Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

20 milljón króna munur á íbúðaláni í Noregi og Íslandi

Var að fá bréf frá bankanum mínum í Noregi sem ákvað að lækka vextina á húsnæðisláninu mínu í þriðja skipti síðan í apríl, að þessu sinni niður í 2.15% óverðtryggða breytilega vexti. Sambærilegt húsnæðislán í Landsbankanum er á 7% vöxtum.

Þannig skrifar Sigurður Ragnar Eyjólfsson á Facebook síðu sína fyrir hálfum mánuði. Frétt á dv.is í  dag vekur athygli færslunni.

Þetta eru auðvitað stórmerkilegar staðreyndir og Sigurður fór í nokkra útreikninga og heldur áfram (feitletranir og greinaskil eru undirritaðs):

Segjum að lánsupphæðin sé 20 milljónir til 25 ára, þá verður mánaðarleg greiðsla 141.476 kr á Íslandi en 87.603 kr í Noregi, munar semsagt 53.873 kr á mánuði á afborguninni.

En í Noregi myndirðu reyndar fá 9.850 kr endurgreiddar frá skattinum (27% af vaxtargreiðslum ársins eru endurgreiddar til fólks í Noregi) svo í raun munar um 63.000 krónum á mánuði á mánaðarlegri afborgun eða um 756.000 krónum á ári eða 18.9 milljónum á þessum 25 árum.

Lántökugjaldið á Íslandi er svo miklu hærra en í Noregi. Það má því segja að miðað við vaxtastig landanna í dag þá er 20 milljón króna lán til 25 ára 19 milljón krónum dýrara á Íslandi en í Noregi.

Þessi munur er að sjálfsögðu ekki í lagi. Að fólki er þjarmað með ofurvöxtum og kostnaði sem hinn almenni launamaður á ekki nokkra möguleika á öðru en að láta yfir sig ganga. Þetta er eins og að glæpamaður gangi í skrokk á skuldaranum.

Svona er ekki hægt að reka þjóðfélag. Hér er þetta annað hvort í ökkla eða eyra. Ein kynslóðin naut þess að húsnæðisskuldir hennar brunnu upp í verðbólgubálinu, hrunið eyðilagði fjármál fyrir fjölda fólks og svo er það bannsett verðtryggingin.

Framundan er svo enn ein kollsteypan. Laun stórhækka á fjölmörgum þjóðfélagshópum sem klappa saman lófunum í fögnuði en sex mánuðum síðar verður allt komið út í verðlagið, skattar hækka, lánakjörin stórhækka. Tuttugu milljón króna munur á húsnæðislánum í Noregi og Íslandi verður þá líklega 30 milljónir. Ekki aðeins eru stjórnmálamenn snargalnir heldur líka bankarnir og samtök launþega.

Var einhver að tala um samfélagssáttmála? 


Þingheimur er ekki lengur neitt úrval þjóðfélagsins

Því miður hefur sú þróun orðið ansi hröð undanfarna tvo áratugi - kannski lengur - að það fólk sem velst til setu á þingi, er alls ekki neitt úrval þjóðfélagsins, síður en svo, hvorki að vitsmunum né yfirsýn.

Þessi ágætu orð skrifar Þorkell Guðbrandsson í athugasemdadálk í bloggi hjá Ómari Ragnarssyni. Sá síðarnefndi skrifar um ökuskírteini en fólk yfir sjötugu þarf að endurnýja það á tveggja ára fresti. Ómar er flugmaður og þarf að fara í læknisskoðun tvisvar á ári til að halda skírteininu. Þorkell er með réttindi til að stýra skipi og til þess þarf ítarlegra vottorð en til að aka bíl.

Þetta er nú bara aukaatriði. Mér fannst Þorkeli mælast afar vel þegar hann talar um þingmenn. Ég er honum fyllilega sammála og finnst hörmulegt að til þingmennsku veljist alltof sjaldan hinir mætustu menn af viti og/eða yfirsýn. Ef til vill hefur það aldrei verið þannig.

Vitsmunir eru líklega meðfæddir en sniðugir menn geta hugsanlega falið gáfnaskortinn með hávaða, kjaftagangi og yfirklóri, sem er hugsanlega bara gáfumerki. Yfirsýnin er þó afar nauðsynleg og það þarf ekki nema meðalmann í gáfum til að rísa upp af láglendinu, tileinka sér víðan sjóndeildarhring og halda um leið stillingu sinni og hafa hemil á masinu. Gáfan byggist þó á því að sá sem í hlut á vilji geri sér grein fyrir þessu og hafi vilja til að bera.

Oft finnst mér að þeir sem setjast á þing tileinki sér nýtt fas og talsmáta, telji sig hafa höndlað alheimsviskuna, viti allt, geti allt og standi okkur almenningi um allt framar. Ég dreg þessa ályktun af því að hafa lengi fylgst með stjórnmálum. Oft sest ég niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með umræðum á þinginu. Og drottinn minn dýri, þvílíkt kjaftæði og bull sem oft má sjá þar en til að vera sanngjarn og fara með rétt mál hefur maður oft orðið vitni af afar góðum umræðum.

Áhorfendur taka eftir að fjöldi þingmanna kemur í ræðustól og talar blaðalaust. Fæstir kunna hins vegar að segja frá, enn færri eru góðir sögumenn og þaðan af síður góðir ræðumenn. Þeir eru til sem bókstaflega gapa í stólnum, vita ekkert hvað þeir eru að gera, fletta í heimildum, tafsa, masa og mala án þess að koma nokkurn tímann að aðalatriði máls og jafnvel er það til að ræðumaður hætti ítrekað að tala í miðri setningu. Þeir sem koma með undirbúna ræðu eða góða punkta til að styðjast við eru margfalt betri.

Svo er það röksemdafærslan, málefnalega umræðan. Hún er varla til. Moldrykinu er þyrlað, hangið í bjánalegum og órökréttum slagorðum sem engu geta skilað enda til þess ekki stofnað.

Reglu þingsins leyfa alls kyns umræður undir ýmis konar formerkjum svo sem athugasemdum sem margir nýta til málþófs eða annarra leiðinda.

Svo er það keppni þingmanna um að koma sér að í fjölmiðlum, vitna í eigin orð; „... eins og ég benti á í ræðu minni á þingi fyrir síðustu jól ...“ eða „... ég bendi bara á það sem ég sagði í blaðagrein/ræðu/bók ...“.

Eina reglu tel ég mig hafa fundið eftir allan þennan tíma. Hún er svona:

Því meir sem þingmaður hækkar röddina því minni vitsmunir búa að baki og að auki tilfinnanlegur skortur á þekkingu og yfirsýn. 

Skynugir lesendur með meðalgreind en þokkalega yfirsýn átta sig án efa á því að reglan er eiginlega algild, á ekki aðeins við um þingmenn.


Með haustak á Tyrkjum eða hauspoka eftir leik

HauspokiÍslend­ing­ar hafa haft gott tak á Tyrkj­um en þjóðirn­ar eig­ast við í 9. sinn í Konya í kvöld. Íslend­ing­ar hafa unnið fimm af leikj­un­um átta, Tyrk­ir einn og tví­veg­is hef­ur jafn­tefli orðið niðurstaðan. Stærsti sig­ur Íslands leit dags­ins ljós árið 1991. 5:1 urðu loka­töl­urn­ar á Laug­ar­dals­vell­in­um þar sem Arn­ór Guðjohnsen skoraði fjög­ur mörk.

Þetta segir Mogginn í dag um leik Tyrklands og Íslands í kvöld undir fyrirsögninni: „Með gott tak á Tyrkjum“.

Er ég einn um þá skoðun að úrslit gamalla landsleikja, meðal annars frá þeim tíma er landsliðsmenn beggja liða voru smástrákar, hafi engin áhrif á leikinn í kvöld? Raunar finnst mér það tóm vitleysa að halda slíku fram nema að um haustak sé að ræða en þá má velta því fyrir sér hver haldi hverjum og hvar.

Þetta er eins og fréttaflutningurinn af Eurovision söngakeppninni. Árlega er gerður afar góður rómur af blaðamannafundi íslensku flytjendanna og fá þeir svo osssssalega mikið klapp frá blaðamönnum ... Fyrir vikið eru allir rosalega bjartsýnir og jafnvel er farið að pæla í stað í Reykjavík til að halda keppnina á næsta ári. Svo er niðurstaðan yfirleitt sextánda sætið eða eitthvað lakara. Hafi enginn áttað sig á staðreynd mála þá ráðast útslitin í söngvakeppninni ráðast nebbbbnilega ekki á blaðamannafundi fyrir keppni.

Sama er með fótboltaleiki. Þeir ráðast ekki af einhverri hefð ... úrslitin í leik Hollands og Íslands í síðasta mánuði er glöggt dæmi um slíkt. Fótboltaleikur byggir á einu einföldu atriði, að koma boltanum oftar í mark andstæðinganna en þeim tekst. 

Þrátt fyrir ágæti íslenska landsliðsins verður við ramman reip að draga úti í Tyrklandi, jafnvel skiptir litlu þó þjálfarar okkar og fyrirliði liðsins hafi staðið sig vel á blaðamannafundi. 

Vonandi gengur landsliðinu vel í leiknum, þurfi ekki að hverfa af velli með hauspoka af því að góða takið á Tyrkjum hélt ekki, eða þannig.

Teikningin er af vef Sander Bultman.


Samúðarkveðjur frá félögum lögbrjóta

LöggaBorist hefur svofelld ályktun frá Félagi glæpamanna og óknyttapilta (ekki stúlkna):

Löggurna á höfuborgasvæinu hafa fengið flenzu. Okkur finsta áhygguebni. Við horfum alltaf á frammtíðinna og þess vegna eru staðreindir einfaldar ef við myndum vinna eins og við gerum daglea og auga afköstinn væri það löggunni bara til haggsbóta löggan fengi bara hærri laun og kæmi fýlebld til baka og endurnærð. Það væri nú ekki gott.

Þess vegna höfum við ákveðið að taka okkur frý fram á mánudagsmorgun. Almeningi er því óhætt að hafa hús sín ólæst þessa helgi, skilja verðmæti eftir, helst á stofuborðinu. Plís, raða skipulega. Svo væri vel þegið að sjónvörp, hljómflutninngsgræur og tölfur séu ekki í sambandi þegar engin er heima. Svo óskum við lögguni góðs bata.

Gulli glæpur, fyrir hönd Félagi glæpamanna og óknyttapilta (ekki stúlkna).

Einnig hefur borist sameiginleg ályktun frá Samtökum hraðakstursmanna, Landsamtökum umferðalagabrjóta og Félagi Ökumanna undir áhrifum áfengis, eiturlyfja og sveppa (HÖUÁÁES). Hún hljóðar svo:

Við lýsum yfir hryggð okkar vegna veikinda lögreglumanna enda eru þeir sko flestir manneksjur eins og sumir menn, eiga fjölskyldu, bíl og hund. 

Veikindi löggunnar eru okkur mikið áhyggjuefni og við höfum pottþétt ekki hugsað okkur að nýta tækifærið. 

Í dag er friðardagur, við ætlum að halda árshátíð okkar í kvöld í Laugardalshöllinni og hvetjum alla félaga okkar til að mæta. Nóg er af bílastæðum á grasinu við aðkomuna að Laugardalshöll, á umferðaeyjum og annars staðar. Húsið verður opnað klukkan 16 og ballinu lýkur stundvíslega klukkan 02. Þá byrjar fjörið.

Donni lúxus, Pési nítró, Gunna snögga og Stína nös.

Fleiri ályktanir hafa borist vegna veikinda lögreglumann, meðal annars frá Réttindalausum ökumönnum, Félagi stórinnflytjenda á ótolluðum vörum, Samtökum mansala og Kynlífsiðnaðarsamtökum Íslands. Þessum ályktunum verður gerð skil síðar.

 

 


mbl.is Mikil veikindi meðal lögreglumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Kleppur hraðferð ...

Hlíðarskóli, fótboltavöllurHlíðarhverfið var í æsku minni á áhrifasvæði Vals og svo ku vera enn. Þeir sem þar alast upp og ganga í Hlíðaskóla verða óhjákvæmilega Valsarar. Undan þessu komst ég ekki, varð Valsari, rauður.

Ég bjó í Barmahlíð og þar voru margir stráka sem spiluðu fótbolta allt sumarið. Gulli Níelsar var frábær í fótbolta, líklega bestur okkar, einnig Gulli Jóns, Bonni, Jón Guðmunds, Friðgeir, Guðni, Gaui og fleiri og fleiri. Aðeins eldri voru Gústi Níelsar og Ævar Jóns sem skiptu sér lítið af okkur nema til að hrekkja. Svo voru yngri krakkar sem við skiptum okkur lítið af nema til að hrekkja.

HlíðarskóliÞarna var kjörlendi fyrir fótbolta. Hægt að skipta í lið upp á eitt mark á mölinni fyrir framan bílskúra. Oft fórum við upp í Stakkahlíð þar sem var stórt opið svæði, hallaði að vísu en í öðrum hvorum hálfleik fékk maður að sækja niður hallann ... meðaltal hálfleikjanna var því sléttlendi og allir sáttir.

Hlíðaskóli

Í Hlíðaskóla voru nokkrir fótboltavellir. Einn var bestur og galdurinn var sá að komast út nægilega tímanlega í löngufrímínúturnar til að ná mörkunum. Þá hljóp einn eða tveir mínútu áður en bjallan hringdi út á völlinn og greip þéttingsfast í annað markið. Það þýddi einfaldlega að völlurinn var frátekinn. Við erum með'ann kölluðu þeir ef einhverjir óviðkomandi hættu sér of nálægt.

Úr Öskjuhlíð 1960Bekkjarbræður mínir voru nokkrir einstaklega góðir fótboltamenn, svo sem Logi Úlfarsson, Helgi Ásmundsson Loftur Pétursson, sem raunar var og er enn Frammari enda kom hann úr Bólstaðarhlíð sem er norðan Miklubrautar, nær áhrifasvæði Fram en Vals. Sorglegt.

Á þessum árum var Hermann Gunnarsson aðalgæinn í íslenskum fótbolta og Árni Njálsson besti þjálfari í heimi. Og við hrópuðum Áfram Valur, Áfram Valur ... Sóttum leikfimistíma í íþróttahús Vals að Hlíðarenda.

Í KR

KRSvo breyttist allt. Í MR kynntist ég í fyrsta skipti kynstofni sem heitir KR-ingar og þvílíkir ofur KR-ingar sem það voru. Ég er enn hálfhræddur við þá. Til að sæta ekki einelti held ég að ég hafi ekki upplýst um að ég væri Valsari fyrr en löngu eftir stúdentspróf.

Meðal óvinarins

Börn eru bara til vandræða, það hef ég alltaf sagt. Þegar eldri strákurinn minn var sex ára bjuggum við á Kaplaskjólsvegi, í miðju áhrifasvæði KR. Aðeins tíu metrar voru yfir á völlinn. Það voru því þung skref sem Valsarinn tók er hann fór í fyrsta sinn með strákinn á æfingu hjá KR. Eftir það var ekki aftur snúið. Smám saman tókst manni að hrópa áfram KR, áfram KR ...

081004 BikarleikurEinu eða tveimur árum síðar hitti ég svo gamlan bekkjabróður úr MR á fótboltamóti fyrir sjö eða átta ára drengi. Þar léku KR og Stjarnan. Við tókum auðvitað tal saman og ég sagði honum að nú væri ég með strák í KR og hrópaði áfram KR. Hversu erfitt það nú er fyrir gamlan Valsara. Þá sagði þessi gamli vinur minn, uppalinn og þrautseigur KR-ingur: Heyrðu Siggi, sko hér er ég með strák sem leikur með Stjörnunni á móti KR og ég hrópa auðvitað áfram Stjarnan ... Hvað annað?

Auðvitað var þetta rétt hjá honum Gumma Jó og svo fór ég að litast um meðal áhorfenda á fótboltaleikjum yngri flokka og sá að áhrifasvæði fótboltafélaga stjórnuðu því með hvaða liði strákarnir léku, yfirleitt ekkert annað. Foreldrar hvöttu börnin sín óháð því hvort þeir voru Valsarar, KR-ingar, Frammarar eða eitthvað annað.

Hins vegar eru allir eins og einn frændi minn sem á gallharðan Frammara fyrir föður, býr í Valshverfi en æfir og spilar með KR.

Úr KR

KR2Jæja, þessar voru nú pælingarnar hjá mér á sunnudaginn þegar sonur minn hringdi sagðist vera hættur í KR. Nærveru hans væri ekki lengur óskað eftir átta ára þátttöku í meistaraflokki, nokkra Íslands- og bikarmeistaratitla auk annarra afreka meðal annars í yngri flokkum. Þetta kom svo sem ekkert á óvart. Allir vita að fótboltafélögin í heiminum hafa breyst.

Oft hef ég velt því fyrir mér hvers vegna fótboltafélög nota ekki meira þá leikmenn sem þau hafa alið upp frá blautu barnsbeini. Nei, einhvern veginn eru þeir ekki nógu góðir ... Hver ber ábyrgðina á því?

Félögin sanka hins vegar að sér leikmönnum úr öðrum félögum og það heitir „að styrkja liðið“. Oft eru aðeins þrír eða fjórir uppaldir í liðinu, alltaf minnihluti leikmanna. Félögin eru orðin lógó og leikmennirnir eru málaliðar, aðkeyptir til að falla inn í flókið púsluspil sem velviljaðir menn reyna að sýsla við með misjöfnum árangri.

Áfram Kleppur hraðferð ...

Fyrir vikið eru nú skilin á milli félaga orðin ansi óglögg. Leikmenn flandra úr einu félagi í annað, jafnvel árlega. Þjálfararnir eru reknir og ráðnir rétt eins og þeir séu grasið á leikvellinum sem þarf að slá reglulega ... svo hægt sé að spila þokkalegan leik. 

Fótboltafélög eru orðin eins og strætó á leið niður í miðbæ. Vagninn er alltaf hinn sami en fólkið kemur og fer. Áfram strætóbíll, áfram OK14B11, Kleppur hraðferð ... eða þannig.

Fótboltafélag í meistararflokki er skrýtin samsuða alveg eins og strætó.

 

Sýnishorn, málaliðar

Núorðið hvetjum við eiginlega lógóið til sigurs og þá meira af gömlum vana. Hjartans einlægni fylgir ekki lengur með eins og þegar Hermann Gunnarsson rótaði upp rykinu á Valsvellinum, Ásgeir Elíason stóð fastur fyrir andstæðingum sínum, Ellert Schram raðaði inn mörkunum svo nokkrir hjartans menn séu nefndir úr Val, Fram og KR, erkifjendunum. Þá var nú gaman að lifa enda línurnar skýrar. Stuðningsmenn þessara liða töluðust helst ekki við.

Þegar horft er á fótboltaleik, hér á landi og erlendis er það eins og að vera staddur á minjasafni, þjóðminjasafni, listasafni. Í liðunum er eitt eintak af spilurum úr öllum hinum liðunum, sýnishorn af því „besta“. Sumir segja að þetta sé miklu skemmtilegra fyrirkomulag.

 

Myndirnar:

Tvær efstu myndirnar eru af fótboltavöllunum við Hlíðaskóla í gamla daga. Þær fann ég á Facebook, veit ekki hver tók eða hver á birtingaréttinn en vona bara að mér fyrirgefist birting.

Þriðju myndina fann ég líka á Facebook, þekki ekki ljósmyndarann. Myndin er tekin í Öskjuhlíð og horft yfir Hlíðarnar.

Fjórða myndin er af KR liði á Tommamóti í Vestmannaeyjum 1992, tíu ára strákar. 

Fimmta myndin er af bikarmeisturum KR 2008.df

Á sjöttu myndinni ganga KR-ingar inn á völlinn sinn.

Stækka má myndirnar og með því að smella á þær.

 


Leiðsögumaðurinn tók bestu myndirnar af hlaupinu

mblFrammistaða fjölmiðla í frásögnum af hlaupinu í Skaftá og Eldvatni er yfirleitt góð. Hins vegar er gagnslítið að birta hreyfimyndir þar sem myndatökumaðurinn beinir linsunni ofan í strauminn og „súmmar inn“. Þetta verða afar ljótar og lítt upplýsandi myndir. Ekki síður þegar ljósmyndarar iðka sama leik, nota aðdráttinn til að magna upp hamfarirnar (sem oftar en ekki eru kallaðar því ofnotaða orði „sjónarspil). Þannig er hægt að búa til magnaða mynd af því sem oft er ekkert annað en gutl í ánni.

Um helgina var sagt frá því að hætta væri á því brúin yfir Eldvatn gæti fallið. Birtar voru myndir í fjölmiðlunum af brúnni.

visirMargir fjölmiðlar voru með fréttamenn og ljósmyndara á staðnum en misjafn var árangurinn. 

Efstu myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson, reyndur og afar góður blaðamaður Morgunblaðsins. Því miður er hún alls ekki nógu góð. Á henni sést eiginlega ekkert athugunarvert nema rýnt sé í hana og vitað eftir hverju er verið að leita. Fyrirsögn fréttarinnar  með myndinni virkaði því út í hött. „Brúarendinn stendur út í loftið“, sem raunar var kolrangt, brúarendinn var landfastur en grafist hafði undan hluta af stöplinum. 

Næsta mynd birtist á visir.is og er greinilega klippa úr annarri. Myndin er hins vegar nokkuð góð og sjá má að það loftar undir stöpulinn og í því er hættan fólgin.

RuvÞessa mynd gat visir.is tók ekki blaðamaður eða ljósmyndari heldur bjargaði leiðsögumaðurinn, Ingibjörg Eiríksdóttir, fjölmiðlinum. 

Síðasta myndin er á ruv.is og er eiginlega besta myndin, mjög lýsandi og sér yfir umhverfið auk þess að sýna stöpulinn. Raunar er þetta sama myndin og birtist á visir.is og ljósmyndarinn landvörðurinn sem fyrr var nefndur.

Merkilegt er hversu oft almenningur útvegar fjölmiðlum myndir, þetta tilvik er fjarri því einsdæmi. 

Svo er það framsetningin á fréttum af svona viðburðum í náttúrunni. Mjög mikilvægt er að birta kort. Stórt yfirlitskort er nauðsynlegt heldur líka smærri. Þau þurfa að vera lýsandi, auðskilin, með örnefnum, vegum og bæjarnöfnum. Margir tóku eftir því hversu lengi kort voru að birtast í fjölmiðlum. Fólk sem ekki er með landafræðina á hreinu veit hreinlega ekki hvað þetta Eldvatn er, stöðuvatn eða fljót, eða í hvora áttina það rennur. Þessar upplýsingar vantaði víðast í fjölmiðlum.

 


Lífið í Elliðaárdal

HaustlaufFrekar fáir taka mark á mér en þeir eru þó til. Í dag var ég spurður um haustið. Ég svaraði því til að nú væri það að öllum líkindum komið, meira en tveimur mánuðum eftir að fjölmiðlafólk fór einhverra hluta vegna að tala um fyrstu haustlægðina.

Með réttur er hægt að tala um haust þegar grasið og lauf fara að sölna. Nákvæmlega það hefur verið að gerast undanfarna daga.

Stundum geng ég um Elliðaárdalinn. Hann hefur mikið breyst á undanförnum árum. Þar er nú mikill trjágróður og einstaklega gaman að njóta þar útiverunnar. Ég geng um sjö km hring á klukkutíma, hlusta á meðan á vandaða tónlist, yfirleitt klassíska eða þá að ég hlusta á vindin í trjánum og þungan nið umferðarinnar.

bjórhlaupFjöldi fólks leggur leið sína um Elliðaárdal, gangandi, hlaupandi, hjólandi og jafnvel á rafhjólum. Í dag var ég vitni að einstakri íþróttagrein. Mætti hressu og skemmtilegu ungu fólki sem hljóp í skringilegum fötum með bjórkassa og bjórglas í hendi. Ég spurði ekki nánar um tilganginn enda enginn tími til. Hrópaði bara skál og fékk glaðleg skálarköll á móti.

Svona er nú lífið skemmtilegt.

Um daginn dró ég uppi mann sem stikaði þó stórum og við tókum tal saman. Kom þá í ljós að maðurinn er eins og svo margir aðrir geysilega hrifinn af dalnum og kemur þar reglulega í gönguferðir.

Já, fólk nýtur lífsins með margvíslegum hætti.


Fréttablaðið skrökvar upp á Árna Sigfússon

Formaður styrkti bróður sinn

Þannig hljóðar fyrirsögn Fréttablaðsins í dag, 1. október 2015. Hún er röng eins og raunar kemur fram í fréttinni. Um er að ræða styrk sem Orkusjóður veitti Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er svo algjört aukaatriði að stjórnarformaður Orkusjóðs, Árni Sigfússon, og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Þorsteinn Sigfússon, eru bræður.

Fréttin er um skoðun forstjóra Valorku sem ekki fékk styrk frá Orkusjóði. Sem sagt, fréttina má kalla „hefndarfrétt“. Sár forstjóri þyrlar upp ryki til að koma óorði á aðra. Honum tekst ætlunarverk sitt vegna þess að Fréttablaðið og blaðamaðurinn sem skrifar fréttina sér ekki í gegnum málið. Raunar ætti að skrifa aðra frétt og fyrirsögnin væri þessi:

Fréttablaðið er misnotað

Í stuttu máli fjallar fréttin um að eitt fyrirtæki fékk styrk Orkusjóði en annað ekki. Fréttin fjallar ekki um að Árni Sigfússon hafi styrkt Þorstein bróður sinn.

Árni Sigfússon segir eftirfarandi á Facebook:

Ég kann allar reglur um þetta. Ef vinur eða venslamaður sækir um styrk skal nefndarmaður að sjálfsögðu víkja. En það var ekki í þessu tilviki. Þetta er sambærilegt við að rektor Háskóla Íslands væri þannig beintengdur við allar umsóknir deilda háskólans og þeir sem venslaðir væru honum, mættu ekki fjalla um neinar slíkar umsóknir á vegum HÍ, þótt hann kæmi hvergi persónulega að þeim.

En þá er brugðið á það ráð að segja að „bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar“ hafi veitt honum styrk. Ég hafi átt að víkja af fundi þegar ráðgjafanefndin fór yfir umsóknirnar. Þetta er því algjörlega út í hött og leitt að koma slíkri fyrirsögn af stað - vitandi að 100% lesenda, lesa fyrirsögn en u.þ.b. 30% lesa textann. Vildi bara að þið vissuð þetta fésbókarvinir mínir, því Frettablaðið hafði ekki fyrir því að spyrja mig um málið. Þannig er nú Ísland í dag.

Líklega hefur blaðamaðurinn verið svo spenntur fyrir því að hafa nú aldeilis fundið einhverja ávirðingu á Árna Sigfússon að hann hafi ekki haft fyrir því að bera málið undir hann. Sem sagt, blaðamaður og Fréttablaðið brjóta mikilvægustu reglu í blaðamennsku, að leita upplýsinga og heimilda og fara með rétt mál. Eða er þetta sem sagt er glöggt dæmi um barn sem haldi á penna hjá Fréttablaðinu.

Forstjóri Valorku stendur svo uppi sem „bad looser“ og þessi frétt er honum síst af öllu til sóma.

Fréttablaðið hefur ekki heldur neinn sóma af þessari frétt. Það hefur verið staðið að ósannsögli. Verður nú fróðlegt að sjá hvernig það reynir að koma sér út úr klípunni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband