Helgi Magnússon hamast gegn Sjálfstæðisflokknum

Sá þarf ekki að teljast einangrunarsinni sem leggst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ekki frekar en sá sem vill aðildina sé á móti fullveldi Íslands eða landsölumaður. Uppnefni eru engin rök en það gerir Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri, sér ekki grein fyrir. Þess vegna er grein hans í Fréttablaðinu í dag eiginlega alveg marklaus.

Hann gagnrýnir Sjálfstæðiflokkinn fyrir hræðsluáróður og okkur sem erum á móti aðild Íslands að ESB kallar hann einangrunarsinna og hávær öfgaöfl. Ég var á landsfundinum og mér leið vel þar. Langflestir fundargesta voru á móti aðildinni og höfnuðu henni.

Hvað eiga þeir að gera sem hafa ákveðna skoðun í einstökum málum? Á að semja um þær? Stundum getur það verið ágætt, stundum ekki.

Aðildarumsóknin var knúin fram án þess að þjóðin væri spurð álits. Gengið var hreinlega framhjá henni þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vildi að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en málið væri tekið fyrir á Alþingi. Þá hlógu stjórnarsinnar. Sögðu nóg að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir samningaviðræðurnar þegar ljóst væri hvað væri í pakkanum.

Þegar aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi í júlí 2009 var logið að þjóðinni. Frá þeim tíma hafa staðið yfir aðlögunarviðræður við ESB, ekki samningaviðræður.

Í aðlögunarviðræðunum eiga Íslendingar að sýna fram á að þeir hafi tekið upp lög og reglur ESB og aðlagað stjórnsýsluna að kröfum sambandsins. Um þetta er ekkert samið, þetta er einhliða krafa ESB.

Engar samningaviðræður eiga sér stað. Hins vegar er hugsanlegt að í lokin leggi íslenska viðræðunefndin fram kröfur um undanþágur. Hugsanlegt er að ESB verði við þessum undanþágum en þær verða aðeins tímabundnar.

Helgi Magnússon minnist ekki á þessar staðreyndir í grein sinni. Hann skautar hins vegar um himinfestingar og sér hvergi til lands. Honum finnst sæma að vitna í Bjarna Benediktsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, rétt eins og hann sé einhver samherji ESB sinna.

Við erum aðeins 330.000 manns á þessari stóru eyju. Það þarf kjark, góða dómgreind og víðsýni til að hafna aðild að ESB og halda áfram að standa á eigin fótum. Í aðildinni felst ekkert annað en tap fyrir þjóðina, hún myndi hverfa í ESB þar sem þau ríki ráða sem hafa aldalanga reynslu sem nýlenduþjóðir og skeyta engu um réttlæti þegar eigin hagsmunir eiga í hlut. Það sýndi okkur afstaða Hollendinga og Breta í Icesave deilunni.

Helgi Magnússon ætti ekki að agnúast út í lýðræðislega forystu Sjálfstæðisflokksins og þá stefnu sem landsfundurinn mótaði á lýðræðislegan hátt. Við flokksmenn stöndum þétt að baki forystunnar og ef Helga er það um megn ætti hann að segja sig úr flokknum og ganga til liðs við þá sem nú fagna grein hans ákaft og taka sem dæmi um klofning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband