Með níu ára dreng áleiðis á Hvanndalshnúk

920500-20

Hvannadalshnúkur er um margt merkilegur eins og gjörvallur Öræfajökull. Ég hef nokkrum sinnum komið þangað upp, síðast árið 2006. Þá reyndi ég tvisvar fyrir mér. Ég gekk fyrir hópi tólf manna sem fæstir höfðu komið á Hnúkinn. Við þurftum að snúa við eftir að við komumst upp á sléttu en þar var leiðinda veður, hvasst, skafrenningur og ofankoma.

Viku síðar fór ég einn austur og lagði af stað um fimm leytið um morguninn og í stórkostlegu veðri komst ég upp og niður á gönguskíðum. Hef hvorki fyrr né síðar lennt í annarri eins umferð á einu fjalli. Giska á að þarna hafi um þrjú hundruð manns gengið komist upp á einum og sama deginum.

Fleiri ferðir hef ég átt á Hvannadalshnúk en sú eftirminnilegasta var án ef sú sem ég fór með eldri syni mínum, Grétari Sigfinni í maí árið 1992. Hann var þá níu ára, varð tíu ára í október það ár. Við komumst upp í um 1300 metra hæð á Sandfellsleið, rétt ofan við jökulbrún. Þar hittum við fyrir hóp göngufólks sem velti fyrir sér hvort það ætti að halda áfram eða snúa við. Auðvitað var ekkert vit í að halda áfram og því hættu allir við.

920500-21

Við vorum vel útbúnir. Gengum á gönguskíðum en ég hafði svigskíði meðferðist fyrir Grétar til notkunar á bakaleiðinni. Það var ekki mikill burður en hann var á þessum árum orðinn ansi lunkinn á skíðum. Við vorum því skotfljótir niður að snjólínu.

Ég hafði heyrt af því að tólf ára gamall drengur hefði komist upp á Hnúkinn nokkrum árum áður, en engin deili vissi ég af honum.

Tilgangurinn með ferð okkar feðga var síst af öllu að slá einhver aldursmet. Frá því hann var sex ára hafði ég farið með hann á fjöll. Við gengum víða um landið og hann var duglegur og ósérhlífinn í gönguferðum og ekki síst skemmtilegur ferðafélagi.

Það átti þó ekki fyrir okkur að komast saman á Hvannadalshnúk í þetta skipti og aldrei síðan höfum við reynt aftur saman við tindinn. Það skiptir hins vegar litlu máli. Minningin er góð.

Á efri myndinni stöndum við feðgar einhvers staðar á leiðinni, í á að giska 800 m. Þarna er veðrið enn þokkalegt, talsvert frost en stillt.

Á neðri myndinni má glögglega sjá að hvasst er orðið og talsverður skafrenningur. Þarna minnir mig að hópurinn hafi tekið þá ákvörðun að hætta við uppgöngu og það sama gerðum við. 


mbl.is Hjólaði 320 km á Hnjúkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband