Fannst ofan á hvolfdum bát sínum ...

Nokkra skemmtun má hafa af illa skrifuðm fréttum í fjölmiðlum ... þó auðvitað sé miður hversu margir sem þar hamra á lyklaborð eru illa að sér í íslensku og það sem verra er, hafa lélega tilfinningu fyrir málinu.

Eiður Svanberg Guðnason, fyrrum fréttamaður, alþingismaður og ráðherra, heldur úti bloggi sem hann nefnir Molar um málfar og miðla. Í pistlum sínum tekur hann ótal dæmi um illa skrifaðar fréttir.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort fjölmiðlamenn lesi þessa pistla Eiðs. Mér finnst það ólíklegt. Sömu ambögurnar eru sí og æ teknar fyrir hjá honum og svo virðist sem enginn taki tillit til þess sem hann segir.

Eiður er auðvitað ekki stóridómur um málfar í fjölmiðlum, en enginn annar tekur á þessum málum opinberlega og lítil merki sjást um að fjölmiðlar bæti sitt ráð.

Jæja, ég hef engu að síður ánægju af þessum pistlum Eiðs og reyni að læra af þeim. Svo má, eins og ég nefndi, hafa nokkra skemmtun af undarlegheitum í skrifum fjölmiðlanna.

Hér eru óborganleg dæmi um sama atburðinn í nokkrum fjölmiðlum. Eiður dregur nokkurt dár af þeim í 1709. Molapistli sínum. Svo virðist sem fréttskrifararnir þekki ekki orðið kjölur og hver éti vitleysuna upp eftir öðrum eða þá að allir höfundarnir séu jafn glórulausir, nema hvort tveggja sé.

Ríkisútvarpið: "Louis Jordan fannst ofan á hvolfdum bát sínum ...

Morgunblaðið:... og fannst Lou­is loks, ofan á hvolfd­um bát sín­um ...

Stöð 2: „... að maðurinn hefði vaknaði við að bátinn hvolfdi og hann hafi haldið til uppi á öfugum bátnum síðan.“

Morgunblaðið, aftur: „... fannst Louis loks uppi á kilinum á hvolfdum bát sínum , ..... en áhafnarmeðlimir þýsks flutningaskips fundu hann.

Svona skrif eru grátbrosleg. Ég held að þetta og álíka rugl megi rekja til þess að þeir sem þarna skrifa hafi lítinn orðaforða sem helgast af afar litlum bóklestri. Sá sem ekki hefur vanið sig á mikinn bóklestur er yfirleitt slakur í skriftum, jafnt í skapandi skrifum sem öðrum.

Mér til gamans hef ég stundum klippt út undarlegar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Þessar eru með þeim broslegustu en af nógu er þó að taka:

  1. Salmann fær alvarlegar líflátshótanir [dv.is 3.4.2014)
  2. Látnir tína upp plastpoka (mbl.is 21.4.2008)
  3. Peningaþvætti gæti hafa farið fram hjá lögreglu (mbl.is 13.2.2009)
  4. Sigraði dómsmál vegna læknamistaka (visir.is 26.5.2009)
  5. Frumvarp ráðherra breyttist í þingnefnd (visir.is 8.12.2011)
  6. Hyldir barnarvagnar eru dauðagildrur (dv.is 7.7.2013)
  7. Eldfjöll af braut um jörðu (mbl.is 15.3.2015)
  8. Friðarhlaupið syndir yfir Hvalfjörðinn (mbl.is 11.7.2013)
  9. Tiger Woods virðist vel stefndur fyrir Masters (visir.is 6.4.2015)
  10. Snjóaði í fjöll í höfuðborginni (ruv.is 27.9.2014)

Því miður fann ég ekki langbestu fyrirsögnina í þessum flokki en ég man hana engu að síður. Hún kemur minnir mig úr visi.is og er svona:

Jón Gnarr breytir nafni sínu í Huston. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hinsvegar má velta fyrir sér hvort allir lesendur viti hvað kjölur þýðir ef blaðamenn vita það ekki. Þó að við séum með á nótunum þá er ekki víst að yngri kynslóðir þekki svona forneskjuleg orð. Allavega finnst mér skilningur ungs fólks á gömlum sígildum orðum stundum vera ansi takmarkaður.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.4.2015 kl. 11:24

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta helst í hendur, Emil Hannes. Illa skrifandi og illa skiljandi. Annars eru það vond örlög að vera kominn í þann hóp sem sífellt kennir unga fólkinu um versnandi aldarfar.

O tempora o mores, sagði Cicero, forðum daga. Orð sem hafa verið endurtekin á ýmsan hátt, í ýmsum myndum allt til þessa dags.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.4.2015 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband