Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Hættum í Schengen og tökum upp landamæraeftirlit

Landamæragæslan kemur þessu ekkert við. Það stendur ekki „bankaræningi“ í vegabréfi nokkurs manns og það er enginn sem segir við landamærastöð að hann sé kominn til landsins í þeim tilgangi að fremja glæp.

Þetta segir norski utanríkisráðherrann, Espen Barth Eide og eru orð hans dæmigerður fyrir hrokafullan embættismann sem reynir að verja ómögulegan málstað. Norski miðflokkurinn leggur til að Noregur hætti í Schengen samstarfinu þar sem aðildin hafi aukið glæpatíðni.

Utanríkisráðherrann segir samkvæmt frétt Morgunblaðsins:

... að færi svo, að Noregur segði sig frá Schengen-samstarfinu, þá hefði landið ekki lengur aðgang að sameiginlegu upplýsingakerfi svæðisins, sem m.a. er notað til að lýsa eftir glæpamönnum. Þá hefðu norsk yfirvöld heldur ekki upplýsingar um hvort fólk hefði brotið lög í öðrum Schengen-löndum eða hvort þeim hefði verið vísað frá þeim.

Hér er komin vítahringur ef marka má utanríkisráðherrann. Glæpalýður sem á annað borð er innan Evrópu fær að athafna sig að vild á milli landa vegna þess að ekkert er landamæraeftirlitið. Vilji eitthvert ríki hætta í Schengen samstarfinu fær það ekki aðgang að sameiginlegu upplýsingakerfi Evrópulanda um glæpamenn.

Hvorug staðan er ásættanleg. Með því að taka upp landamæraeftirlit og jafnframt að aðgangur sé að hinu sameiginlega upplýsingakerfi er hægt að taka á vandamálinu.

Allur almenningur þarf þá að framvísa persónuskilríkjum en slíkt eru smámunir miðað við vaxandi glæpi óþjóðalýðs sem veður upp í öllum löndum Evrópu og ekki síður hér á Íslandi. Hvernig eigum við Íslendingar að stemma stigu til dæmis við „vertíðafólki“ sem sent er hingað til lands í þeim tilgangi einum að ræna og rupla í nokkra daga og hverfa síðan úr landi?

Við gerum það með landamæraeftirliti eða hættum í Schengen. Það er hins vegar síst af öllu Evrópuríkjum í hag að loka sameiginleg upplýsingakerfi fyrir þeim þjóðum sem ekki eru í Schengen. Þvílíkt bull að gera það en dómgreindarleysi norska utanríkisráðherrans er slíkt að hann sér ekki hverngi löggæslustofnanir Evrópu geti unnið saman án Schengen. 


mbl.is Miðflokkurinn vill Noreg úr Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyja í Breiðafirði sem ekki verpti í fyrra ...

Ánægjulegt er að sjá að arnarpar á eyju í Breiðafirði sem ekki verpti í fyrra vegna skemmdarverka er nú að reyna aftur og hefur byggt nýjan hreiðurlaup.

Þegar tilvísunarfornafn er ekki rétt staðsett verða oft til skrýtnar málsgreinar á borð við þessa hérna fyrir ofan. Á henni mætti skilja að eyjan hafi ekki verpt í fyrra. Tilvísunin er því röng, beinist að eyju en ekki arnarpari.

Þetta gerist oft þegar höfundurinn er óþolinmóður og ætlar að segja svo margt án þess að nota punkt. Í sjálfu sér er í lagi að hafa punkt á þegar heil hugsun er komin. Stundum er þó nauðsynlegt að umorða setningu eða málsgrein svo boðskapurinn komist heill til skila. Þannig gæti textinn að ofan verið eitthvað á þessa leið:

Í fyrra var arnarhreiður á eyju í Breiðafirði skemmt og er talið að þess vegna hafi arnarparið ekki verpt þar. Fuglafræðingar og fleiri gleðjast nú yfir því að arnarparið hefur byggt nýjan hreiðurlaup og virðist ætla að reyna að verpa aftur.

Margvísleg vandamál hrjá þá sem stunda skriftir. Í flestum tilvikum er auðvelt að hreyta orðum á blað en á eftir tekur við yfirlestur og lagfæringar. Þá verður höfundurinn að vera gagnrýninn. Fljótfærnin er þó versti óvinurinn. Á honum er hægt að vinna bug með því að hvíla texta í nokkrar mínútur, lesa hann síðan yfir aftur, breyta eða laga, og þá loksins birta.

Þess má geta að ég er búinn að endurrita ofangreint þrisvar sinnum og er ekki enn ánægður með textann. Hef ekki þolinmæði í að bíða lengur ... Wink


mbl.is Arnarparið reynir varp á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markviss áróður fyrir skattheimtu á ferðamenn

Markvisst er nú rekinn áróður fyrir gjaldtöku á svokölluðum ferðamannastöðum. Látið er líta svo út að viljinn til að lagfæra staðina sé mikill en fjármagnið ekkert. Þetta er auðvitað rangt og raunar svo í mörgum tilvikum að enginn áhugi hefur verið fyrir framkvæmdum en gríðarlegur áhugi fyrir hugsanlegum aurum.

Ég vara algjörlega við gjaldtöku á ferðamannastöðum. Staðreyndin er einfaldlega sú að ríkissjóður og fjölmörg sveitarfélög hafa gríðarlega tekjur, beinar og óbeinar af ferðamönnum. Aðeins örlítið brot af þessum tekjum eru notaðar til framkvæmda, eins og að verjast átroðningi ferðamanna.

Ríkissjóði og sjóðum sveitarfélaga geta hæglega staðið undir fyrirbyggjandi framkvæmdum við ferðamannastaði ef áhugi er fyrir hendi.

Hins vegar er fjármagn ekki nema hluti af því sem vantar. Oftast er faglegur skilningur margra er enginn nema þegar kemur að því að rukka aðgangseyri. Þá allt í einu ljóma andlit. Alls kyns skipulags- og landfræðingar halda að með gjaldtöku eða skattheimtu í gengnum ferðamannapassa verði allt svo ósköp einfalt. Þetta er mikill misskilningur.

Gjaldtaka skapar ekkert nema óróa, skipulagsleysi, þröskulda og leiðindi fyrir ferðamenn. Fyrir utan það sem í augum uppi liggur að ekki á að taka gjald nema þjónusta komi á móti. Þó svo að allt sé hellulagt við geysi, pallar og fínerí við Goðafoss þá réttlætir það ekki gjaldtöku.

Hægt er að rukka fyrir aðgang að salernum, afnot af húsi til að neyta nestis en það er ekki hægt að rukka ferðamann fyrir að virða útsýnið fyrir sér. Slíkt glápgjald er siðferðilega rangt.

 


mbl.is Umhverfi Goðafoss ber merki eftir átroðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisráðherra stolt, þó ekki af kísilveri og einhverju öðru

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur staðið undir nafni á þessu kjörtímabili. Það er skýr krafa að kjósa grænt. Krafan um áframhaldandi forgang umhverfis- og náttúruverndar.
 
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hún ræðir meðal annars um kísilver á Bakka, lög sem Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, bar fram í nafni ríkisstjórnarinnar.
 
Sjálf sat ég hjá við afgreiðslu málsins af tveimur ástæðum fyrst og fremst.
 
Til að gera langa sögu stutta sat umhverfismálaráðherra ríkisstjórnarinnar hjá við afgreiðslu laga ríkisstjórnarinnar um kísilver á Bakka við Húsavík vegna þess að henni ofbauð skattaniðurfellingar vegna framkvæmdarinnar og rekstursins og einnig af umhverfisástæðum.
 
Engu að síður er Svandís ferlega stolt af VG. Hún á líklega við restunum af flokknum, ekki eins og þingflokkurinn var í upphafi kjörtímabilsins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stefnu, aðeins vindhanar snúast

Sagt var um ónefndan rauðskeggjaðan ráðherra sem enn situr í ríkisstjórn að hann breytti um skoðun eftir því sem vindurinn blæs. Slíkt þykir ekki til marks um mikla visku að hlaupa eftir almenningsálitinu hverju sinni. Það er eins og vindurinn, getur breyst fyrr en varir. Og hvað er svo sem almenningsálit og hvernig er það mælt?

Sá stjórnmálaflokkur sem markar sér stefnu og stendur við hana er meiri og betri en sá sem hleypur til og breytir um skoðun um leið og hann er gagnrýndur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðna stefnu í öllum þjóðfélagsmálum. Þessi stefna er mörkuð af miklu fleira fólki en kemur samanlagt að stefnumörkun annarra stjórnmálaflokka. Þetta er hinn lýðræðislegi grunnur sem flokkurinn byggir á. Hann er fjöldahreyfing, engum háð.

Margir hafa reynt að klína því á Sjálfstæðisflokkinn að hann gangi erinda hagsmunasamtaka eins og atvinnurekenda, útvegsmanna, bænda, neytenda, fjármagnseigenda og hvað eina annað. Þetta gengur ekki upp. Stefna flokksins er ekki mótuð af þeim sem tilheyra áðurnefndum hópum eða öðrum. Að minnsta kosti hefur enginn sem tilheyrir svokölluðum hagsmunaaðilum beðið mig um að kjósa eftir óskum eða kröfum þeirra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki til þess að nokkur einasti þeirra sem ég þekki hafi fengið slíka kröfu.

Hitt er svo allt annað mál að ég hef margoft rætt við hagsmunaaðila, t.d. náttúruverndarfólk, fólk sem á í vandamálum vegna skulda á íbúðum sínum, atvinnulausa, sjúka og aðra sem hafa beðið mig um að gæta hagsmuna sinna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Stefna stjórnmálaflokks er sú sem hann leggur fram og stendur við. Þetta veit Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og ég virði hann fyrir þessa skoðun. Við Sjálfstæðismenn þurfum hins vegar að koma stefnu okkar betur til skila, láta kjósendur heyra. Í sjálfu sér skiptir minna máli hverjir eru í framlínu flokksins ef þeir standa fastir á stefnunni. Henni á ekki að breyta. 


mbl.is Bjarni: Trúi á stefnuna fram í rauðan dauðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að gera dodo milli tólf og fimm

Þingvallanefnd gætir alls sóma Íslendinga og veitir ekki af. Hvað í ósköpunum eiga veiðimenn að vera að flækjast um á björtum sumarnóttum. Veiða? Nei, nei. Allir vita að enginn ófullur maður vakir sumarnótt. Þetta veit Álfheiður Ingadóttir þingmaður Vinstri grænna. Hún hefur þá pólitísku skoðun að gæta þurfi að hegðun veiðimanna.

Fyrir mistök var fundargerð Þingvallanefndar send til mín. Hún er áhugaverð lesning. Í henni kemur fram að einnig eigi að banna gönguferðir á Þingvöllum frá miðnætti og fram til klukkan fimm á sumrin. Hættan er sú að einhverjir tali saman og rjúfi kyrrðina sem ríkja skal á helgum stað sem raunar er þjóðgarðurinn allur. Öllum gönguferðum skuli lokið fyrir klukkan tólf og þá þurfi göngufólk að vera búið að þvo sér og bursta tennur og koma sér í svefnpoka.

Álfheiður Ingadóttir lagði fram þá tillögu að jafnframt því að hún bæri titilinn formaður Þingvallanefndar æri hún einnig titilinn siðgæðisvörður Þingvalla. Tillagan var naumlega felld. 

Að sögn formanns nefndarinnar þykir henni verst að fólk leiðist sí og æ út í einhverja vitleysu á björtum sumarnóttum og misbýður siðgæði  Þingvallanefndar og framkvæmdastjóra. Vitað er að á þessum tíma verður hjartsláttur örari, andardráttur tíðari og efnaskipti líkamans fara algjörlega úr böndum.

Til að allt fari nú sómasamlega fram hefur Þingvallanefnd ákveðið að fólk megi ekki láta vel að öðru utan tjalds frá klukkan tólf til fimm. Ólafur Haraldsson, hinn gönguvakri þjóðgarðsvörður mun á björtum sumarnóttum fá það verkefni að valhoppa um þjóðgarðinn og sekta þá sem í sínum ástarbríma gleyma garðsins tíma ... og leiðast út í dodo. Hann bókaði að þetta verkefni myndi hann með glöðu geði taka að sér.

Ennfremur hefur Þingvallanefnd ákveðið að banna kamarferðir milli klukkan tólf og fimm á morgnanna. Fólki er ætlað á þeim tíma að halda sig innan tjalds, hjólhýsis eða í hverjum andskotanum það býr í.

Á fundi þjóðgarðsnefndar var naumlega felld sú tillaga Álfheiðar Ingadóttur þess efnis að bannað verði að gista í þjóðgarðinum milli klukkan tólf og fimm. Ágreiningur reyndist um tímamörkin en samþykkt að enginn megi tjalda nema undirrita þá yfirlýsingu að hann muni sofa í tjaldinu milli klukkan tólf og fimm.

Álfheiður lét þá bóka að nauðsynlegt sé að fólk haldi sig í tjaldi á björtum sumarnóttum þar með sé tryggt að þögnin ríki í þjóðgarðinum. Tekið skal fram að Álfheiður hefur aldrei gist í tjaldi, hjólhýsi, tjaldvagni eða álíka og stendur í þeirri meiningu að hljóðeinangrun þessara íverustaða sé svipuð og heima hjá henni.

Loks var ákveðið að banna tannburstun á milli klukkan tólf og fimm að viðlagðri sekt. Álfheiður lét bóka að hávaðinn frá slíkum verkum sé óþolandi og betra sé að geyma tennur í vatnsglasi yfir nóttina ... 


mbl.is Veiðimenn æfir út í Þingvallanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er allsgáður prestur lakari en fullur eða hálffullur?

Spurður hvort að hálf staða prests dugi til að halda uppi þjónustustigi kirkjunnar á svæðinu segir Leifur að ákveðin fjölbreytni geti falist í því að bæði hálfan prest og fullan.

Svo segir í fréttinni á mbl.is. Þetta verkur mann til umhugsunar um það hvers vegna drottinn allsherjar veitti manni ekki þá náðargáfu að geta ort vísur.

Af málinu má ráða að edrú prestur sé lakari kostur en fullur eða hálffullur. Þetta er merkilegt viðhorf.


mbl.is Fjölbreytni að hafa bæði hálfan prest og fullan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur þú að við séum ekki mannlegir?

Fréttir síðastliðinnar viku vitna um það sem gerðist fyrir 40 árum er saklaust fólk var dæmt til að eyða mörgum af sínum bestu árum bak við lás og slá. Hvers vegna gerðist það? Meðal annars vegna þess að lýðurinn hrópaði eins og í Jerúsalem forðum.
 
Styrmir Gunnarsson vitnar í þessi orð Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann tekur undir með biskupi og bendir á að umræðan í þjóðfélaginu geti orðið slík að til verði „andrúmsloft galdrabrennunnar“. 
 
Þetta er mjög áhugavert umfjöllunarefni. Getur verið að umræðan í samfélaginu geti einfaldlega orðið þess valdandi að dómsmorð verði framið, að réttur einstaklinga verða að einhverju leiti fórnað til að róa samfélagið. Var það ekki nákvæmlega þetta sem um var fjallað í dönsku bíómyndinni þar sem leikskólakennarinn var saklaus ásakaður um að hafa misnotað barn í sinni umsjón. Eftir það átti hann sér ekki viðreisnar von.
 
Hversu hræðileg getur samfélagsumræðan ekki orðið, miskunnarlaus og drepandi? Hver á þá að standa upp og gæti laga og réttar?
 
Styrmir ræðir af þungri alvöru um svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál og segir:
 
Hvernig varð þetta andrúmsloft til? Með nokkurri einföldun má segja, að það hafi verið búið til af stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Í stjórnmálabaráttu þeirra tíma féllu óvarleg orð og fjölmiðlar gripu þau á lofti og kyntu undir. Jarðvegurinn fyrir hinar ótrúlegustu sögur virtist vera frjór – eins og hann er kannski alltaf í fámennum samfélögum. 
 
Og síðar í grein sinni segir hann:
 
Áratugum seinna og lífsreyndari sat ég á spjalli við nokkra dómara og spurði þá, hvort hugsanlegt væri að andrúmsloft í samfélaginu á hverjum tíma gæti haft áhrif á niðurstöður dómstóla. Þeir horfðu undrandi á mig og sögðu: Heldur þú að við séum ekki mannlegir? 
 
Þetta er í hnotskurn vandi samfélagsins. Skiptir engu hvort það sé hér, í Pakistan, Túnis eða Bandaríkjunum. Á einum stað eru konur undurokaðar, á öðrum er fórnarlamb nauðgunar látið giftast kvalar sínum, á þeim þriðja eru manndráp með byssum tíðari en í flestum öðrum löndum.
 
Samfélagið mótar okkur öll. Áður en nokkur getur hugsað upp neina mótbáru eru gyðingar þvingaðir til að setja auðkenni á föt sín, múslímar fá ekki að iðka trú sína, kristnir eru ofsóttir ...
 
Til hvers er þetta svokallaða lýðræði ef að það veldur tómum skaða á einstaklingum. Hver á þá að standa upp og segja hingað og ekki lengra? Munu þá ekki einhverjir aðrir mótmæla og halda því fram að mótmælandinn sé andlýðræðislegur? Má gagnrýna búsáhaldabyltinguna? Er hrunið stjórnmálamönnum að kenna eða eigendum og stjórnendum banka? Voru allir bankamenn slæmir?
 
Staðreyndin er einfaldlega sú að lýðræðið getur verið andstyggilegt. Réttlætið er alls ekki fólgið í því að meirihlutinn fái öllu ráðið og því er afskaplega mikilvægt að  einstaklingar, hópar og stjórnmálaflokkar vinni að hugsjónum sínum en miði þær ekki við stefnu vindhanans uppi á kirkjuturninum.
 
Lýðræðið gengur ekki upp nema samfélagið sé fjölbreytilegt og leyfi þeim að vaxa og þroskast sem leita móti meginstraumi þess. 
 
 
 

Fréttir um átroðning ferðamannastaða eru ekki nýjar

DSC00066

Þó Ragnar Axelsson og einhverjir aðrir blaðamenn á Morgunblaðinu fái allt í einu meðvitund um þau ósköp að fjölsóttir ferðamannastaðir láti á sjá vegna átroðnings þá er langt í frá að þetta séu nýjar fréttir.

Staðreyndin er sú að það er ekki hlustað á okkur sem þekkjum landið og fylgjumst með því sem þar er að gerast. Þegar fjölmiðlar og stjórnvöld fá loks meðvitund er það fyrsta sem liðinu dettur í hug er að skattleggja útlenda (og jafnvel innlenda) ferðamenn. Falleg orð eru úthugsuð eins og „náttúrupassi“ og enginn á að geta sloppið við að kaupa, hann er ekki neitt val frekar en aðrir skattar.

Út af fyrir sig hef ég ekkert út á það að setja að eigendur afmarkaðra staða selji aðgang. Til dæmis mætti mín vegna rukka þúsund krónur fyrir að fá að fara inn fyrir hlið og skoða Geysi, Gullfoss, Kerið eða einhverja aðra staði. Grundvallaratriðið á þó að vera það að á þessum stöðum sé þjónusta veitt gegn þessu gjaldi. Ég veit til þess að Útivist hefur rukkað dagsgesti sína fyrir aðganga að þjónustu félagsins, svo sem húsum og salerni.

DSCN6675

Hinu er ég algjörlega á móti og mun leggjast hatramlega gegn að ég eða útlendur ferðamaður fái til dæmis ekki að ganga um Fimmvörðuháls án þess að greiða gjald fyrir.

Á að rukka fyrir göngu á Þverfellshorn í Esju. Nei, segi ég. Skiptir engu þótt aðstæður á þessari gönguleið séu til háborinnar skammar fyrir Reykjavíkurborg og þjóðfélagið. Ágangurinn er slíkur þarna að umhverfið hefur stórskaðast.

Og hvers vegna? Vegna hjarðhegðunar göngufólks. Sú árátta er óskaplega skrýtin að allir skuli þurfa að fara á sama staðinn. Allir eiga að ganga Laugaveginn, ganga á Þverfellshorn, fara í Þórsmörk eða Landmannalaugar. Hvað með alla hina staðina?

Sleppum Landmannalaugum förum austar og göngum framhjá Kirkjufelli, að Torfajökli, í  Strútslaug, í Strútsskála og höldum þaðan í austur ... eða vestur. Sleppum Þórsmörk. Göngum á Esjuna, sleppum Þverfellshorni en förum þess í stað á Kerhólakamb eða Kistufell. Göngum á Vífilsfell eða Hengil. 

Segjum skilið við hjörðina og ferðumst á eigin vegum og látum ekki þvinga okkur eða útlenda ferðamenn til að greiða gjald fyrir að njóta náttúrunnar. Ríkissjóður og sveitarfélög hafa gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Þeim er engin vorkunn að nota hluta þessara tekna til að byggja upp ferðamannastaði. Þegar upp er staðið er á það að vera krafa að ríkissjóður og sveitarfélagasjóðir kosti uppbyggingu og forvarnir á ferðamannastöðum. Nógar eru tekjurnar.


mbl.is Gullni hringurinn drullusvað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhugsuð ráðstöfun að rukka fyrir kvikmyndun

Með því að banna kvikmyndatökur á Þingvöllum nema gegn greiðslu er búið að gefa út skotleyfi á alla sem hér á landi starfa sem og þá sem hingað koma og vilja stunda atvinnustarfsemi. Næst taka meintir eigendur Jökulsárlóns upp sömu stefnu og fara að rukka fyrir staðinn og útsýnið. Aðrir munu án efa bætast í hópinn og þykjast þurfa aur til að „standa undir umsýslu“.

Þetta gengur auðvitað ekki og rökin eru aumlegt yfirklór. Væri nú ekki vænlegra að bjóða þá velkomna sem hingað vilja koma og búa til auglýsingar eða kvikmyndir. 

Og hvar á að draga línuna. Má ég, áhugaljósmyndarinn, búast við því að landvörður banki í bakið á mér og heimti bevís upp á að ég sé ekki að taka kvikmynd og ljósmyndirnar mínar séu ekki auglýsingar?

Staðreyndin er nefnilega sú að tæknin er orðin svo hrikalega indæl að hægt er að taka upp heilu kvikmyndirnar á myndavélar sem kosta innan við eina milljón króna og það sem meira er, þær bera ekki verðið utan á sér. Lítið til dæmis á Canon myndavélar.

Afleiðing svona rukkunar verður einfaldlega sú að menn forðast Ísland og innlendir framleiðendum er gert erfiðara fyrir. 

 


mbl.is Rukkað fyrir kvikmyndun á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband