Skrýtnar óróamælingar úr Bárðarbungu

Dyn Órói 160826Jarðskjálftar á Íslandi koma í hrinum. Það sést greinilega á yfirliti Veðurstofu Íslands. Í nokkra daga hefur verið frekar lygnt, fáir skjálftar sem vekja athygli leikmanns. Nú er aðeins farið að færast líf í jarðskorpuna.

Athyglin hefur einkum beinst að þremur svæðum; Mýrdalsjökli, Bárðarbungu og Tjörnesbrotabeltinu.

Síðastnefnda svæðið virðist vera í hefðbundnum vana, skjálftamiðjan norðaustan við Grímsey á misgenginu sem kennt er við eyjuna. Minni hreyfing virðist vera á Húsavíkurmisgenginu.

Allir búast við tíðindum úr Kötlu. Þar hafa verið grunsamlegir skjálftar, stórir og margir litlir sem gætu bent til kvikurhreyfinga.

órói 160826Merkilegast finnst mér þó hvernig Bárðarbunga hagar sér um þessar munir. Enn eru skjálftar af og til í norðausturhorni öskunnar, stundum stórir en oftar litlir. Þetta þyrfti þó ekki að vera merkilegt nema vegna óróamælinganna í tækjunum í Vonarskarði og við Dyngjujökul.

Eins og sést á meðfylgjandi óróamælingu frá Dyngjuhálsi er engu líkar en að högg komi með tæplega sólahrings millibili, oftast alveg eins. Má vera að hægt sé að kenna bilun um en samt koma sömu bylgjur fram á tækinu í Vonarskarði eins og sjá má á neðri myndinni.

Óróinn eru bylgjulengdir sem mælar nema í tíðni, Hz (rið). Blái liturinn sýnir mjög lága tíðni. Hún getur myndast vegna rennslis kviku í átt að yfirborði jarðar. Á þessu þarf að hafa gætur en ofangreint skýrir þó ekkert hvers vegna tíðnin er svona reglubundin.

Nú er ég ekkert annað en leikmaður en skemmti mér við að ímynda mér að þarna sé eitthvað á ferðinni sem þarfnast athygli jarðeðlisfræðinga. Að minnsta kosti er þetta grunsamlega reglulegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband