Þegar Geir Hallgrímsson útvegaði okkur vinnu í öskunni

Ég sótti svo um í MH og komst ekki inn og ætlaði þá að vera í öskunni til áramóta og byrja svo í MH – en fékk ekki vinnu. Ég heyrði síðar að maður hefði þurft að vera í Sjálfstæðisflokknum til að fá að vera í öskunni.  
 
Þetta segir nýi borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson í viðtali í Fréttablaðinu. Eflaust er það hluti af gangverki hans að endursegja órökstuddar kjaftasögur sem honum finnst nægilega trúverðugar til að vera sannar. Slíkt er auðvitað heimskulegt enda á stjórnmálamaður að vera málefnalegur eins og Dagur hefur ábyggilega verið öll sín tólf ár í stjórnmálum. Hann er hins vegar yfirleitt svo langorður að fæstir hafa úthald til að sannreyna það.
 
Ég kann hins vegar aðra sögu af öskunni í Reykjavík sem stangast á við kjaftasögu Dags. Að vísu er ég nokkuð eldri en borgarstjórinn en finnst ástæða til að segja þessa sögu hér, þó ekki sé nema til gamans.
 
Þannig var er við tveir blankir félagar voru á sautjánda ári, nýbyrjaðir í menntaskóla, vantaði vinnu um jólin. Við vorum frakkir og hugmyndaríkir og gengum því inn í stjórnarráðið við Lækjartorg þar sem Ólafur Jóhannesson starfaði sem forsætisráðherra. Ætluðum að ná fundi hans í þeirri von að hann gæti útvegað okkur vinnu. Dyravörðurinn vísa okkur á dyr, annað hvort var húsbóndinn ekki heima eða dyravörðurinn neitaði að útvega okkur fund með Ólafi. Man ekki hvort var.
 
Þá voru góð ráð dýr. Datt okkur þá í hug að heimsækja borgarstjórann. Við örkuðum frá stjórnarráðinu og að skrifstofum borgarstjóra sem þá voru á horni Austurstrætis og Póshússtrætis í einu af virðulegustu húsum miðborgarinnar. Okkur var vísað inn í biðstofu og stuttu síðar kom Geir Hallgrímsson, borgarstjóri og Sjálfstæðismaður ... fram og bauð okkur inn til sín.
 
Ungi og frakkir menn hafa oft miklar hugmyndir um verkefni en þegar á hólinn er komið er oft meiri vandinn að stynja upp trúverðugu erindi. Aldrei áður höfðum við hitt Geir en fylgdumst með fréttum og vissum flest allt sem vita þurfti um stjórnmálin í höfuðborginni en það er nú aukaatriði. Okkur vantaði vinnu og Geir skildi það mætavel. Hann greip símann og talaði við einhvern, skrifaði nafn á blað og rétti okkur. Sagði að vel yrði tekið á móti okkur og við fengjum áreiðanlega vinnu við sorphreinsun yfir jólin.
 
Daginn eftir vorum við komnir í öskuna. Ég var settur í hóp sem sá um að hirða sorp í mið- og vesturbæ. Félagi minn var einhver staðar annars staðar en báðir vorum við himinlifandi. 
 
Svo gerist það að við losuðum öskutunnur hjá sovéska sendiráðinu við Garðastræti. Þetta var örfáum dögum fyrir jól og þar sem þeir sovésku voru trúir uppruna sínum gáfu þeir öllum verkamönnum vodkaflösku við mikinn fögnuð. Þetta var víst hefð hjá þeim. Sama var uppi er við tæmdum hjá þeim kínversku. Allir fengu brennivínsflösku. Já ... tvær flöskur af brennivíni, en ég 16 ára stráklingurinn fékk enga. Talinn of ungur og auk þess með of lítinn starfsaldur til að eiga kröfu á hinn görótta drykk.
 
Það breytti því ekki að við félagar áttum talsverðan aur þegar við byrjuðum aftur í skólanum, þökk sé Geir Hallgrímssyni.
 
Nú kann einhver, sem þekkir til mín, að spyrja hvort ég sé ekki Sjálfstæðismaður?
 
- Jú ... myndi ég svara, dálítið hikandi.
 
Og hvenær gekkstu í Sjálfstæðisflokkinn, spyr hinn ímyndaði lesandi?
 
- Tja ... þegar ég hafði aldur til.
 
Og hvenær var það?
 
- Ég var sextán ára, muldra ég ofan í bringuna.
 
Og þú varst sem sagt sextán ára þegar þú, Sjálfstæðismaðurinn, fékkst vinnu í öskunni í gegnum Geir Hallgrímsson, borgarstjóra?
 
- Já ...
 
Nú sannar þetta ekki orð Dags B. Eggertsson um að aungvir aðrir en Sjálfstæðismenn fengu starf í öskunni?
 
-  Nei, eiginlega ekki. Sko, félagi minn var ekki Sjálfstæðismaður og hvernig í ósköpunum átti Geir Hallgrímsson svo sem að vita hvort ég var í flokknum eða ekki. Hann spurði einskis. Fékk bara erindi frá tveimur síðhærðum og hressilegum strákum sem komu óforvarendis inn til hans af götunni og báðu um starf. Og Geir leysti úr vanda okkar meðan við biðum. Við gengum inn sem atvinnulausir námsmenn og út sem öskukallar. 
 
Þú lýgur þessu öllu saman, hrópar þá hinn ímyndaði lesandi, um leið og hann hverfur úr sögunni. 
 
Jæja, síðan þetta gerðist hef ég ekki starfað sem öskukall en mikið óskaplega var það merkileg og skemmtileg lífsreynsla að vera í öskunni.
 
Síðar kynntist ég dálítið Geir Hallgrímssyni, borgarstjóra, ráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hann var mikill sómamaður, í alla staði heiðarlegur og um það geta fleiri borið vitni en ég að hann var afar greiðvikinn og gerði ekki pólitískt greinarmun á fólki sem til hans leitaði. 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Skemmtileg saga...en segir hún ekki einmitt allt ? -

Það varst þú...og svo að sjálfsögðu vinur þinn sem fenguð vinnuna ? - Og Geir spurði þig, og þú svaraðir rétt, ekki satt ? - Og hvað segir Dagur....? - Þetta er allt svo eðlilegt, finnst þér það ekki ?

En það er gott, eins og þú víkur að í restina, að hann gerði ekki pólitískan greinarmun á fólki.

Sigurður, er ekki allt í lagi ?

Már Elíson, 21.6.2014 kl. 14:26

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ekki misskilja viljandi, Már. Lestu bara pistilinn aftur og þá skilurðu hann.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.6.2014 kl. 14:49

3 Smámynd: Valur Arnarson

Sagan er góð Sigurður. Ég get tekið undir þetta með þér. Það er fínt að vera í öskunni.

Valur Arnarson, 21.6.2014 kl. 19:58

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Dagur hefur bullið frá mömmu sinni.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 21.6.2014 kl. 20:01

5 Smámynd: Már Elíson

Þetta er rétt hjá þér, Sigurður - Ég las þetta rangt og var of fljótur á mer að skrifa....

Sagan er betri núna. - Passa mig næst. - Þakka fyrir kurteisa ábendingu.

Már Elíson, 21.6.2014 kl. 20:16

6 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Einu sinni fyrir langa löngu (man ekki alveg hvenær) voru Alþingiskosningar. Ég kaus þá Alþýðubandalagið en var heldur seinn til að kjósa þar sem ég var að vinna í höfuðborginni en með lögheimilið í Fljótunum. Ég tók þá það til ráðs að ég labbaði inn á kosningarskrifstofu Borgarflokksins og spurði þá hvort þeir gætu komið atkvæðinu norður fyrir réttan tíma og þeir héldu það nú. Sennilega hafa þeir leigt einkaflugvél. En það er spurning ,þar sem þeir töldu það greinilega víst að ég væri að kjósa þá, hvort Geir hafi ekki bara slegið því föstu að þið væruð Sjálfstæðismenn.

Jósef Smári Ásmundsson, 21.6.2014 kl. 21:54

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Jósef. Eins og kemur fram í niðurlagi pistilsins var það alkunna að Geir var öllum hjálpsamur, óháð pólitík, enda var hann borgarstjóri allra Reykvíkinga. Um heiðarleika hans hafa bæði samherjar og andstæðingar hans borið vitni. Hann var, eins og sagt er, drengur góður. Slíkir menn eru enn til, í öllum flokkum, og það fjöldi þeirra.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.6.2014 kl. 22:04

8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Dreg það ekki í efa Sigurður en hins vegar má segja um kjósendur Alþýðubandalagsins að þeir hafi margir hverjir verið miklir refir og ekkert allt of strangheiðarlegir.

Jósef Smári Ásmundsson, 21.6.2014 kl. 22:15

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held að þeir hafi nú bara verið rétt eins og aðrir, hvorki verri né betri - aðeins mun færri.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.6.2014 kl. 22:20

10 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Getur einhver labbað inn á skrifstofu borgarstjóra í dag og beðið um vinnu?

Trauðla tel ég svo vera, enda askan ekki svo mikið sem innan valdsviðs núverandi trúðs. Í valdatíð þessara kaffilepjandi 101s fulltrúa fólksins og gnarrsins og ég veit ekki hvað, er búið að EINKAVÆÐA ruslið. Það veit enginn lengur hvert hann/hún á að snúa sér, sem er nákvæmlega það sem þetta lið stendur fyrir. KAOS og ringulreið. Upp úr stendur hins vegar háhýsi í Borgartúni, sem er orðið yfirfullt af embættismönnum, sem hafa fátt annað að gera, en gera líf samborgara sinna erfiðara og erfiðara og erfiðara, vegna ótrúlegs hugmyndaflugs bjálfa, sem valist hafa í borgarstjórn.

Góðar stundir og kveðja að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 22.6.2014 kl. 03:50

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður pistill, Sigurður.

Heiður þeim sem heiður ber (honum Geir ... og nú þér líka).

Jón Valur Jensson, 22.6.2014 kl. 05:00

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Skemmtileg saga. Hárunum hefur þó eitthvað fækkað, þó árunum hafi fjölgað.

Man eftir sögu (mátulega sannri) sem einn skólafélagi minn, mikill sjálfstæðismaður alla tíð, sagði eitt sinn.

Það var þegar Geir Hallgrímsson var að hætta sem formaður og Birgir Ísleifur, Friðrik Sóphusson og Þorsteinn Pálsson bitust um stólinn.

Geir ákvað að leggja fyrir þá þraut, en hún fólst í því að dansa við dömu, en verða að fara á salernið í miðjum dansinum til að pissa og afsaka sig þannig að vel tækist til. Sá sem leysti þrautina best myndi svo hljóta formannsstólinn.

Birgir og Friðrik byrjuðu, en Geir var ekki ánægður með hvernig þeir leystu verkefnið. Þá var komið að Þorsteini. Hann sagði við dömuna meðan þau voru að dansa á gólfinu:

Hafðu mig afsakaðan í örstutta stund. Ég þarf að ræða aðeins við vin minn. Ég kynni þig fyrir honum á eftir.

Framhaldið þekkjum við, Þorsteinn hlaut embættið.

Theódór Norðkvist, 22.6.2014 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband