Viðskipti við Netflix brjóta ekki á höfundarétti

Netflix, Hulu og hluti af iTunes eru efnisveitur á internetinu sem Íslendingum stendur ekki til boða. Hver skyldi nú ástæðan vera?

Til að gera langa sögu stutta er hún einfaldlega sú að stjórnendur þessara efnisveitna hafa ekki enn stofnað fyrirtæki hér á landi eða hafa ekki áhuga á því. Engu að síður getum við tengt okkur við þær og keypt tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsþætti ef við óskum þess. Hið eina sem þarf er Ip-tala á tölvunni okkar sem upplýsir ekki að við séum á því svæði sem þessar efnisveitur selja ekki enn á.

Látum vera hvort það sé rangt eða jafnvel lögbrot af mér að fela mig þannig fyrir efnisveitunum. Hitt er engu að síður staðreynda að ég kaupi af þeim þætti, ég fæ að horfa á þá og þeir fá peningana mína. Í sjálfu sér er enginn munur á viðskiptunum en er í Bandaríkjunum, Kanada eða þeim Evrópuþjóðum sem þessi þjónusta er í boði. Að öllum líkindum er allir sáttir með þetta nema samkeppnisaðilarnir hér á landi.

Hvað skyldi svo Netflix, Hulu og iTunes gera við íslensku áskriftarpeningana? Jú, fyrirtæki greiða afnotagjald fyrir sýningu á sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tónlist, borga fyrir rekstur sinn og eitthvað er svo hreinn hagnaður eftir skatta.

Ekki misskilja. Áskriftarpeningarnir frá Íslandi eru ekki svartir. Efnisveiturnar stinga þeim ekki í eigin vasa og neita að greiða höfundarréttinn. Nei, þetta er allt sama púllían, þeir hafa samið um að greiða ákveðið gjald fyrir leigu á efni og hvað varðar tónlist og annað þá gilda einfaldar reglur um greiðslur.

Ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Þ. Stephensen, fer einfaldlega með rangt mál í helgarblaðinu þegar hann segir eftirfarandi í leiðara:

Ástæðan fyrir því að þær eru lokaðar er ekki tæknileg mistök eða mannvonzka. Þær eru lokaðar vegna þess að það brýtur í bága við lög um höfundarrétt að þær bjóði efni sitt fram á Íslandi. Með því að bjóða upp á þjónustu sem kemur íslenzkum neytendum í viðskiptasamband við þessar erlendu efnisveitur hvetur fjarskiptafyrirtækið þess vegna til lögbrota, þótt það vilji auðvitað ekki viðurkenna það. 

Þetta er bara kolrangt. Hið eina sem gæti hugsanlega verið til athugunar er að einhverjir telji sig eiga einkaréttinn til sýninga á einhverju efni hér á landi. Í þeim löndum þar sem þessar efnisveitur eru starfandi er hins vegar ekki um að ræða einokun á sýningu á ákveðnum bíómyndum eða sjónvarpsþáttum og hér. Réttur framleiðanda efnis til að selja víðar er virtur. Þetta kemur þar af leiðandi höfundarétti ekki við.

Vissulega er ekki greiddur virðisaukaskattur af þjónustu ofangreindra efnisveitna. Það er ekki heldur gert þegar ég kaupi forrit í tölvuna mína af ýmsum erlendum framleiðendum. Staðreyndin er einfaldlega sú að heimurinn er orðinn opið viðskiptasvæði og þar ganga kaupum og sölum óáþreifanlegir hlutir sem hægt er að senda þvers og kruss án þess að neinn verði þess var. Flest af þessum forritum get ég til dæmis ekki keypt hér á landi.

Hvernig skyldi internetið líta út ef skattayfirvöld og lögregla væru með nefið ofan í hverjum netþræði til að afla ríkissjóði virðisaukaskattstekna? Líklega eins og í Norður-Kóreu eða í besta falli eins og í Kína.

Er það sú staða sem við viljum fá hér á landi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt hjá þé, 365 miðlar eru bara orðnir hræddir við að missa spón úr sínum aski. Það eru frekar ódýr rök hjá Ara Edwald að segja að íslensk tunga sé í hættu ef íslendingar fái að sjá ótextað efni frá Netflix, þar sem hann er sjálfur að byrja með þátt sem heitir hinu íslenska nafni ísland got talent!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.10.2013 kl. 22:31

2 identicon

Er ekki fínt að fá Netflix, þá fara kannski 365 miðlar sömu leið og vídeó leigurnar sálugu.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 27.10.2013 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband