Ungur maður verður langaömmubróðir ...

FjöskyldumyndÉg var kornungur er ég varð móðurbróðir í fyrsta sinn. Svo varð ég föðurbróðir og eftir það sitt á hvað í langan tíma.

Þetta hefst upp úr því að eiga mörg systkini, sagði móðir mín, einhvern tímann, rétt eins og sökin væri mín en ekki hennar. Hún og faðir minn áttu nefnilega níu börn, fjórar dætur og fimm syni. Þetta var kallað barnalán og þótti ekkert tiltökumál í gamla daga, fólk hafi ekki sjónvarp eða einhver menningartengd fyrirbæri sér til dægrastyttingar svo það stundaði bara það sem leiddi af sér barnseignir eða þannig ...

Flest í lífinu kemur með kostum og köllum. Vandamálið hvað mig varðar er sú staðreynd að ég er örverpi, eins og börn sem eru langyngst eru stundum nefnd. Var „orpinn“ níu árum eftir að foreldrar okkar áttu að hafa lokið barnseignum sínum. Og það gerðist raunar fjórum árum áður en elsta systkinabarnið kom í heiminn. 

Auðvitað var ég afar stoltur að eignast stóran hóp systkinabarna sem auk þess voru svo nálægt mér í aldri að þau voru miklu frekar leikfélagar eða yngri systkin. Svona var nú lífið skemmtilegt. Áður en ég varð tíu ára voru systkinabörnin orðin átta og þeim átti eftir að fjölga um sextán áður en yfir lauk.

Þá byrjar auðvitað martröðin. Dag einn er ég orðinn afabróðir og svo stuttu síðar ömmubróðir. Þetta hélt svo áfram nær út í það óendanlega. Nú held ég að það séu um fjörtíu manns, allt stórglæsilegt fólk, sem kallar mig afa- eða ömmubróður. Mér var þetta í upphafi auðvitað til mikillar skapraunar enda enda enn ungur maður sem er að velta því fyrir sér hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Svo vandist þetta og varð að sæmdarheiti.

Svo varð ég sjálfur afi og allt lífið varð fagurt og gott. En vegurinn er aldrei beinn og breiður og raunar ætti ég að hafa áttað mig á því að í lífinu skiptast á góðar fréttir og aðrar sem eru ... tja, hvað á ég að segja, ekki eins góðar.

Auðvitað gat ég búist við þessu rétt eins og það rignir í Reykjavík, á eftir flóði kemur fjara, allar ár stemma að ósi, að loknum vetri kemur vor og eftir grátur verður oft hlátur. Maður er þó ekki undir svona lagað búinn, það skellur á eins og él úr útsuðri ... Þó var þetta bara rökrétt framhald á því að verða föður- eða móðurbróðir og afa- eða ömmubróðir.

Í gær varð ég sumsé langaömmubróðir ... úff. Og nú hef ég sagt þetta, komið þessu frá mér eins og alkóhólisti sem viðurkennir vanda sinn. Samt er ég enn ungur maður og veit alls ekki hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Raunar varð ég langaafabróðir í janúar á þessu ári en hélt því leyndu eins lengi og ég gat.

Systursonur minn sendi mér tölvupóst áðan ... og hló að mér um leið. Hann heilsaði langaömmubróðurnum með ísmeygilegum orðum og ég ég gat næstum því heyrt ískrandi hláturinn í honum. Ég svaraði honum og reyndi hvað ég tók að draga úr nýfenginni stöðu minni í tilverunni en auðvitað er það ekki hægt. Ættartengsl, hvaða nafni sem þau nefnast, eiga eins og ég nefndi að vera sæmdarheiti og ég er stoltur af stórfjölskyldu minni og ættum.

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Þannig orti Davíð Stefánsson og með sanni má segja að enginn stöðvar tímann. „Allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða ...“, orti Kristján Jónsson sem nefndur var Fjallaskáld.

Oft er manni ekki eins leitt og maður lætur. Hvað sem öllu líður er maður bara kátur með ættingja sína, assi kátur.

Myndin: Höfundur er þarna skælbrosandi fyrir miðju með afa, mömmu, tveimur systrum og þremur syskinabörnum: Sigfinnur afi Sigryggsson, Soffía Sigfinnsdóttir, Soffía systir og Þuríður systir (sem væri nú langaamma hefði hún lifað). Lengst til vinstri er Þórdís Arnljótsdóttir, þá Soffía Káradóttir (sem nú er amma) og Edda Arnljótsdóttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Til hamingju með titilinn "ungi" maður.

1997 var svona "reunion" í skólanum mínum.  20 ára.  Allir stóðu upp til að kynna sig og segja af barnaláni.  Sumir greindu frá allt að 6 börnum, en þá var komið að einum stráknum.  "Ég heiti Guðbjörn og ég er AFI."  36 ára gamall maðurinn.  Vafalaust orðinn langafi í dag, 54 ára, eða a.m.k. stutt í það.  Eftir þetta orð "afi", þá gat ekkert slegið honum við :-)

Marinó G. Njálsson, 21.4.2015 kl. 19:47

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið, Marinó. Svona er nú lífið, efniviður í fjölda sagna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.4.2015 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband