Markmaður heldur ekki markinu hreinu, nema hann sé einn í liði

BoltiTékkneski markvörðurinn Petr Cech sem leikur með Arsenal náði merkum áfanga þegar hann hélt marki sínu hreinu í leik Arsenal gegn Watford í gær. Cech hélt þá marki sínu hreinu í 171. sinn og varð þar af leiðandi sá markvörður sem hefur haldið marki sínu oftast hreinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Ofangreinda vitleysu má lesa í frétt mbl.is. Má vera að Pétur hinn tékklenski hafi leikið í 171 mínútu án þess að fá á sig mark. Hins vegar er útilokað að hann hafi haldið marki sínu hreinu „í 171. sinn ...“ eins og segir í fréttinni. Svo marga leiki hefur hann ekki leikið með Arsenal enda nýkominn til liðsins frá Chelsea þar sem hann sannarlega fékk á sig nokkur.

Svo er það hitt. Í einu fótboltaliði á leikvelli eru ellefu menn í einu. Þeir verjast og sækja eftir því sem kostur er. Vilji svo til að liðið skori mark er það framtak ekki að öllu leyti þeim að þakka sem síðastur samherja sparkar boltanum í áttina að markinu, nema hann sé einn í sínu liði, sem aldrei gerist.

Sé liðið svo heppið að fái ekki á sig mark er það ekki að öllu leyti markmanninum að þakka nema því aðeins að hann hafi engan samherja á vellinum, sem aldrei gerist.

Þar af leiðandi er rangt að hampa einum einstaklingi í fótboltaliði framar öðrum. Liðsheildin skiptir öllu máli. Boltinn færist fram á völlinn milli samherja, oft tilviljunarkennt en líka samkvæmt ákveðnu kerfi. Að lokum þarf einhver einn að pota í boltann svo hann fari yfir marklínuna. Fátítt er að tveir menn eða fleiri sparki boltanum samtímis í netið, raunar hefur það aldrei gerst nema kannski í gamla daga fyrir framan bílskúrshlera í Hlíðunum.

Markmaður er fjarri því einn. Fyrir framan hann eru tíu samherjar. Þeir eiga sinn þátt í því að hann fær ekki á sig mark og jafnvel má kenna þeim um skori andstæðingarnir mark.

Þess vegna er það einfaldlega rangt að Petr Cech, markvörður hins ágæta enska fótboltaliðs, sem ég hef haldið með frá barnæsku, hafi haldið mark sínu. Síst af öllu í 171 skipti eins og skilja má af frétt mbl.is.

Utan vallar gengur íþróttin út á að hossa og hampa einstaklingum í liði rétt eins og samherjarnir skipti engu máli. Vissulega eru samherjarnir misjafnir að getu og dagsformið er misjafnt. Fjölmiðlarnir lifa þó á svona fréttamennsku


mbl.is Cech hefur oftast haldið markinu hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Hárrétt hjá þér, Sigurður - Sá þetta og einnig er sú undarlega framsetning hjá íþróttafréttamönnum að segja í sífellu, að menn byrji leikinn á bekkjarsetu..."hann byrjaði á bekknum...".  Svo0 hef ég stundum velt fyrir mér hvort að leikmenn (þegar skipting á sér stað) hvort maðurinn sem er inná og kallaður út af, sé sá sem "kemur af leikvelli..." eða "fer af leikvelli.." og hinn, sá sem "kemur inná eða fer inná völlinn..". Þetta er oft málum blandið hjá þulunum og sjaldan eins. - Eins og þú segir sannarlega, er enginn einn á vellinum og markmaðurinn getur átt náðugan dag ef hinir leikmennirnir vinna sína vinnu, og í því að varna því að hitt liðið geri atlögu að markinu...eða markmanninum.

Már Elíson, 18.10.2015 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband