Hin óglöggu skil á milli fréttar og skoðunar blaðamannsins

BlaðamaðurAndri Snær Magnason, rithöfundur og frambjóðandi til embættis forseta Íslands, fer nokkuð mikinn í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir lýðræðið virka vegna þess að kjarni þess sé óvissan.

Nú er sá tími í sumum fjölmiðlum að blaðamenn eru ekki lengur milliliðir, heldur beinir þátttakendur í samfélagsumræðunni, sérstaklega stjórnmálum. Ofangreint er úr frétt Fréttablaðs dagsins og þar túlkar Kolbeinn Tumi Daðason, blaðamaður orð Andra Snæs Magnasonar, forsetaframbjóðanda en hann skrifar grein í blaðið í dag. Þetta er aðeins lítið dæmi um það sem er að gerast í blaðamennsku hér á landi.

Ég hef lesið grein Andra Snæs en get ómögulega tekið undir að hann „fari mikinn ...“. Þvert á móti er þetta enn ein greinin sem miðast við að berja á móframbjóðandanum, núverandi forseta. Ekkert merkilegri en það sem aðrir frambjóðendur segja. Þessi tilvitnun er þó ekki aðalatriðið.

Beinar túlkanir blaða- og fréttamanna á samfélaginu eru orðnar frekar algengar og skilin á milli skoðana blaðamanna og frétta verða því oft ansi óglögg. Þannig er lesandinn nauðbeygður að setja sig í þá stöðu að vera á varðbergi, vera gagnrýninn og hafa til að bera næga þekkingu til að átta sig á því sem um er fjallað. Sé hann ekki þannig vopnum búinn tekur hann öllu trúanlegu eins og yfirleitt er með prentað mál. Við trúum því sem á prenti stendur eða heyrum í útvarpi eða sjónvarpi. Þann trúnað er auðvelt að misnota. Þetta er hins vegar ekki góð blaðamennska, þvert á móti.

Hér áður fyrr sátu fréttastjórar í glerbúrum sínum og tóku við greinum blaðamanna, lásu þær yfir, mátu hvernig fréttin var skrifuð og hver efnistökin væru. Síðast en ekki síst var málfarið virt. Þetta virðist ekki gerast lengur. Aginn er fokinn út í veður og vind, krafan er um magn en ekki gæði. Allir geta orðið blaðamenn svo framarlega sem þeir kunna fingrasetningu á lyklaborði og geti nokkurn veginn skammlaust notað tölvu.

Nú setja blaðamenn fréttir inn á tölvukerfi fjölmiðla sinna en enginn les yfir, enginn gætir samræmis. Ekki-frétt getur jafnvel orðið stórfrétt og aðrar mikilvægar og stórmerkilega fréttir eru faldar eða birtast ekki, rétt eins og gerist þessa dagana hjá Fréttablaðinu.

Lengi var sú skoðun uppi hér á landi að markmiðið með rekstri fjölmiðla væri eitthvað háleitara en að selja auglýsingar. Þær eru vissulega mikilvægar, en efnið, maður lifandi, efnið og efnistökin. 

Hvenær varð það eiginlega hlutverk blaða- og fréttamanna að innræta lesendum skoðanir sínar? 

Myndin er tekin traustataki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

Fór ekki blaðamennskan í hundana með tilkomu fréttablaðsins?

kv.

Hrossabrestur, 23.4.2016 kl. 10:18

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, því er ég ekki sammála, „Hrossabrestur“. Þar eru margir góðir blaðamenn. Hins vegar máttu líka líta á aðra miðla. Skoða framsetningu, orðbragð og framar öllu innihald „frétta“. Skoðir ú þetta með gagnrýnu hugarfari mun margt koma þér á óvart.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.4.2016 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband