Er ekki betra að fá skatt af bónusgreiðslum heldur en ekki neitt?

Nú held ég að sé kominn tími fyrir þingmenn og aðra að róa sig aðeins. Ekki það að ég ætli hér að verja bónusgreiðslur á vegum kröfubúa gömlu bankanna, þær geta hvort tveggja verið góðar sem og slæmar, jafnvel siðlausar. Í því felst ekki stóra málið.

Hefði svona haldið að almennur „ómöguleiki“ ætti nákvæmlega við ef þrotabú ætlaði að greiða starfsmönnum sínum bónus. Fyrir hvað eiginlega, fyrir rukkunarstörf? Látum það nú vera.

Svo kemur þetta merkilega „en“ ... Spurningin er þá sú, hver á þrotabúið? Svarið er einfalt, kröfuhafarnir eiga það. Ekki íslenska ríkið og ekki íslenska þjóðin.

Ákveði kröfuhafarnir að umbuna starfsmönnum þrotabúsins fyrir eitt eða annað fá þeir einfaldlega sjálfir minna í sinni hlut. Tapið er þar af leiðandi algjörlega kröfuhafanna, ekki þjóðarinnar, ekki ríkisins ekki einhverra einstaklinga eða hópa.

Svo er það allt annað mál hvort einhverjum finnst í hita umræðunnar að ríki eða þjóðin eigi „skilið“ að fá þessa peninga í sínar hendur í ljósi hrunsins og eftirkasta þess. Það mun hins vegar aldrei verða vegna þess að ef kröfuhafar gömlu bankanna greiða ekki umrædda bónusa fær hvorki ríkið né þjóðin neitt.

Greiði þrotabúið þessa bónusa fær ríkisvaldið sinn hluta sem staðgreiðslu. Það er nú svo sem ekkert slæmt að af einum milljarði króna fái ríkið 425 milljónir króna í skatta, sé talið rétt fram í staðgreiðslu og greidd lífeyrissjóðsiðgjöld. Við þessa fjárhæð kann tryggingagjald að bætast sem er 8.65%.

Þó ég sé einn af öreigum þessa lands sé ég engum ofsjónum yfir þessum launum og tel þar að auki ríkið fái sinn skerf sem án bónusanna hefði það ekki fengið.

Nú kann þingmönnum enn að vera heitt í hamsi og þeir vilji ráðast með skóflum og hrífum gegn þeim ófögnuði sem bónusar eru í fjármálafyrirtækjum og vísast munu þeir grípa til einhverra vanhugsaðra ráða. Í hita leiksins ...

Hversu skynsamlegt er það? Þá verða bónusar bara lagðir af og þrettándi eða fjórtándi mánuður ársins tekinn upp í launagreiðslum fyrirtækja rétt eins og gerðist hjá bönkunum í gamla daga (og er kannski enn).

Er ekki skárra að hafa þetta allt uppi á borðinu en að láta vígfima lögfræðinga, endurskoðendur og fjármálaspekúlanta fela þetta allt saman eins og gert var á árunum fyrir hrun? Ég bara spyr.


mbl.is Vilja háa skatta á kaupauka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður, þetta er ekki alveg svona einfalt.  Þetta er að gerast í þrotabúunum - ekki þeim hluta sem var hent í fangið á ríkissjóði.
Hvað t.d. með alla almennu hluthafana; hafa þeir fengið sitt endurgreitt?

Kolbrún Hilmars, 30.8.2016 kl. 16:25

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nú er ég ekki alveg viss um hvað þú eigir við, Kolbrún. Almennir hluthafar misstu forræðið yfir bönkunum er þeir fóru í gjaldþrot. Þeir sem höfðu lánað bönkunum fé, útlendir bankar og fjármálastofanir, gerðu þá kröfu í bankanna fyrir útistandandi lánuð. 

Almennir hluthafar í hlutafélögum, einkahlutafélögum eða einkafyrirtækjum fá aldrei hlut sinn bættann við gjaldþrot.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.8.2016 kl. 17:24

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Rétt, kröfuhafar geta krafist gjaldþrotameðferðar. Í kjölfarið er skipaður skiptaráðandi sem sér um uppgjör búsins, forgangskröfur eru greiddar, sem eru hið opinbera, launatengdir aðilar og lánastofnanir.  Flestir aðrir minni kröfuhafar og hlutafjáreigendur tapa yfirleitt sínu.  Þetta er venjan.
Það sem er athugavert hér - og jafnvel sögulegt afrek, er að fyrirtæki (ekki aðeins eitt heldur tvö) hefur verið sett í gjaldþrotameðferð að ástæðulausu ef það hefur svo milljarða til ráðstöfunar við lokauppgjör.   

Kolbrún Hilmars, 30.8.2016 kl. 17:42

4 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Sigurður come on, þú ert ekkert fífl. þetta eru ekki áorðnir peningar, engin sköpun, ekkert.  Vertu ekki að réttlæa ósóman.

Jónas Ómar Snorrason, 30.8.2016 kl. 20:33

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jónas, lestu pistilinn. Hann er síður en svo réttlæting fyrir bónusgreiðslum heldur góður vinkill á það sem fæstir gera sér grein fyrir.

Þér finnst nú innst inni að ég sé bölvað fífl, er þa´ki Jónas?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.8.2016 kl. 20:59

6 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Alls ekki Sigurður, er sannfærður um að þú sért mætur og vitur maður, þess vegna kem ég í heimsókn til þín:)Erum kannski alltaf sammála, en það er að mínu viti eðlilegt.

Jónas Ómar Snorrason, 31.8.2016 kl. 08:08

7 identicon

Það er víst ekki það sama að geta lesið orðin og að skilja þau.

ls (IP-tala skráð) 31.8.2016 kl. 10:02

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er þá ekki bara málið að selja þessar blessuðu eignir kröfuhafa gömlu bankanna á mjög lágu verði?  Þá verða bónusarnir lægri.  Allir sáttir.  Gæti þetta ekki orðið einhver lausn á ófriðinum á ríkisstjórnarheimilinu?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.8.2016 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband