Hver á gamla kirkjugarðinn í miðborginni?

„Er ekki rétt að hugleiða örlítið tilgang og afleiðingar?“ spyr Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, í sláandi grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann fjallar um gamla kirkjugarðinn í miðborg Reykjavíkur, sem síst af öllu hefur verið sýnd sú virðing sem hann eða minjar frá horfinni tíð eiga skilið.

Þór segir í grein sinni: 

 

Á 6. áratugnum voru lagðar símalínur í jörð undir gangstéttunum umhverfis kirkjugarðinn. Sást þá að garðurinn hafði náð út í götuna og upp úr skurðunum var mokað mannabeinum án nokkurs tillits. Virtist lítil varfærni eða tillitssemi viðhöfð og lágu bein á víð og dreif í moldarhaugunum. Sagt var í blöðum, að einhverjir hafi hirt þar höfuðkúpur úr uppmokstrinum.

 

Þór bendir á að breytingar á skipulagi miðbæjarins munu ekki aðeins skaða Nasa, gamla Sjálfstæðishúsið, sem í sjálfu sér er stórskaði. Einnig mun gamli kirkjugarðurinn skerðast enn frekar:

 

Nú er boðað að breyta eigi Landsímahúsinu í hótel og viðbygging skuli ná út að Kirkjustræti. Ef að líkum lætur mun það stórhýsi fara verulega út í kirkjugarðinn. Þá má spyrja: Hver á kirkjugarðinn? Mega skipulagsyfirvöld ráðstafa kirkjugarðsstæði, legstöðum, eftir sinni þóknan? Í lögum voru ákvæði um að sóknarnefndir skuli annast niðurlagða kirkjugarða. Ef svo er enn ætti umsjón og ákvarðanir um gamla kirkjugarðinn væntanlega að heyra undir sóknarnefnd Dómkirkjunnar og ekkert gert án hennar samþykkis. Ástæða er til að fara sér hægt, kanna mörk hins gamla kirkjugarðs og ganga síðan frá honum eins og kirkjugarði sæmir.

 

 

Virðing fyrir sögunni og minjum gamals tíma virðist ekki mikil hjá borgaryfirvöldum. Þau bjóða almenningi sem vill vernda Nasa birginn og nú er ætlunin að raska enn meir gamla kirkjugarðinum.

Ég skora á lesendur að kynna sér grein Þórs. Hann varar okkur við og okkur ber að taka afstöðu til orða hans. Við megum ekki leyfa að leikurinn frá því á 6. áratugnum verði endurtekinn. Tilvera okkar sem þjóðar byggist ekki á þjónustu við ferðamenn heldur á sögu okkar og menningu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband