Handhafi umboðs til myndunar ríkisstjórnar hefur einstaka stöðu

DSC_7152_HDREkki er allt sem virðist. Stundum eru aðstæður þannig að hinir skýrustu menn hafa rangt fyrir sér jafnvel þó þeir velji að fara leið sem vörðuð er málefnum, rökum og augljósum staðreyndum. 

Sá sem þetta ritar hefur varið nokkuð langri æfi í að skrölta einn eða með öðrum um fjöll og firnindi landsins og telur sig upplýstari og betri mann fyrir vikið enda hafa ekki næstum því allar ferðirnar verið til fjár um sumar hreinlega hrakfallaferðir.

Í gönguferðum æxlast mál þannig að oftar en ekki er gengið í einfaldri röð. Einn gengur fyrstur, einhver er síðastur og á milli eru hinir einn eða fleiri. Nú kann einhver að halda að sá sem fyrstur gengur sé forystusauðurinn, leiðtoginn, fararstjórinn, sá sem þekkir leiðina best. Oft er það þannig en þó ekki alltaf.

Þegar skyggni er slæmt skynjar sá fremsti stefnuna ekki eins vel og sá þriðji í röðinni eða jafnvel sá aftasti. Ástæðan er einföld. Fremsti maður hefur oft ekkert viðmið heldur er hann er nærri því „blindur“. Þeir sem eru aftar í röðinni taka þá eftir því, hafi þeir augun hjá sér, þegar röðin beygir lítið eitt til hægri (má vera að svigkraftur jarðar valdi því). Sá fremsti getur einfaldlega ekki gengið nokkur hundruð metra án þess að beygja af leið. Verkefni leiðsögumannsins er að taka eftir þessu og leiðrétta stefnuna.

Yfirleitt ruglast vanir fararstjórar og leiðsögumenn ekki í ríminu. Hinir eiga það til að ruglast. Þeir velja frekar rollugötu eða akveg sem fyrir verður frekar en að halda uppgefinni stefnu. Reynsluleysið er oft vandamál, það er ekkert sniðugt.

910511-17Einu sinni gengum við þrír félagar yfir endilangan Eyjafjallajökul, frá vestri til austurs og var stefnan sett á toppinn og síðan niður á Fimmvörðuháls og þaðan ofan í Goðaland og í Bása. Þegar við höfðum komist upp fyrir hamrabeltin og að jökulrótum var komin þoka og þar fyrir ofan snjóaði nokkuð. Við vorum með áttirnar á hreinu og létum skyggnisleysið ekki stöðva okkur (þetta var fyrir daga GPS staðsetningatækja).

Á leiðinni upp jökulinn gekk ég aftastur en sá sem var fremstur var alvanur skíðagöngumaður fæddur á Siglufirði. Hann lét ekki forystuhlutverkið af hendi með góðu og því ákváðum við hinir að hrekkja hann dálítið.

910511-21Hér kemur dálítið snúin lýsing: Með því að sá sem var í miðju gekk út úr stefnunni til hægri en ég til vinstri virðist sá fremsti hafa farið út úr stefnunni. Nokkrir metrar voru á milli manna og við hrópuðum og bentum Siglfirðingnum á villu sína. Hann tók athugasemdinni vel, veifaði og skíðaði á „réttan“ stað fyrir framan okkur og svo gengum við áfram.

Þá endurtókum við leikinn en núna í hina áttina. Og enn þurfti norðanmaðurinn að færa sig um set til að geta haldið „réttri“ stefnu. Og í þriðja skiptið villtum við um fyrir honum og þá staðnæmdist hann, tók af sér snjóuga húfuna og klóraði sér í kollinum. Skildi greinilega ekkert í þessu rugli í sér. Við buðum honum að skipta um stöðu og þáði hann það með þökkum. Gekk ég áfram aftastur og bar nú ekkert til tíðinda þar til við komum upp að Goðasteini. Þar snjóaði ákaft og áðum við þar stundarkorn og fengum okkur brauðbita og að drekka..

910511-40Ég skil bara ekkert í því hvernig ég gat villst svona,“ sagði Siglfirðingurinn, alveg miður sín. „Kannski er ég bara ekkert vel fyrirkallaður,“ bætti hann við. Þá gátum við ekki stillt okkur og sögðum honum hvað hafði gerst. Hann hló með okkur og fannst þetta hinn skemmtilegasti hrekkur en erfði hann ekki við okkur. Síðan hefur þessi saga oft verið sögð þegar verið er að benda á hversu vitlaust hið augljósa virðist oft vera.

Allt þetta og jafnvel meira til flaug í gegnum huga minn í dag þegar ég las Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Oft er að finna þar mikinn fróðleik um stjórnmál enda kemur fyrir að sá skrifi sem hefur að baki mikla reynslu úr pólitíkinni. Augnva reynslu hef ég úr þeirri tík þó ég lengi hafi staðið á hliðarlínunni og lagt eitthvurt smáræði til málanna við litlar undirtektir. Fróðleikurinn heillar og ég les mikið. 

Nú í haust hef ég haldið því fram á þessum vettvangi að svokallað umboð forseta Íslands til myndunar ríkisstjórnar sé frekar lítilsháttar vegna þess að sá getur myndað stjórn sem fær til þess meirihluta þingmanna. Þetta er einfalt, rétt og augljóst. En ... rétt eins og í hlíðum Eyjafjallajökuls, er hið einfalda og augljósa ekki alltaf hið rétta. Stundum getur staðan verið þannig að nauðsynlegt sé að hafa umboð forsetans í vasanum.

Um þetta segir höfundur Reykjavíkurbréfsins (feitletranir eru mínar):

Umboðsveitingin er fjarri því að vera óljós gervigerningur. Hún gefur handhafa umboðsins einstæða stöðu. Henni fylgir til að mynda mjög rík óskráð hefð, sem byggt hefur verið á. Handhafi umboðs til að mynda stjórn getur þannig með vísan til þess leitað hvers konar aðstoðar og upplýsinga frá ráðuneytum og stofnunum um stöðu mála og þeim er skylt að bregðast skjótt við. Handhafi umboðsins getur einnig eftir atvikum og í samráði við ráðuneyti leitað útreikninga og greinargerða fagaðila utan stjórnsýslunnar, sem forsætisráðuneytið sæi um að kosta, innan allra eðlilegra marka.

Embættismenn ráðuneyta og stofnana eru í þessu tilviki undanþegnir því að láta yfirmenn sína í starfandi ríkisstjórn vita eftir hverju handhafi stjórnarmyndunarumboðs er að slægjast. Nyti forystumaður, sem reyndi stjórnarmyndun, ekki slíkrar þjónustu, hefði hann mun lakari stöðu en aðrir. Stofnanir á borð við Seðlabanka, Hagstofu og fleiri stofnanir gefa handhafa stjórnarmyndunarumboðs upplýsingar, óski hann eftir þeim, og hugsanlega án slíkrar beiðni, sem geta gagnast honum í viðræðum og hann fer auðvitað vel með.

Þetta fyrirkomulag hefur iðulega haft verulega þýðingu. Þegar enginn hefur umboðið, en allir mega reyna, má augljóst vera að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í mun sterkari stöðu en allir aðrir.

Þess vegna er þessi „opnapottsaðferð“ ekki notuð fyrr en fokið er í flest skjól.

Þegar formaður Samfylkingar sagði aðspurður í sjónvarpi að þetta „væri sniðugt“ byggist það á skiljanlegu reynsluleysi.

Niðurlagið í tilvitnuninni er óborganlegt, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Merkilegt er hversu víðtæk stjórnsýsluleg „völd“ umboðshafinn hefur. Hann sækir einfaldlega þær upplýsingar sem hann þarf á að halda og starfsmenn ráðherra láta ekki ráðherra vita hvað hann hefur óskað eftir, jafnvel kann að vera þeir séu bundnir trúnaði um málið sem sé ofar skyldum við ráðherrann.

Þessu hafði ég ekki gert mér grein fyrir þegar ég gerði lítið úr umboði forseta Íslands. Ekki nokkur álitsgjafi fjölmiðlanna hefur nefnt þetta. Stjórnmálafræðingar sem eru látnir tröllríða fréttatímum ríkisútvarpsins og síðum prent- og vefmiðla hafa greinilega ekki haft hugmynd um þetta. Líklega fara þeir nú að nefna þessi einföldu sannindi og láta þá sem svo að þetta sé á allra vitorði. 

Greinilegt er að ákveðnar hefðir hafa myndast um umboð til stjórnarmyndunar, bæði hjá forsetaembættinu og þeim sem það með höndum hverju sinni. Það er gott og mikilvægt að halda þeim eins og kostur er.

Eftir að hafa lesið Reykjavíkurbréfið held ég að forseti hafi átt að veita formanni Sjálfstæðisflokksins umboðið aftur því aðstæður hafa gjörbreyst síðan hann reyndi fyrir sér síðast, rétt eins og höfundurinn segir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband