Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

Vita þingmenn Bjartrar framtíðar ekki betur eða skrökva þeir?

Ef lögð yrði fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að Ísland segði sig úr Bandaríkjum Norður Ameríku myndu flestir hlægja að flutningsmanni hennar. Einnig ef lögð yrði fram ályktun um að Ísland sækti um aðild að samtökum Afríkuríkja.

Nú hafa þingmenn Bjartrar framtíðar lagt fram eftirfarandi ályktun á Alþingi:

Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 29. október 2016 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar? Já nei“.

Enginn hlær en fjöldi fólks er gapandi hissa enda er ályktunin jafnvitlaus og dæmin sem nefnd voru í upphafi. Ástæðan er einföld. ESB býður ekki upp aðildarviðræður og samning.

Aðildarumsókn er umsókn um aðild 

ESB heimilar ríki að sækja um aðild ætli það sér að ganga í sambandið. Aungvir samningar eru gerðir um annað en aðild. Þess vegna er aðdragandinn að inngöngu ríkis nefnd aðlögunarviðræður. Á ensku eru þær nefndar „Accession negotiations“.

Hvers vegna er þá alltaf verið að tönglast á samningi við ESB?

Tvö svör geta verið við þesari spurningu. Annað hvort vita þeir ekki betur sem tala um samning eða þá að þeir sem um hann ræða eru vísvitandi að fara með rangt mál.

Þeir vildu ekki þjóðaratkvæði 2009

Þingmenn Bjartrar framtíðar, Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson, samþykktu þingsályktunartillögu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms í júlí 2009. Þeir höfnuðu tillögum Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Ekki minntust þessir tveir menn einu orði á að farið yrði í aðlögunarviðræður sem hefðu einungis leitt til einnar niðurstöðu, aðildar Íslands að ESB - samningslausrar.

Vita þessir menn ekki betur?

Miðað við forsögu málsins er heiðskírt að Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall og aðrir þingmenn Bjartrar framtíðar eru að skrökva að þjóðinni. Auðvitað vita þeir að það er ekki hægt að gera aðildarsamning við ESB. Annað hvort gengur Ísland inn í ESB eða ekki. Þeir sleppa því að minnast á aðlögunarviðræðurnar og að umsókn fjallar ekki um samning heldur aðild.

Aðlögunarviðræður eru ekki samningaviðræður

Með aðildarlögunarviðræðunum milli Íslands og ESB var verið að samræma lög og reglur Íslands við stjórnarskrá og reglur ESB. Þessu var reynt að halda leyndu þangað til ríkisstjórnin féll í kosningunum 2013. Þá voru aðlögunarviðræðurnar langt komnar án þess þó að þjóðin hefði samþykkt aðild.

Tillaga þingmanna Bjartrar framtíðar er því sýndarleikur, tilraun til að kasta ryki í augu kjósenda í þeirri von að flokkurinn þurrkist ekki út í kosningunum í október.

Lenging birtutíma á Íslandi

Eftir stendur að hið eina sem þjóðin mun minnast Bjartrar framtíðar fyrir eru tillögur um að lengja birtutíma á Íslandi með því að færa klukkuna fram og aftur og sækja um aðild að ESB og gera samning um aðildina. Hvort tveggja er ómögulegt.

 


mbl.is Vilja þjóðaratkvæði um aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óundirbúin formaður í óundirbúnum fyrirspurnartíma

Líklega eru Samfylkingarmenn farnir að sakna fyrri formanns og var hann þó ekki í háum metum meðal þeirra. Raunar er það svo að kratar hafa aldrei kunnað að meta formenn sína, brúkað þá sem einnota og hent þeim eins og skítugri flík. Engum hefur dottið í hug að þvo flíkina ... eða skóla formennina dálítið til, svo samlíkingunni sé sleppt.

Á fréttavefnum visir.is er sagt frá dálítið skondinni uppákomu á Alþingi. Nú verandi formaður Samfylkingarinnar ... Afsakið ég er að fletta upp á því hvað formaður dagsins heitir. Jú, Oddný Harðardóttir og hún ætlaði aldeilis að taka Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, í karphúsið í óundirbúnum fyrirspurnartíma í morgun.

Hún segir:

Slæm staða til dæmis á Landspítalanum er með þeim hætti að ástæða er til að hafa áhyggjur af öryggi sjúklinga ef ekki verður bætt úr á næstu árum.

Kristján svaraði því til að ætlunin sé að auka útgjöld til sjúkrahúsþjónustu úr 75 milljörðum króna og í 90 milljarða á árunum 2016 til 2021.

Oddný kom aftur í ræðustól enda hafði Kristján ónýtt fyrir henni fyrirspurnina með því að segja frá stórauknu framlagi til heilbrigðismála. Nýja spurningin hljóðaði upp á að Landspítalinn þyrfti 5,3 milljarða króna til að reksturinn myndi ekki dragast saman.

Kristján lét Oddnýju fá það ágæta svar að 5,3 milljarða króna vötun inn í Landspítalann sem veltir 190 milljörðum króna skipti varla sköpum.

Ég fullyrði það að samkvæmt áætlunum stjórnvalda [...] er ekki gert ráð fyrir því að þjónusta Landspítalans eða Sjúkrahússins á Akureyri muni dragast saman. Það er rangt af háttvirtum þingmanni að gefa það til kynna og það er ekki sanngjarnt að ræða málefni heilbrigðiskerfisins með þeim hætti.

Sem sagt, formaðurinn túlkar það svo að um 2,8% halli á rekstri sé svo alvarlegt mál að heilbrigðiskerfið sé við það að fara á hliðina eða öryggi sjúklinga verði í hættu.

Málalyktir urðu því þær svo að Oddný Harðardóttir reyndist óundirbúin í óundirbúna fyrirspurnatímanum. Kratar eru víst farnir að pæla í því hver gæti orðið næsti formaður.

 


Einbeittur vilji Katrínar Jakobsdóttur til útúrsnúnings

Þeir sem lesa færslu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á Facebook átta sig ábyggilega á því hvað hann á við þegar hann ræðir um stefnunleysi fjölmiðla. Orðin eru einföld og skýr. Hins vegar þarf einbeittan vilja til útúrsnúnings að leggja út af þeim eins og formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir gerir á mbl.is.

Fjölmiðlar mega alveg taka orð Bjarna til sín og þá er það einfaldlega undir þeim komið hvort brugðist er við þeim og þá hvernig. Hitt vekur athygli hvernig Katrín Jakobsdóttir tekur á ummælunum. Hún vill vita hvernig Bjarni, efnahags- og fjármálaráðherra, ætli að „bregðast við“ rétt eins og það sé verkefni hins opinbera að hafa skoðun á fjölmiðlum eða hvernig þeir sinna hlutverki sínu.

Væri Katrín Jakobsdóttir ráðherra, sem hún er ekki (sem betur fer), myndi hún stofna nefnd um málið. Nefndin myndi síðan leggja til að búið væri til fjölmiðlanefnd (úbbs hún er til, hver skyldi hafa stofnað hana).

Fjölmiðlanefnd myndi leggja til opinbera stofnun sem nefnist Fjölmiðlunarstofa. Um síðir, nokkrum mánuðum síðar, væri stofnað fjölmiðlunarráðuneyti. Fyrsti ráðuneytisstjórinn yrði ábyggilega vildarvinur ráðherrans. Þannig er hin nýja vinavæðin Vinstri grænna. Í kjölfarið verða skattar hækkaðir til að hægt sé að reka sístækkandi bánknið.

Þeir sem áhuga hafa á orðum Bjarna er bent á þessa færslu hans á Facebook.


mbl.is „Þung orð“ Bjarna um fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkasteinar íslenskunnar

FlösinVið lestur Morgunblaðs dagsins vakti athygli mína grein um tvo menn sem hafa leigt Garðskagavita og komið þar upp kaffihúsi og sýningaraðstöðu. Það nefnist Flösin, fallegt nafn.

Veitingamenn í Reykjavík hefðu kallað kaffishúsið ensku nafni svo útlendingar misskildu nú ekki neitt um íslenska menningu. Raunar er það svo að minnimáttarkennd íslenskra ferðaþjónustuaðila er orðin svo mikil að íslenska er ekki lengur gjaldgeng. Helst verður að enskugera íslenska menningu sem raunar er alvarlegur misskilningur sem er þegar farinn að hafa áhrif.

Misskilningurinn er í því fólginn að menning skiljist ekki nema hún heiti ensku nafni. Grikkir, Ítalir, Spánverjar þurfa ekki enskuna. Stoltir hafa þeir nöfn veitingahúsa, hótela og ferðaskrifstofa á þjóðtungum sínum eða mállýskum. Skiptir ferðaþjónustan afar miklu í þar eins og hér. Þjóðverjar, Frakkar og Norðurlandaþjóðirnar gera slíkt hið sama.

Eina undantekning í Evrópu er Stóra-Bretland enda er þar töluð enska. Hins vegar gerir enginn ferðamaður sem hingað kemur ráð fyrir öðru en hann fái að kynnast íslenskri menningu og hefðum en ekki enskri.

Með þetta í huga þykir manni vænt um að stofnað hefur verið veitingahús sem nefnist Flösin. Það stingur hins vegar þægilega í stúf við ensku heitin í ferðaþjónustunni. Gangið niður hinn reykvíska Laugaveg, lítið á merkingar ferðaþjónustubíla Mountain Taxi, Super Jeep, Reykjavik Excursion ...

Eitt fáránlegasta enskt nafnið sem ég hef rekist á er Glacier Goddies, veitingavagn í Skaftafelli. Á Laugarvatni er baðhús sem nefnist Fonatana. Þar skammt frá er Vígðalaug og þar við Líkasteinar. Þar voru lík Jóns Arasonar og sona hans þvegin eftir að þeir voru hálshöggnir árið 1550. Eflaust er búið að breyta nöfnunum upp á ensku svo þau skiljist. 

Með því að nafngift á ensku er orðin viðurkennd og látin óátalin stefnir í að íslenskan verði sett á Líkasteina og búin þar til greftrunar.

Meðfylgjandi mynd er tekin traustataki, hana á Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir.

 


Afstaða Katrínar Jakobsdóttur skilur margar spurningar eftir ...

Þessi aðferð við að kynna hluti með þessum hætti skilur margar spurningar eftir.

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna í viðtali í Morgunblaði dagsins. Viðtalið var án efa tekið eftir kynningu ríkisstjórnarinnar á tillögum á kaupum ungs fólks á fyrstu íbúð. Katrín virðist ekki vera búin að lesa þær en er eldsnögg að hallmæla þeim fyrirfram.

... skilur margar spurningar eftir.“ segir hún og umsvifalaust kippir henni í kynið enda notar hún sömu aðferð og Gróa á Leiti sem orðaði það svipað; „ólygin sagði mér“. Báðar láta að því liggja að eitthvað alvarlegt sé að en eins og aðrir sem dreifa ósannindum eru þau ekki nefnd á nafn. „... skilur margar spurningar eftir.“ Það dugar meðan verið er að fóðra „skítadreifarann“ (afsakið talsmátann).

Í fréttinni er haft eftir Katrínu í óbeinni ræðu:

Áhyggjur væru af því að leiðirnar myndu nýtast tekjuhærri hópum best, þar sem þeir ættu auðveldara með sparnað.

Ekkert fullyrt en látið að því liggja að eitthvað stórkostlega alvarlegt sé að.

Þetta kemur frá stjórnmálamanni sem hefur krafist opinnar stjórnmálaumræðu, heiðarleika og lýðræðis. En munum að krafan á við alla aðra, ekki hana sjálfa. Verkefni hennar er þannig skilgreint að að hún eigi að ata aðra auri svo af henni sjálfri skíni eins og af nýsleginni evru. Þannig verkaðferð skila sjaldnast neinum árangri.

Rifja má eftirfarandi upp frá ráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur:

  1. Var hún ekki ráðherra í ríkisstjórninni sem samþykkti aðlögunarviðræður við ESB án samþykkis þjóðarinnar?
  2. Sveik hún og aðrir ráðherrar þar ekki samþyktir Vinstri grænna?
  3. Gerði ríkisstjórn hennar eitthvað vegna verðtryggingarinnar?
  4. Aðstoðaði þessi ríkisstjórn hennar fólk vegna hrunsins?
  5. Setti ríkisstjórn hennar ekki lög sem björguðu bönkunum frá bótakröfum almennings þegar gengistrygging lána var dæm ólögmæt?

Fleira mætti til taka. Niðurstaðan er þó sú að afstaða Katrínar Jakobsdóttur til tillagna núverandi ríkisstjórnar skilur margar spurningar eftir ...

Sú mikilvægasta er þessi:

Er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, marktæk?


Er Páll Magnússon sammála Sjálfstæðisflokknum að leggja niður RÚV?

Páll Magnússon, fjölmiðlamaður, var ekki í framboðsbuxunum þegar hann í lok árs 2012 hafði þessi orð um fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins sem tjáði skoðun sína á Ríkisútvarpinu:

Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba – eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.

Fyrrum útvarpsstjóri kann lítið að stilla sig þegar rætt er um Ríkisútvarpið sem hann stjórnaði í mörg ár. Hann kann sér ekki hóf í umræðunni, kann lítt málefnalega röksemdafærslu, heldur nær brjálast eins og ofangreind tilvitnun ber vitni um.

Hvað skyldi Davíð Oddsson hafa sagt sem truflaði geð Páls útvarpsstjóra svo hrikalega. „Frussið“ og „illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið“ var einfaldlega þetta:

Því er skynsamlegt að gera þá breytingu að hafa valákvæði í skattafrumvarpi fólks, þar sem skattgreiðandi getur merkt við hvort hann vill að þeir tugir þúsunda, sem hafðir eru af honum sérmerktir á hverju ári, skuli ganga til „RÚV“ eða til að mynda til einhvers háskóla landsinsnáttúruverndarsamtakaKvenfélagasambandsinsÍSÍHjálparstofnunar kirkjunnar eða Hörpunnar, svo dæmi séu nefnd. 

Ekki væri sem sagt gert ráð fyrir því að menn gætu sparað sér skattgreiðsluna, því það myndi sjálfsagt ýta undir fjöldaflótta frá „RÚV“, þrátt fyrir meintar vinsældir. 

En á hinn bóginn ættu skattgreiðendur val og myndu væntanlega, ef marka má yfirlýsingar forsvarsmanna „RÚV,“ í yfirgnæfandi mæli láta sitt fé renna til stofnunarinnar fremur en annað.

Nú ætlar Páll Magnússon í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Fyrrum kollegar hans á flestum fjölmiðlum draga ekki af sér að kynna framboðið og telja væntanlega að hann eigi erindi með litlu erfiði. Enginn spyr hann þó um stefnuskrá flokksins og sérstaklega hvort hann sé sammála eftirfarandi úr síðustu landsfundarályktun.

Rekstur ríkisins á fjölmiðlum mၠekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd. Auka þarf gegnsæi í eignarhaldi fjölmiðla.

Mikilvægt er að varðveita menningararf þann sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með og gera efni í eigu stofnunarinnar aðgengilegt almenningi.

Ofangreint skrifa ég auðvitað Páli til lasts en hann á einnig sínar góður hliðar. Þann 5. apríl 2014 ritaði hann ágæta grein í Morgunblaðið. Í henni réðst hann gegn þeirri þjóðsögu sem Gróa á Leiti hefur statt og stöðugt reynt að koma inn hjá almenningi að þeir sem stunda útgerði séu einfaldlega bófar og arðræningjar. Hins vegar er dæmi um að stjórnmálamaður hafi verið happafengur fyrir fjölmiðil.

Í greininni rakti hann sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. Raunar er hún keimlík sögum víða um land. Harðduglegt fólk sem hefur byrjað smátt en stækkað við sig og rekur fjárhagslega sjálfstæða útgerð. Á slíkri vegferð hefur sumum tekist að að koma undir sig fótunum en öðrum ekki, saga sem er hvorki ný né gömul, þetta hefur gerst í öllum atvinnugreinum. Þannig eiga hlutirnir að vera. Vill einhver skipta á þessu og miðstýrðum fyrirtækjum í opinberri eigu? Getur einhver haldið því fram að „alþýða“ landsins hagnist þá meira af afrakstri útgerðarinnar?

Í niðurlagi greinar sinnar segir Páll Magnússon eftir að hafa rakið sögu lítils útgerðarfyrirtækis í Vestmannaeyjum:

Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni? 

Niðurstaðan er sú að Páll Magnússon var vaninn af ríkisspenanum, styður einkaframtakið, er nú kominn í Sjálfstæðisflokkinn og ætlar í framboð fyrir hann. Þetta er löng leið en ekki ókunnug öðrum fjölmiðlamönnum í mörgum flokkum. 

Spurningin er núna sú hvort eitthvað sé spunnið í Pál þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt. Ekki hafa allir fjölmiðlamenn verið happafengur fyrir Alþingi Íslendinga.

 


mbl.is Páll Magnússon vill leiða listann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ósanngirni og óréttlæti bæði ósanngjörn og óréttlát ...?

Sanngirni og réttlæti eru hugtök sem öllum líkar. Vandamálið lýtur hins vegar að samhengi þeirra hverju sinni. Mitt réttlæti og mín sanngirni er ekki alltaf hið sama og nágranna míns. 

Góður maður sagði einhvern tímann að ríki án réttar og réttlætis sé ekkert annað en risavaxinn ræningjaflokkur. Slík ríki hafa verið mörg í sögu síðustu aldar. Löngu áður hafði annar hugsuður sagst unna lífi og réttlæti. En hann bætti því við að fengi hann ekki notið hvort tveggja þá kysi hann réttlætið.

Já, þetta er djúp hugsun en í raun falleg og svo ákaflega sönn. Vandamálið byrjar þegar réttarríkið virðist ekki vera skilvirkt og saklausum manni er refsað en sá seki fær að ganga laus. Á tímum virkra samfélagsmiðla og athafnasamra fjölmiðla berast fréttir hratt og mörgum er þá ofboðið. Lausnin er þá oft sú að ráðist er gegn dómurum og þeim kennt um ósanngirni og óréttlæti.

Oft eru ásakanir um ósanngirni og óréttlæti afar ósanngjarnar og óréttlátar. Þannig er það bara.

Nokkur vandi steðjar að nútíma samfélagi með fjölmiðlum sem segja ekki aðeins fréttir heldur hafa skoðanir og samfélagsmiðlum með margvíslegar skoðanir. Allir vita að saman er kraftur þessara miðla afar mikill sameinist þeir um eina skoðun. Hugsanlega er það gott. Verra er hversu margir eru snöggir að taka afstöðu sem er byggist lítið á öðru en yfirborðsþekkingu. Dómstóll götunnar er oftar en ekki ómarktækur vegna þess að á götum eða torgum er hvorki réttað né dæmt, hvað þá að þar sé dómum fullnægt.

Sé dómurum gert að fara eftir einhverju öðru en lögum og reglum í dómum sínum er réttarríkið í miklum vanda statt. Í báðum tilvikum kemur brestur í samfélagið og sanngirni og réttlæti skaðast.

Oft er erfitt að afsanna sök. Sá sem dómstóll götunnar hafði fundið sekan um að drepa hund átti í miklum vanda sem leystist þó um síðir er hundurinn fannst sprelllifandi. Hver urðu þá viðbrögð dómstólsins? Jú, hann sagði bara úbbs ... 

Hversu mikið sem dómur kann að virðast ósanngjarn er það miklu verra og alvarlegra þegar ráðist er að dómurum með ávirðingum og jafnvel mótmælum. Ástæðan er einfaldlega sú að almenningsálitið breytist rétt eins og vindáttin og enginn leggur því línurnar. Hversu marktækir verða dómar ef lög og reglur eru ekki grundvöllur þeirra heldur almenningsálitið?


mbl.is Hætta af hræðslu við hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rof á um 66% landsins

Eina helgi í ágúst gengum við um í nágrenni Hagavatns, austan Farsins, um tröllaheima Jarlhettna. Umhverfið er stórskorið og jökullinn nálægur. Teikn um hin virku öfl er móta landið eru mikilfengleg; móbergshryggir, lón, jökulurðir og ummerki gamalla jökullóna. Á nýju landi sem kemur undan jökli er auðnin náttúruleg og framvinda gróðurs harla forvitnileg. Á eldra yfirborði, utan ríkis jökulsins, er auðnin einnig ráðandi, en svo hefur ekki alltaf verið. Það er manni holt að minnast þess framan við Jarlhetturnar uxu skógar fyrr á tímum. Hér var skógurinn felldur og gert að kola, m.a. fyrir Skálholtsstað, langt fram eftir öldum. En nú standa aðeins eftir stakar gróðurtorfur í víðfeðmri auðn.

Rof á ÍslandiÞannig skrifar Ólafur Arnalds, prófessor í jarðvegsfræðum á vefsíðu sína moldin.is. Það hefur reynst vera lífsstarf Ólafs að rannsaka gróðurfar á Íslandi og því miður er niðurstaða hans ekki uppörvandi. Gróðureyðing og uppblástur hefur verið viðvarandi vandamál á Íslandi svo lengi sem færustu vísindamenn geta rakið. Rannsóknir þeirra enda við landnám, þá hefst þetta allt saman.

Til að lifa af í landinu var gengið á gróður, skógar hoggnir fyrir eldivið og smíðar, þeir ruddir til að rýma til fyrir beit búfjár. Í kjölfarið hófst uppblástur sem staðið hefur óslitið til þessa dags. Vandamálið er hrikalegt og þá sérstaklega á hinu svokallaða gosbelti landsins.

Á vefnum kvasir.is sem Rannsóknarstofnun landbúnaðaarins og Landgræðsla ríkisins gefa út er fjallað um rof á gróðurfari landsins.

Svo vön erum við tötrunum að margt fólk sér einhverja óskilgreinda fegurð í gróðurleysinu; auðnum, melum, klettum, söndum. Hins vegar er það staðreynd að þessi „fegurð“ stafar af hrikalegri umgengni um landið og þá sérstaklega ofbeit. Niðurstaðan er sú að á um 66% Íslands er gróðurþekjan rofin meira eða minna leyti eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

RofkortAlmennt er talið að land hafi verið algróið við landnám og skógar þakið um 15 til 40% landsins í stað 1% nú og gróður hafi þaki allt að þremur fjórðu hlutum landsins. Hnignunin er gríðarleg sem og allar þær afleiðingar sem þar hafa haft og nútímamaðurinn þarf að að þola. Nefna má breytingar á veðurfari sem fylgdu. 

Forfeður okkar kunnu að búa til viðarkol og til þeirra var gert í gryfjum sem fyrirfinnast víða, jafnvel á þeim stöðum sem nú er enginn skógur heldur á víðernum sem fólk dásamar og telur fegurðina einu og sönnu. Á Kili hafa fundist kolagrafir, einnig á Reykjanesi og víðar þar sem aungvir skógar standa nú.

Raunar var það svo að árið 1755 var kolagerð bönnuð með lögum á Íslandi. Ástæðan var einfaldlega sú að á þeim tíma skildu margir að skógar voru í stórhættu vegna kolagerðar. Vandinn var þó miklu meiri og alvarlegri og það er búfjárbeitin, einkum sauðfjárbeit. Kindin sækir í nýgræðinginn, hann er bestur og næringamestur og meðan nýgræðingurinn fær ekki tíma til að vaxa og dafna breytist gróðurfarið lítið.

Til lítils er nú að áfellast forfeðurna. Gert er gert. Vandinn lýtur að deginum í dag. Andrés Arnalds segir í ofangreindum vefpistli sínum:

Þessi ólíku sjónarmið eru táknræn fyrir sjónarmið sauðfjárbænda sem vilja nýta landið áfram, burtséð frá ástandi þess, og hinna sem sjá fyrir sér að þekking á ástandi landsins skili breytingum á nýtingu þess. Staðreyndin er sú að sums staðar er land vel gróið og hentar vel beitar, en auðnir, rofsvæði og land í námunda við virkustu eldfjöll landsins henta alls ekki til beitar. Í dag er ekki gerður greinarmunar þar á. Núverandi “gæðastýring í sauðfjárrækt” skilar málum allt of stutt á þeirri leið. Hvenær verður beitarnýting aðlöguð að landkostum? Hvað þarf til?

Hann spyr hvað þurfi til. Þarf löggjafinn ekki að taka málið til sín og ákveða hvernig beit á landinu skuli háttað? Að sjálfsögðu.

Hins vegar er hér ekki um einfalt mál að ræða. Þingið getur sett lög þar sem beit á hinu svokallaða gosbelti sé einfaldlega bönnuð. Hvað verður þá um það sauðfé sem þar gekk? Verður það sett á aðra afrétta sem þola ekki aukna beit og gróðurinn þar mun rofna og eyðast og svo koll af kolli?

Sauðfjárbeit á einskismannslandi er hápólitískt mál ekki síður en veiðar í landhelgi Íslands en hún er í lögum sögð þjóðareign rétt eins og þjóðlendur. Munurinn er hins vegar sá að í landhelginni er farið eftir tillögum vísindamanna um veiðar en á þurru landi er látið sem beit skaði ekki landið. Í því er firran fólgin.


Hvenær er ríkisstjórn dauð og hvernig veit hún af því?

Í dag er staðan þannig að þessi ríkisstjórn er dead-man-walking, hún er dauð. Þau átök sem við höfum séð milli stjórnarflokka síðustu vikur, til dæmis harðar árásir Eyglóar á Sjálfstæðisflokkinn, ég minnist þess ekki að hafa séð svona rosalegt box milli samstarfsflokka á mínum 25 ára ferli og ég tel að þessi ríkisstjórn, hún sé dauð.

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og fyrrum ráðherra í vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms. Tilvitnunin er úr vefritinu pressan.is. Össur er skynsamur maður og skýr og hann veit ábyggilega hvenær ríkisstjórn er dauð.

Kjörtímabil áðurnefndrar ríkisstjórnar sem hann sat í var ekki nema hálfnað þegar hún fékk rothögg í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave máli. Hún var einfaldlega talin út og var ekki með meðvitund það sem eftir var kjörtímabilsins.

helgi sigVerra var þó að hún fékk annað rothögg vegna Icesave málsins ári síðar. Eftir það þurfti ekki að telja hana út. Hún var formlega dauð. Verst var þó að hvorki Össur Skarphéðinsson, sá skýri maður, vissi ekki af því og hélt samt áfram sem ráðherra ásamt félögum sínum. 

Nú heldur hún því fram að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sé dauð vegna einhvers ágreinings um einstök atriði. Það er þó ekkert annað en gælustrokur miðað við áðurnefnd rothögg.

Ætti maður að voga sér að telja upp önnur mál sem hefðu með orðið banamein síðustu ríkisstjórnar hefðu þjóðaratkvæðagreiðslurnar ekki komið til? Klúðrið með stjórnlagaráðið?

Stöðu síðustu ríkisstjórnar er best lýst með þessari skopmynd Helga Sigurðssonar.


Arnold B. Bjarnason

900615-45Góður vinur er til moldar borinn í dag. Þetta er hann Arnold Bjarnason fyrrum framkvæmdastjóri Timbur og stáls í Kópavogi. Okkur varð ágætlega til vina þegar við störfuðum saman í Útivist hér á árum áður. Kona Arnolds var Johanna Boeskov og dætur hennar og tengdasynir mikið vinafólk mitt. Jóhanna var raunar í mörg ár formaður Útivistar við góðan orðstír.

Arnold var mikilvægur liðsmaður Útivistar. Hann sat í kjarna félagsins, sem svo er kallaður, nokkurs konar fulltrúaráð, en var einnig áberandi í félagsstarfinu, bæði opinberlega og ekki síður á bak við tjöldin. Held að hann hafi ýmsan hátt verið svona „reddari“ eins og kallað er og mig grunar að hann hafi greitt sjálfur margt sem fór til Útivistar, án þess að ætlast til endurgreiðslu, þvert á móti.

Ég kynntist Arnoldi best þegar við unnum að byggingu Fimmvörðuskála Útivistar. Um þann kafla í sögu félagsins má margt segja og raunar hefur lítið verið skrifað um þann tíma.

900819-15 bÞannig var að stórmerkilegur félagsskapur sem nefndist Fjallamenn hafði gefið Útivist gamlan skála á Fimmvörðuhálsi. Sá var byggður árið 1940 og þjónaði lengi hlutverki sínu sem miðstöð fyrir fjallamennsku og útiveru. Stjórn Útivistar ákvað að endurbyggja skálann en hann var svo illa farinn að nauðsynlegt reyndist að hanna hann frá grunni. Að þeirri vinnu komu gamlir Fjallmenn og félagsmenn okkar.

Vandinn reyndist alvarlegur þegar leiðinlegt fólk reyndi að bregða fæti fyrir félagið vegna endurbyggingarinnar. Þetta voru örfáir íbúar í sveitarfélagi sem áður nefndist Austur-Eyjafjallahreppur. Þeir beittu hreppnum fyrir sig og héldu því fram að skálabyggingin væri á heimalandi, næstum því í túnjaðrinum, og framkvæmdin gæti spillt grasvexti og komið í veg fyrir heyskap. Heiftin var gríðarleg og var öllum ráðum beitt til að koma í veg fyrir að skálinn væri byggður. Okkur kom þetta gríðarlega á óvart og ekki síður heiftin.

900908-32Friðarins maður, Arnold Bjarnason, tók að sér að ræða við þessa heimamenn og bera klæði á vopn þeirra. Skemmst er frá því að segja að hinn rólegi og kurteisi maður hrökklaðist öfugur til baka, gapandi hissa á móttökunum. Jafnvel prestinum, sr. Halldóri Gunnarssyni í Holti, mistókst að friða heimamenn, en hann hafði farið í fótspor Arnolds en kom til baka álíka skelfdur.

útivistarmenn sýndu heimamönnum jafnan fyllstu kurteisi en þeir svöruðu með sprengjukasti. Reyndu að fá lögbann sett á bygginguna og höfðuðu mál fyrir dómsstólum. Allar tilraunir til að berja á Útivist lauk með fullkomnum ósigri vonda liðsins, lögbanni var hafnað og dómur féll Útivist í vil jafnvel þó heimamenn fengju svokallaða „gjafsókn“ í málinu. Ráðherra gaf að lokum út byggingaleyfi fyrir skálanum, en kostnaður Útivistar vegna lögmanns voru á endanum álíka miklar og sjálf skálabyggingin.

DSC_0397 110905 5VH, skálinn, A, ryk - Version 2Arnold var hörkuduglegur framkvæmdamaður. Vílaði ekki fyrir sér að vinna með okkur að byggingu Fimmvörðuskála í öllum veðrum á Fimmvörðuhálsi. Þess ber að geta að hann var um tuttugu og fimm árum eldri eða meira en flest okkar sem að skálabyggingunni komu. Sú staðreynd breytti þó engu enda maðurinn góður verkmaður og í slíku er ekki spurt um aldur.

920416-145 bFimmvörðuskáli reis og Arnold Bjarnason var betri en enginn í þeirri framkvæmd. Síðan hefur skálin verið í stöðugri notkun. Bygging hans reyndist mikið gæfuspor fyrir Útivist. 

Við Arnold hittumst iðulega í ferðum. Eitt sinn gengum við með Útivist á skíðum frá Sigöldu, í Landmannalaugar, suður Laugaveginn og í Bása. Þá var hann nýlega orðinn sextugur, eldgamall fannst okkur hinum, sem nú erum hvert af öðrum á komast á þann sama aldur og finnst ekki mikið.

Arnold var ekkert í sérstaklega góðu formi fyrir þessa ferð og höfðum við nokkur af því dálitlar áhyggjur. Ekki  gerðum við okkur grein fyrir því að Arnold var okkur flestum fremri á einu sviði. Hann var nefnilega Siglfirðingur og hafði stundað gönguskíði frá því hann lærði að standa á eigin fótum. Slíkir eru einfaldlega afburðagóðir göngumenn, að minnst kossti tæknilega séð. Tæknin dugði honum í þesari ferð hvað sem um formið mátti segja að öðru leyti. Við sem höfðum okkar á milli viðrað einhverjar áhyggjur af þeim gamla, tókum í ferðalok ofan fyrir hetjunni.

Snemma morguns gengum við frá skálanum í Landmannalaugum, yfir Laugahraun og upp á Brennisteinsöldu. Þá gerist það að Arnoldi skrikar óvænt fótur í brattri brekkunni og fellur kylliflatur á magann og liggur þar hreyfingarlaus í dálitla stund.

920416-47Mér brá dálítið og skíðaði niður og hugaði að kallinum, mundi þó eftir að taka mynd af honum. Hann másaði og blés og loks settist hann upp og sagðist bara hafa runnið. Ég spurði hann þá hvort bakpokinn væri kannski of þungur. Nei, nei ... sagði hann og andaði þungt.

Engu að síður tók ég á pokanum og fann að hann var í þyngra lagi. Bauðst ég þá til að taka eitthvað úr honum og setja í minn poka. Eftir dálitlar fortölur þáði hann það. Síðan gekk ferðin eins og í sögu, pokinn léttari og Arnold skíðaði eins og Siglfirðingar gera best, stoltur og hress þrátt fyrir erfitt færi og slæmar aðstæður að hluta til. Í Álftavatni þakkaði hann mér aðstoðina og bauð mér stöðu tengdasonar í fjölskyldu sinni, þó án þess þó að dóttir fylgdi enda allar gefnar þegar hér var komið sögu. Þetta var svona eins og ráðherrastaða án málaflokks. Mikil virðingarstaða sem ég þáði að sjálfsögðu enda vart hægt að hafna svona kostaboði þrátt fyrir ágallann. Sóminn af svo mikill. Engar skuldbindingar hafa hingað til fylgt vegsemdinni.

920416-253Arnold var dálítið dulur maður, fannst mér. Hann sagði lítt frá sjálfum sér nema frægðarsögur af skíðamennsku í Siglufirði forðum daga. Siglfirðingar voru að hans mati öðrum íslenskum kynþáttum betri og æðri. Oft var spaugað með þessa skoðun Arnolds en hann hafði mikinn húmor og gat tekið öllum skotum.

Hann var ekki hávaðasamur maður en fastur í skoðunum, oftast grjótharður. Átti það til að draga mann úr mannfjölda og ræða um ákveðið mál undir fjögur augu.

Oftar en ekki var hann hrókur alls fagnaðar, sagði gamansögur, var kerskinn og gat skotið meinlegum skotum að manni. Allt var þó samstundis fyrirgefið þegar hlátrasköllin glumdu.

„Hvað segirðu?“ sagði hann eitt sinn við Fríðu Hjálmarsdóttur, sem ættuð var úr Eyjum. Útivistarhópur var í rútu á Suðurlandsvegi og Fríða benti farþegum á Vestmannaeyjar. „Er ennþá byggð þar ...“ bætti Arnold við, og allir lágu í hláturskasti.

„Sko, þarna er Kattarnef,“ sagði Arnold einhvern tímann er ekið var nálægt Seljalandsfossi. „Þarna var oft ófært þegar Markarfljót lagðist upp að klettunum. Á þeim tíma var fólk flutt hreppaflutningum og þá myndaðist orðatiltækið að koma einhverjum fyrir kattarnef.“ Hann var svo alvarlegur í bragði að enn þann dag í dag veit enginn hvort hann hafi verið að grínast. 

Sögur Arnolds og sögurnar af honum eru óteljandi. Allar bera þær sömu einkenni, gleði og hlýju. Þrátt fyrir þungt yfirbragð var hann hlýr maður sem ánægjulegt var að umgangast.

Arnold lést 23. júlí og var áttatíu og fimm ára. Hann átti fimm börn og þrjú fósturbörn og því til viðbótar á anna tug barnabarna. Arnold var því ríkur maður og minning hans mun lifa meðal afkomenda hans og vina. 

Ég sendi kærri vinukonu minni, Johönnu Bueskov og fjölskyldu hennar og Arnolds mínar innilegustu samúðarkveðjur. Missir þeirra er mikill en eftir stendur minning um góðan mann sem ég mat alltaf mikils.

Myndir: 

  1. Arnold og Jóhönnu
  2. Gamli skálinn á Fimmvörðuhálsi
  3. Arnold meðal vina við byggingu Fimmvörðuskála
  4. Fimmvörðuskáli í dag
  5. Arnold í fjallaferð
  6. Þarna liggur sá gamli flatur í brekkunni við Brennissteinsöldu
  7. Arnold hvílist við Ljósá á sérstakan en áhrifaríkan hátt.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband