Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Er ganga að víkja fyrir labbi?

Skrýtið hversu margir eru farnir að labba. Labba út í búð, labba á fjall, labba með bakpoka, labba í útlöndum. Enn labbar samt enginn á gönguskíðum ... held ég.

Déskoti væri nú gaman að prófa labb. Hef hingað til gengið ansi víða, gengið út í búð, gengið á fjöll, gengið með bakpoka, gengið í útlöndum. Líklega er ganga orðin úrelt og labb tekið yfir.

Er einhver með námskeið í labbi? Velti því fyrir mér hvernig labb kann að vera frábrugðið göngu.

Ég hef verið að leita mér upplýsinga um labb en jafnvel Gúggöl veit ekkert um það.


Helgi Seljan, bjórinn og búðirnar

Þegar ég á minni þingtíð barðist gegn innleiðingu bjórsins þá var ætíð allgóður meirihluti alþingismanna sem hafði allan vara á sér varðandi það að leyfa bjórinn. Það fóru oft fram umræður með og móti og svo ég nefni nöfn þá voru þar til andstöðu menn sem rökstuddu vel afstöðu sína eins og Stefán Valgeirsson, Sverrir Hermannsson, Svavar Gestsson og Karl Steinar Guðnason svo einhverjir séu nefndir, en máski er Oddur Ólafsson, fv.yfirlæknir Reykjalundar, mér hvað minnisstæðastur, sem hrakti ýmsar þær bábiljur, sem hafðar voru í frammi, með hógværri rökfestu sinni.

Svo ritar Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður, í Morgunblað dagsins. Hann ritar um áfengismál og sölu þess utan ríkisverslana. Helgi er bindindismaður og barðist lengi fyrir skoðunum sínum á launum frá Alþingi, rétt eins og gengur og gerist. Um síðir var hann ofurliði borinn og bjórinn var leyfður á Íslandi. Það voru merk tímamót.

Margt þykir mér betra en bjór en á góðri stundu er sá mjöður engu líkur. Kaldur bjór eftir góða fjallgöngu er miklu betri en snafs þó hvort tveggja kætir geð í góðum hóp.

Sem betur fer voru afturhaldslögin sem bönnuðu bjórinn afnumin. Með því var það lagt dóm hvers og eins hvort hann drykki bjór og annað áfengi. Ekki lengur ráða bindindismenn neyslu annars fólks.

Vissulega fara sumir flatt í drykkju sinni og geta skaða bæði sjálfa sig og aðra. Þannig er það um margt annað sem við neytum, að það getur skaðað okkur og valdið líkamlegu tjóni sem og fjárhagslegu. Nærtækast er að benda á hömlulausa sykurneyslu landans en Ómar Ragnarsson kallar sykur fíkniefni og ég held það sé rétt hjá honum.

En þegar þessar viðvörunarbjöllur hringja sem ákafast þá rísa upp alþingismenn hér heima sem heimta meira böl af völdum áfengisins, trúlega til að komast nokkuð nærri þeim þjóðum sem áður eru taldar sem dæmi um þær þjóðir sem snúast nú til varnar gegn váboðanum. Það andvaraleysi er ótrúlegt þegar gengið er gegn öllum heilbrigðismarkmiðum, hvort sem litið er til yfirlýstrar stefnu íslenzkra stjórnvalda eða til alþjóðlegra heilbrigðisstofnana sem telja aukið aðgengi að áfengi beina ávísun á enn meiri neyzlu, enn meira böl. Ég ætla rétt að vona að Alþingi sé ekki svo heillum horfið að samþykkja þessi býsn, að ganga svo erinda hins grimma markaðar sem í þessum efnum skeytir hvorki um skömm né heiður.

Hér á Helgi Seljan við hugmyndir um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég sé ekkert að því fyrirkomulagi enda hef ég farið víða um heim og búið meðal annars þar sem áfengi er í matvöruverslunum, við hliðina á annarri neysluvöru. Ég skil illa hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu eitthvað öðru vísi en aðrar þjóðir og geti ekki umgengist áfengi eins og þær.

Frá því bjórinn var leyfður hafa komið nýjar kynslóðir sem kunna að fara miklu betur með áfengi en sú kynslóð sem Helgi Seljan tilheyrir. Ég hef sagt mörgum af atburðum sem ég upplifði er ég var fararstjóri í útlöndum um tíma. Þá var það unga fólkið sem var yfirleitt sér til mikils sóma en það eldra, fólkið sem ólst upp án bjórsins, var sér til mikillar skammar með áfengisneyslu sinni.

Svo er það hitt sem ég skil ekki. Er það eitthvað lögmál sem segir að ríkisverslun með áfengi stuðli að minni neyslu þess en verslun í einkaeigu?

Annars verður það ekki af Helga Seljan tekið að hann skrifar góðar greinar vandar mál sitt. Ég er bara ekki alltaf sammála honum.

Og nú mun ég eflaust fara í ríkisverslunina og kaupa nokkra bjóra í tilefni dagsins. Skola þeim svo niður eftir gönguferð.


Sumardaginn fyrsti er tilbúningur, ekki náttúrlögmál

Sumardagurinn fyrsti markar upphaf vors en margir átta sig ekki á því að vor og sumar eru af sama meiði, rétt eins og haust og vetur. Samkvæmt skilningi forfeðra okkar hefst sumarið á vori, rétt eins og veturinn á hausti.

Vorið kom ekki á Íslandi í mars eða byrjun apríl. Það er óskaplega hvimleiður misskilningur þeirra sem komnir eru úr tengslum við veður landsins og láta sér duga að fylgjast með því út um stofu- eða bílglugga.

Tilgangslaust er að væla út af snjó á sumardaginn fyrsta. Nafnið sem þessi dagur ber er  tilbúningur og til þess að gera ófullkomin tímasetning miðað við gang náttúrunnar. Hann er aðeins viðmiðun. Gerist það, sem svo iðulega hendir, að það snjói á sumardaginn fyrsta eða frost sé á þeim degi eða síðar er það einungis gangur náttúrunnar og skýr merki um að við ættum að skoða stöðu landsins á hnettinum áður en farið er að agnúast út í það sem við höfum ekkert um að segja.

Smám saman losnar engu að síður um tök vetrarins og eftir því sem líður á maí mun sólin ná að verma landið og gróðurinn tekur þá við sér. Skipir þó litlu þó lítt sjáist til sólar, hnötturinn hallar undir flatt og áhrif hennar eru óumdeilanleg.

Þeim sem eru óhressir með ofangreindar skýringar get ég gefið tvö ráð. Annað hvort er að flytja til annarra landa þar sem veðráttan hugnast fólki betur eða halda áfram tilverunni á skerinu okkar.

Fyrir þá sem aðhyllast seinni kostinn bendi ég á að veðrið er oftast miklu skárra en það virðist þegar staðið er innan við stofugluggann.

Fjölmargir þeirra sem njóta útivistar halda því fram að veður sé fyrst og fremst huglægt ástand, síður raunverulegt. Um leið og fólk venst útiverunni kemur í ljós að veðrið á Íslandi er bara ágætt. Þetta heitir að lifa með því sem við höfum og getum ekki breytt. Það gerðu forfeður okkar og skyldum við ekki get gert það sama?


mbl.is Svona er Akureyri á 2. degi sumars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin ber ekki ábyrgð á Icesave og greiðir því ekkert

IcesaveFengin var endanleg staðfesting fyrir EFTA-dómstólnum í lok janúar 2013 á því að íslenzkir skattgreiðendur bæru ekki ábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands. Þar með var hafnað kröfum brezkra og hollenzkra stjórnvalda um að ríkissjóði Íslands bæri að standa undir skuldbindingum tryggingasjóðsins með íslenzku skattfé. Svokallað Icesave-mál snerist um þetta.

Hjörtur Guðmundsson, blaðamaður Morgunblaðsins, ritar góðan Pistil í blað dagsins. Eins og ofangreind klausa bendir til fjallar hann um lyktir Icesave málsins, og gerir það á einfaldan og skilmerkilegan máta.

Þörf var á því að rifja málið upp vegna þess að enn viðast svo margir slæmir á sál og geði eftir hrakfarir ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri græna vegna málsins.

Eftir að dómur EFTA-dómstólsins lá fyrir var brezkum og hollenzkum stjórnvöldum nauðugur einn kostur. Það er að beina kröfum sínum að TIF í stað íslenzkra skattgreiðenda.

Tryggingasjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem sett var á laggirnar á sínum tíma í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar vegna aðildar Íslands að EES-samningnum en aðild að sjóðnum eiga fjármálastofnanir sem reka starfsemi hér á landi. Tryggingajóðurinn er með öðrum orðum ekki á vegum íslenzka ríkisins og íslenzkir skattgreiðendur bera enga ábyrgð á skuldbindingum hans.

Icesave2Hvað þýðir þetta, það er að hollensk og bresk stjórnvöld þurftu að höfða mál á hendur TIF en ekki íslenska ríkinu? Jú, einfaldlega það að ábyrgðina vegna Iceave var ekki hægt að leggja á herðar íslenskra skattgreiðenda, þjóðarinnar. Í því sambandi skiptir þjóðina litlu máli hvort Icesave sé lokið eða ekki. Markmiðið náðist, eða eins og Hjörtur orðar það:

Staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem börðust gegn Icesave-samningunum lögðu einmitt áherzlu á að kröfum vegna skuldbindinga TIF bæri að beina að sjóðnum sjálfum en ekki að íslenzkum skattgreiðendum.

Það er nákvæmlega það sem brezk og hollenzk stjórnvöld eru að gera nú. Andstæðingar samninganna bentu sömuleiðis á að fara yrði með slíkar kröfur fyrir íslenzka dómstóla. Sömuleiðis nákvæmlega það sem er að gerast nú. Stuðningsmenn samninganna héldu öðru fram.

Geðstirðir vinstri menn sem enn eru með böggum hildar vegna þess að þjóðin reis upp á móti ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og flengdi hana, hafa upp á síðkastið haldið því fram að Icesave væri ekki lokið, enn væru Íslendingar að greiða skuldina. Auðvitað er þetta tómt bull fyrirsagnahausa, þeirra sem ekki fylgjast með. Þessir nefna til sögunnar skuldabréfið sem nýi Landsbankinn er að greiða af og draga af því þá kolröngu ályktun, viljandi eða óviljandi, að íslenskir skattgreiðendur séu þar að greiða.

Hjörtur segir í lok pistilsins og í þessum orðum hans felst kjarni málsins:

Með baráttunni gegn Icesave-samningunum var því forðað að skuldbindingum TIF væri komið yfir á íslenzka skattgreiðendur. Skuldabréfið á milli nýja og gamla Landsbankans hefði ekki horfið við það að samþykkja Icesave-samningana. Hins vegar hefði þá vissulega ekkert orðið af dómsmáli brezkra og hollenzkra stjórnvalda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Slík málshöfðun hefði enda verið óþörf ef tekizt hefði að koma Icesave-klafanum um háls íslenskra skattgreiðenda.

 


Ungur maður verður langaömmubróðir ...

FjöskyldumyndÉg var kornungur er ég varð móðurbróðir í fyrsta sinn. Svo varð ég föðurbróðir og eftir það sitt á hvað í langan tíma.

Þetta hefst upp úr því að eiga mörg systkini, sagði móðir mín, einhvern tímann, rétt eins og sökin væri mín en ekki hennar. Hún og faðir minn áttu nefnilega níu börn, fjórar dætur og fimm syni. Þetta var kallað barnalán og þótti ekkert tiltökumál í gamla daga, fólk hafi ekki sjónvarp eða einhver menningartengd fyrirbæri sér til dægrastyttingar svo það stundaði bara það sem leiddi af sér barnseignir eða þannig ...

Flest í lífinu kemur með kostum og köllum. Vandamálið hvað mig varðar er sú staðreynd að ég er örverpi, eins og börn sem eru langyngst eru stundum nefnd. Var „orpinn“ níu árum eftir að foreldrar okkar áttu að hafa lokið barnseignum sínum. Og það gerðist raunar fjórum árum áður en elsta systkinabarnið kom í heiminn. 

Auðvitað var ég afar stoltur að eignast stóran hóp systkinabarna sem auk þess voru svo nálægt mér í aldri að þau voru miklu frekar leikfélagar eða yngri systkin. Svona var nú lífið skemmtilegt. Áður en ég varð tíu ára voru systkinabörnin orðin átta og þeim átti eftir að fjölga um sextán áður en yfir lauk.

Þá byrjar auðvitað martröðin. Dag einn er ég orðinn afabróðir og svo stuttu síðar ömmubróðir. Þetta hélt svo áfram nær út í það óendanlega. Nú held ég að það séu um fjörtíu manns, allt stórglæsilegt fólk, sem kallar mig afa- eða ömmubróður. Mér var þetta í upphafi auðvitað til mikillar skapraunar enda enda enn ungur maður sem er að velta því fyrir sér hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Svo vandist þetta og varð að sæmdarheiti.

Svo varð ég sjálfur afi og allt lífið varð fagurt og gott. En vegurinn er aldrei beinn og breiður og raunar ætti ég að hafa áttað mig á því að í lífinu skiptast á góðar fréttir og aðrar sem eru ... tja, hvað á ég að segja, ekki eins góðar.

Auðvitað gat ég búist við þessu rétt eins og það rignir í Reykjavík, á eftir flóði kemur fjara, allar ár stemma að ósi, að loknum vetri kemur vor og eftir grátur verður oft hlátur. Maður er þó ekki undir svona lagað búinn, það skellur á eins og él úr útsuðri ... Þó var þetta bara rökrétt framhald á því að verða föður- eða móðurbróðir og afa- eða ömmubróðir.

Í gær varð ég sumsé langaömmubróðir ... úff. Og nú hef ég sagt þetta, komið þessu frá mér eins og alkóhólisti sem viðurkennir vanda sinn. Samt er ég enn ungur maður og veit alls ekki hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Raunar varð ég langaafabróðir í janúar á þessu ári en hélt því leyndu eins lengi og ég gat.

Systursonur minn sendi mér tölvupóst áðan ... og hló að mér um leið. Hann heilsaði langaömmubróðurnum með ísmeygilegum orðum og ég ég gat næstum því heyrt ískrandi hláturinn í honum. Ég svaraði honum og reyndi hvað ég tók að draga úr nýfenginni stöðu minni í tilverunni en auðvitað er það ekki hægt. Ættartengsl, hvaða nafni sem þau nefnast, eiga eins og ég nefndi að vera sæmdarheiti og ég er stoltur af stórfjölskyldu minni og ættum.

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Þannig orti Davíð Stefánsson og með sanni má segja að enginn stöðvar tímann. „Allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða ...“, orti Kristján Jónsson sem nefndur var Fjallaskáld.

Oft er manni ekki eins leitt og maður lætur. Hvað sem öllu líður er maður bara kátur með ættingja sína, assi kátur.

Myndin: Höfundur er þarna skælbrosandi fyrir miðju með afa, mömmu, tveimur systrum og þremur syskinabörnum: Sigfinnur afi Sigryggsson, Soffía Sigfinnsdóttir, Soffía systir og Þuríður systir (sem væri nú langaamma hefði hún lifað). Lengst til vinstri er Þórdís Arnljótsdóttir, þá Soffía Káradóttir (sem nú er amma) og Edda Arnljótsdóttir.


Vísindin og hindurvitnin

Hugtakið vísindi merkir hvorki sannleikur, trú né þekking. Hugtakið vísindi á við um þá aðferðafræði sem notuð er til að afla þekkingar. Það er þeirri aðferðafræði að þakka að hægt er að lækna sjúkdóma og senda fólk til tunglsins og heim aftur.

Þetta segir Björn Geir Leifsson, læknir, í greininni „Veruleiki vísindanna“ sem birtist í Morgunblaði dagsins. Hann hefur á undanförnum misserum vakið athygli fyrir skörulega herferð sína gegn hjátrú, hindurvitnum og skottulækningum sem birtast meðal annars í sölu á margvíslegum efnum sem ætlað er að bæta heilsu fólks og jafnvel lækna. Sem dæmi um slík efni eru þurrkaðar og muldar rauðrófur og einnig efni sem í raun eru óholl til neyslu.

Í greininni svarar Björn Geir konu sem segir: „Vísindin eru enginn heilagur sannleikur, ekki heldur er trúin sannleikur.“ 

Um þetta segir Björn Geir:

Hún leggur síðan út frá þessu, að því er virðist í tilraun til þess að gagnrýna málstað þeirra sem nota þekkingu sem aflað er vísindalega til þess að rökstyðja gagnrýni á heilsutengdar aðferðir og meðul sem hún aðhyllist. Það er hugmyndafræði sem byggist frekar á hugarburði, hindurvitni og hagsmunum en sannreyndri þekkingu. Boðskap hennar má draga saman svo að af því vísindin staðfesti ekki afurðir þess konar hugmyndafræði þá sé það ekki vegna þess að hugmyndafræðin sé röng heldur að vísindin séu röng.

Ástæða er til að vekja athygli lesenda á bloggi Björns Geirs. Jafnvel er ástæða til að hvetja fólk til að leita sér upplýsinga þar áður en lagt er í að kaupa efni sem sögð eru laga eða lækna ótrúlegustu kvilla og sjúkdóma.

Um daginn skrifaði Björn Geir um efni sem kallast „Nutrilink“ og er mjög hampað af innflytjanda þess og fleirum og fylgdi bæklingur um þetta efni Fréttablaðinu um svipað leyti:

Ef trúa má bæklingnum ættu allir sem finna til einhvers staðar að rjúka út í búð og nýta sér tilboðið á þessu gullmeðali sem gildir út mánuðinn? Það sem meira er, þér er lofað enn betri árangri ef þú kaupir líka hitt meðalið, "Nutrilenk Active" sem inniheldur hænsnasoð (Hýalúrónat), sem er óvirkt sé það tekið inn um munn, eins og ég hef áður útlistað. Það er víst eitthvað gagn af því sé því sprautað inn í liði.

Nú skal ég vera alveg hreinskilinn... Það er verið að segja okkur ósatt! Þessi bæklingur er fullur af ósannindum.

Til viðbótar við blogg Björns Geirs er ástæða til að vekja athygli á vefsíðunni Upplýst sem fjallar einnig um þessi efni.

 

 


Helvítis veður væl ...

Horfi út um stofugluggann...um hvað á ég að skrifa...hvað er að frétta? Það er ekkert að frétta. Ekkert breytist. Allt er eins. Helvítis veður. Helvítisveður. Eina birtan sem hefur yljað mér í vetur eru flóðljósin á Fram-vellinum.

Er ekki vælið um veðrið hið leiðinlegasta í landanum. Engin hörgull er á fólki sem gerir kröfur um breytt veðurfar hér á landi. Ekki hef ég hugmynd um hver sá er sem krafan beinist að nema ef vera skyldi svokallaðir „veðurguðir“ sem fjölmiðlamenn nefna svo oft án þess að kynna þá nánar. Veðrið hefur verið rysjótt frá upphafi golfstraumsins eða upphafi landnáms.

Einn fjölmiðlamaðurinn í viðbót bætist í vælukjóaflóruna og það er Hólmfríður Gísladóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, en hún ritar pistil á leiðarasíðu blaðsins í dag. Tilvitnunin hér fyrir ofan er úr honum. Og hún heldur áfram:

Ég loka augunum og minnist tjaldferðalags með litlu systur. Við lögðum af stað í fallegu veðri, það var bjart og logn mestan hluta leiðarinnar. Við höfðum engin plön; þetta var óvissuferð, ævintýraferð, og við ætluðum að taka sumarið með trompi í íslenskri náttúru. Fyrsta daginn stoppuðum við hér og þar; óðum út í á og tíndum steina. Svo enduðum við á Hvammstanga, af öllum stöðum. Og það fór að rigna. Og blása.

Jamm, „það“ fór að „blása“. Lesandinn veltir eflaust fyrir sér hvað hafi farið að blása. Svo rennur upp fyrir manni að þetta er barnamál. Líklega hefur farið að kula eða hvessa.

Orðaforði margra er slíkur að vindur er mikill eða lítill. Þeim fer fækkandi sem kunna skil á vindgangi í íslensku máli. Andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður eða fárviðri, svo vitnað sé í „Mat vindhraða eftir Beufort-kvarða“ sem birt er á vef Veðurstofu Íslands. Jamm, vindgangur í íslensku máli ... það vantar hins vegar ekki loftið í suma skrifara í íslenskum fjölmiðlum.

Veðurvælukjóarnir eru ábyggilega upp til hópa fólk sem vanið hefur sig á innisetu, gónir á stofugluggann og kvartar undan rigningunni sem lemur hann. En þið kellingar af báðum kynjum, athugið. Fjöldi fólks er úti í rigningunni, rokinu, hríðinni. Það gengur, hjólar, hleypur, fer á fjöll, veður ár og fljót. Þannig verða til sögur, fæstar verða til í stofunni heima, nema grobbsögurnar sem sagðar eru þegar heim er komið.

Hólmfríður, druslastu út.

Klæddu þig eftir veðri. Farðu í göngu með Útivist, Ferðafélagi Íslands eða öllum þessum aragrúa gönguklúbba sem sprottið hafa upp á síðustu árum. En fyrir alla muni, hættu þessu væli um veðrið.

Veður er ekki til, það er aðeins hugarástand.

Ógreinilega letrið: Svo bið ég Hólfríði afsökunar á þessum pistli. Hún er ágætur blaðamaður, vel skrifandi og pistillinn hennar miklu skárri en halda mætti af ofangreindum orðum.

 


Angra og auðmýkja landann

Hattver2Passinn hafði það þó umfram gistináttagjaldið að hægt var að nota hann til að abbast upp á, angra og auðmýkja landann þegar hann labbaði inn á forna slóð.

Úr Staksteinum Morgunblaðs dagsins.

Varla er hægt að orða gagnrýni á svokallaðan náttúrupassann betur.

Megi hann verða geymdur um aldur og æfi í holuhrauni tilverunnar.


Skúr í nánd ... veðurlag í þúsund ár

Veðurspár fyrir sumarið eru frekar ómarkvissar svona rétt eins og hjá þeim sem ráða í framtíðana með hliðsjón af draumum sínum, útliti innyfla lamba eða innliti kaffibolla. Áður en þjóðin grípur í örvæntingu sinni til örþrifaráða eins og að flytjast til Færeyja, vesturstrandar Noregs eða Írlands er vissara að anda rólega og skoða staðreyndir mála.

Forfeður okkar hafa búið á þessu skeri í rúmlega eitt þúsund ár. Samkvæmt heimildum völdu þeir ekki landið vegna veðurfars. Allt annað lá til grundvallar. Veðurlag hefur ábyggilega verið mjög svipað frá landnámsöld. Því má lýsa þannig: Skúr í nánd ...

Og hvað með það þó hér rigni? Hvaða máli skiptir þó hér verði örlítið kaldara þetta sumar en meðaltal síðustu fimmtan sumra segir til um? Engu.

Hvað segir svo Evrópureiknimiðstöðin um sólskin næsta sumar? Ekkert. Spámenn sem byggja vitneskju sína um framtíðina á draumum, innyflum og kaffibollum fullyrða með 96% líkum að sumarið í sumar verði sólríkara en síðustu árin. Þessa ályktun dreg ég af viðtölum við draumaspakan náunga, kjötiðnaðarmann og kaffiþambara. Þeir eru afar spámannlega vaxnir svo ekki sé meira sagt.

Svo má nefna þá lífsspeki sem margir hafa tileinkað sér að veður sé einfaldlega hugarástand. Þessi vísdómur varð ekki til úr engu heldur flís ... Nánar tiltekið er fatnaður nútímamannsins miklu betri en forfeðra okkar og þar af leiðandi getum við farið nær allra okkar ferða á tveimur jafnfljótum án þess að veðrið hamli för, að minnsta kosti að sumarlagi.

Auðvitað veldur spá Evrópureiknimiðstöðvarinnar þeim sem horfa á lífið og tilveruna út um stofugluggann miklum áhyggjum. Þeir kvarta undan slæmu vori (og vorið er ekki einu sinni komið) og væla undan kulda og rigningu rétt eins og veðurlag hér á landi sé að öllu jöfnu eins og við miðbaug.

Sá sem venur sig á útiveru og hreyfingu finnur æ minna til veðursins, hann lætur það ekki stoppa sig eða trufla. 

Annars er það afar slæm tilhugsun ef auðlindir þjóðarinnar, heita vatnið og rafmagnið, séu að gera hana að aumingjum sem góna á tilveruna út um stofugluggann. Það er hræðilegt.


mbl.is Kalt sumar framundan?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fannst ofan á hvolfdum bát sínum ...

Nokkra skemmtun má hafa af illa skrifuðm fréttum í fjölmiðlum ... þó auðvitað sé miður hversu margir sem þar hamra á lyklaborð eru illa að sér í íslensku og það sem verra er, hafa lélega tilfinningu fyrir málinu.

Eiður Svanberg Guðnason, fyrrum fréttamaður, alþingismaður og ráðherra, heldur úti bloggi sem hann nefnir Molar um málfar og miðla. Í pistlum sínum tekur hann ótal dæmi um illa skrifaðar fréttir.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort fjölmiðlamenn lesi þessa pistla Eiðs. Mér finnst það ólíklegt. Sömu ambögurnar eru sí og æ teknar fyrir hjá honum og svo virðist sem enginn taki tillit til þess sem hann segir.

Eiður er auðvitað ekki stóridómur um málfar í fjölmiðlum, en enginn annar tekur á þessum málum opinberlega og lítil merki sjást um að fjölmiðlar bæti sitt ráð.

Jæja, ég hef engu að síður ánægju af þessum pistlum Eiðs og reyni að læra af þeim. Svo má, eins og ég nefndi, hafa nokkra skemmtun af undarlegheitum í skrifum fjölmiðlanna.

Hér eru óborganleg dæmi um sama atburðinn í nokkrum fjölmiðlum. Eiður dregur nokkurt dár af þeim í 1709. Molapistli sínum. Svo virðist sem fréttskrifararnir þekki ekki orðið kjölur og hver éti vitleysuna upp eftir öðrum eða þá að allir höfundarnir séu jafn glórulausir, nema hvort tveggja sé.

Ríkisútvarpið: "Louis Jordan fannst ofan á hvolfdum bát sínum ...

Morgunblaðið:... og fannst Lou­is loks, ofan á hvolfd­um bát sín­um ...

Stöð 2: „... að maðurinn hefði vaknaði við að bátinn hvolfdi og hann hafi haldið til uppi á öfugum bátnum síðan.“

Morgunblaðið, aftur: „... fannst Louis loks uppi á kilinum á hvolfdum bát sínum , ..... en áhafnarmeðlimir þýsks flutningaskips fundu hann.

Svona skrif eru grátbrosleg. Ég held að þetta og álíka rugl megi rekja til þess að þeir sem þarna skrifa hafi lítinn orðaforða sem helgast af afar litlum bóklestri. Sá sem ekki hefur vanið sig á mikinn bóklestur er yfirleitt slakur í skriftum, jafnt í skapandi skrifum sem öðrum.

Mér til gamans hef ég stundum klippt út undarlegar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Þessar eru með þeim broslegustu en af nógu er þó að taka:

  1. Salmann fær alvarlegar líflátshótanir [dv.is 3.4.2014)
  2. Látnir tína upp plastpoka (mbl.is 21.4.2008)
  3. Peningaþvætti gæti hafa farið fram hjá lögreglu (mbl.is 13.2.2009)
  4. Sigraði dómsmál vegna læknamistaka (visir.is 26.5.2009)
  5. Frumvarp ráðherra breyttist í þingnefnd (visir.is 8.12.2011)
  6. Hyldir barnarvagnar eru dauðagildrur (dv.is 7.7.2013)
  7. Eldfjöll af braut um jörðu (mbl.is 15.3.2015)
  8. Friðarhlaupið syndir yfir Hvalfjörðinn (mbl.is 11.7.2013)
  9. Tiger Woods virðist vel stefndur fyrir Masters (visir.is 6.4.2015)
  10. Snjóaði í fjöll í höfuðborginni (ruv.is 27.9.2014)

Því miður fann ég ekki langbestu fyrirsögnina í þessum flokki en ég man hana engu að síður. Hún kemur minnir mig úr visi.is og er svona:

Jón Gnarr breytir nafni sínu í Huston. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband