Hégómaskapur eða eldmóður

Væntanlega taka menn sæti á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins til að hafa áhrif, berjast fyrir stefnumálum sínum og flokksins. Samt er ákaflega skrýtið hversu fáir sem sæti tóku á listunum fyrir síðustu alþingiskosningar hafa tekið þátt í stjórnmálabaráttunni, aðeins þingmennirnir og örfáir aðrir.

Af fólki á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur má fyrir utan þingmennina og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra aðeins nefna þau Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Teit Björn Einarsson, Jón Ragnar Ríkarðsson, Borgar Þór Einarsson og Erlu Ósk Ágeirsdóttur. Vart hefur heyrst eða sést í aðra. Hvers konar frambjóðandi er það sem tekur ekki þátt?

Má vera að sá sem tekur sæti á framboðslista geri það af áhuga og vilja til að láta gott af sér leiða, hafi til að bera hugsjónir og eldmóð. Það er engu að síður krafa til hvers og eins að leggja flokknum lið þegar á hann er ráðist og standa í orrahríðinni þegar hann sækir fram.
Því miður virðast alltof margir veigra sér við því að taka þátt. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé stór flokkur og öflugur taka fáir sér stílvopn í hönd eða tala fyrir hann á opinberum vettvangi.

Þó má alls ekki vanmeta starf hins almenna flokksmanns sem hefur áhrif með því að ræða við aðra augliti til auglitis. Þessir »fótgönguliðar« þurfa hvatningu. Ef frambjóðendur flokksins stíga ekki fram í fjölmiðlum mun árangurinn verða frekar slakur.

Nú líður að lokum framboðsfrests fyrir prófkjör víða um land. Ágætt er að frambjóðendur hafa ofangreint í huga sem og þeir sem fá boð um að taka sæti á framboðslistum. Gera á kröfu til að þetta fólk taki beinan þátt í stjórnmálum en sé ekki í leiknum af hégómaskapnum einum saman.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2016.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband