Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
Fjármál heimilanna skýra skoðanakannanir
5.4.2013 | 10:12
Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands 2012 sýnir að 10,1% heimila höfðu lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu undanfarna 12 mánuði og 10,4% heimila lentu í vanskilum með önnur lán á sama tímabili. Rúm 27% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði.
Þetta eru stórmerkilegar niðurstöður, að minnsta kosti fyrir þá sem nú standa agndofa yfir skoðanakönnunum. Staðreyndin er einfaldlega sú að tæplega 80.000 fjölskyldur eru í landinu sem þýðir að um 26.000 manns, foreldrarnir telja húsnæðiskostnaðinn þunga byrði.
Þetta fólk eru fórnarlömb hrunsins og eru jafnframt kjósendur.
Kenningin er sú að stór hluti af þessu fólki er nú bæst við svokallað lausafylgi, þeir sem festa sig ekki við einn stjórnmálaflokk heldur flakka á milli þeirra sem best bjóða og eru sennilegastir. Þetta fólk er það sem raunverulega ræður hverjir komast til valda á næsta kjörtímabili.
Að öllum líkindum er lausafylgið nú orðið um 50.000 manns. Trausti þessa fólks hafa ríkisstjórnarflokkarnir misst.
Verst er að Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki vera í uppáhaldi hjá því enda hefur hann ekki komið með trúverðugar tillögur til hjálpar fórnarlömbum hrunsins. Þegar atvinnuleysið bætist við er ekki furða þótt fólk flykkist til þeirra sem yfirbjóða.
Hver og einn einstaklingur leggur mesta áherslu á þrennt: Húsnæði, atvinnu og að geta fætt sig og klætt.
Þegar eitthvað af þessu bregst þá er voðinn vís fyrir stjórnvöld og stjórnmálaflokka. Þetta verða stjórnmálaflokkar að skilja.
Ég er ekki viss um að Sjálfstæðisflokkurinn átti sig á þessu breytta landslagi og gríðarlegri fjölgun í hópi óákveðinna. Í það minnst hefur hann ekki kunnáttu til að koma boðum til skila sem samþykkt voru á síðasta landsfundi flokksins. Hvernig í ósköpunum er hægt að klúðra því?
48,2% ná vart endum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hornvík brosir við vetrargestum
5.4.2013 | 09:30
Hornvík er fögur að vetrarlagi. Þar hef ég verið undanfarna daga ásamt góðu fólki og notið vetrarríkisins. Líklega er þetta dálítið orðum aukið hjá mér því þarna var frekar hlýtt, aðeins um tveggja til sjö gráðu hiti.
Snjór var ekki mikill í Hornvík og varla skíðafært. Hins vegar snjóaði nokkuð síðasta miðvikudag og þá breyttist ásýndin.
Annars er engin ástæða til að mikla fyrir sér veðurlag á Hornströndum. Í sannleika sagt er bara hægt að líta á landakortið og sjá hversu litlu munar á til dæmis Hornvík og öðrum stöðum þar sem fólk býr og lifir hamingjusamlega. Um 47 km eru í loftlínu frá Bolungarvík í Hornvík og svipað munar á fjarlægðinni frá Skaga og á þá breiddargráðu og Hornvík stendur á.
Forðum var hörð lífsbaráttan á Hornströndum rétt eins og annars staðar á landinu.
Á næstunni ætla ég að birta hérna nokkrar myndir af Hornströndum og hafa til samanburðar myndir sem ég hef tekið að sumarlagi. Það getur verið ansi fróðlegt, held ég.
Myndirnar sem hér birtast eru þessar:
Efst er mynd sem tekin er skammt vestan við Stígshús á Horni og er horft yfir víkina til Rekavíkur bak Höfn, Hvannadals og hins tilkomumikla Hælavíkurbjargs.
Næsta mynd er tekin frá Höfn og sér yfir víkina til Núpsins, fremst á Hornbjargi, Miðfells, drangsins Jörundar og Kálfatinds. Ekki vita allir að handan við þessi fjöll er sjálft Hornbjarg, þar er þverhnípt í sjó fram, rétt eins og fjöllin hafi verið skorin og eystri hlutinn fjarlægður. Neðsta myndin er tekin í gagnstæða átt og sú númer tvö. Horft er inn eftir Hornvík.