Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Piparmynt og aðrar myntir

Í Staksteinum Morgunblaðsins fjallar höfundur um hugsanlega upptöku annarrar myntar í stað krónu. Hann segir meðal annars:

Enginn hafði sagt hagfræðingi né fréttamanni að vextir Seðlabanka evru eru nú -0,2%. Bankinn borgar sem sagt með lánum sem hann veitir! Og hvernig stendur á því. Það er vegna þess að kreppa er á evrusvæðinu, sem Landsbankinn myndi frétta af, sendi hann mann á svæðið á meðan tölvusamband bankans liggur niðri. Menn geta svo þráttað um það, hvort að kreppan sé vegna evru eða þrátt fyrir hana.

• • • •
Atvinnuleysi í evrulöndum er að meðaltali rúm 11% og nær 25% í allmörgum löndum. Atvinnuleysi fólks undir þrítugu er yfir 50% víða þar. Heldur einhver að atvinnuleysingjar séu að mæra lága vexti af því að þeir standi í húsbyggingum?

• • • •
Þessir snillingar ættu í snatri að taka upp piparmynt.

• • • •
Þeir blaðra þá minna rétt á meðan.

Margir eru spenntir fyrir því að taka upp krónu og tala fjálglega um lága vexti. Hugsanlegt er að slíkt geti fylgt til dæmis upptöku Evru eða annarrar myntar. Hins vegar eru efnahagslegar afleiðingar þær að þjóðfélag sem ekki býr við eigin mynt hefur ekki tök á að aðlaga sig í áföllum nema með atvinnuleysi.

Slíkar hliðarverkanir þykja sumum óásættanlegar því atvinnulaus maður borðar ekki fyrir mismuninn á háum og lágum vöxtum því tekjurnar vantar. Líklega fá margir óbragði í munninn við tilhugsunina en þá má auðvitað grípa til piparmyntar, hún kostar lítið.


Nú segjast Steingrímur og Árni Páll geta miklu betur en allir aðrir

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stjórnvöld hafi í dag búið til „þykjustumynd sem sýni gríðarháar fjárhæðir í stöðugleikaframlag, með því að telja til framlaga hluti sem eru ekki framlög í nokkrum skilningi.“
Þetta kemur fram í stöðufærslu á Facebook-síðu Árna Páls sem telur að með þeirri leið sem verið sé að fara við skuldaskil föllnu bankanna – að veita þeim undanþágu frá höftum að uppfylltum ýmsum stöðugleikaskilyrðum – sé verið að „gefa erlendum kröfuhöfum hundruði milljarða í afslátt af stöðugleikaskatti.

Þetta er endursögn dv.is af skoðun Árna Páls Árnasonar, þingmanni og fyrrverandi ráðherra í vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms. Honum ferst rétt eins og Birni hvíta Kaðalsyni sem frá segir í Njálu en hann þótti frekar grobbinn og lítt til stórræða.

"Svo mun þér reynast," sagði Björn, "að eg mun ekki vera hjátækur í vitsmunum eigi síður en í harðræðunum."

Þannig er nú með þá stjórnvitringa sem skipuðu lið vinstri stjórnarinnar að núna þykjast þeir eiga hugmyndir og frumkvæði og geta gert allt miklu betur en allir aðrir. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur unnið í tvö ár að vandamálum sem vinstri stjórnin skapaði og loksins er komin lausn þá standa þessir menn upp og hafa allt á hornum sér. Segjast geta gert miklu betur. 

Í dálknum Skjóðan í Fréttablaðinu í dag segir:

Þeir félagarnir [Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon] afhentu kröfuhöfum á þriðja hundrað milljarða með beinum gjafagjörningi á kostnað viðskiptavina bankanna tveggja. Síðan hefur skotleyfið skilað þessum bönkum um 50 milljarða hagnaði á ári hverju. Nú hefur slitastjórn Glitnis boðið gjöfina sem meginhluta af sínu stöðugleikaframlagi, bankann sem byggir verðmæti sitt á herför gegn viðskiptavinum sínum og eigum þeirra.

Hví fór ríkið ekki sömu leið með Arion banka og Íslandsbanka og farin var með Landsbankann? Hví voru fyrrnefndu bankarnir gefnir slitabúum ásamt skotleyfi á viðskiptavini í stað þess að gefið væri út skuldabréf milli nýja bankans og þess gamla (í krónum en ekki gjaldeyri!) líkt og gert var með Landsbankann?

Ekki verður séð að ráðherrarnir hafi haft umboð til að gefa eigur ríkisins og út frá nýlegu dómafordæmi Hæstaréttar getur vart leikið vafi á að um umboðssvik var að ræða. Raunar verður ekki betur séð en að þessi umboðssvik Steingríms J. og Gylfa gegn þjóðinni hafi verið mun alvarlegri en þau umboðssvik sem verið er að dæma menn í margra ára fangelsi fyrir í ýmsum hrunmálum.

Þetta er sá sami Steingrímur og ætlaði að keyra í gegn um Alþingi óséðan samning í Icesave-deilu Íslands við Bretland og Holland – samning sem hefði kostað þjóðina 200 milljarða hið minnsta. Já, ekki skorti ráðherrann örlæti gagnvart kröfuhöfum, jafnvel þegar um ólögvarðar kröfur var að ræða.

En nú lýsir hann áhyggjum sínum yfir fjárhæð stöðugleikaframlagsins, ráðherrann sem vildi gefa erlendum kröfuhöfum á fimmta hundrað milljarða þó að þjóðin hafi raunar náð að takmarka tjónið með því að hafna með öllu Icesave-samningum.

Er hægt að taka nokkurt mark á þeim sem klúðruðu bönkunum í hendur útlendinga. Eru þeir bestu mennirnir til að gagnrýna aðgerðir núverandi ríkisstjórnar? Ef til vill, en rökin þessara manna eru hvorki góð né traustvekjandi. Tími Árna Páls, Steingríms og Gylfa er liðinn ... sem betur fer.

 

 


mbl.is „Við settum kúluna í byssuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Cameron biðjast afsökunar á hryðjuverkalistanum?

Það er að sjálfsögðu ánægjuefni að forsætisráðherra Stóra-Bretlands, David Cameron, skuli koma til Íslands. Ef tilgangur hans er að bæta nágrannasambandið og taka samvinnu í þessum heimshluta alvarlega er koma hans af hinu góða. Án efa ætti hann að byrja á því að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að forveri hans í embætti, Gordon Brown, skyldi beita hryðjuverkalöggjöf gegn staðföstu bandalagsríki í bankakreppunni. Einnig gæti hann dregið til baka hina sérkennilegu ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að neita að taka þátt í loftferðaeftirliti NATO á norðurslóðum og að senda ekki eitt einasta skip flota hennar hátignar til að taka þátt í eftirlitsferðum þar á undanförnum árum.

Þetta er úr grein í Morgunblaði dagsins eftir Angus Brendan MacNeil, þingmann skoska Þjóðarflokksins á breska þinginu. Honum mælist vel og tekur þarna á þeim málum sem skipta miklu í samskiptum Íslands og Bretlands.

Íslenska þjóðin bíður enn eftir að Bretar biðjist afsökunar á að hafa skilgreint Ísland sem hryðjuverkaríki haustið 2008. Samskipti landanna geta aldrei orðið sömu fyrr Bretar geri sér grein fyrir því hversu ódrengilega og óheiðarlega var að verki staðið.

Eftir að hafa fylgst með breskum stjórnmálum í langan tíma tel ég nær útilokað að David Cameron taki upp á því fyrir hönd breskra stjórnvalda og þjóðanna að biðjast afsökunar. Bretar gera ekki mistök hversu heimskulegar gerðir þeirra eru.

Ekki einu sinni hálfsósíalistinn Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra gat um daginn beðist afsökunar á því er hann og ríkisstjórn hans drógu Breta inn í Íraksstríðið á fölskum forsendum. Hann sló í og úr eins hans er venja.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Angus Brendan MacNeil, þingamaður, og er ekki efi í mínum huga að Skotar muni reynast góður nágranni:

Ég man vel eftir heimsóknum ráðherra úr ríkisstjórn Verkamannaflokksins til Íslands þar sem þeir töluðu vinsamlega. Þegar þeir komu aftur til Lundúna var komið annað hljóð í strokkinn, því þá hreyktu þeir sér af því í fjölmiðlum að þeir hefðu krafist þess að Íslendingar endurgreiddu innistæðurnar.

Englendingar skilja fæstir önnur tungumál en ensku en Íslendingar skilja ensku og tóku eftir misræminu. Þetta varð til þess að prentaðir voru frægir t-bolir með myndum af þeim Brown og Darling. Svo fór að lokum að Ísland vann málið fyrir EFTA-dómstólnum. Nú vona ég að framkoma Lundúnastjórnarinnar verði betri. Sá dagur kemur að Skotland mun reynast Íslendingum betri nágranni.


Draumspakur maður spáir fyrir um vetrarveðrið

Draumspakur maður og fjölfróður hefur haft samband við þann sem hér lemur á lyklaborð og veitt upplýsingar um veðurfar vetrarins. Hann hefur oft spáð fyrir um veður, jarðskjálfta, eldgos, kvennamál og annars konar óáran hér á landi. Alltaf hefur hann haft rétt fyrir sér eins og lesendur muna án efa.

Þessi maður spáði fyrir um síðustu Heklugos, gosið á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, norðvestlægu lægðirnar sem kældu landið frá síðustu áramótum og langt fram á sumar, sagði til um útbreiðslu Spánarsnigilsins, spáði FH-ingum Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta og fleira mætti upp telja. Að vísu var hann í nokkrum tilfellum heldur seinn að tilkynna mér um spár sínar en þá, merkilegt nokk, höfðu þær ræst - undantekningalaust.

Sá draumspaki veit lengra en garnir og fleiri innyfli annarra spákarla og -kerlinga ná. Því er vissara að leggja við eyrun ... í þessu tilviki, glenna upp glyrnurnar.

September: Frekar vætusamt og leiðinlegt.

Október: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar í fjöll og á láglendi norðanlands og austan. Fyrsta snjókoman suðvestanlands verður laugardaginn 24. október.

Nóvember: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar víða um land, annars staðar ekki, víða mun rigna þegar ekki snjóar. Snjó tekur upp þegar hlýnar. Slydda af og til suðvestanlands en auð jörð á suðurlandi nema þegar snjóar. Hitastigið mun rokkar upp og niður. Frekar kalt verður þegar frystir. Þegar vindur blæs getur orðið hvasst.

Desember: Meiri líkur á snjókomu eftir því sem líður á mánuðinn. Ef ekki mun rigna, þó aldrei í frosti. Þegar snjóar verður það sjaldnast þegar hitastig er hátt. Sólin verður lágt á lofti en það lagast eitthvað eftir 21. desember. Að næturlægi verður frekar dimmt.

Janúar: Miklar líkur eru á að kalt verði í janúar. Allan mánuðinn verður frost á Eyjafjallajökli. Kalt verður í norðlægum áttum en síður er vindur blæs af suðri. Í norðaustanáttum er hætta á snjókomu norðanlands. Snjóflóð verða þar sem hlíðar eru brattar nema þar sem ekkert hefur snjóað.

Febrúar: Kalt verður allan mánuðinn nema þegar hlýtt er. Sundum mun rigna þó ekki í þegar snjóar. Hætt er við hálku þegar kólnar eftir rigningu. Norðurljósin munu sjást vel einkum að næturlagi þegar skýjafar er í lágmarki.

Mars: Í lok mars veður bjartara en í byrjun nema að næturlægi. Frekar kalt verður allan mánuðinn en þó verða nokkrir dagar hlýrri en aðrir. Stundum mun sjást til fjalla, einkum í heiðskíru veðri.

Apríl: Kalt verður í apríl nema þegar hlýrra verður. Hlýjast verður alltaf sunnan megin fjalla og einnig undir húsveggum sem snúa í suður. Húsaflugur lifna við. Fjölmiðlar fara að ræða um páskahret og vorhret sérstaklega þegar lítið er í fréttum. Vorið getur verið kalt verði það ekki hlýtt og sólríkt.

Að lokum sagðist sá draumspaki vera með stórfrétt. Ólafur Ragnar Grímsson verður ekki forseti út árið 2016.

 


mbl.is Búist við mildum vetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna gónir svo náunginn í nepjunni ...

MagniHversu latir geta ferðamenn verið? Myndin sem fylgir frétt af málarekstri milli þyrlufyrirtækja vakti athygli mína. Hún er tekin af hinum frábæra ljósmyndara Morgunblaðsins, Árna Sæberg. Frekar dapurleg mynd.

Á myndinni hefur þyrla tyllt sér á eldfellið Magna á Fimmvörðuhálsi og út gekk útlendur ferðamaður með sólgleraugum í mittisjakka, gallabuxum og lakkskóm. Ekki beint tilbúinn til útiveru. Þarna gónir svo náunginn í nepjunni á umhverfið, með hendur í vösum og verður án efa guðslifandifeginn að komast aftur inn í þyrluna, engu nær. Gortar svo af því að hafa staðið á íslensku eldfjalli.

Hversu miklu tilkomumeiri hefðu upplifun mannsins ekki verið hefði hann komið gangandi að eldstöðvunum, að norðan eða sunnan, skiptir ekki máli, þetta er rosaleg sjón (breathtaking hefði lati kallinn sagt).

Sem betur fer er snjór yfir öllu, þó hann festist ekki á eldfellinu, og því án efa fátt um göngumenn. Líklegast hefðu þeir grýtt þyrluna fyrir að lenda þarna, að minnsta kosti látið flugmanni heyra það óþvegið.

Svona er ferðaþjónustan ... Við þessu er lítið að gera nema hvetja þyrlufyrirtækin til að taka tillit til ferðafólks á jörðu niðri. Hávaðinn í þessum tækjum er nefnilega gríðarlegur.


mbl.is Helicopter of almennt orð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einkavæðing bankanna ástæðan fyrir hruninu?

Það leggur okkur ríkar skyldur á herðar ef að Íslandsbanki færist í hendur ríkisins, sérstaklega þegar við völd situr ríkisstjórn þeirra flokka sem eiga Íslandsmet, kannski Evrópumet eða heimsmet í spillingu við sölu ríkisbanka.

Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður, fyrrum ráðherra og sem stendur formaður Samfylkingarinnar, í umræðum á Alþingi 20. október 2015.

Þegar rök þrýtur gera margir eins og tíðkast í athugasemdardálkum fjölmiðla, láta leirinn vaða, kasta skítnum í allar áttir. Illa gert fólk heldur nefnilega að upphafning sjálfsins byggist á því að niðurlægja aðra. Með því er málefnaleg umræða horfin og ekkert eftir nema ómerkilegur sandkassaleikur.

Stuttu eftir hrunið var mikið um það rætt að breyta pólitískri umræðuhefð hér á landi, láta af illdeilum og nota málefnaleg rök í staðin. Vont að Árni Páll Árnason taki slíkar breytingar ekki í mál.

Úr því að formaður Samfylkingarinnar tekur ekki sönsum en spriklar í gamalli skítlægri umræðuhefð er ekki úr vegi að skoða enn einu sinni staðreyndir um einkavæðingu bankanna.

Spurningin er þessi: Var einkavæðing bankanna ástæðan fyrir því að þeir fóru á hausinn og voru þar með valdir að hruninu?

1.

Ein mikilvægasta stofnun Alþingis er Ríkisendurskoðun. Munum að hún lýtur ekki framkvæmdavaldinu heldur löggjafarvaldinu. Enginn getur haldið því fram með neinum rökum að stofnunin sé vasanum á stjórnvöldum á hverjum tíma og framleiði fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Hún nýtur einfaldlega óskoraðs sjálfstæðis og fer vel með það. 

Í Desember 2003 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þetta er afar merkileg skýrsla og raunar sú eina sem gerð hefur verið á einkavæðingu bankanna. 

Enginn hefur gagnrýnt úttektina. Það sem merkilegra telst er að þeir sem hafa hnýtt í einkavæðingu bankanna gera það ekki með rökum úr skýrslunni. Jafnvel Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, getur ekki stuðst við eitt einasta orð í skýrslu Ríkisendurskoðunar í ásökunum sínum um spillingu og hann reynir það ekki einu sinni. Frekar notar hann frumsamdar ávirðingar sem auðvitað styðjast ekki við sannleikann.

2.

Jú, bankarnir féllu, en var það vegna þess að þeir höfðu verið einkavæddir? Margir halda því fram.

Það gleymist þó að Glitnir var ekki ríkisbanki og hafði aldrei verið, ekki heldur forverar hans. Hann var stofnaður sem Íslandsbanki árið 1990 en ári áður höfðu einkabankarnir Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands

Var þá hrunið vegna einkavæðingar tveggja ríkisbanka? Í áðurnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar voru engar athugasemdir gerðar vegna þessa þó hún segi að um sölu á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands:

 „... verði að teljast óheppilega. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Þetta er eiginlega það bitastæðasta sem Ríkisendurskoðun hafði um einkavæðinguna að segja. Engin spilling fannst, ekkert tortryggilegt annað en þetta með dreifða eignaraðild. Engu að síður voru um 32% Landsbanka Íslands í eigu annarra en tíu stærstu hluthafanna.Þvert á þetta talar Árni Páll Árnason um heimsmet í spillingu vegna einkavæðingar. Varla verður fátt um svör þegar hann er spurður um rökin fyrir fullyrðingu sinni. Sumir eru vanir að tala sig út úr vandræðum.

3.

Einkavæðing bankanna var eðlilegur þáttur í framþróun þjóðfélagsins. Fyrirkomulagið sem gilti áður var gjörsamlega gagnslaust. Ekki nokkur maður með viti vill fara aftur til þeirra ára er þingmenn sátu í bankaráðum og bankastjórar voru skipaðir pólitískt.

Um leið ættu allir að vita að bankar eru í einkaeigu víðast um öll lönd, engin krafa hefur verið gerð um breytingar á því fyrirkomulagi. Vandinn í bankarekstri, eins og í öðrum rekstri, er að misjafn sauður er í mörgu fé. Einkavæðing bankanna mistókst ekki, en þeir sem eignuðust þá og ráðandi hluti í þeim fóru með þá á hausinn. Svo einfalt er málið.

Það tíðkasta að tala um spillingu jafnvel gjörspillingu, sérstaklega í stjórnkerfinu ef ekki líka á Alþingi. Þannig tala aðeins rökþrota fólk sem reynir með öllum ráðum að upphefja sjálft sig. „Nei, ég er sko ekki spilltur það eru allir hinir sem eru vondir og spilltir.“

Einkavæðing ríkisbankanna tveggja var ekki ástæðan fyrir hruninu. Ekki frekar en það sé bílaframleiðandanum Toyota að kenna að ökumaðurinn í Yaris bílnum var fullur og olli stórslysi. Sé svo er öllu snúið á hvolf, rangt verður rétt og rétt verður rangt. Haldi Árni Páll Árnason slíku fram þá er það aðeins tímabundin skoðun.

 


Þögn um einkavæðingaráform fjórflokksins í borgarstjórn

FrettablaðiðSetjum nú sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn væri í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Ímyndum okkur jafnframt að fulltrúar hans myndu segja si svo:

Á mörgum stöðum í borginni eru leikskólar, skólar og frístundaheimili á sama blettinum og kannski ekki hagkvæmt að vera með fullbúin eldhús að framleiða mat á öllum þessum stöðum.

Allir vita að um leið og þessi tillaga er lögð fram munu koma hávær mótmæli frá Samfylkingunni, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, en þetta er einmitt fjórflokkurinn hinn eini og sanni, sá sem í raunveruleikanum myndar meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Og forkólfar hans munu segja eitthvað á þessa leið:

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu: Hér er enn og aftur verið að vildarvinavæða rekstur borgarinnar og nú hjá þeim sem minnst mega sín, börnunum í leik- og grunnskólum.

Sóley Tómasdóttir, Vinstri græn: Einkavæðing í mat fyrir leikskóla og grunnskóla borgarinnar mun hafa ófyrirséðar afleiðingar á heilsufari barna.

Björn Blöndal, Björt framtíð: Við mótmælum einkavæðingunni vegna þess að hún mun bitna á börnunum.

Halldór Auðar Svansson, Pírötum: Hér er ekki verið að hugsa um börnin, bara fjármál borgarinnar.

Í kjölfarið mun svo fylgja fjölmiðlafár af besta tagi; viðtöl við þessi fjögur, viðtöl við næringafræðinga, skólastjórnendur í nágrannalöndunum, presta, félagafræðinga, sálfræðinga, stjórnmálafræðinga, foreldra af réttu tagi og fleiri og fleiri gáfumenni sem öll munu með fjölbreyttum rökum leggjast gegn einkavæðingu á mat fyrir leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. Gott ef Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, muni ekki blanda sér í umræðuna með háværum hætti eins og honum er best lagið.

Látum nú sögunni lokið og tökum á raunveruleikanum.

Í Fréttablaðinu í dag er forsíðufrétt og er fyrirsögnin þessi: „Skoða útvistun og sameiningu mötuneyta“. Í henni kemur fram að spara megi allt að hálfan milljarð króna sé þjónustan boðin út.

Til að óbreytt almúgafólk skilji ofangreint er nauðsynlegt að taka það fram að orðið „útvistun“ er snyrtilegt og huggulegt orð fyrir einkavæðingu.

Formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur er samfylkingarmaðurinn Skúli Helgason. Í frétt blaðsins segir:

Á mörgum stöðum í borginni eru leikskólar, skólar og frístundaheimili á sama blettinum og kannski ekki hagkvæmt að vera með fullbúin eldhús að framleiða mat á öllum þessum stöðum.“ Skúli bætir við að einnig sé erfitt að sumum stöðum að manna stöður í mötuneytunum og sameining eða útvistun gæti verið lausn á þeim vanda.

Hér er komið að rúsínunni í pylsuendanum. Þrátt fyrir forsíðufrétt í Fréttablaðinu um hugmyndir um einkavæðingu á þjónustu borg er engin umræða um hana. Hávær þögn í þeim stjórnmálaflokkum og fylgjendum þeirra sem í dag fordæma hugsanlega ríkisvæðingu Íslandsbanka.

Þögn.

 


Svandís, ertu hætt að drekka áfengi á þingfundum?

Hvers vegna enda allar kjaraviðræður sem hæstvirtur ráðherra ber ábyrgð á í illdeilum?

Þessa spurningu bar Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna og fyrrum umhverfisráðherra, fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún var að ræða um kjaraviðræður og stöðuna í þeim og spurningunni var beint til Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eftir hrunið komu fram háværar raddir um að breyta þyrfti umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum, taka málefnalega á hlutum, hætta persónulegum árásum og illdeilum. Ég man ekki betur en að Svandís Svavarsdóttir hafi verið hlynnt þessu, það getur hins vegar verið misminni enda bendir ofangreind spurning úr fyrirspurnartíma á Alþingi ekki til þess.

Þeir sem fylgjast með umræðum á Alþingi átta sig á einni mikilvægri staðreynd. Harðir andstæðingar ríkisstjórnarinnar leita allra ráð til að berja á ríkisstjórninni, ekki málefnalega heldur persónulega á einstökum ráðherrum og þingmönnum.

Þessi pólitík er hreinlega ógeðsleg og segir meira um þá sem hana iðka en hina sem fyrir verða. Tilgangurinn er auðvitað að stuðla að pólitískri aftöku.

Fyrir Svandísi Svavarsdóttur, þingmann og fyrrum ráðherra, hefði verið málefnalegra að ræða kjaramálin á lausnamiðuðum forsendum. Ef til vill er það til of mikils mælst en það er engu að síður sjálfsögð krafa.

Svandís spurði svo í áðurnefndum fyrirspurnartíma eitthvað á þessa leið: „Hvað er það í kröfum þessara stéttarfélaga sem efnahags- og fjármálaráðherra telur ósanngjarnt?“

Á móti má spyrja álíka gáfulegrar spurningar: Svandís, ertu hætt að drekka áfengi á þingfundum?

Báðar þessar spurningar eru fram settar til að gera lítið úr viðmælandanum. Í báðum tilfellum má draga illgjarnar ályktanir af svörunum.

Svona trix eru ef til vill boðleg í ræðukeppnum í menntaskóla en ekki á Alþingi og svona framkoma er Svandísi Svavarsdóttur, alþingismanni, síst af öllu til sóma.

Auðvitað getur þaulreyndur þingmaður kjaftað sig út úr þessari gagnrýni minni og þóst koma af fjöllum þegar hún er sökuð um ómálefnalega framkomu.

Hitt mun hún þó aldrei geta skýrt, hversu mikið sem hún masar. Hún hefur ekki lagt fram neina lausn á þeim kjaradeilum sem nú standa yfir. Að minnsta kosti ekki þannig lausn sem hún hefði samþykkt þegar hún var sjálf ráðherra í ríkisstjórn Íslands.


Markmaður heldur ekki markinu hreinu, nema hann sé einn í liði

BoltiTékkneski markvörðurinn Petr Cech sem leikur með Arsenal náði merkum áfanga þegar hann hélt marki sínu hreinu í leik Arsenal gegn Watford í gær. Cech hélt þá marki sínu hreinu í 171. sinn og varð þar af leiðandi sá markvörður sem hefur haldið marki sínu oftast hreinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Ofangreinda vitleysu má lesa í frétt mbl.is. Má vera að Pétur hinn tékklenski hafi leikið í 171 mínútu án þess að fá á sig mark. Hins vegar er útilokað að hann hafi haldið marki sínu hreinu „í 171. sinn ...“ eins og segir í fréttinni. Svo marga leiki hefur hann ekki leikið með Arsenal enda nýkominn til liðsins frá Chelsea þar sem hann sannarlega fékk á sig nokkur.

Svo er það hitt. Í einu fótboltaliði á leikvelli eru ellefu menn í einu. Þeir verjast og sækja eftir því sem kostur er. Vilji svo til að liðið skori mark er það framtak ekki að öllu leyti þeim að þakka sem síðastur samherja sparkar boltanum í áttina að markinu, nema hann sé einn í sínu liði, sem aldrei gerist.

Sé liðið svo heppið að fái ekki á sig mark er það ekki að öllu leyti markmanninum að þakka nema því aðeins að hann hafi engan samherja á vellinum, sem aldrei gerist.

Þar af leiðandi er rangt að hampa einum einstaklingi í fótboltaliði framar öðrum. Liðsheildin skiptir öllu máli. Boltinn færist fram á völlinn milli samherja, oft tilviljunarkennt en líka samkvæmt ákveðnu kerfi. Að lokum þarf einhver einn að pota í boltann svo hann fari yfir marklínuna. Fátítt er að tveir menn eða fleiri sparki boltanum samtímis í netið, raunar hefur það aldrei gerst nema kannski í gamla daga fyrir framan bílskúrshlera í Hlíðunum.

Markmaður er fjarri því einn. Fyrir framan hann eru tíu samherjar. Þeir eiga sinn þátt í því að hann fær ekki á sig mark og jafnvel má kenna þeim um skori andstæðingarnir mark.

Þess vegna er það einfaldlega rangt að Petr Cech, markvörður hins ágæta enska fótboltaliðs, sem ég hef haldið með frá barnæsku, hafi haldið mark sínu. Síst af öllu í 171 skipti eins og skilja má af frétt mbl.is.

Utan vallar gengur íþróttin út á að hossa og hampa einstaklingum í liði rétt eins og samherjarnir skipti engu máli. Vissulega eru samherjarnir misjafnir að getu og dagsformið er misjafnt. Fjölmiðlarnir lifa þó á svona fréttamennsku


mbl.is Cech hefur oftast haldið markinu hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veljum betri stað fyrir nýjan Landspítala

nyr_landsspitali_498x230Nýr Landspítali mun gjörbreyta ásýnd Skólavörðuholts, gera það ljótt og ómanneskjulegt. Þar er verið að búa til borgarvirki mitt í grónu hverfi. Hugsandi fólk veltir því óhjákvæmilega fyrir sér hvað þurfi að gera þegar borgaryfirvöld og ríkisvald velja stað fyrir spítalann.

Hér eru nokkur atriði:

  1. Fellur skipulagið inn í umhverfið sem fyrir er? Svar: Nei
  2. Eru verður skipulagið til bóta? Svar: Nei!
  3. Er skipulagið fallegt fyrir borgarbúa? Svar: Nei!
  4. Mun skipulagið hafa góð áhrif til framtíðar? Svar: Nei!
  5. Er almenn ánægja með skipulagið? Svar: Nei!

Ég styð áskorun samtakanna um Betri spítala á betri stað. Þau hafa birt heilsíðu auglýsingu í dagblöðum þar sem skorað er á Alþingi og ríkisstjórn að finna Landspítalanum betri stað. Samtökin eru með ágæta vefsíðu sem áhugavert er að skoða.

Undir auglýsinguna skrifar margt gott og vandað fólk, til dæmis læknar, hjúkrunarfræðingar, hagfræðingar,lyfjafræingar, iðnaðarmenn, viðskiptafræðingar, verkfræðingar, sölumenn, sjúkraþjálfarar, námsmenn, skrifstofufólk, arkitektar, húsmæður og fleiri og fleiri. Sem sagt, þverskurður af þjóðfélaginu.

Textinn í auglýsingunni er sannfærandi (þó hann sé frekar fljótfærnislega skrifaður). Hann er svona (ég leyfði mér að laga örlítið uppsetninguna, stöku villur og nota feitletrun):

Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala fræa grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.

Skorað er á stjórnvöld að láta gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti.

Meðal þess sem þarf að skoða og meta er eftirfarandi:

    1. Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður „bútasaumaðs“ spítala við Hringbraut vs. nýs spítala á betri stað
    2. Áhirf hækkandi lóðaverðs í miðbænum
    3. Umferðarþungi og kostnaður við nauðsynleg umferðarmannvirki
    4. Heildar byggingartími
    5. Ferðatími og ferðakostnaður notenda spítalans eftir staðsetningum
    6. Hversu aðgengilegir bráðaflutningar eru með sjúkrabílum og þyrlum
    7. Hversu góð staðsetningin er miðað við byggðaþróun til langs tíma litið
    8. Áhrif betra umhverfis og húsnæðis á sjúklinga og starfsfólk
    9. Minnkandi vægi nærveru spítalans við háskólasvæðið eftir tilkomu Internetsins
    10. Mikilvægi þess að geta auðveldlega stækkað spítalann í framtíðinni því notendum hans mun stórfjölga næstu áratugi.

Samtök áhugafólks um Betri spítala á betri stað vilja, eins og meirihluti landsmanna, að byggður verði nýr spítali á besta mögulega stað. Með því vinnst margt.

    1. Það er fjárhagslega hagkvæmt því selja má núverandi eignir sem losna, þörf fyrir umferðarmannvirki verður minni og árlegur kostnaður lægri. Núvirt hagræði er yfir 100 milljarðar króna.
    2. Það er fljótlegra að byggja á opnu aðgengilegu svæði.
    3. Umferðarálag minnkar í miðbænum. Það verða um 9.000 ferðir að og frá sameinuðum spítala á sóllarhring þar af 100 ferðir sjúkrabíla og 200 í toppum og því þarf hann að vera staðsettur nær miðju framtíðar byggðarinnar.
    4. Gæði heilbrigðisþjónustunnar vaxa og batahorfur batna. Gott húsnæði og fallegtumhverfi flýtir bata sjúklinga og eykur starfsánægju og mannauðurinn vex og dafnar.
    5. Aðgengi notenda batnar og ferðakostnaður lækkar. Því styttri og greiðari sem leiðin er á spítalann fyrir sjúkrabíla, þyrlur og almenna umferð, því betra.
    6. Góðir stækkunarmöguleikar eru gríðarlega verðmætir. Notendum spítalans mun stórfjölga á næstu áratugum og fyrirséð að hann þarf að stækka mikið.
    7. Allt að vinna og engu að tapa. Þó búið sé að eyða 3-4 milljörðum í undirbúning fyrir Hringbraut margborgar sig að byggja nýjan spítala frá grunni á besta mögulega stað og hluti undirbúnings nýtist á nýjum stað.

 

Myndin er af síðunni Arkitektur og skipulag.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband