Smá saga af flugdólgi

Stundum minnist ég atvika þegar ég á námsárum mínum starfaði í lögreglunni í Reykjavík. Yfirleitt eru það ánægjuleg atvik en þó koma upp í hugann slæm mál sem stóðu lengi í manni og gera kannski enn. Sammerkt eiga þau öll að áfengi var mikill örlagavaldur fyrir alla, seka og saklausa.

Fyrir mörgum árum starfaði ég sem fararstjóri á tveimur vinsælum ferðamannastöðum. Þar lenti maður af og til í að aðstoða ógæfusama farþega að komast úr slæmum málum. Yfirleitt var þetta gott fólk sem hafði lent í óhöppum eða misstigið sig smávægilega sérstaklega með áfengi.

Þannig var það ekki með flugdólginn og drykkjumanninn sem við þurftum að senda heim. Hann um sextíu og fimm ára gamall, hafði komið út með vinkonu sinni og hagað sér eins og vitstola maður í flugvélinni. Enginn vissi hvernig hann hafði komist óhindrað um borð því hann átti að hafa verið í ævilöngu flugbanni eftir ítrekuð læti. Á þriggja vikna dvöl mannsins á sólarströnd drakk hann ótæpilega og hagaði sér eins og hann var vanur.

Hér verð ég eiginlega að taka það fram að maðurinn var vel menntaður og ágætlega fjáður en hafði engu að síður þann sama djöful að draga eins og svo margir aðrir. Hann réði engan vegin við sjálfan sig þegar hann bragðaði áfengi. Og þegar þarna var komið sögu var líkaminn farinn að bregðast eftir áratuga ofdrykkju.

Þegar leið að heimfarardegi varð mikil rekistefna enda átti þessi alræmdi flugdólgur ekki að fá að fljúga heim með þessu flugfélagi. Um síðir fékkst undanþága, þó ekki án skilyrða. Hann yrði að vera allsgáður, tryggt væri að hann gerði ekki þarfir sínar í sæti sitt og hann yrði til friðs á meðan á fluginu stæði.

Við vorum þrjú send á hótel mannsins til að tryggja efndirnar. Með mér fór einn fararstjóri og hjúkrunarkona, hvort tveggja duglegt fólk og skynsamt. Þegar við gengum inn í herbergið rákumst við sem á vegg. Lyktin virtist vera af áfengi, þvagi, gubbi og saur og blessaður maðurinn var dálítið drukkinn en gerði sér grein fyrir heimferðinni og skilyrðum hennar. Og við vildum sem fyrst koma honum í burtu.

Þarna þurftum við bókstaflega að setja á manninn bleyju svo hann myndi nú ekki valda flugfélaginu tjóni. Þetta gekk ekki nema við hjálpuðumst öll þrjú að en flugdólgurinn flæktist bara fyrir. Í sannleika sagt getur það verið broslegt verkefni að setja bleyju á fullan mann en það var það síst af öllu og er það ekki enn þann dag í dag. Þetta var eitt af því versta sem ég hef lent í og hef ekki geð í mér til að lýsa aðstæðum umfram þetta. Og enga höfðum við gúmmíhanskana, því miður. Í kringum okkur sniglaðist þokkabót ógæfufólk sem hafði drukkið með manninum og drukkin vinkonan sem kallaði okkur öllum illum nöfnum fyrir að fara svona með góðan mann ...

Eftir rúma klukkustundar vinnu komum við karlinum loksins út í leigubíl en þó ekki fyrr en hann hafði kvatt alla drykkjufélaga sína, konur og karla, með kossi. Og ekki var neinn hörgull á þeim því margir fengu ókeypis áfengi meðan hans naut við. Hans var eðlilega sárt saknað.

Mér skilst að heimferðin hafi gengið nokkuð vel, þrátt fyrir að hafa verið lítilsháttar drukkinn er hann kom um borð. Hann fékk þó ekkert áfengi um borð en engu að síður var ólyktin af honum mörgum farþegum til mikils ama. 

Mér finnst ástæða til að segja þessa sögu hérna, ekki til að gera lítið úr manninum. Hann sá mest megnis um að gera það sjálfur. Ástæðan er fyrst og fremst sú að áfengið fer illa með margan góðan manninn. Ef ekki væri fyrir það væri margir betur staddir á vegferð sinni.

Síst af öllu ætla ég að prédika um bindindi en reynsla mín, allt frá því í löggunni í gamla daga og fram til dagsins í dag bendir aðeins til eins. Alltof margir lenda í erfiðleikum vegna drykkjunnar. Ég velti því stundum fyrir mér hvort samfélagið myndi leyfa áfengi ef það væri að koma á markaðinn í dag?


mbl.is Sló farþega og hrækti ítrekað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Mín upplifun af sólarlandaförum á árum áður var sú, að innan um voru alltaf einhverjir sem virtust fara í utanlandsferðir til þess eins að drekka. Þeir byrjuðu gjarnan á Keflavíkurflugvelli, héldu áfram um borð í flugvélunum og drukku svo meira og minna á meðan á dvölinni stóð í útlandinu. Flestir voru nokkurn veginn eða alveg til friðs, en sumir misstu tökin og trufluðu samferðafólk sitt, bæði í ferðunum á milli landa og á hótelunum. En eitt áttu nær því allir sameiginlegt; þeir drukku lítið, sumir ekkert, síðasta dag dvalar og strömmuðu sig af á leiðinni heim. Þegar lent var á Íslandi og ættingjar og vinir komu til að sækja mannskapinn, leit helst út fyrir að enginn hefði bragðað dropa allan túrinn og ef ekki hefði verið fyrir andremmu og krumpuð jakkaföt, hefði fáa grunað hvað á undan var gengið.

Ég sé þetta gerast í dag, en í mun minni mæli en áður. Hvort það er vegna þess að drykkjusiðir hér á landi hafa tekið stakkaskiptum, veit ég ekki, en víst er mun styttra og helling ódýrara að bregða sér bara á hverfispöbbinn sinn.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 5.1.2013 kl. 01:17

2 Smámynd: Viggó Jörgensson

Sæll Sigurður.

Flugdólgurinn þjóðþekkti lenti í mótorhjólaslysi á Spáni.

Hætti eftir það að vinna og varð alger vesalingur.

Varð mögulega fyrir framheilaskaða í slysinu.

Maðurinn var dúx í menntaskóla og lauk erfiðu háskólanámi.

Hann var einhver erfiðasta fyllibytta landsins að eiga við.  

Viggó Jörgensson, 5.1.2013 kl. 01:32

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ertu viss um að þetta sé sami maðurinn. Þegar ég kynntist honum gat hann varla haldið á penna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.1.2013 kl. 01:35

4 Smámynd: Viggó Jörgensson

Mér sýnist það af frásögninni.

Hann kláraði menntaskólann á þremur árum,

lauk háskólaprófi á heilbrigðissviðinu

og var mjög fær í sínu fagi.

Áður en að hann slasaðist og Bakkus tók völdin af honum.

Viggó Jörgensson, 6.1.2013 kl. 03:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband