Blómstrandi lúpína í yndisfögru landi

IMG_0634 7 b - Version 2Fagrar lúpínubreiður eru eitt hið yndislegasta sem augað lítur og ekki spillir angan í lofti. Miðsumarið er stórkostlegt á suðvesturhorni landsins og því góð hugmynd að hjóla um borgarlandið.

Ég fór austur um Fossvogsdal og upp Elliðaárdal og upp fyrir stíflu. Mikið mannlíf, fjöldi fólks gangandi, skokkandi og hjólandi. 

Þegar upp úr Elliðaárdal er komið vandast málið, engin greið leið yfir útfallið úr Elliðavatni og þaðan upp í Heiðmörk en einhvern veginn álpast maður á réttar slóðir þar sem falleg hús og gróðursælt land gleður augað.

Fólki fækkar þegar komið er upp fyrir brú á mótum Elliðavatns og Helluvatns. Nokkrir að veiða en fáir á göngu. Ég hjóla lengra og allt upp á Borgarstjóraplan. Þar eru enn færri bílar og sárafátt fólk. Ég hjóla sem leið liggur gamla veg, svokallaða Landnemaslóð, sjá nánar í þessu korti

IMG_0654 27 bc - Version 2

Þarna er ég komin á kunnuglegar slóðir. Hef hlaupið þarna undanfarin sumur, oftast nær daglega svo ég þekki mig vel. Aldrei hef ég þó hjólað hlaupaleiðina mína og geri nú það að hluta til. Stefni til vestur á þröngum en fallegum stígum sem hlykkjast um skógi vaxið hraunið. Mætti aðeins tveimur, hlaupara og hjólreiðamanni. Finnst fólk furðu áhugalaust um stórkostlegt útivistarsvæði, það besta á suðvesturhluta landsins, göngu- og hlaupaleiðir við allra hæfi. 

IMG_0656 29 b - Version 2

Lúpínan er mjög þykk, því skógarbotninn en virðist fá næga birtu til að þrífast. Hins vegar njóta trén góðs af henni því niturríkur jarðvegurinn gerir skilyrði til skógræktar hin ákjósanlegustu.

Ég hjóla undurfagra leið vestur að Elliðavatni. Þar beygi ég til vinstri og held inn í land Kópavogs. Lendi inn á reiðleið sem er frekar óþægilegar fyrir hjólandi fólk og hlaupandi. Laust í götunni og hjólið skrikar til rétt eins og hlauparinn sem ég fer fram úr. Ég man eftir því þegar ég gekk í fyrsta sinn í kringum Elliðavatn. Þá var engin byggð við vatnið nema stöku bústaðir og maður þurfti að klöngrast yfir girðingar og blautar mýrar. Nú er byggðin í Kópavogi fram á vatnsbakkann.

Góðar göngu- og hjólaleiðir eru Kópavogsmegin og fyrr en varir er ég aftur kominn að ósum Elliðaárvatns og þaðan hallar þægilega niður Elliðaárdal og í Fossvogsdal. Um fjörtíu kílómetra hjólaferð lokið. Fínn rúntur um geysileg falleg land. 

Myndirnar tók ég á iPhone síma.

 

  1. Sú efsta er tekin í hæðunum suðvestan við Myllulækjartjörn.
  2. Miðmyndin er tekin aðeins vestar og þar sér yfir vatnið til norðurs, Esjan í fjarska, Elliðavatn til vinstri, Myllulækjartjörn til hægri. 
  3. Nesta myndin er tekin skammt fyrir ofan gömlu brúna og sér þarna yfir í Selásinn og hverfið þar fyrir neðan. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samúel Úlfur Þór

Það er skemmtilegt að hjóla um Reykjavík, og sér í lagi þessa leið.

Það er því miður að það skuli ekki vera búið að búa til betri tengingu úr Elliðárdalnum uppí Heiðmörkina, frekar miklar krókaleiðir til að komast þar á milli, en virkilega skemmtileg leið og eins eru stígarnir uppí Heiðmörk mjög skemmtilegir á hjóli.

Samúel Úlfur Þór, 23.6.2014 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband