Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016
Náttúruhamfarir yfirvofandi vegna prófkjörs VG í NV kjördæmi
31.8.2016 | 17:37
Vegna mistaka sem urðu við útgáfu og útsendingu kjörgagna, ákvað kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi, í samráði við formann flokksins, að senda út ný kjörgögn með skýrari leiðbeiningum og að fram fari nýtt forval hið allra fyrsta.
Svo segir á vefsíðu Vinstri grænna. Þessi flokkur hefur ásamt Samfylkingunni verið hvað ötulastur í samsæriskenningum og þá sérstaklega gagnvart ljótu kapítalistunum, nýfrjálshyggjunni, kvótakóngum og heildasalamafíunni.
Auðvitað tekur enginn mark á Vinstri grænum, í það minnsta afar fáum, enda er fylgið í 10%. Útilokað er að mistök hafi verið gerð, þau eru fyrirslátturinn og eru af stalínískum uppruna.
Staðreyndin er einfaldlega sú að flokksforustan sá sitt óvænna þegar Skagfirðingurinn Bjarni Jónsson bauð sig fram í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi.
Skagfirðingar, hvar í flokki sem þeir standa, eru þekktir fyrir umsvif sín og dugnað í stjórnmálum. Bjarni lætur sér ekki duga að lulla í framboð án undirbúnings. Hann, eins og aðrir úr þessum fallega firði, tekur til óspilltra málanna, safnar liði og nýtur liðsinnis föður síns, Jóns Bjarnasonar, sem var á síðasta kjörtímabili þingmaður og stórhættulegur þyrnir í síðu flokksforustunnar vegna afstöðu sinnar til ESB, Icesave og fleiri mála.
Vandinn er sá að fyrir á fleti er Vestfirðingurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir, hægfara félagsmálakelling sem hafist hefur til metorða fyrir að fylgja flokksforustunni án þess að mögla yfir meintum svikum vegna ESB og Icesave eins og Jón Bjarnason gerði. Miklu viðráðanlegri kostur.
Þetta þolir flokksforustan ekki. Hún ætlar sér síst af öllu af fá þennan Jóns bur inn í þingflokkinn og eiga það á hættu sem þessi sósíalistaflokkur þurfti að endurlifa enn á ný sem gerðis á tíma hálfdauðu vinstri ríkisstjórnar Samfylkingar og VG, annum terrebilis.
Þess vegna er hætt við prófkjörið.
Katrín Jakobsdóttir, formaður, og Steingrímur, fyrrverandi, ætla nú að safna liði annars staðar í kjördæminu og koma í veg fyrir þá vá að Bjarni sonur Jóns komist þá þing. Búið er að hringja öllum bjöllum og blása í alla finnanlega herlúðra, senda reykjarmerki og morsa á milli fólks.
Vandinn er hins vegar sá að á meðan þau tvö og fleiri ráða ráðum sínum hefur Bjarni enn rýmri tíma til undirbúnings og liðssafnaðar. Úbbs ...
Líklega verður niðurstaðan algjör hervæðing VG í Norðvesturkjördæmi, allir sem vettlingi geta valdið verða dregnir á kjörstað eða kjörstaður dreginn til þeirra. Mun þá engu skipta hvort kjósendur séu meðlimir í VG eða ekki, sprellifanndi eða hálfdauðir. Tilgangurinn helgar meðalið
Ég ætla sko ekki að fá annan Atla Gíslason í þingflokkinn hvað þá son Jóns ... er sagt að Steingrímur hafi frussað út úr sér í hleruðu símtali við Katrínu Jakobsdóttur. Þetta eru náttúrhamfarir Kata, Áttarðu þig á því ... ha?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tillögur um val frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins
31.8.2016 | 13:24
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna alþingiskosninganna í haust verður á laugardaginn. Ég hef gert upp huga minn og ætla að kjósa eftirfarandi frambjóðendur í þessari röð:
- Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
- Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður
- Brynjar Níelsson, þingmaður
- Birgir Ármannsson, þingmaður
- Sigríður Ásthildur Andersen, þingmaður
- Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins
- Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi
Kjósa skal sex til átta frambjóðendur, hvorki fleiri en átta né færri en sex, ella ógildist kjörseðillinn. Kosið skal með því að setja tölustaf frá einum og upp í átta fyrir framan nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem óskað er að þeir skipi endanlegan framboðslista.
Eðli máls vegna getur sami einstaklingur aðeins kosið í því kjördæmi þar sem hann er búsettur. Þar af leiðandi fæ ég ekki að kjósa annars staðar en í Reykjavík. Hins vegar þekki ég ágætlega til víða um land og hef myndað mér skoðanir á framboðum til allra prófkjara. Ég leyfi mér því hér að benda góðu Sjálfstæðisfólki á þá sem ég myndi kjósa í prófkjörunum.
Stór galli er þó á prófkjörum og hann er sá að fjöldi þeirra sem má kjósa er takmarkaður. Ég hefði viljað kjósa marga aðra enda góðir frambjóðendur í öllum kjördæmum. Ekki þekki ég alla sem ég set á minn lista en hef það til viðmiðunar að hafi frambjóðandi tekið þátt í stjórnmálaumræðu eða setið í bæjar- eða sveitarstjórn tel ég það honum til tekna. Finnst eiginlega ótækt að einhver vakni upp einn góðan veðurdag og vilji setjast á þing en ekkert finnst um skoðanir hans rétt eins og hann hafi aungvar.
Suðvesturkjördæmi
Prófkjörið í suðvesturkjördæmi verður 10. september. Væri ég búsettur þar myndi ég kjósa eftirfarandi frambjóðendur:
- Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
- Óli Björn Kárason, varaþingmaður
- Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi
- Jón Gunnarsson, alþingismaður
- Vilhjálmur Bjarnason, formaður hagsmunasamtaka heimilanna
- Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður
Kjósa skal 6 frambjóðendur, hvorki fleiri né færri, ella ógildist kjörseðillinn. Kosið skal með því að setja tölustaf frá einum og upp í sex fyrir framan nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem óskað er að þeir skipi endanlegan framboðslista.
Norðvesturkjördæmi
Prófkjörið er 3. september og þar sem ég var búsettur í kjördæminu í nokkur ár er mér ánægja að leggja til að þessir frambjóðendur verði valdir:
- Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður efnahags- og fjármálaráðherra
- Haraldur Benediktsson, þingmaður
- Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra
- Hafdís Gunnarsdóttir, kennari
Kjósa ber fjóra frambjóðendur, hvorki fleiri né færri.
Norðausturkjördæmi
Prófkjör fer ekki fram í norðausturkjördæmi heldur sér kjördæmisráð um niðurröðun á listann samkvæmt ákveðnum reglum. Fengi ég einhverju ráðið um niðurröðun á listann myndi ég velja þessa frambjóðendur:
- Kristján Þór Júlíusson, þingmaður og ráðherra
- Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður og varaforseti Alþingis
- Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi á Akureyri
- Arnbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi þingmaður
- Valdimar O. Hermannsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð
Suðurkjördæmi
Prófkjörið í suðurkjördæmi verður 10. september. Væri ég búsettur í kjördæminu myndi ég velja eftirtalda frambjóðendur:
- Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður og iðnaðar- og viðskiptaráðherra
- Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður
- Vilhjálmur Árnason, þingmaður
- Ásmundur Friðriksson, þingmaður
- Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðingur
Með þessum uppástungum mínum ætti að fylgja rökstuðningur. Hann er til en læt hann bíða til betri tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er ekki betra að fá skatt af bónusgreiðslum heldur en ekki neitt?
30.8.2016 | 15:37
Nú held ég að sé kominn tími fyrir þingmenn og aðra að róa sig aðeins. Ekki það að ég ætli hér að verja bónusgreiðslur á vegum kröfubúa gömlu bankanna, þær geta hvort tveggja verið góðar sem og slæmar, jafnvel siðlausar. Í því felst ekki stóra málið.
Hefði svona haldið að almennur ómöguleiki ætti nákvæmlega við ef þrotabú ætlaði að greiða starfsmönnum sínum bónus. Fyrir hvað eiginlega, fyrir rukkunarstörf? Látum það nú vera.
Svo kemur þetta merkilega en ... Spurningin er þá sú, hver á þrotabúið? Svarið er einfalt, kröfuhafarnir eiga það. Ekki íslenska ríkið og ekki íslenska þjóðin.
Ákveði kröfuhafarnir að umbuna starfsmönnum þrotabúsins fyrir eitt eða annað fá þeir einfaldlega sjálfir minna í sinni hlut. Tapið er þar af leiðandi algjörlega kröfuhafanna, ekki þjóðarinnar, ekki ríkisins ekki einhverra einstaklinga eða hópa.
Svo er það allt annað mál hvort einhverjum finnst í hita umræðunnar að ríki eða þjóðin eigi skilið að fá þessa peninga í sínar hendur í ljósi hrunsins og eftirkasta þess. Það mun hins vegar aldrei verða vegna þess að ef kröfuhafar gömlu bankanna greiða ekki umrædda bónusa fær hvorki ríkið né þjóðin neitt.
Greiði þrotabúið þessa bónusa fær ríkisvaldið sinn hluta sem staðgreiðslu. Það er nú svo sem ekkert slæmt að af einum milljarði króna fái ríkið 425 milljónir króna í skatta, sé talið rétt fram í staðgreiðslu og greidd lífeyrissjóðsiðgjöld. Við þessa fjárhæð kann tryggingagjald að bætast sem er 8.65%.
Þó ég sé einn af öreigum þessa lands sé ég engum ofsjónum yfir þessum launum og tel þar að auki ríkið fái sinn skerf sem án bónusanna hefði það ekki fengið.
Nú kann þingmönnum enn að vera heitt í hamsi og þeir vilji ráðast með skóflum og hrífum gegn þeim ófögnuði sem bónusar eru í fjármálafyrirtækjum og vísast munu þeir grípa til einhverra vanhugsaðra ráða. Í hita leiksins ...
Hversu skynsamlegt er það? Þá verða bónusar bara lagðir af og þrettándi eða fjórtándi mánuður ársins tekinn upp í launagreiðslum fyrirtækja rétt eins og gerðist hjá bönkunum í gamla daga (og er kannski enn).
Er ekki skárra að hafa þetta allt uppi á borðinu en að láta vígfima lögfræðinga, endurskoðendur og fjármálaspekúlanta fela þetta allt saman eins og gert var á árunum fyrir hrun? Ég bara spyr.
Vilja háa skatta á kaupauka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hin eina og sanna fartölva
30.8.2016 | 11:41
Síðasta föstudag þurfti ég að leita á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og dvaldi þar langdvölum meira eða minna alla helgina. Lét það ekki mikið á mig fá en fylgdist grannt með starfsháttum þarna innan dyra og þjónustu sem ég og aðrir fengum.
Skemmst er frá því að segja að hún var til mikillar fyrirmyndar. Frábært starfsfólk og öll vinnubrögð afar fagleg. Eina sem ég get sett út á eru stólarnir sem sjúklingar eru nauðbeygðir til að nota. Held ég þurfi endurhæfingu eftir langsetur á þeim.
Þrátt fyrir að krankleiki minn og annarra sé ekki neitt skemmtiefni gat ég ekki annað en glott (hló inni í mér af almennri tillitssemi) þegar ég sá starfsmann vaða um ganga og ýta á undan sér háborði með tölvu, og hamraði hann ótt og títt á hana.
Datt mér í hug að þarna væri komin hin eina og sanna fartölva.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dagur borgarstjóri gagnrýnir skólastjórnendur fyrir að fara í fjölmiðla
30.8.2016 | 10:05
En mér finnst ekki að við sem stjórnendur borgarinnar þurfum að vera að skiptast á einhverjum sendingum í gegnum ályktanir eða fjölmiðla til að fá það fram.
Þetta segir Dagur Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og samfylkingarmaður í viðtali við Ríkisútvarpið. Tilefni eru áhyggjur skólastjóra grunnskóla vegna niðurskurðar fjárframlaga til skólanna og þeir geti ekki lengur haldið uppi eðlilegri þjónustu.
Hefði einhver ráðherra ríkisstjórnarinnar gagnrýnt að hjúkrunarfræðingar væru að álykta um ónóg framlög til heilbrigðismála eða starfsmenn Vegagerðarinnar ályktað um of litlar fjárveitingar í vegagerð hefði einfaldlega allt orðið vitlaust í fjölmiðlum landsins. Ráðherrann hefði verið sakaður um ólýðræðislegar tilhneigingar, þöggun og eitthvað enn verra. Sérstakur þáttur hefði verið í Kastljósi Ríkisútvarpsins um málið og til kvaddir helstu andstæðingar ráðherrans sem álitsgjafar.
En þegar Dagur borgarstjóri gagnrýnir ályktanir skólastjórnenda og að þeir skuli dirfast að ræða málin í fjölmiðlum ríkir þögn um málið. Það er hins vegar fjarri öllum sannleika að Dagur borgarstjóri hafi fyrst frétt að vandanum í fjölmiðlum.
Á sama hátt er mikil fjölmiðlaumræða um heilbrigðismál og ráðherra óspart gagnrýndur fyrir að veita ekki nægu fé til málaflokksins, hvað þá Landspítalans. Gagnrýninni linnir ekki þó það sé staðreynd að aldrei hafi verið varið jafnmiklu fé í hvort tveggja.
Dagur borgarstjóri kemst upp með að segja að 10% meira fé sé veitt til grunnskóla og leikskóla á þessu ári og hinir gagnrýnu fjölmiðlar eru bara sáttir við greinagóð svör.
Engu skiptir þó leiksskólastjórar segi að þeir muni ekki geta keypt nægan mat fyrir börnin út þetta ár vegna kröfu um niðurskurð í rekstri.
Engu skiptir þó skólastjórar í grunnskólum kvarti yfir flótta kennara frá Reykjavík til næstu bæjarfélaga vegna betri kjara og betri aðstæðna. Þar fá grunnskólabörn betri þjónustu en í Reykjavík.
Það er þó huggun harmi gegn að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur eitt sameiginlegt hjarta og það slær í takt með skólunum og skólamálum.
Líkur benda til að hjartað sé ekki vandamálið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skrýtnar óróamælingar úr Bárðarbungu
26.8.2016 | 13:55
Jarðskjálftar á Íslandi koma í hrinum. Það sést greinilega á yfirliti Veðurstofu Íslands. Í nokkra daga hefur verið frekar lygnt, fáir skjálftar sem vekja athygli leikmanns. Nú er aðeins farið að færast líf í jarðskorpuna.
Athyglin hefur einkum beinst að þremur svæðum; Mýrdalsjökli, Bárðarbungu og Tjörnesbrotabeltinu.
Síðastnefnda svæðið virðist vera í hefðbundnum vana, skjálftamiðjan norðaustan við Grímsey á misgenginu sem kennt er við eyjuna. Minni hreyfing virðist vera á Húsavíkurmisgenginu.
Allir búast við tíðindum úr Kötlu. Þar hafa verið grunsamlegir skjálftar, stórir og margir litlir sem gætu bent til kvikurhreyfinga.
Merkilegast finnst mér þó hvernig Bárðarbunga hagar sér um þessar munir. Enn eru skjálftar af og til í norðausturhorni öskunnar, stundum stórir en oftar litlir. Þetta þyrfti þó ekki að vera merkilegt nema vegna óróamælinganna í tækjunum í Vonarskarði og við Dyngjujökul.
Eins og sést á meðfylgjandi óróamælingu frá Dyngjuhálsi er engu líkar en að högg komi með tæplega sólahrings millibili, oftast alveg eins. Má vera að hægt sé að kenna bilun um en samt koma sömu bylgjur fram á tækinu í Vonarskarði eins og sjá má á neðri myndinni.
Óróinn eru bylgjulengdir sem mælar nema í tíðni, Hz (rið). Blái liturinn sýnir mjög lága tíðni. Hún getur myndast vegna rennslis kviku í átt að yfirborði jarðar. Á þessu þarf að hafa gætur en ofangreint skýrir þó ekkert hvers vegna tíðnin er svona reglubundin.
Nú er ég ekkert annað en leikmaður en skemmti mér við að ímynda mér að þarna sé eitthvað á ferðinni sem þarfnast athygli jarðeðlisfræðinga. Að minnsta kosti er þetta grunsamlega reglulegt.
Leiftrandi beittur og ósvífin áróður gegn staðreyndum
24.8.2016 | 10:17
Ég get ekki að því gert, en stundum dáist ég að vinstrimönnum. Ekki fyrir hugsjónir þeirra heldur málflutning, sem er oft leiftrandi, beittur og ósvífinn. Í baráttu fyrir málstaðnum þvælast aukaatriði ekki alltaf fyrir, staðreyndir eru lagðar til hliðar og fyrri orð og gjörðir löngu gleymd.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í hárbeittri ádeilugrein í Morgunblaði dagsins.
Í greininni telur hann upp hvernig margir vinstri menn fara á svig við sannleikann í gagnrýni sinni á Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnina.
Hann segir um þessi mál:
Flugvallarmálið:
Skipulega er unnið að því að loka Reykjavíkurflugvelli, þvert á vilja meirihluta landsmanna og höfuðborgarbúa.
Icseave:
Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafnaði því að greiða skuldir einkaaðila, dugðu ekki til. Þess í stað var gert lítið úr fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu frá stofnun lýðveldisins - hún sögð dapurleg markleysa.
ESB-aðildin:
Það dettur engum í hug að við göngum í Evrópusambandið nema þjóðin sjálf taki ákvarðanir í því máli jafnvel bæði hvort við eigum að fara í slíkar viðræður og þá að niðurstaðan verði lögð í dóm þjóðarinnar, sagði þáverandi formaður Vinstri grænna á þingi 2003.
Í júlí 2009 tók Steingrímur J. Sigfússon þátt í því að koma í veg fyrir að þjóðin sjálf tæki ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þá var hann fjármálaráðherra ríkisstjórnar norrænnar velferðar.
Seinni einkavæðing bankanna:
Í stefnuyfirlýsingu eftir kosningar 2009 gaf ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fyrirheit um að beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Það þurfti því ekki aðeins pólitískan kjark, heldur töluverða forherðingu, til að ganga til samninga við kröfuhafa og afhenda þeim tvo banka. Þá var vélað í bakherbergjum í lokaðri stjórnsýslu án nokkurs gagnsæis.
Heilbrigðismálin:
Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur verið sökuð um að hola velferðarkerfið að innan og á sama tíma lækka skatta á efnafólk m.a. með afnámi auðlegðarskatts. Hvorki staðreyndir né saga flækjast fyrir og ekki í fyrsta skipti. Útgjöld til heilbrigðismála og almannatrygginga hafa verið stóraukin frá tíma vinstristjórnarinnar. Um það verður ekki deilt. Þingmenn geta tekist á um hvort auka hefði átt útgjöldin enn meira og jafnvel hvort fjármunum sé öllum skynsamlega varið.
Auðlegðarskatturinn:
Norræna velferðarstjórnin lagði skattinn á og hét því að hann væri tímabundinn. Samkvæmt lögum skyldi skatturinn falla niður í lok árs 2013. Oddný Harðardóttir var afdráttarlaus í áðurnefndu viðtali við Viðskiptablaðið:
Það eru ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.
Hvorki meira né minna: Fjármálaráðherra vinstristjórnarinnar lagði áherslu á að auðlegðarskatturinn yrði ekki endurnýjaður. Svo er ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sökuð um að afnema skattinn og hygla þar með eignafólki. Þó var ekkert annað gert en láta ákvörðun meirihluta norrænu velferðarstjórnarinnar ná fram að ganga og ákvæði laga féll úr gildi.
Við þetta má bæta að alltof oft eru litlar efndir á loforðum stjórnmálaflokka þegar þeir komast í stjórn. Oft er þá farið í hrossakaup um hin ólíklegustu mál eins og dæmin sanna.
Verra er þó þegar hrein handvömm, þekkingarleysi og getuleysi leiða til ótrúlegra niðurstaðna eins og raunin var með ESB-aðildina og Icesave-málið, svo dæmi séu nefnd.
Eða þegar kröfuhafar fengu tvo banka gefins. Um leið fengu þeir 30% afslátt af húsnæðislánakröfunum til að gera gjöfina huggulegri. Skuldarar nutu þó einskis af þessum afslætti, hann hirtu kröfuhafar og slitastjórnir.
Annar þessara banka, Íslandsbanki, er nú kominn aftur í eigu ríkisins, kröfuhafar nenntu ekki að standa í þessu og hrökkluðust burtu þegar þeir núverandi ríkisstjórn bauð þeim útgönguleið. Enginn afsláttur af húsnæðislánakröfum fylgdi þó í þetta sinn.
Fellur hlaup úr Grímsvötnum í Bláfjallakvísl við Emstrur?
23.8.2016 | 14:51
Þunnur er nú þrettándinn þegar leitað er frétta um jökulhlaup á mbl.is. Hugsanlega er ekkert frekar um hlaupvatn í tveimur jökulum að segja. Skemmtilegra er þó að lesa fréttavef Ríkisútvarpsins, hann fjallar á lyginlegan hátt um sama efni. Í honum segir:
Lítið jökulhlaup er hafið úr Grímsvötnum. Íshellan hefur fallið um fimm metra síðan fyrir helgi og því ekki búist við að hlaupið verði stórt. Hlaupvatn rennur aðallega í Gígjuhvísl en einnig í Bláfjallahvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er mikið jökulvatn í Bláfjallahvísl. Vöð yfir ána geti verið varasöm og því ástæða fyrir ferðafólk til að fara varlega. Brennisteinslykt gæti fundist á svæðinu en ekki er talið að hætta stafi af hlaupinu.
Sem sagt, hlaupið úr Grímsvötnum rennur í Bláfjallakvísl sem á uppruna sinn í Mýrdalsjökli um 120 km í burtu. Annað hvort er ofangreind tilvitnun í vef Ríkisútvarpsins illa skrifuð eða landfræðiþekking fréttamannsins er ekki betri- nema hvort tveggja sé.
Illa skrifandi blaða- og fréttamenn eru að verða plága í íslenskum fjölmiðlum og koma slæmu orði á þá sem í raun og veru kunna til verka. Eina bestu sönnunina er að finna á vef Eiðs Guðnasonar, fyrrum alþingismanns og ráðherra. Þar gagnrýnir hann málfar í fjölmiðlum og því miður skortir aldrei umfjöllunarefni.
Eins og sjá má á kortinu er Bláfjallakvísl í órafjarlægð frá Grímsvötnum og víst að hlaupvatn mun ábyggilega villast um allar koppagrundir áður en það kemst í Bláfjallakvísl sem er norðan við Emstrur.
Á vef Veðurstofu Íslands er þetta:
Mikið jökulvatn er í Bláfjallakvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Ferðafólk er hvatt til að gæta varúðar og sýna aðgát þar sem vöð yfir ánna gætu verið varahugaverð.
Jökulhlaup er hafið úr Grímsvötnum og rennur það í Gígjukvísl. Í Grimsvötnum var ekki mikið vatn svo allar líkur eru á að hlaupið verði lítið. Brennisteinslykt gæti fundist á svæðinu en ekki er talið að hætta stafi af hlaupinu.
Sé þessi texti borinn saman við þann sem birtist á vef Ríkisúrvarpsins sést að hann er að stofni til hinn sami. Fréttamaðurinn hefur þó af lítil þekkingu reynt að prjóna einhverja vitleysu við hann og breyta uppröðuninni.
Sama er gert í fréttinni á mbl.is. Engum dettur í hug að birta kort eða segja eitthvað nánar um jökulfljótin tvö. Raunar er það svo að Bláfjallakvísl er yfirleitt blátær. Nokkur hundruð metrum norðan er annað jökulfljót, Kaldaklofskvísl sem kemur úr allt öðrum jökli, Torfajökli. Engar sögur er þó um að hlaupvatn úr Grímsvötnum falli í Kaldaklofskvísl.
Svo má vekja athygli á því að jökulvötn eru farin að renna úr jöklum, hætta að falla samkvæmt langri málvenju. Um leið hefur fólk hætt að ganga erinda sinna og labbar þess í stað út um allt.
Kl. 15:25 ... Tek núna eftir því að fréttinni á vef Ríkisútvarpsins hefur verið breyt. Nú fylgir kort með henni og þar er Bláfjallakvísl merkt en æ, æ ... austan við Mýrdalsjökul þar sem raunar heitir Bláfellsá við Öldufellsjökul.
Greinilegt að enginn fullorðinn er á vakt, eins og Eiður Guðnason myndi orðað það.
Jökulhlaup hafið úr Grímsvötnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hégómaskapur eða eldmóður
22.8.2016 | 08:39
Væntanlega taka menn sæti á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins til að hafa áhrif, berjast fyrir stefnumálum sínum og flokksins. Samt er ákaflega skrýtið hversu fáir sem sæti tóku á listunum fyrir síðustu alþingiskosningar hafa tekið þátt í stjórnmálabaráttunni, aðeins þingmennirnir og örfáir aðrir.
Af fólki á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur má fyrir utan þingmennina og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra aðeins nefna þau Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Teit Björn Einarsson, Jón Ragnar Ríkarðsson, Borgar Þór Einarsson og Erlu Ósk Ágeirsdóttur. Vart hefur heyrst eða sést í aðra. Hvers konar frambjóðandi er það sem tekur ekki þátt?
Má vera að sá sem tekur sæti á framboðslista geri það af áhuga og vilja til að láta gott af sér leiða, hafi til að bera hugsjónir og eldmóð. Það er engu að síður krafa til hvers og eins að leggja flokknum lið þegar á hann er ráðist og standa í orrahríðinni þegar hann sækir fram.
Því miður virðast alltof margir veigra sér við því að taka þátt. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé stór flokkur og öflugur taka fáir sér stílvopn í hönd eða tala fyrir hann á opinberum vettvangi.
Þó má alls ekki vanmeta starf hins almenna flokksmanns sem hefur áhrif með því að ræða við aðra augliti til auglitis. Þessir »fótgönguliðar« þurfa hvatningu. Ef frambjóðendur flokksins stíga ekki fram í fjölmiðlum mun árangurinn verða frekar slakur.
Nú líður að lokum framboðsfrests fyrir prófkjör víða um land. Ágætt er að frambjóðendur hafa ofangreint í huga sem og þeir sem fá boð um að taka sæti á framboðslistum. Gera á kröfu til að þetta fólk taki beinan þátt í stjórnmálum en sé ekki í leiknum af hégómaskapnum einum saman.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2016.
Haugur Vífils leysingja fundinn
21.8.2016 | 19:00
Sagt er að Vífill leysingi Ingólfs Arnarsonar hafi verið léttur á fæti. Í Landnámu segir:
En þegar hann vildi róa gekk hann heiman frá sér og upp á Vífilsfell til að gá til veðurs.
Auðvitað leggur nútímamaðurinn trúnað á þetta þó ljóst megi vera að sá sem gengur eða ríður frá heimili sínu eða veri á hinu forna Seltjarnarnesi gerir nú fátt annað þann daginn er að fara upp á Vífilsfell og til baka aftur. Þegar heim er komið er viðbúið að veður hafi breyst og tilgangslaust að fara á sjó.
Munnmælasaga segir að lengi hafi Vífill þráast við, enda írskur að ætt og uppruna. Loks gengu þessar ferðir svo nærri honum að hann hrökk uppaf á leið af fjallinu sem kennt er við hann. Því miður var þoka og villtist leysinginn suður eftir fjallinu. Hann var heygður þar sem hann fannst.
Endar nú munnmælasagan en ég fann Vífilshaug og hér er mynd af honum. Hann er á að giska tvo km frá toppi Vífilsfells. Greinilegt er að haugurinn er haganlega hlaðinn. Næst liggur fyrir að grafa í hann og kynnast Vífli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)