Tilfinning fyrir málinu fæst aðeins með lestri bóka

Svo undarlegt sem það virðist vera fer tilfinning yngri kynslóða fyrir málinu þverrandi. Aðeins ein ástæða er fyrir því og það er minni bóklestur ungs fólks. Eitthvað veldur því að fólk les minna en áður eða þá að lesturinn er öðru vísi. Þrátt fyrir mikla tölvunotkun og ýmiskonar ritvinnslu í tölvum virðist það ekki skila sér í tjáningunni.

Ég les dagblöð og fylgist með netsíðum. Almennt má segja að blaðamenn séu þokkalega skrifandi en engu að síður eru villurnar hrikalegar enda áreiðanlega fáir sem lesa texta yfir áður en hann kemur til birtingar, hvort heldur á í rituðu eða töluðu máli.

Bóklestur 

Bóklestur er grunnur fyrir öllum þroska. Ósjálfrátt eykst orðaforðinn og skilningur á tungumálinu og um leið fæst smátt og smátt tilfinning fyrir skriftum og blæbrigðum í frásögn. Þessi þróun er hvað léttust fyrir einstaklinginn á grunnskólatíma hans. Þegar komið er yfir sextán ára aldur ættu flestir að vera orðnir móttækilegir fyrir ítarlegri kennslu í íslensku máli. Gallinn er hins vegar sá að fjölmargir fá ekki góða íslenskukennslu á þessum árum og svo hefur sú skoðun orðið æ útbreiddari að stafsetning skipti engu máli og ritgerðasmíð sé leiðinleg. Þeir sem hafa þessa skoðun eru ábyggilega orðnir blaða- og fréttamenn. Lítum svo á athugasemdadálka netmiðla, fésbókina, twitter og allt þetta. Þar fær allt að vaða vegna þess að sagt er að lesandinn eigi aðeins að íhuga það sem sagt er en ekki hvernig.

Stafsetning og ritgerð 

Ég var aldrei góður í stafsetningu en hef frá barnæsku haft gaman af því að skrifa. Það var því sorglegt að skólakerfið skuli hafa metið þetta tvennt í einni og sömu einkuninni. Góð ritgerð fékk slæma einkunn vegna fjölda stafsetningavillna. Slæm ritgerð var hins vegar alltaf slæm þó svo að hún hafi verið rétt rituð. Það situr enn í mér að hafa fengið fimm, sex eða sjö fyrir ritgerð í menntaskóla. Skrifaði ég þó fínar ritgerðir, sem, eins og var sagt hér að ofan, voru útbíaðar í stafsetningavillum.

Ólafur M. Ólafsson, íslenskukennari, í MR, laugaði síður ritgerða minna í rauðu og tók ekkert tillit til frásagnar, stíls eða annars. Þetta olli mér meiri sorg en lélegar einkunnir í öðrum fögum og einn daginn var mér nóg boðið og ég fór til karlsins og mótmælti. Sagði honum hreinlega að þetta væri ósanngjarnt.

Ólafur var óvitlaus og tók þessum reiða dreng vel og við settumst niður og ræddum ritgerðina á þann hátt sem aldrei hafði verið gert áður. Við slepptum því að ræða stafsetningavillur og fórum eingöngu í efnistök ritgerðarinnar. Auðvitað hafði hann bara rennt í gegnum ritgerðina, leiðrétt villur og hent inn einkunn byggða á fjölda villna.

Á þessu litla fundi las hann ritgerðina aftur, sagði mér frá göllum og kostum hennar og ég leyfði mér að hafa skoðun á áliti hans. Niðurstaðan varð sú að ég hækkaði um einn heilan og ég er ekki frá því að ég hafi fengið aðeins skárri einkunnir fyrir ritgerðir hjá Ólafi eftir það.

Uppeldislegt gildi bóka

Ég hef alla tíð verið mikill lestrarhestur og á þokkalegt safn bóka og ég fullyrði að þær hafa haft alveg óskaplega mikið uppeldislegt gildi fyrir mig, jafnvel eftir að ég komst á fullorðinsár. Staðreyndin er einfaldlega sú að bækur gera fólk víðsýnt, þær fræða, hjálpa, í lestri felst sáluhjálp, þær veita andanum leið til að hrífast með, byggi upp tilfinningagreind. Líkur benda til að bóklestur geri fólk gáfaðra en þetta getur verið bölvuð vitleysa hjá mér og þá er bara eitt sem skýrir þessa ályktun.

Sem sagt málkenndin, máltilfinningin, er ekki meðfædd. Hún fæst með lestri bóka, miklum lestri. Og skemmtilegra áhugamál en bóklestur er ekki til. 


mbl.is „Málkenndin er í tómu tjóni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mikið er ég sammála þér.

Mannsheilinn er frábær í mynsturgreiningu, en eins og öll tæki sem stunda mynsturgreiningu þarf hann þjálfun.

Sú þjálfun fæst aðeins með lestri bóka.

Það er meira að segja þannig sem Google translate virkar, reyndar var það beinlínis þess vegna sem Google kom á fót þjónustu sem heitir Google books. Ekki vegna þess að Google græddi mikið á því að bjóða upp á gott aðgengi að bókum, heldur vegna þess að þannig fá þeir ókeypis stærsta máltæknigagnagrunn (lexis) sem hefur verið byggður í mannkynssögunni.

Ímyndið ykkur bara hvað þeir gera þá við Youtube þegar tæknin verður orðin nógu háþróuð til að vinna úr frjálsu myndefni, eins og það hún er orðin nú þegar varðandi texta.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.2.2013 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband