Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Óskiljanlegt tipl í kringum heitan graut

Varla er hægt að komast eins langt frá kjarna málsins og málsatvikum eins og í þessari frétt og pistli Sigurðar G. Guðjónssonar í pressan.is.

Manninum hefur verið gríðarlega mikið niðri fyrir en getur ekki tjáð sig almennilega, segir ekki hver á hlut að máli, hvað málið snýst um eða hvers vegna hann er að væflast með það í fjölmiðla. 

Og ég hélt að þeir í Samfylkingunni væru snillingar að segja ekki neitt í löngu og ítarlegu máli. Og allt er þetta fyrrverandi fjármálaráðherra að kenna. Það lá í augum uppi.


mbl.is Sakar Steingrím J. um valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maraþonmaðurinn er ekki einhamur

Gunnlaugur Júlíusson er mikill afreksmaður. Í fyrra sinn er ég hljóp milli Landmannalauga og Þórsmerkur frétti ég af því að hann hefði fyrir komið í mark löngu á undan mér, sem kom engum neitt sérstaklega á óvart, en hann hélt áfram, sagðist ætla að „hlaupa sig niður“. Endaði með því að hann hljóp úr Húsadal í Þórsmörk, yfir í Langadal, yfir Krossá, inn í Goðaland og upp á Fimmvörðuháls og hafði þá hlaupið sig passlega niður er hann kom niður að Skógum, örfáum tímum síðar.

Síðar hljóp hann frá Reykjavík til Akureyrar og eflaust margt fleira. Hann er hreinlega ekki einhamur.

Mér er það minnisstætt eftir að hafa lesið reglulega pistla á blogginu hans hversu skynsamur hann er í undirbúningi og æfingum. Mataræðið hefur hann tekið sérstaklega fyrir og æfingarnar eru sérlega stórtækar. Hann á það til að skokka heilt maraþon í undirbúningi fyrir maraþon.

Einu sinni tók hann þátt í rúmlega eitthundrað kílómetra hlaupi á Borgundarhólmi. Hann hafði undirbúið sig vel og reiknað út meðalhraða sem gæfi honum ásættanlega útkomu. Þegar í hlaupið kom fannst honum dálítið óþægilegt að nær allir hlaupararnir tóku fram úr honum í upphafi. Velti þá fyrir sér hvort hann ætti að auka hraðann en ákvað að halda sér við áætlunina. Það reyndist rétt hjá honum og smám saman tók hann fram úr öllum sem höfðu farið fram úr honum í upphafi og endaði í þriðja eða fjórða sæti í hlaupinu. Þessi saga segir dálítið um þennan merka mann.

Nú er hugsanlegt að ég fari út að hlaupa seinnipartinn í dag, taki þá líklega fjóra eða sjö kílómetra og liggi hálfdauður á eftir. 

 


mbl.is „Væri til í tvöfaldan hamborgara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rigningin er ekki vond ...

Hvað gerir maður sem staddur er í gönguferð og það fer að rigna? Jú, hann nemur staðar, lítur til himins og veltir því fyrir sér hvort rigningin ætli að vera langvarandi. Sé svo fer hann í regnheldan jakka og buxur, axlar síðan pokann sinn og heldur áfram.

Hvað gerir fólk sem ekki hefur vanist íslenskri veðráttu þegar'ann byrjar að rigna. Jú, hleypur í skjól og vælir yfir rigningasumri og að veðráttan hér á landi sé ekki eins og á Spáni.

Hér á landi rignir oft. Sumir gera grín að Hornfirðingum og segja að þeir séu með sundfit enda rignir þar oft. Slagviðrisrigningin í Vestmannaeyjum er víðkunn en þar lygnir líka mjög snögglega. Það er ástæðan fyrir því að Eyjamenn eru flestir með flatt nef ...

Vonlaust er að væla út af veðrinu, það breytist ekkert þrátt fyrir vælið. Þar af leiðandi er ekki annað hægt en að sætta sig við veðurlagið rétt eins og forfeður okkar þurftu að gera og taka því sem að höndum ber. Gera þarf gott úr öllu saman og halda áfram.

Rigningin getur verið stórkostlega spennandi. Sérstaklega í góðum félagsskap. Ég hef ferðast mikið og lengi um landið og lent í margvíslegum veðrum. Man hreinlega ekki til þess að rigning hafi nokkurn tímann verið vond, hvað svo sem segir í laginu.


mbl.is „Kvöldið verður gríðarlega blautt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marta segir einfaldlega það sem allir eru að tala um

Slattur

Ásýnd borgarinn er einfaldlega slæm, raunar afar slæm. Til undantekninga heyrir sjáist sláttuvél á grænu svæðum borgarinnar. Umferðareyjar eru virðast ekki slegnar. Í gær mátti sjá að slegið hafði verið Miklubrautarmegin á Klambratúni en sláttan fékk að liggja, ekki nokkur maður í hirðingu eða í umsjón með blómabeðum.

Njólastefna borgarinnar er til háborinnar skammar. Og það er ekki aðeins að grænu svæðin láti á sjá heldur er sama með götu borgarinnar. Svo virðist sem ekkert viðhald sé á þeim. Brunnlok á götum skrölta þegar ekið er yfir þau, brotnað hefur víða úr gangstéttarköntum, gangstéttir eru brotnar og lyfting hefur víða skemmt þær.

Borgarstjórnarmeirihlutinn heldur því fram til að fela vangetu sína að svona eigi borgin að vera, hún sé einfaldlega fallegri og náttúrulegri sé gras ekki slegið eða blómabeðum sinnt. Væri þetta viðhorf borgarbúa myndi enginn sinna görðum sínum, leggja vinnu eða hugvit í þá. Þannig er það hins vegar ekki gert.

Fyrir utan vinnustað minn tók einstaklingur sig til og sló næsta nágrenni götunnar . Þetta er ekki óalgengt. Mörgum ofbýður.

Fólk vill að borgin líti vel út, fólk krefst þess. Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi, á heiður skilinn fyrir að standa upp og segja það fullum fetum sem almenningur talar um og hneykslast á. Okkur á að líða vel í borginni og vera stolt af því sem vel er gert. Því miður vantar talsvert upp á að svo sé.


mbl.is Óska eftir átaki í grasslætti og umhirðu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalshræ í fjöru er sjaldnast fréttnæmt

DSC_0170 - Version 2Að öllum líkindum er þetta sami hvalurinn og við sáum í lok mars síðast liðinn er við dvöldum í nokkra daga í Hornvík. Þá hafði hann áreiðanlega legið þar í nokkrar vikur. Ekki höfðum við áhuga á að skoða hvalinn nánar, létum nægja að taka af honum myndir.

Annars telst það varla til neinna tíðinda að hval reki upp í fjöru. Það gerist iðulega. Einhvers staðar hljóta þeir að bera beinin, ef ekki á hafsbotni þá í fjörum. Svo einfalt er það. Hér áður fyrr var hvalreki mikil búbót fyrir fólk á nálægum jörðum og jafnvel dæmi um að fólk hafi komið víða að til hvalskurðar. Ekki var alltaf friðum um slíkt og er víða sagt í gömlum sögum um baráttu um yfirráðin.

Hitt er kann að vera rétt að hræ af hvölum vekja alltaf eftirtekt. Þetta eru stór og mikilfengleg dýr og stórkostlegt að skoða þau, að minnsta kosti fyrir þá sem aldrei hafa séð þau í nálægð. En lyktin getur verið slæm.


mbl.is Hvalreki á Hornströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar heimtar blóð hinn tiplar í kringum grautinn

Ólíkt hafast þeir að, leiðtogar stjórnarandstöðunnar vegna skýrslunnar um Íbúðalánasjóðs. Annar er á kafi í hausaveiðum og vill að blóðið renni. Hinn þorir vart að mæla vegna þess að hann var sjálfur á kafi í því sem kollegi hans kallar „græðgi og svindl í gjörspilltu kerfi“.
 
Morgunblaðinu í morgun er vitnað í tvo stjórnmálamenn. Í blaðinu segir: 
 
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði í umræðunni að fjármálakerfið og félagsleg öfl hafi lengi tekist á um hlutverk Íbúðalánasjóðs og að höfundar rannsóknarskýrslunnar hafi horft framhjá þeim tíðaranda græðgi og svindls í gjörspilltu kerfi.
 
Og svo er viðtal tekið við Árna Pál Árnason, lögmann en hann mun enn vera formaður Samfylkingarinnar og hann segir:
 
Skýrslan styrkir mig í þeirri trú að miklu máli skiptir að hafa sterka stofnanaumgjörð og betra eftirlit. Það er til dæmis alvarlegt að fallið hafi verið frá því að kalla til bankaábyrgðar frá verktökum og aldrei var sú ákvörðun dregin í efa en með því var verið að setja almannahagsmuni í hættu. Þetta er bara dæmi þess hversu veik umgjörð stjórnsýslu Íbúðalánasjóðs hefur verið. 
 
Við hin, sem eigum öngva hagsmuna að gæta nema að þjóðfélagi gangi eins og smurð vél okkur öllum til hagsbóta, spyrjum nú hvort að þessir enn eigi eitthvurt erindi upp á dekk. Er málflutningur þeirra að einhverju leiti fallinn til þess að efla skynsamlega stjórnmálaumræðu eða úrbóta í málefnum Íbúðarlánasjóðs? Annar vill sjá blóð, hinn fer eins og köttur í kringum heitan graut svo ekki slettist meira á hann en orðið er.
 
Hvað sem tautar og raular er eiginlega nóg komið af ófagmennsku stjórnmálamanna og embættismanna sem einungis vilja skara eld að sinni eigin köku eða sitja á sínum rassi og þora ekki að taka á málum. Eitt er hins vegar víst, við náum engum árangri með hausaveiðum heldur skynsömum og faglegum aðgerðum. 

Samfylkingarmenn og VG enn fúlir

Sigmundur aÍ Fréttablaðinu í dag er birt skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Þar kemur fram í að 22,5% aðspurðra í telja að nýr forsætisráðherra hafi „staðið sig illa sem forsætisráðherra“.

Í ljósi þess að síðustu ríkisstjórnarflokkar fengu samtals tæp 24% atkvæða í síðustu þingkosningu kemur þessi niðurstaða ekki á óvart.

Er það þá þá fréttnæmt að kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna séu óánægðir með störf forsætisráðherrans? Nei, það er auðvitað ekkert merkilegt. Þvert á móti er það afar skiljanlegt að Samfylkingarmenn og Vinstri grænir séu enn ekki búnir að sætta sig við úrslit kosninganna. Samt er komið sumar og sólin skín.


Lúpínan er ódýr leið til uppgræðslu lands

Lúpínan er í sínum mesta blóma þessa daganna og reglulega ánægjulegt að sjá bláar breiðurnar þekja landið sem áður var örfoka auðn.

Í gær ritaði ég pistil og vitnaði til sveitarstjórans á Grenivík sem hefur hinar mestu áhyggjur af útbreiðslu lúpínunnar. Þetta reyndist vera hinn mesti misskilningur sveitarstjórans eins og skógræktarmenn á fésabókarsíðunni Vinir lúpínunnar sýndu fram á. Aðeins hverfandi kostnaður er að stoppa lúpínuna, þvert á það sem sveitarstjórinn heldur.

Svo mikill áróður hefur verið gegn lúpínunni hér á landi og margir taka of mikið upp í sig af einskærri vanþekkingu

Ágúst Bjarnason ritar athugasemd við pistilinn minn í gær og fer, eins og honum er von og vísa, málefnalega yfir umræðuna um lúpínuna. Hann benti okkur lesendum á nokkrar greinar á bloggsíðu sinni. Þær voru afar upplýsandi fyrir leikmann eins og mig. Þar rakst ég á athugasemd sem Sigvaldi heitinn Ásgeirsson ritaði. Mér finnst þessi skrif Sigvalda svo skynsamleg að ég tek mér það bessaleyfi að birta hluta af þeim hér (leyfi mér að bæta við greinaskilum á stöku stað og feitletra sumt til áhersluauka):

Fólk er oft að ruglast í ríminu, þegar það ásakar lúpínu um að ráðast inní berjalönd af hvaða tagi sem er. Hún dreifir sér aðeins þar sem svarðgróðurinn, þ.m.t. mosinn er gloppóttur. Á Laugarheiðinni innan við hverasvæðið breyttist krækilyngsmói smám saman í bláberjaland. Ég efa ekki, að með tíð og tíma og án ferfættra beitardýra mun bláberjalyngið láta undan fyrir gróskumeiri gróðri, alveg án aðkomu lúpínu á þessu landi. Þess má geta, að aðalbláberjalyng er algengasta gróðurhverfið í norskum rauðagreniskógum, en er auðvitað ekki áberandi, meðan skógurinn er á þéttasta þroskastigi.

Fólk verður að læra að taka tímavíddina með í reikninginn, þegar það skoðar náttúruna. Þróun gróðurs frá örfoka landi til þess að verða frjósamt land, án aðkomu lúpínu eða annarra belgjurta, getur eflaust tekið margar aldir, þannig að ég hygg að hún Ásthildur Cesil Þórðardóttir sé full bráðlát. Hún ætti að taka sér til fyrirmyndar Erlend heitin á Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi. Þegar Sr. Flóki spurði Erlend, hvernig á því stæði, að hann maður um sjötugt væri að byrja í skógrækt svaraði Erlendur: "Ég ætla að planta þangað til ég drepst og koma svo aftur og sjá, hvernig til tókst." Prestur bað hann þá endilega að reyna að finna einhvern til að passa skóginn á meðan.

Lúpínan er svo miklu ódýrari leið til uppgræðslu en áburður og grasfræ, að mismunurinn getur örugglega verið meira en hundraðfaldur. Þegar við bætist, hve orkufrek áburðarframleiðslan er, hann að hluta framleiddur úr olíu, fluttur langan veg til landsins með tilheyrandi útblæstri koltvísýrings, skil ég ekki að menn geti verið á móti notkun lúpínu til landgræðslu og jafnframt talið sig vera umhverfisverndarsinna.

dsc_0012.jpgÉg skil vel sjónarmið þeirra, sem elska grjótið, en finnst að þeir ættu að geta látið sér nægja eyðimerkur, sem liggja annaðhvort of hátt yfir sjó fyrir lúpínuna eða eru of þurrar fyrir hana. Eldgos hófust ekki við landnám og skógum var að mestu eytt áður en loftslag tóka að kólna. Eins er ljóst, að kólnunin hefði aðeins átt að færa gróðurmörkin neðar, en ekki eyða gróðri niður að sjávarmáli. Þar átti mannskepnan allan hlut að máli, því maðurinn hlýtur að ráða yfir sauðkindinni en ekki öfugt.

Það munu vera til rannsóknaniðurstöður, sem sýna, að háplöntur eru færri í lúpínubreiðu en í örfoka mel. Skyldi engan undra. En eins og rannsókn Daða Björnssonar í Heiðmörkinni sýnir skýrt, víkur lúpínan, nema þar sem er viðvarandi áfok eða árennsli. Gaman væri, ef rannsókn hans væri framlengd frá 1990, þegar síðustu lofmyndir, sem hann notaði munu hafa verið teknar og fram til dagsins í dag. Þá kæmi hygg ég í ljós, hve fyndin orð þau eru, sem höfð voru eftir bæjarverkfræðingi Garðabæjar í Mbl. 28. júní sl., þar sem hann spáði því, að lúpínan myndi leggja undir sig alla Heiðmörkina á næstu 10 árum.

Adsc_0013_1206997.jpgf hverju ætti lúpínan að leggja Heiðmörkina undir sig aftur, svona nýbúin að því og hörfar ört (nema á einhverjum örfoka melum ofan við Vífilsstaðavatn, þar sem hún varð dálítið sein fyrir). Þegar lúpínan víkur, fjölgar háplöntunum aftur. Jafnframt fjölgar mjög jarðvegslífverum í lúpínubreiðu, miðað við örfoka land, sbr. rannsóknir Eddu Oddsdóttur. Fuglar gera sig heimakomna í lúpínubreiðum. Þar nærast þrestir á ánamöðkum og spóinn hefur einhverra hluta vegna nýtt sér lúpínuakra sem búsvæði, þótt fjarri fari því að þeir geti talist votlendi. Þéttleiki músastofnsins er líka gífurlegur í lúpínubreiðum og þ.a.l. fjölgar branduglu, þar sem mikið er um lúpínu.

dsc_0018_1206999.jpgSkyldi Náttúrufræðistofnun hafa rannsakað samband lúpínu og fuglalífs? Þegar allt kemur til alls eykur lúpínan því lífbreytileikann, þótt hún hafi mér vitanlega engin áhrif á fjölbreytni líffræði sem fræðigreinar. Þar mætti þó eflaust bæta úr. Þekkt er þjóðsagan, sem talin var viðtekin vísindi á Bretlandseyjum meðal náttúrufræðinga, um að engir fuglar þrifust í sitkagreniskógum. Annað kom nefnilega í ljós, loksins þegar fuglafræðingar treystu sér til að hefja rannsóknir á fuglalífi í sitkagreniskógum þarlendum. Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 14:25 

Fleira spaklegt hefur Sigvaldi ritað og margir aðrir fagmenn. Læt þetta hins vegar duga í bili en vísa til þeirra heimilda sem Ágúst gaf upp. Þær eru þessar:

Aldingarður á hálendinu með hjálp lifandi áburðarverksmiðju

Lúpínan á Haukadalsheiði - Myndir

Lúpínufuglar

Hörfar lúpínan þegar hún hefur unnið sitt verk...?

Myndirnar tók ég í Spákonufelli á Skagaströnd fyrir fjórum árum. Þar hefur lúpínan smám saman klifið fjallið og myndar fagrar breiður. Tvær efri myndirnar sýna hvernig hún umkringir bláberjalyngið en virðist ekki hafa farið inn í það nema þar sem pláss hefur verið fyrir.


Auðvelt að hefta úrbreiðslu lúpínu

Hestur

Einn af fróðlegustu og skemmtilegustu fébókarhópum sem ég skoða reglulega er „Vinir lúpínunnar“. Málið er að mér hefur lengi þótt væntum þessa bláu og fallegu jurt sem um þessar mundir skrýðir landið enda í fullum blóma. Ég læt mér í léttu rúmi liggja illar ásakanir um að lúpínan sé innflytjandi í íslenskra flóru, ekki upprunaleg og þar sem hún er ekki af víkingaættum eigi að útrýma henni rétt eins og grenitrjám. Þessu er ég nú ekki sammála.

Ég hef lesið nokkuð um lúpínuna og meðal annars birt dálítið hér á þessu stað um rannsóknir á henni. Margir halda því fram að lúpínan vaði yfir íslenskar jurtir og eyði þeim. Þetta er nú ekki allskostar rétt þó satt sé að lúpínan hörfi víða hægar en vonir stóðu til. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að hún vex og dafnar þar sem enginn gróður var fyrir og hjálpar þannig til við að klæða landið, myndar mold og bætir nitur í jarðveg.

Á visir.is birtist fyrir skömmu frétt um útbreiðslu lúpínu við Grenivík, í svokölluðum Þengilshöfða. Þetta er haft eftir sveitarstjóranum, Guðnýju Sverrisdóttur:

Við erum að spá í hvort það eigi að útrýma lúpínunni eða ekki. Sumum finnst ömurlegt að hafa lúpínu og öðrum finnst það bara fallegt,“ segir Guðný sem ítrekar að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Of seint sé að eitra á þessu ári.

„Ef það verður ákveðið þá tekur það tuttugu ár og við þurfum að leggja töluverða peninga í það. Annað hvort byrjum við á næsta ári eða við hugsum ekki um þetta því það verður alltaf erfiðara og erfiðara að útrýma lúpínunni eftir því sem hún breiðist út. Hún stoppar ekki.

Á fésbókinni urðu miklar umræður um orð sveitarstjórans. Til að gera langa sögu stutta kemur fram hjá Vinum lúpínunnar að besta leiðin til að losna við lúpínu er skógrækt.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógfræðingur, segir:

Á einn hektara í Grýtubakkahreppi væri hæfilegur skammtur af birki 2400 plöntur (gróðursettar með 2 x 2 m millibili). Vinnukostnaður: eitt dagsverk fyrir tiltölulega óvanann mann. Væri gróðursetning undirbúin með herfingu (TTS; og með því stikaðar út línur fyrir gróðursetningu) mætti í leiðinni draga úr samkeppni við gróðursettu smáplönturnar fyrsta árið, og komast af með ódýrar, ársgamlar trjáplöntur. Þá væri þetta varla nema nokkurra klukkustunda verk.

Annar mætur skógfræðingur, Einar Gunnarsson, bætir við:

Varðandi skógræktaráætlun Aðalsteins má bæta við að kostnaður væri um það bil eftirfarandi: Herfing með TTS herfi Kr. 14.000.- plöntur og gróðursetning kr. 150.000.- Flutningur á herfi, gróðursetning og umsjón (há tala vegna þess að aðeins er um að ræða 1 ha.) Ca. 100.000.- Samtals 264.000.- Núvirði eftir 20 ár u.þ.b. 2 milljónir króna.

Ljóst er að sveitarstjórinn þekkir ekki vel til og gæti sparað sveitarfélagi sínu talsverðar fjárhæðir ef hún hlustaði á menn eins og Aðalstein og Einar. Náttúrulegar aðferðir duga yfirleitt betur auk þess er alkunna að betur vinnur vit en strit.

Mikið óskaplega líður mér alltaf betur þegar ég uppgötva að það sem sumu fólki virðist vera óyfirstíganlegt vandamál er einungis smávægilegt verkefni. Lykillinn er alltaf upplýsing. 

Þessa fallegu mynd sem fylgir hér tók Ragnar Th. Sigurðsson, frábær ljósmyndari, af hesti í lúpínubreiðu. Birti hana hér án leyfis en vona að Raggi fyrirgefi mér. 


Jarðskjálftaleg kyrrstaða á landinu

skjalfti

Þegar hásumar er komið á Íslandi og hlýr andvarinn yljar öllum í dölum jafnt sem á hæstu fjöllum hriktir ekki lengur í undirstöðum landsins jarðskjálftar hafa nær lagst af. Þetta má sjá á myndinni hér vinstra megin.

Enginn jarðskjálfti hefur mælst frá því kl. 12 á sunnudaginn, í nær sólarhring. Þetta er íslenskt heimsmet eftir því sem draumspakur maður tjáði mér.

Annar, síst óspakari ..., læddi því nú að mér að þetta væri „lognið á undan storminum“. Ég hrakti þennan bölsýnismann frá mér með þeim orðum að einungis vont fólk gerir lítið úr nútímanum og spáir ragnarökum.

Aldrei á Íslandi hefur „jarðskjálftaleg kyrrstaða“, eins og sumir blaðamenn myndu kalla þetta af alkunnri málsnilld, vakið athygli. Miklu frekar að iðulausir skjálftar séu fréttamatur.

Hvað sem öðru líður finnst mér dálítið skrýtið að virða skjálftakortið fyrir mér. Aðeins smávægilegir skjálftar sem fæstir finna nokkuð fyrir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband