári síðar sýnist mér að hann hafi ekki borið varanlega skaða af þessu atviki. Held að hann muni ekki einu sinni eftir því. Þori varla að spyrja.

Til gaman má geta þess að við ókum ekki lengra þetta kvöld og sváfum í pallhúsinu um nóttina. Nítján árum síðar rann Holuhraun yfir þennan stað. Dálítið sérstakt miðað við söguna hér á undan.

Myndin kallast í daglegu tali loftmynd. Það minnir mig á að einn vinur minn sem rak verslun með ljós og rafvörur mátti ekki auglýsa „loftljós“ (ljós sem hanga í lofti húsa) í Ríkisútvarpinu eina og sanna. Gáfumenn þar héldu því fram að slík ljós væru einfaldlega ekki til. Nokkuð til í því. Held samt að þetta sé loftmynd nema því aðeins og hún sé ekki til ... Þá myndi nú sannarlega kvikna á perunni hjá mér.wink


KR-ingar trúir sauðalitunum ...

MemeKR-ingar sjá lífið í svart-hvítu, nema þegar þeir nota varabúninginn sem er langt frá því að vera fallegur en er þó talsvert skárri en hinn langröndótta skyrta.

Nike, sem hefur lengi talist hafa nokkuð vit á hönnun og þar með litasamsetningum gerði KR tillögu um að nútímavæða þessa afgömlu skyrtu í sauðalitunum. Trútt upphafinu hafnaði félagið henni en skaðinn var skeður. Sagt er að fjölmargir KR-ingar á besta aldri séu enn á gjörgæslu og nokkrir þeirra muni aldrei ná sér þrátt fyrir að rauða röndin hafi aðeins átt að vera örmjó.

Í austurhluta Reykjavíkur er félag sem varpar öndinni léttar enda telja meðlimir þess það eiga fyrsta veðrétt í skyrtu með rauðri rönd, að vísu nokkuð breiðari en Nike gerði tillögu um.

Breytingar á KR-búningnum hafa greinilega meiri og alvarlegri áhrif á félagið en slakt gengi þess í tuðrusparki.

Myndin er af lömbum ... þau eru að hluta til í KR-litunum.


mbl.is KR búningur án rauðra randa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verðlækkun á markaði Costco að þakka ...?

Hag­stæðara gengi, toll­aniður­fell­ing­ar og lægra inn­kaupsverð ger­ir þessa lækk­un mögu­lega og gagn­sæið í verði og vöru­fram­boði verður hér eft­ir mun betra. Dekk eru eitt­hvað sem við þurf­um flest á að halda og það á ekki að vera flókið ferli að verða sér úti um þau.

Þetta segir framkvæmdastjóri Sólningar og í fölskvalaustri gleði sinni yfir aðstæðum býður hann okkur neytendur njóta aðstæðna í lægra verði á hjólbörðum.

Mikið óskaplega fagnar maður allri þessari breytingu. Hjólbarðar lækka í verði, risastór sjónvörp eru komin á verð sem smásjónvörp voru á fyrir ári eða tveimur. Bráðlega lækkar matvaran enn meira í verði og svo koll af kolli.

Hvað er eiginlega að gerast? Maður hneigir sig í auðmýkt fyrir verslunarrekendum sem lækka verð í öfugu hlutfalli við hækkandi sól.

Hvað veldur þessari neytendavænu aðgerð? Ég veit ekki. Hef ekki hugmynd.

Læt mér ekki detta það eitt augnablik í hug að verðlækkunin séu vegna þess að bandaríska fyrirtækið Costco ætlar að opna verslun hér á landi í lok maí og þar verða meðal annars seldir hjólbarðar, sjónvörp, húsgögn og ekki síst matvæli af ýmsu tagi. 

Hins vegar er ég sannfærður um að samkeppni á markaði kemur neytendum alltaf til góða ... nema því aðeins að samráð sé um verðlagningu.

Svo veit ég líka að margir njóta útiveru og fyrir einskæra tilviljun liggja stundum leiðir saman í Öskjuhlíð.


mbl.is Sólning lækkar verð um allt að 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðaskorturinn er vinstri meirihlutanum í Reykjavík að kenna

Nú eru helstu vinstri gáfumenn landsins búnir að fatta það að frjáls markaður getur ekki leyst húsnæðisvandann í Reykjavík, sjá hér. Við liggur að þeir fagni þessu ómögulega ástandi.

Trúir sannfæringu sinni líta þeir ekki á vandamálið í heild sinni. Þeim finnst engu skipta þó að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hafi í fjölda ára ekki boðið upp á nægilegan fjölda lóða. Þeir sjá enga tengingu á milli aukins straums ferðamanna, útleigu íbúðarhúsnæðis og að leiga á íbúðarhúsnæði hefur hækkað svo hátt að fólk flýr höfuðborgina, þar á meðal sá sem hér skrifar.

Skortur á leiguhúsnæði byggist á tvennu: framboði og eftirspurn. Sé framboðið ekki nægilegt þýðir það einfaldlega að húsnæðisverð hækkar og þar með húsaleiga. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst. Þokkalegar íbúðir sem áður voru verðlagðar á 250.000 krónur í leigu á mánuði eru hreinlega ekki fáanlegar. Og hver í ósköpunum hefur efni á að borga þessa fjárhæð í leigu.

Sökin liggur hvergi annars staðar en hjá Reykjavíkurborg. Vinstri meirihlutinn er upptekinn við að andskotast tefja fyrir bílaumferð og reyna að loka Reykjavíkurflugvelli. Á meðan gleymist fólkið sem vantar íbúðir til kaups eða leigu.

Og „nýsósíalistarnir“ kenna markaðnum um vandann en líta með vilja framhjá ábyrgð Reykjavíkurborgar.

 


Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann ...

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Þannig orti Páll Árdal (1857-1930) um rógberann sem í dag gæti jafnvel verið kallaður „virkur í athugasemdum“ fjölmiðla eða jafnvel ýmsir stjórnmálamenn.

Grein Kára Stefánssonar í Fréttablaðinu í síðustu viku vakti undrun margra vegna þess að í henni ræðst hann á Bjarna Benediktsson og ber upp á hann Gróusögur.

Hver skyldi vera tilgangur Kára? Er hann að koma Bjarna til varnar? Er honum svo umhugað um Bjarna að hann vilji safna á einn stað helstu lygunum svo hægt sé að eyða þeim eins og pappír í eldi í tunnu?

Nei, tilgangur Gróusögunnar er auðvitað allt annar. Enginn ber út lygasögur til að hjálpa þolandanum. Sá sem stendur fyrir einelti eða ofbeldi af einhverju tagi hefur ekki hagsmuni fórnarlambsins í huga. 

Sögusmettan skrifar því eins og Gróa á Leiti sem sagði aldrei neitt ljótt um annað fólk, heldur flutti af því sögu með þeim orðum að „ólyginn sagði mér“. Aldrei var hægt að rekja söguna til hennar heldur til annarra.

Kári Stefánsson er óumdeilanlega nokkuð vel skriffær þó deila megi um dómgreindina. Hversu brengluð er ekki hugsunin hjá þeim sem svona skrifar:

Þegar þú leggst í leiðréttingar á gróusögum af þeirri gerð sem hér hafa verið raktar er mikilvægt að gera það af einlægni og þannig að það skiljist hvað þú ert að reyna að segja.

Þetta segir maðurinn sjálfur í grein sinni rétt eins og hann sé að gera Bjarna Benediktssyni góðverk. Hann telur það sér beinlínis til vegsauka að dreifa lygasögum og hvetur fórnarlambið til að sýna einlægni ...

Þetta er hreinlega eins og í galdrabrennunum til forna þegar yfirvaldið hótaði einhverjum aumingjans ógæfumanni og gaf honum tvo kosti: Annað hvort eilífa vist í helvíti ef hann neitaði eða sællegum dauða ef hann játaði af einlægni.

Af rætnum hvötum skrifar Kári rætna grein og segir segir að því loknu eins og Nixon karlinn og það kumrar í honum um leið: „Let the bastards deny it,“. Hann gæti svo sem bætt við annarri tæknilegri spurningu: „Ertu hættur að berja konuna þína þú armi skíthæll?“ Vont er að svara henni nema missa æruna.

Sem betur fer kunna fleiri orðsins list. Benedikt Einarsson, lögmaður, skrifar stórsnjalla grein í Fréttablað dagsins, og hrekur þar allar lygar Kára Stefánsson um Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra. Benedikt bætir um betur og lýkur grein sinni með ljóði Páls J. Árdals sem getið er hér að ofan. Það var vel til fundið enda gæti Kári verið rógsmaður í því.

Einnig má benda á góða grein Einars Bárðarsonar sem hægt er að lesa hér

Ljóðið er snilldarlega ort. Efni þess skilja allir, málið er létt og auðlesið.

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
 
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,
 
og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,
 
en þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.
 
Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.
 
Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.
 
Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður.


Ekki vera svona reið ...

Athyglisverð grein er í viðskiptablaði Moggans. Þar skrifar dálkahöfundurinn Wolfgang Münchau grein undir nafninu „Hvernig má koma Bretlandi aftur inn í ESB“.

Meginefni greinarinnar fjallar þó ekki um fyrirheit fyrirsagnarinnar heldur hvernig stuðningsmenn ESB ættu að sleikja sárin og sætta sig við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um að yfirgefa sambandið.

Hann nefnir fjögur mikilvæg atriði sem stuðningsmenn ESB þurfa að tileinka sér:

  1. Sættið ykkur við niðurstöðuna, Brexit er óumflýjanlegt.
  2. Ekki vera svona reið, niðurstaðan er komin, skiptir engu þó ykkar blekkingar hafi reynst léttvægari en blekkingar annarra ...
  3. Takið andstæðinga ESB alvarlega.
  4. Hætti að vera svona öskuill yfir marmiðum Bretlands í samvinaviðræðunum við ESB.

Þetta eru skynsamleg ráð, ekki aðeins vegna Brexit heldur í stjórnmálum almennt. Ekki síst er það rétt sem höfundurinn segir:

Fólk sem er á annarri skoðun en Evrópusinnar er ekki endilega ófært um að hugsa rökrétt. Það er ekki algilt að þeir sem kusu Donald Trump eða Brexit séu heimskir.

Þetta eru auðvitað heimspekileg sannindi en í hita stjórnmálanna er allt tengt og yfirfært þvert á allan sannleika og skynsemi - hér á landi og erlendis.

„Ekki vera svona reið.“ 

Þetta er gott ráð í stjórnmálum. Takið til dæmis eftir fýlunni sem yfirleitt lekur af sumum þingmanna Vinstri grænna í umræðum á Alþingi. Þá er eins og yfir þeim sé þungbúið rigningaskýr í eilífu skammdegi. Óháð því að VG getur oft á tíðum staðið fast að góðum málstað þá eyðileggur þetta fas afskaplega mikið fyrir flokknum.

„Öskuillska.“

Í rökræðum um stjórnmál þurfa þingmenn til dæmis ekki að vera með leikræna tilburði í ræðustól. Taka frekar þingmann Pírata, Gunnar Hrafn Jónsson, sem sagðist í ræðustól um hörmulega lágar fjárveitingar til Hugarafls vera „... satt að segja brjálaður yfir þessu.“.

Rödd Gunnars var yfirveguð, allt fas mannsins hófstillt þrátt fyrir orðin. Hverjar virðast lyktir þessa máls vera. Jú, nú lítur út fyrir að þessi smánarlega greiðsla verði hækkuð að mun, ábygglega fyrir harðorðan en kurteisilegan málflutning Gunnars Hrafns. 

Ef eitthvað er mættu íslensk stjórnmál taka mið af kjarnanum í ofangreindri grein. Minna af reiði, virðing fyrir andstæðingum og að sætta sig við niðurstöðu mála.


Hvernig má verjast fölskum fréttum, hálfsannleika og áróðri?

Sé ætlunin að niðurlægja pólitíska andstæðinga eða gera lítið úr skoðun þeirra og gerðum þá er skiptir fernt mestu:

  1. Vitna í orð andstæðinganna
  2. Fara rangt með tilvitnunina
  3. Leggja út af hinni röngu tilvitnun
  4. Fá fleiri til að gera hið sama

Þetta er óbrigðul aðferð og viti menn. Innan skamms er hin ranga tilvitnun og útlegging orðin að sannleika ... af því að svo margir segja það. Stundum mistekst þetta ef andstæðingurinn nær eyrum fólks og geti leiðrétt rangfærsluna. Þá er málið ónýtt nema því aðeins að nógu margir brúki taki þátt í þessum leik.

Auðvitað er þetta áróður, ljótur áróður sem hefur einkennt íslensk stjórnmál, sérstaklega síðustu tvo áratugi. Nú er svo auðvelt að koma upplýsingum til fólks, vefsíðurnar eru svo margar ... og líka bloggin.

Þessi áróðursaðferð varð til í Sovétríkjunum gömlu. Aðferðinni lýst í bók Arthurs Koestlers, „Myrkur um miðjan dag“. Hann var kommúnisti en hvarf af trúnni, samdi skáldsögu um Rubashov sem á að hafa verið hátt settur maður í stjórnkerfi Sovétríkjanna en lendir í ónáð hjá No. einum og er settur í fangelsi. Í yfirheyrslunum er farið nákvæmlega yfir feril Rubashovs og smáum atriðum og stórum snúið gegn honum. Í bókinni segir:

„Mestu glæpamenn sögunnar,“ hélt Ivanov áfram, „eru ekki menn á borð við Nero og Fouché, heldur slíkir sem Gandhi og Tolstoy. Innri rödd Gandhis hefur gert meira til að koma í veg fyrir frelsi Indlands en byssur Breta. Það, að selja sjálfan sig fyrir þrjátíu peninga silfurs, er heiðarlegur verknaður, en hitt, að ofurselja sig samvisku sinni, er svik við mannkynið. Sagan er a priori siðlaus. Hún hefur enga samvisku. Það, að ætla sér að stjórna rás sögunnar eftir sömu reglum og sunnudagaskóla, er sama sem að láta allt danka eins og það er. Þetta veistu eins vel og ég. [bls. 163, útgáfan frá 1947]

Þetta er alveg stórundarleg útskýring á þessu einstaklingsbundna fyrirbrigði sem kallast samviska. Samkvæmt þessu á hún að vera „félagsleg“ og þar með er hún rifin út tengslum við hugsun. Í staðin er hún gerð útlæg og í stað hennar þarf einstaklingurinn að leita til annarra sé hann í vafa um hvað sé rétt og rangt. 

Auðvitað átt Rubashov ekki nokkra möguleika gegn kerfinu. Hann var yfirheyrður og kerfisbundið snúið út úr því sem hann hafði áður sagt, gert og fundir hans með öðru fólki voru gerðir að samsæri gegn Sovétríkjunum. Svona gerist nú þegar gildi eru skilgreind fyrir pólitíska hagsmuni. 

Auðvitað er samviska hvers manns mikilvægari en orð fá lýst sem og hugsun og ekki síst rökhugsun. Eina leiðin til að halda sönsum er að hlusta á samvisku sína. Þetta er eina leiðin til að berjast móti áróðri dagsins, fölskum fréttum og hálfsannleika.

Til dæmis er ég ekki alltaf viss hvort sú skoðun sem ég hef byggist á þekkingu, reynslu og rökhugsun eða þá að hún sé afleiðingin af síbylju áróðurs sem glymur fyrir eyrum og verður fyrir augum. Eftir því sem ég tala við fleiri og fylgist með þjóðfélagsumræðunni flögrar það að mér að vandinn sé ekki einskorðaður við mig einann. Ég hreinlega finn að margir hafa ekki skilning á umræðunni, kynna sér ekki mál öðru vísi en að hlusta á ágrip, lesa fyrirsagnir.

Auðveldast í öllum heimi er að trúa síðast ræðumanni, rökum þess sem virðist sannfærandi, hefur réttu raddbeitinguna eða hefur ásjónu þess sem er heiðarlegur. Einhvern tímann var sagt um forhertan glæpamann að hann liti nú síst af öllu út fyrir að vera glæpamaður. En hvernig lítur glæpamaður út? Hvernig lítur sá út sem afflytur staðreyndir, prédikar hálfsannleika? Þá vandast auðvitað málið því öll erum við þannig að við hlaupum stundum til og leggjum vanhugsað mat á hugmyndir, skoðanir og jafnvel fréttir.

Við treystum oft prentuðu máli eða því sem við heyrum frá snoppufríðum fréttalesara í sjónvarpsstöðvar af því að hann lítur svo „heiðarlega“ út, hvað svo sem það nú þýðir. Eða stjórnmálamann sem setur orðin sín fram á heillandi og sannfærandi hátt.

Þessa staðreynd þekkja allir og því er svo ósköp auðvelt að villa um fyrir öðrum. Þetta er nú til dæmis ágæt ástæða fyrir því að frelsi á að ríkja í fjölmiðlun. En í guðanna bænum, ekki treyst fjölmiðlum í blindi. Betra er að treysta á eigið hyggjuvit.

Staðreyndin er sú að allt er sennilegt en fátt er satt nema rök fylgi, öll rök. Þar af leiðandi er krafan sú að sá sem hlustar á eða les frétt trúi henni ekki eins og nýju neti.

Þetta er nú sunnudagsprédikunin að þessu sinni.

 

     


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband