Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
Danskan gat misboðið Bretadrottningu
6.11.2013 | 10:57
Þetta með tungumálin, minnir mig á sögu um heimsókn Elísabetar Bretadrottningar til Danmerkur, hér um árið. Þá voru fjarlægðar lyftumerkingar alls staðar þar sem hún kom, því algengt var að þar stæði á upplýstum fleti: I FART þegar lyftan var í notkun. Þetta þótti ekki boðlegt fyrir enskumælandi hefðargesti.
Bráðfyndin frásögn af vef Eiðs Svanbergs Guðnasonar, Molar um málfar og miðla á dv.is.
Rannsóknir á makríl skapa 20 milljarða tekjur
6.11.2013 | 10:13
Gott hráefni leiðir til nýrra vinnslumöguleika og víða um land eru fyrirtæki að þreifa sig áfram með vinnslu nýrra afurða. Nýverið fékk heitreyktur makríll frá Sólskeri, þróaður í matarsmiðju Matís á Höfn, gullverðlaun í norrænni matvælasamkeppni. Þannig kennir makrílsagan okkur að með nánu samstarfi rannsóknaumhverfis og atvinnulífs sem miðar að aukinni verðmætasköpun eru okkur allir vegir færir.
Ekki eru það ný sannindi að gott hráefni leiði til nýrra vinnslumöguleika né að rannsóknir í atvinnulífi stuðla að aukinni verðmætasköpun. Engu að síður langar mig til að vitna hér í ágæta grein í Morgunblaðinu í morgun eftir Magneu G. Karlsdóttur, fagstjóra hjá Matís.
Í grein sinni fjallar hún um makrílinn, veiðar og nýtingu hans. Hún nefnir samstarf Matíss við sjávarútvegsfyrirtæki sem skilar betri meðhöndlun þegar makríllinn er hvað viðkvæmastur. Fram kemur í greininni að 80% makrílsaflans hafi farið til manneldis og skilað þjóðarbúinu tuttugu milljörðum króna.
Magnea nefnir að stór hluti fæðu makrílsins sé rauðáta og hún segir:
Í rauðátu eru afar virk ensím sem geta étið sig út úr maganum og skemmt holdið. Til þess að hægja á vikni rauðátunnar er mjög mikilvægt að kæla makrílafla niður fyrir -1°C til að koma í veg fyrir að makríllinn leysist hreinlega upp. Ofurkæling matvæla er kæling niður fyrir frostmark vatns, en það hefur ekki í för með sér frystingu matvæla þar sem ískristallar í matvælum myndast ekki fyrr en við hitastig á milli -1°C og -3°C. Ofurkælingin hefur líka í för með sér að aflinn er stífari og þolir betur hnjask við frekari meðhöndlun og dregur úr losi fiskvöðvans.
Makríllinn sem veiddur er hér við land er greinilega viðkvæmur fiskur og þarfnast ákveðinnar meðhöndlunar til að verða mannamatur.
Af orðum Magneu sannast það sem oft er sagt að fiskveiðar eru ekki það sem þær voru hér áður fyrr. Grundvallaratriðið er að hér er um að ræða matvælaiðnað og hann krefst verklags allt frá því fiskurinn er veiddur og þar til hann er kominn í hendur neytandans.
Meintir vinir svara ekki
5.11.2013 | 17:01
Hefði það verið einhver annar sem talar á þann hátt sem Össur gerir nú um forsetann, vin sinn, hefði Össur áræðanlega bætt við: Ef vinirnir eru svona, hvernig eru á óvinirnir?
Þeir eru líkir að mörgu leiti Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon. Sá fyrrnefndi heggur ótt og títt til forsetans en bætir því við milli högga að Ólafur Ragnar sé vinur hans.
Steingrímur lýsti því yfir í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að Ögmundur Jónasson væri enn vinur hans þrátt djúpan málefnalegan ágreining þeirra á milli sem leiddi til afsagna Ögmundar úr ríkisstjórn.
Allt þetta beinir sjónum okkar almennings að fórnarlömbum tvemenninganna, Ólafi Ragnari og Ögmundi. Þeir eiga það að minnsta kosti eitt sameiginlegt að þeir svara aungvu kveðjum meintra vina. Það skyldi þó ekki vera að vináttan sé svona frekar einhliða en hitt.
Vinur forsetans í 30 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gamlir kommar þekkja engin dæmi um Moggalygi
5.11.2013 | 09:48
Á vefnum timarit.is má finna nokkra tugi dæma um orðin Moggalygi eða Morgunblaðslygi, en þau eru næstum öll úr Morgunblaðinu sjálfu, þegar það er að væna andstæðinga sína um að gefa frásögnum blaðsins af ástandi mála í Austur-Evrópu þessa einkunn.
Einhvern veginn hélt maður að öllum vinstri mönnum hefði þrotið örendið eftir hraklega stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar og enginn væri almennilega með meðvitund utan þeir Gnarristar, Píratar og stöku góðmenni úr Bjartri framtíð. Enginn ærlegur vinstri maður hefur gert at eða skotið föstum skotum að Mogganum sem fagnar nú eitthundrað ára afmæli.
Þá rís upp úr móðunni gamli kommónistinn Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, og ritar glettna grein sem hann fær auðvitað birta í Morgunblaðinu. Hvar annars staðar? Í henni puðrar hann dálítið um svokallaða Moggalygi sem hann heldur fram að hafi fyrst og fremst verið notað af þeim Moggamönnum til heimabrúks, eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan. Hann man satt að segja ekkert um neina Moggalygi sem er náttúrulega ekki boðlegt fyrir heiðarlegan komma.
Etir því sem aldurinn færist yfir verðum við víst flest mildari og síður árásargjörn. Þegar ég var að alast upp á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var daglega efnt til stórkostlegra árása á Morgunblaðið og allt teygt og togað sem þar birtist. Gengu þar fremstir í flokki þeir Þjóðviljamenn enda var blaðið allt næst skemmtilegast aflestrar fyrir þá sem áhuga höfðu á stjórnmálum. Þar störfuðu frábærir pennar eins og Árni Bergmann, Kjartan Ólafsson og birtar voru greinar eftir aðra nagla svo sem Lúðvík Jósefsson, Magnús Kjartansson, Árna Björnsson og fleiri andans menn í socialístískum fræðum.
Það er því miður að grein Árna Björnssonar um Moggalygina er varla svipur hjá sjón miðað við orðfæri, rök og annað sem hann og félagar hans brúkuðu hér á árum áður. Í það minnsta er skemmtigildið því sem næst ekkert eins. Í niðurlagi greinar Árna er máttlaust herkall.
Það væri því vel þegið í sannleikans nafni ef einhver gæti bent á dæmi um annað en bent var á hér að framan.
Öldruðum Heimdellingum þykir eiginlega lítið varið í gamla komma ef þeir geta ekki verið hvassari og meinyrtari en þetta.
Rólegan æsing vegna náttúrupassans
4.11.2013 | 10:25
Áður en öll ferðaþjónustan verður sett í uppnám vegna fyrirætlana um að mjólka ferðamenn til að ráðast í þessar umbætur væri ágætt að fá kostnaðinn á hreint. Hvað kostar að hafa landverði að störfum á eftirsóttustu svæðunum yfir sumartímann? Hvað kostar að bæta merkingar og aðstöðu? Eru þetta slíkar upphæðir að setja þurfi á sérstakan skatt til að bera kostnaðinn?
Þórir Garðarsson, sölu- og markaðsstjóri ferðaþjónustufyrirtæksins Iceland Excursions Allrahanda ehf. ritar ágæta grein í Morgunblaðið í morgun undir fyrirsögninni Rólegan æsing og er hún vel við hæfi.
Tiltölulega stutt er síðan umræðan um gjaldtöku á ferðamenn varð til í þeirri mynd að annað hvort eða bæði þyrftu landeigendur að fá að rukka ferðamenn fyrir að fá að skoða náttúrperlur í landi þeirra og gefa þyrfti út og selja ferðamönnum náttúrupassa og helst nauðugum viljugum. Þórir vill fara rólegar í sakirnar og ég tek undir það með honum. Hann bendir á gríðarlegar tekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustunni:
Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar voru 324 milljarðar króna á síðasta ári samkvæmt skýrslu Gekon um virðisauka greinarinnar. Gjaldeyristekjur námu 178 milljörðum króna og beinar tekjur ríkisins af ferðaþjónustunni voru 30 milljarðar króna. Er ofrausn að lítill hluti af þessum tekjum fari til viðhalds og verndar á þeim náttúruperlum sem helst draga ferðamenn til landsins?
Persónulega get ég svarað þessari spurningu á þann veg að það sé engin ofrausn. Ég veit hins vegar að ráðherra Sjálfstæðisflokksins ætlar að þvinga þessum skatti upp á innlenda og útlenda ferðamenn af því að það kann að bjarga ríkisstjórninni frá því að þurfa að leggja fé í þann málaflokk sem ríkissjóður hagnast gríðarlega á.
Þórir varar við náttúrupassanum og segir að tekjur af ferðaþjónustu gætu hreinlega minnkað væri hann tekið upp.
Hugsanlega sigrar liðið sem skorar fleiri mörk ...
4.11.2013 | 10:14
Hefur það forspárgildi um leik Íslands og Króatíu þann 15. nóvember að landsliðsmenn beggja liða hafi skorað jafn mörg mörk í leikjum helgarinnar?
Nei, auðvitað ekki. Miklu nær væri að leita til draumspakra manna eða þeirra sem kunna spá í innyfli hrafna og fá álit þeirra (það er þeirra sem kunna að lesa í innyflin, ekki hrafnanna). Og það er einmitt það sem ég gerði eftir að hafa lesið þessa frétt í Morgunblaðinu.
Hrafnainnyflislesarinn kvartaði yfir skorti á dauðum hröfnum. Hann leyfði mér engu að síður hafa það eftir sér að það liðið sem skoraði fleiri mörk myndi hugsanlega hafa sigur.
Sá draumspaki var talsvert sammála og bætti því við að annað liðið þyrfti jafnvel ekki að skora nema einu marki meira en hitt til að hafa sigur.
Ekki veit ég hvort þessi svör spakra manna séu skýrari en frétt Morgunblaðsins en oft má gefa prik fyrir viðleitnina.
Ísland – Króatía 1:1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á hjóli um söguna frá Unni djúpúðgu til Unnar nýskírðu
3.11.2013 | 19:00
Brýrnar yfir Elliðaárósa í Reykjavík eru falleg mannvirki. Þakka skyldi, segir ábyggilega einhver, nóg kostuðu þær. Ég átti þarna leið um í dag. Myndin er svo sem ekkert sérstök, gat ekki stillt mig um annað en að taka hana þó það væri nú bara á iPhone símann minn.
Brá undir mig betri fætinum, raunar fór ég á hjóli úr Fossvoginum og upp í Garðsstaði í Grafarvogi en þar hún Unnur, sonardóttir mín skírð, þó komin væri langt á þriðja árið. Líklega er aldrei of seint að skíra. Margir halda því fram að engan eigi að skýra nema þann sem kominn er til vits og ára en það er nú annað mál.
Raunar var um að ræða tvöfalda skírn. Viktor Bjarki Arnarsson, bróðir hennar Sonju, tengdadóttur minnar, og Álfrún Pálsdóttir, kona hans, skírðu son sinn sem fékk nafn beggja afa sinna, Arnar Páll. Og Unnur mín fékk í leiðinni skvettuna sína eins og mig minnir að presturinn orðaði það í hálfkæringi á eftir.
Unnur mín heitir ekki eftir neinum sérstökum nema ef ske skyldi henni Auði djúpúðgu. Móðir mín sagði að sú hafi ekki heitið Auður heldur Unnur enda sögð svo í því fornriti sem við er ættir rekjum um Dali metum mest, Laxdælu.
Margt fagurt segir af Unni hinni vitru. Hún var af norrænum ættum en var gefin Ólafi hvíta Ingjaldssyni, herkonungi í Dyflinni. Þau áttu saman Þorsteinn hinn rauða sem herjaði á Skota og fékk jafnan sigur eins og segir í Laxdælu. Að því kom að Skotar höfðu áreiðanlega fengið leið á árásum þessa manns að þeir sömdu við hann og gáfu honum konungdæmi á hálfu Skotlandi.
Og svo segir í Laxdælu:
Skotar héldu eigi lengi sættina því að þeir sviku hann í tryggð. Svo segir Ari Þorgilsson hinn fróði um líflát Þorsteins að hann félli á Katanesi.
Og það var með Ólafi syni Þorsteins sem Unnur flúði til Íslands:
Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun. Og er skipið var algert þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með sér allt frændlið sitt það er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.
Hún nam land í Dölum og bjó að Hvammi, geysilega fögrum stað sem eftir það varð um aldir mikið höfðingjasetur.
Móðir mín fæddist að Hof-Akri, litlu býli sem er sunnan í dalnum, og horfir til Hvamms. Hún drakk í sig söguna og hafði alla tíð þá trú að hún væri af írskum uppruna en ekki af norrænum. Samkvæmt Íslendingabók (vefritinu) er það ábyggilega að hluta til rétt því hún er í þrítugasta lið komin af Unni djúpúðgu og Ólafi hinum írska herkonungi. En hvaða Íslendingur er það ekki?
Í Laxdælu segir af andláti Unnar og er það án ef ein sú fegursta frásögn af fráfalli sögupersónu í fornriti. Þar segir:
Síðan gekk Unnur inn í skála og sveit mikil með henni. Og er skálinn var alskipaður fannst mönnum mikið um hversu veisla sú var sköruleg.
Þá mælti Unnur: Björn kveð eg að þessu bróður minn og Helga og aðra frændur vora og vini: Bólstað þenna með slíkum búnaði sem nú megið þér sjá sel eg í hendur Ólafi frænda mínum til eignar og forráða.
Eftir það stóð Unnur upp og kvaðst ganga mundu til þeirrar skemmu sem hún var vön að sofa í, bað að það skyldi hver hafa að skemmtan sem þá væri næst skapi en mungát skyldi skemmta alþýðunni. Svo segja menn að Unnur hafi bæði verið há og þrekleg. Hún gekk hart utar eftir skálanum. Fundust mönnum orð um að konan var enn virðuleg. Drukku menn um kveldið þangað til að mönnum þótti mál að sofa.
En um daginn eftir gekk Ólafur feilan til svefnstofu Unnar frændkonu sinnar. Og er hann kom í stofuna sat Unnur upp við hægindin. Hún var þá önduð. Gekk Ólafur eftir það í skálann og sagði tíðindi þessi. Þótti mönnum mikils um vert hversu Unnur hafði haldið virðingu sinni til dauðadags. Var nú drukkið allt saman, brullaup Ólafs og erfi Unnar. Og hinn síðasta dag boðsins var Unnur flutt til haugs þess er henni var búinn. Hún var lögð í skip í hauginum og mikið fé var í haug lagt með henni. Var eftir það aftur kastaður haugurinn.
Ja, hérna ... Mikið óskaplega er ég kominn langt frá brúnni laglegu sem ég hjólaði framhjá í dag á leið í skírn Unnar, sonardóttur minnar. Þetta gerist oft þegar maður kemst á skrið og enginn segir manni að hætta ...
Myndirnar skýra sig sjálfar. Sú næstefsta er af Hvammi í Dölum. Sú neðast er af krossinum fallega á Krosshólaborg í Hvammsveit. Hann var reistur til minningar um Unni djúpúðgu en sagan segir að þar hafi hún jafnan farið og beðist fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvers vegna magnaðist eldurinn?
1.11.2013 | 13:02
Þegar Landhelgisgæslan kom að skipinu Fernöndu logaði í því og smávægilegur reykur liðaðist upp úr því.
Eldurinn í skipinu varð ekki óviðráðanlegur fyrr en það kom til Hafnarfjarðar. Hvað veldur?
Skipið verður dregið út úr höfninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jón Gnarr eykur skuldir borgarinnar um 750.000 kr á klst.
1.11.2013 | 11:19
Kjartan Magnússon er einn af örfáum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem hefur staðið sig í stjórnarandstöðu. Hann hefur til að bera yfirburðaþekkingu í málefnum borgarinnar, er harðskeyttur í málflutnini en þó alltaf kurteis og sanngjarn. Betra væri ef fleiri stjórnmálamenn hefðu þessa hæfileika til að bera.
Í grein í Morgunblaðinu í morgun bendir Kjartan á að fimm manna fjölskydla í Reykjavík með þrjú börn á skólaaldri muni greiða rúmlega 440.000 krónum meira í skatta og gjöld til borgarinnar en hún gerði við upphaf þessa kjörtímabils.
Frá því meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni.
Ég efast um að borgarbúar átti sig á þessum staðreyndum að öðrum kosti myndi fylgi Besta flokksins fara í það sama eða neðar en Samfylkingarinnar. Og Kjartan er ómyrkur í máli um skuldastöðu borgarinnar:
Aukningin nemur 26 milljörðum króna á tímabilinu eða 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn.
Þetta er hrikaleg staða og bendir til þess að hvorki Jón Gnarr né dagur hafi ekki haft hugmynd um hvað þeir hafa verið að gera.
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur stórskaða málstað Sjálfstæðisflokksins
1.11.2013 | 10:27
Í Morgunblaðinu í dag er við Erling Ásgeirsson, formann bæjarráðs Garðabæjar. Af lestri þess fer ekki á milli mála að hann og bæjarstjórnin er kominn út í horn með framkvæmdirnar í Gálgahrauni og á í hinum mestu erfiðleikum með málstað sinn.
Í þokkabót gerir Morgunblaðið honum afar slæman grikk sem er að birta kort og ljósmynd af Gálgahrauni. Hefði hvorugt fylgt viðtalinu gæti það virst bara nokkuð sennilegt og jafnvel skapað dálitla samúð með málstað hans gegn hinum vondu hraunavinum. Hann þráast engu að síður við og hálmstráið er að kalla Gálgahraun Garðahraun, rétt eins og það örnefni bjargi einhverju. En í raun er hann eins og handrukkarinn sem villist inn á heimili, og eftir að hafa stórskemmt innanstokksmuni, biðst hann hálfvegins afsökunar: Úbbbbs ..., bömmer. Getum við ekki bara verið vinir hér, ha ... Grafið stríðsöxina ...
Það er hins vegar rétt hjá Erlingi að barátta hraunavina er töpuð því vegurinn hefur þegar verið markaður í gegnum hraunið. Hann verður þá þar til framtíðar sem minnisvarði um óskynsamlegar ákvarðanir bæjarstjórnar Garðabæjar og vegurinn án efa fordæmdur af komandi kynslóðum.
Ég held líka að allur ferill málsins sé kennslubókardæmi um slæma stjórnsýslu, hvernig ekki eigi að meðhöndla skynsamlegar tillögur fólks sem vill vel og er annt um umhverfi sitt. Í raun og veru felst í þessu kjarni málsins, að bæjarstjórn Garðabæjar skildi ekki fólkið sem vill vel heldur kom fram við það af megnustu ókurteisi og ruddaskap. Tók ekkert tillit til andstæðna sjónarmiða heldur leit á þær sem persónulegar árásir.
Til viðbótar hefur bæjarstjórnin, allt fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, stórskaðað málstað flokksins. Andstæðingar hans eiga nú afar auðvelt með að benda á Gálgahraun sem dæmi um meint áhugaleysi flokksins í umhverfismálum og náttúruvernd, sem auðvitað er alröng ályktun - nema hvað varðar Garðabæ.
Fyrir tæpu ári beindi ég orðum mínum að Erlingi Ásgeirssyni, og mun vinsamlegar en ég geri núna, vísa í þann pistil hér.