Sumardaginn fyrsti er tilbúningur, ekki náttúrlögmál

Sumardagurinn fyrsti markar upphaf vors en margir átta sig ekki á því að vor og sumar eru af sama meiði, rétt eins og haust og vetur. Samkvæmt skilningi forfeðra okkar hefst sumarið á vori, rétt eins og veturinn á hausti.

Vorið kom ekki á Íslandi í mars eða byrjun apríl. Það er óskaplega hvimleiður misskilningur þeirra sem komnir eru úr tengslum við veður landsins og láta sér duga að fylgjast með því út um stofu- eða bílglugga.

Tilgangslaust er að væla út af snjó á sumardaginn fyrsta. Nafnið sem þessi dagur ber er  tilbúningur og til þess að gera ófullkomin tímasetning miðað við gang náttúrunnar. Hann er aðeins viðmiðun. Gerist það, sem svo iðulega hendir, að það snjói á sumardaginn fyrsta eða frost sé á þeim degi eða síðar er það einungis gangur náttúrunnar og skýr merki um að við ættum að skoða stöðu landsins á hnettinum áður en farið er að agnúast út í það sem við höfum ekkert um að segja.

Smám saman losnar engu að síður um tök vetrarins og eftir því sem líður á maí mun sólin ná að verma landið og gróðurinn tekur þá við sér. Skipir þó litlu þó lítt sjáist til sólar, hnötturinn hallar undir flatt og áhrif hennar eru óumdeilanleg.

Þeim sem eru óhressir með ofangreindar skýringar get ég gefið tvö ráð. Annað hvort er að flytja til annarra landa þar sem veðráttan hugnast fólki betur eða halda áfram tilverunni á skerinu okkar.

Fyrir þá sem aðhyllast seinni kostinn bendi ég á að veðrið er oftast miklu skárra en það virðist þegar staðið er innan við stofugluggann.

Fjölmargir þeirra sem njóta útivistar halda því fram að veður sé fyrst og fremst huglægt ástand, síður raunverulegt. Um leið og fólk venst útiverunni kemur í ljós að veðrið á Íslandi er bara ágætt. Þetta heitir að lifa með því sem við höfum og getum ekki breytt. Það gerðu forfeður okkar og skyldum við ekki get gert það sama?


mbl.is Svona er Akureyri á 2. degi sumars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Þetta er náttúrulega alveg hárrétt hjá þér, en jafn-leiðinlegt samt, og ef laun eða réttara sagt kaupmáttur launa væri í takt við okrið á öllu hér á landi, þá liði fólki betur þá þegar það kemst reglulega til heitari landa í "mannsæmandi veður" til tilbreytingar.

En því miður er enginn afgangur til þess, og þess vegna líður fólki ekki vel með að "standa innan við stofugluggann" og stara út í hríðina....um há-sumarið.

Már Elíson, 24.4.2015 kl. 18:10

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Lifa bara með því sem við þó höfum, Már. Ganga út í hríðina og njóta hennar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.4.2015 kl. 21:57

3 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Þer er rétt að "vor og sumar eru af sama meiði, rétt eins og haust og vetur." Það er einnig rétt að "sumardagurinn fyrsti er tilbúiningur, ekki náttúrulögmál". 

En er það þá ekki að sama skapi  tilbúningur og ekki náuttúrulögmál að tala um að þessi umræddi dagur marki upphaf vors?  Jú, alla vega er ég þeirrar skoðunar.

Ég vil fara að dæmi Snorra Sturlusonar (sbr. Snorra-Eddu) og miða upphaf vors við fyrra jafndægrið (í  kringum 21. mars) og upphaf hausts við það síðara (í kringum 23. sept.), enda er það í samræmi við náttúrulögmálin, ekki satt (?!). 

Daníel Sigurðsson, 24.4.2015 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband