Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Flett ofan af viðkunnalegri mynd

Jens Stoltenberg lék vel í þessari stuttmynd sem átti að sýna hann í léttu ljósi. Hann er vissulega geðugur maður eins og hann á kyn til. Hins vegar brá manni dálítið við þá frétt að þetta hafi meira eða minna verið samið fyrirfram. Næst kemur líklega í ljós að farþegarnir hafi farið eftir handriti. Það væri verra.

En svona gerist þegar stjórnmálamenn eru að reyna að létta sér lífið og fara skemmri leiðina. Hefði þarna verið á ferð formaður Hægri flokksins og unnið samkvæmt fyrirframgerðu handriti hefðu fjölmiðlar hér á landi og í Noregi misst gjörsamlega stjórn á sér. 

Og að hugsa sér. Forsætisráðherra Noregs hefur ekki ekið bíl í mörg ár ... Líklegast hefur hann alltaf verið með bílstjóra. 


mbl.is Farþegar Stoltenbergs fengu greitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra er nafnið Guðmundur en Messías

Fundargerð frá mannanafnamannanefndanefnd barst á borð mitt um daginn, líklega fyrir mikinn misskilning. Í henni er eftirfarandi texta að finna:

3. Nafnið Messías

Borist hefur beiðni um að aumingjans barni verði skírt nafninu Messías. Nefndin hafnar þessu nafni vegna þess að það er að stofni til útlent eins og Lúpína, kemur einhvers staðar frá við austanvert við Miðjarðarhaf (en Lúpína frá Alösku). Þar var maður nokkur nefndur Jesús en sá gekk líka undir öðrum nöfnum eins og Messías. Að vísu má beygja nafnið eins og Matthías sem öðlast hefur þegnrétt í málinu en þykir samt óhemju ljótt. Messías kann að vera villandi nafn (villuljós) enda um aðeins einn drottinn allsherjar. Beinum við því til foreldranna að nota frekar nafnið Messí sem hentar litla drengnum án ef miklu betur enda betra að líkjast náunga í stuttbuxum en einhverjum löngudánum sem gekk í kirtli (höldum við ...). Messí beygist líka alveg eins og Þorgeir.

4. Skrapa, Tól, Tunga, Lipur 

Nefndinni bárust nokkur nöfn sem hún vill með mikilli gleði samþykkja. Kvenmannsnöfnin, Skrapa, Tól, Tunga og Lipur. Þetta eru ágætisorð og fara vel í munni, lipur í framburði.

Svo áréttum nefndin loks þá stefnu sína að útlendingar eiga ekkert með að halda nöfnum sínum er þeir flytjast hingað til lands. Þeim orðum er líka beint til þýðenda útlendra rita að laga nöfn sögupersóna að íslensku máli. Jesú gæti til dæmis heitið Júlíus og Messías má svo gott sem heita Guðmundur (það er hönd guðs)

Bæ, bæ ... 

Ég held þetta sé í fyrsta sinn sem fundargerð mannanafnamannanefndanefndarinnar berst út enda mikið leyndarmál hvað hún ákveður og hverju hún hafnar. 

Svo hef ég heyrt að örnefnanefnd hafnar firði ... veit ekki meira. 


mbl.is Má ekki heita Messías
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátið vegna skyndilegs skorts á peningum frá ESB

Svo virðist sem allt sé hér í kalda koli vegna skyndilegs skorts á aðlögunarfé ESB. fólk sem hingað til hefur ekki borið sorg sína á torg ber nú opinberlega sér á brjóst og grætur stórum tárum vegna „tapaðra“ IPA styrkja Evrópusambandsins. Og Ríkisútvarpið bergmálar þessu í beinni útsendingu yfir alþjóð rétt eins og um sé að ræða náttúruhamfarir.

Skoðum þetta nánar. Peningar sem gefnir eru til að liðka til vegna ýmiskonar viðskipta eru í sumum tilvikum réttilega nefndar mútur. Þær eru án ef veittar eða gefnar til að hafa áhrif á einstakling eða hóp til að það sé gert sem mútugjafinn vill.

Ekki aðeins glæpasamtök veita mútur. Dæmi eru um stórfyrirtæki, einstaklinga, ríki og jafnvel heilu ríkjasamböndin sem múta.

Spurning er þá hver sé munur á mútum því að veita styrki til óskyldra aðila líkt og ESB veitir umsóknarþjóðum. Tilgangurinn helgar alltaf meðalið. Auðvitað er það ekkert annað en spilling að bera fé á aðra til að fá því framgengt sem maður vill. Svo má endalaust deila um það hvor sé spilltari, sá sem ber fé á annan eða sá sem tekur við peningunum.

IPA styrki Evrópusambandsins er stytting á Instrument for Pre-Accession á ensku. Þeir hafa hingað til verið notaðir til að liðka til hjá ríkjum sem vilja sækja um aðild að sambandinu. Á vefsíðu Evrópustofu, áróðurstofnunar Evrópusambandsins fyrir aðild, segir um IPA styrki:

IPA-aðstoð er sérstaklega ætlað að styrkja lýðræðislegar stofnanir og réttarríkið, umbæta opinbera stjórnsýslu, stuðla að efnahagslegum breytingum og virðingu fyrir mannréttindum, styðja þróun borgaralegs samfélags, svæðisbundinnar samvinnu, stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr fátækt. Samkvæmt fjölærri rammaáætlun (e. Multi-Annual Indicative Financial Framework) er áætlað að 10 milljónum evra verði árlega úthlutað til Íslands á tímabilinu 2011-2013. 

Þetta eru falleg orð en í stuttu máli en peningagjöf til umsóknarríkis er gjörsamlega óþörf og ástæðulaus. Þessir peningar hafa ekkert að segja vegna umsóknarinnar eða hugsanlegrar aðildar. Þeir gera ekki ríkið, fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða einhverja hópa betur undirbúna undir aðild.

IPA styrkirnir eru fyrst og fremst ætlaðir að gera landsmenn hlynntari aðild. Hvaða orð sem menn nota yfir mútur, fjárburð eða annað álíka þá er tilgangurinn einn og hinn sami.

Ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi hefur lýst því yfir hléi í aðlögunarviðræðum við ESB og þær verði ekki teknar upp aftur. Margir fagna en sumir geta ekki á sér heilum tekið vegna þessa. Sérstaklega virðist harmagrátur forstöðumanna ýmissa stofnana vera sár og af mikilli samviskusemi greinir Ríkisútvarpið frá töpuðum styrkjum.

Með þessu virðist sem að fjáraustur Evrópusambandsins hafi komið að góðu gagni. Reynt er að koma því inn hjá þjóðinni að hér sé um stórtap að ræða og ríkisstjórninni einni um að kenna að féð sé tapað.

Við þessu er bara eitt að segja. Hættið þessu væli. Þessir peningar voru höfðu sama tilgang og mútur og eðli máls vegna þjónar það ekki núna neinum tilgangi hjá ESB að henda peningum í ríki sem hætt er við aðild. Þegar ESB skúfar fyrir er það annað hvort vegna þess að sambandið er að reyna að setja þrýsting á Ísland eða það hefur gefist upp.

Hvað varðar verkefnin sem búið var að finna upp á til að eiga kost á þessum peningum, þá verður annað hvort að afla fjárins á annan hátt eða hætta við verkefnin. Þetta er ekkert flóknara.


Þolinmæði fólks að bresta eða er ríkisstjórnin með lífsmarki

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins mælir oftast heilt. Á yfirvegaðan hátt skoðar hann það sem gerist í stjórnmálum og tjáir sig á hófsaman hátt í Evrópuvaktinni. Þar segir hann nýlega:

Þótt margt hafi breytzt í pólitíkinni og starfsemi launþegasamtaka hefur það þó ekki breytzt að launaþegafélögin eru enn hliðhollari vinstri stjórnum og andvígari samstjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Framundan er gerð nýrra kjarasamninga og framvinda mála á þeim vettvangi að undanförnu hefur ekki beinlínis ýtt undir að skynsemin ráði för. Ákvörðun kjararáðs um launabreytingar hjá forstöðumönnum ríkisstofnana á þar hlut að máli. Sömuleiðis bónusgreiðslur í Landsbanka Íslands, þótt dreifing hlutabréfanna til allra starfsmanna hafi dregið úr gagnrýni á þann gjörning,

Ný ríkisstjórn naut almennrar velvildar í fyrstu en vegna þess að lítið hefur frá henni heyrzt er þolinmæði fólks að bresta.

Valdi ríkisstjórnin verulegum vonbrigðum vegna aðgerðarleysis eða stefnuleysis er hættan sú, að kjarasamningar fari úr böndum og að launþegasamtökin standist ekki freistingar sínar. Það er mikilvægt að ráðherrar geri sér grein fyrir því andrúmslofti, sem er að verða til í kringum þá. Það getur gerzt á ótrúlega skömmum tíma að ráðherrar missi jarðsamband.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hefur nú verið við völd í tæpa þrjá mánuði og við bíðum lausna.

Tvær sögur eru á kreiki. Sú fyrri er að ríkisstjórnin sé ekki með lífsmarki þó ráðherrar og stuðningsmenn hennar á þingi séu enn í fullu fjöri. Sú síðari hermir að innan skamms komi ríkisstjórnin með pakka sem inniheldur allar nauðsynlegar aðgerðir vegna skuldastöðu heimilanna, atvinnuleysis, efnahagsmála, fjárfestingar og annars sem á að losa þjóðina úr afleiðingum hrunsins og frostsins sem síðasta ríkisstjórn leiddi yfir okkur.

En guð hjálpi ríkisstjórninni og þó miklu frekar þjóðinni gangi sú síðari ekki eftir. það er nefnilega rétt sem Styrmir Gunnarsson segir í fyrirsögn pistils síns á Evrópuvaktinni: „Þolinmæði fólks er að bresta“.


Þorir ríkisstjórnin ekki að mótmæla

Að öllum líkindum hefur Evrópusambandið krafist þess af íslensku ríkisstjórninni að hún gagnrýni ekki ESB opinberlega meðan á „viðræðuhléinu“ stendur. Eða hvernig má annars skilja þann lufsuhátt að ríkisstjórnin mómæli ekki hraðlega árás ESB á Færeyingar?

Við erum næstir í röðinni. ESB á eftir að berja á okkur vegna makríl-, síldar- og hvalveiða. Og það verða ábyggilega ekki vinsamlegar strokur eða málamyndahögg á handarbakið.


mbl.is Gagnrýnir „óþolandi“ hótanir ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarnan var betra en KR í þessum leik

Varla er hægt að halda öðru fram með nokkurri sanngirni að Stjarnan hafi verið betra liðið í þessum undanúrslitaleik við KR. Munaði þó ekki miklu. Það sem gerði gæfumuninn að mínu mati er að Stjörnumenn voru duglegri, boltinn féll þeim í vil og KR-ingar voru alltof seinir að pressa á þá. Þeir léku boltanum vel á milli sín og KR-ingar voru bara sáttir við að liggja í vörn í stað þess að stjórna leiknum eins og við stuðningsmenn félagsins krefjumst.

Ég er þess fullviss að ekkert annað félag en Stjarnan geti veitt KR meiri keppni um Íslandsmeistarabikarinn. Og þeir síðarnefndu þurfa að girða sig í brók og taka nú á honum stóra sínum og ná titlinum. Liðið er afskaplega vel mannað en nær allir leikmenn þurfa að taka sig á. Þeir þurfa að byggja betur upp sóknir og framlína þarf að vera meira vakandi. Verst þykir mér uppgjöf margra leikmanna. Þeir hætta eftir að hafa tapað boltanum í návígi í stað þess að berjast eins og ljón og gefa aldrei neinum grið.

Ánægjulegt er að sjá nýjan mann í vörninni. Norðmaðurinn virðist vera góður og sendingar hans eru nákvæmar sem hefur ekki alltaf verið aðalsmerki varnarmanna KR. 


mbl.is Halti maðurinn hetjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband