Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Hvanná hefur alltaf verið til vandræða

P0001291

Þórsmörk er norðan Krossár, Goðaland og fleiri svæði eru sunnan. Básar eru á Goðalandi, Langidalur og Húsadalur tilheyra Þórsmörk.

Hvanná kemur úr samnefndu gili. Hún er viðsjárverð. Vex hratt í rigningum og þegar hlýtt er í veðri kemur snjóbráðin hratt fram í henni.

Ekki er rangt að segja að Hvanná sé á leiðinni í Þórsmörk. Þarflegra væri að geta þess að hún er líka farartálmi á leiðinni í Bása en þangað fer stærsti hluti ferðamanna sem leggur leið sínaá eigin bíl á þessar slóðir. Hins vegar er það beinlínis rangnefni að kalla þennan veg „Þórsmerkurleið“.

Svo er það ekkert nýtt að Hvanná breyti um farveg. Hún gerir það oftsinnis á hverju ári og ekki þarf annað en að skoða aurkeiluna úr Hvannárgili til að sjá að það þannig hefur hún hagað sér í langan tíma. Og svo spyr maður sig hvort það sé ekki bara eðlilegt að Hvanná fái að vera ótamin um ókomna tíð?


mbl.is Leiðin inn í Þórsmörk varhugaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnina skortir skilning

Fáir menn hafa betri eða gleggri yfirsýn yfir stjórnmálin en Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki alltaf sammála honum en nýt þess engu að síður að lesa greinar hans í Fréttablaðinu. Hann er skýr, stuttorðu og hnitmiðaður.

Þorsteinn ritar síðasta laugardag um embættistöku forseta Íslands. Hann hefur nokkrar mætur á forsetanum en engu að síður sér hann í gegnum hann og segir frá því á þann hátt að enginn ætti að geta misskilið:

Ræða forseta Íslands við embættistökuna nú í vikunni var ekki gallalaus. Sjálfsupphafningin var til að mynda á sínum stað þótt hún hafi að þessu sinni fremur verið ívaf en uppistaða. Kjarninn í ræðunni var hins vegar hófsöm hirting vegna ráðleysis og sundurlyndis við meðferð stjórnarskrármálsins á Alþingi. 

Í greininni reynir Þorsteinn að líta frá göllunum í ræðu forsetans og einblínir á það sem í raun skiptir öllu máli og segir:

En það er ástæða til að horfa fram hjá þessum ágöllum vegna þess í ræðunni var boðskapur sem á brýnt erindi. Forsetinn benti með sterkum og afgerandi hætti á þann háska sem í því er fólgin þegar landsmálaforystan vill ekki breiða sátt um undirstöður stjórnskipunarinnar. Verkurinn er sá að forsetinn hefur svo oft hrópað hátt án þess að efni stæðu til að ekki er víst að þeir leggi við hlustir nú sem helst ættu að gera það.

Og Þorsteinn gagnrýnir harðlega fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar með drög að nýrri stjórnarskrá og varar við afleiðingunum:

Kjarninn í boðskap forsetans er þó fyrst og fremst sá að stjórnarskrá sem sett er í fullkomnu stríði er ekki traustari en hús sem reist er á sandi. Það eru gömul sannindi og ný. Um enga löggjöf gildir það fremur en stjórnarskrána að hana skuli byggja á bjargi.

Einhverra hluta vegna er umburðalyndi ríkisstjórnarmeirihlutans þannig saman sett að honum er það kappsmál að breyta stjórnarskránni án þess að taka nokkurt tillit til annarra en þeirra sem styðja stjórnlagaráðið að málum. Og þeir stjórnlagaráðsliðar eru til sem ráðast með svikabirgslum að þeim sem ekki eru ráðinu fyllilega sammála. Allt þetta er í hrópandi ósamræmi við breytingar á stjórnarskránni frá stofnin lýðveldisins og á örugglega eftir að að verða mikið vandamál. Annars vegar er verið að setja fordæmi sem gengur þvert á siðvenjur lýðræðisins, að með góðu eða illu skulu breytingar knúnar fram. Hins vegar er hugsanlega verið að leggja drög að breytingum sem án efa verður breytt aftur nái önnur viðhorf síðar fram. Þar með erum við komin með stjórnarskrána í slíkar ógöngur að hún verður stöðugt bitbein.

Í lok greinar sinnar varpar Þorsteinn fram áhugaverðum vangaveltum:

Nýkjörinn biskup vék einnig með skýrum rökum að stjórnarskrármálinu af predikunarstóli dómkirkjunnar fyrir embættistökuna. Biskupinn benti réttilega á að þjóðkirkjan nýtur sérstakrar stjórnarskrárverndar vegna þess að hún hefur verið hluti af innviðum samfélagsins. Hvernig styrkir það samfélagið að rífa þá innviði niður? Bætir það andann í þjóðfélaginu?

[...]

Bæði forsetinn og biskupinn hafa kastað bolta í fangið á forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Nú er að sjá hvernig þeir spila úr þeirri stöðu.

Þetta eru áhugavert og í raun spennandi að fá niðurstöður. Hins vegar held ég að þær komi seint frá ríkisstjórnarmeirihlutanum. Hvort tveggja er að hann skilur ekki það sem Þorsteinn eða biskup segir og þó hann gerði það skortir hann greind til að vinna úr málinu. Ríkisstjórnin hefur látið fleiri og jafnvel alvarlegri mál sitja á hakanum en þetta, hvort tveggja af heimsku og getuleysi.

 


Veldu þér dag ...

DSCN0142

Veldu þér dag en vandaðu valið. Hann verður að vera bjartur, helst síðdegissól eins og svo oft er í ágúst. Líttu yfir flóann. Það er góðs viti ef ekki eru ský yfir Snæfellsnesi. Þá eru meiri líkindi á að sólin setjist í heiði. Horfðu síðan í hina áttina. Líttu til Bláfjalla. Þar ber oftast mest á Vífilsfelli, fjallinu sem kennt er við þrælinn. Séu Bláfjöllin skýlaus og björt gríptu skóna og komdu þér af stað.

Gakktu á Vífilsfell. Ekki norðaustanmegin. Aktu þess í stað upp fyrir Sandskeið. Findu vegarslóða sem liggja í áttina að giljunum austan megin við fjallið. Þar er fyrirheitna landið. Þar get ég lofað þér undrum og stórmerkjum þegar kvöldsólin er sem björtust og varpar geislum sínum óhindrað yfir flóann, höfuðborgina, Heiðmörk og á Bláfjöll. Þau verða rauð.

DSCN0063DSC_0148

Leggðu bílnum, gakktu yfir heiðina og að gilinu. Veldu gilið hægra megin og fetaðu þína öruggu leið upp. Ekki flýta þér. Láttu ekki hugann ana með líkamann í gönur. Þetta tekur vissulega á, þú svitnar og þreytist en það er öllum holt.

Gakktu svo í áttina að efri hluta Vífilsfells og þá heyrirðu sögurnar sem meðfylgjandi myndir segja. Mundu samt að birtan skiptir máli, hún gæði landið lífi.

DSC_0156

Sjáðu til dæmis þessar myndir. Tvær efstu eru bjartar og fagrar en hinar hafa ekki sama töfra og ljóma þó vissulega sé landslagið eitt og hið sama, magnað og stórkostlegt.

Þannig gerast nú hlutirnir á landinu okkar. Og munum að oft þarf ekki að fara nema örskammt til að skoða það sem haldið getur manni hugföngnum tímunum saman.

Þannig er það með Vífilsfellið að suðvestanverðu. 


Sigurinn var enginn tilviljun

Þetta var stórkostlegur leikur hjá íslenska handboltalandsliðinu. Leikurinn var svo hrikalega spennandi að ég þurfti að fara í annað herbergi á meðan. Hélt að nú væri runninn upp slæmi kafli íslenska landsliðsins. En mikið hafði ég ánægjulega rangt fyrir mér.

Horfði síðan á síðustu mínúturnar og svo aftur á leikinn í endursýningu á dönsku stöðinni. Þá hafði ég áttað mig á varnartaktík liðsins. Logi Geirsson upplýsti um hana í spjalli eftir leikinn og fyrir vikið varð mér létt. Greinilegt að landsliðsþjálfarinn og menn hans fara með vísindalegri nákvæmni yfir leiki andstæðinganna og útfæra sinn leik með hliðsjón af niðurstöðunum.

Sigurinn á franska landsliðinu var þess vegna enginn tilviljun. Hann var niðurstaða rannsókna og skipulagningar sem leikmenn fóru eftir að fullu og svo hjálpar auðvitað til þessi ógnarsterki liðsandi sem er í liðinu. 

Til hamingju, landsliðsmenn og þjálfari. 


mbl.is „Við þurfum að vera auðmjúkir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki kveikja eld á grónu landi

grilla#E5BCDHér áður fyrr var svo hatrammlega barist gegn því að kveiktir væru eldara á gróinni jörð að það jaðraði við öfgar. Engu að síður hafði þessi áróður tilætluð áhrif og nú er svo komið að enginn gerir það lengur.

Meðfylgjandi mynd er úr auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Á henni logar eldur í sviðnu grasi og ungur maður grillar kalkúnapylsur á priki. 

Þessi mynd er ekki boðleg og alveg ótrúlegt að auglýsingastofa skuli senda þau skilaboð út að í lagi sé að kveikja elda á grónum svæðum.

Ef við ætlum að grilla, gerum það ekki á jörðinni. Notum grill eða förum af gróðrinum og kveikjum eldinn á möl þar sem engin hætta er á að hann berist í gróður.

Góð umgegni ferðamanna er gríðarlega mikilvæg og allir sem nálægt ferðaþjónustu koma, gistiaðilar, umhverfissamtök, þjónustuaðilar og umsjónaraðilar lands leggja ríka áherslu á að fólk kveiki ekki elda á grónu landi. Ástæðan er einfaldlega sú að góður er lengi að ná sér, íkveikjuhætta er talsverð og fátt er meira óaðlaðandi en að koma td. að tjaldsvæði sem er allt flekkótt eftir opna elda.


Slakt fylgi Sjálfstæðisflokksins við kjöraðstæður

Hvað veldur því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að ná meira fylgi við kjöraðstæður fyrir stjórnarandstöðuflokk? Að ná tæplega 37% fylgi við slíkar aðstæður er ekki viðunandi.
 
Þannig spyr Styrmir Gunnarsson á Evrópuvaktinni og virðist í betra sambandi við flokksmenn en forysta Sjálfstæðisflokksins.
 
Oft kjafta menn um pólitík í heita pottinum og rauna miklu víðar. Undarlega margir kannast við bloggið mitt og stundum fæ ég klapp á bakið og oftar en ekki vilja menn ræða við mig um stjórnmál. Svo kemur fyrir að ég þarf að svara fyrir forystu flokksins, sem ég hef nú aldrei tilheyrt en rennur þó blóðið til skyldunnar að reyna.
 
Oftast er ég spurður að því hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætli nú að gera þegar hann kemst til valda. Þeir sem þannig spyrja gætu alveg treyst sér til þess að kjósa flokkinn aftur en vilja fá einhverjar yfirlýsingar um staðreyndir mála. Mér vefst oft tunga um höfuð sérstaklega þegar fólk spyr eftir áferðafallegar útskýringar mínar hvers vegna flokkurinn segi þetta þá ekki berum orðum. 
 
Á flestum brennur atvinnuleysið, skattamál, tekjuskortur, húsnæðisskuldir og álíka. Og ég rek enn og aftur einhverjar ályktanir síðasta landsfundar.
 
En Siggi minn, sagði góð vinkona mín um daginn, en hún er komin á eftirlaun. Þegar Davíð var í stjórnmálum gaf hann út lista með öllu því sem hann ætlaði að gera og dagsetti aðgerðirnar meira að segja. Ef Sjálfstæðisflokkurinn gerir svona þá kýs ég hann aftur, sagði þessi góða kona.
 
Þannig á stjórnmálaflokkur auðvitað að vinna, vera sífellt vakandi og halda baráttumálum sínum að fólki og afla fylgis við þau. Ekki fara í sumarfrí á þessum síðustu og verstu tímum. 

Smálækir á hvolfi ... eða þannig

810417-156Skjannahvítt hrímið meðfram læknum hefur líklegast myndast í næturfrosti á jöklinum,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur, í þessari frétt á mbl.is. Og auðvitað hefur hann rétt fyrir sér.

Um leið mundi ég eftir svipuðu sem gerðist er við gengum nokkrir ungir piltar yfir Sprengisand í apríl 1981. Við vorum tveir Reykvíkingar og fjórir frá Akureyri, allt stórskemmtilegir félagar, sem böðluðust yfir hálendið, stundum í leiðinda veðri og mótvindi. Þó veðrið færi batnandi eftir því sem á gönguna leið höfðu náttúruöflin ekki sagt skilið við okkur.

Í mars hafði gosið í Heklu. Þegar við vorum komnir að Þórisvatni sáum við að mikil aska hafði fallið og var mjög erfitt að skíða. Raunar fór askan svo illa með sólann á gönguskíðunum mínum að ég þurfti að henda þeim þegar heim var komið.

810417-142

Síðasta kafla göngunnar var bjart, sól á daginn og stjörnubjart að nóttu. Og auðvitað þýddi það næturfrost. Er sólin náði að lina frosttökin rann stundum vatn yfir snjóinn en kuldinn var nægur til að vatnið fraus hægt í rennsli sínu. Þá urðu til lækjarfarvegir með öfugum formerkjum eða á ég að segja að þeir hafi hreinlega verið á hvolfi ...

Hvítir lágu lækirnir ofan á öskuþöktum snjónum rétt eins og sjá má á efri myndinni. Að öllu jöfnu hefðu þeir átt að grafa sig ofan í snjóinn. Og formin voru fjölbreytt og skemmtileg, rétt eins og frosrósir á rúðu.

Sé neðri myndin stækkuð má sjá að einn félaga minna rennir sér á fullri ferð og ætlar að komast yfir hvíta lækjarsprænuna sem hann hyggur vera vel frosna en þá fór í verra. Skjannahvítt hrímið gaf eftir og hann sökk upp að hnjám ... 


mbl.is Lækur sprettur upp á miðjum Mýrdalsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Hermannsson kastaði 18,48 m

Við lestur fréttarinnar um íslenska kúluvarparann á Ólympíuleikunum reikar hugurinn aftur í tímann. Í æsku heyrði maður ósjaldan um Guðmund Hermannsson, kúluvarpara, og sá hann keppa. Glæsilegur maður sem allir báru mikla virðingu fyrir ekki aðeins í íþróttum heldur líka sem góður lögregluþjónn. Tvö sumur var ég í svokallaðri sumarlöggu og átti þess kost að hitta æskugoðið nokkrum sinnum.

Besta kast Guðmundar í kúluvarpi var 18,48 metrar árið 1969. Mig minnir þó að kúlan hafi verið aðeins léttari en hún er núna. Það skiptir þó litlu máli. Íslendingar hafa jafnan átt góða íþróttamenn, sumir hafa keppt á Ólympíuleikum eins og Guðmundur og jafnan verið þjóð sinni til sóma.

Guðmundur var íþróttamaður ársins 1967 og margfaldur Íslandsmeistari í sinni grein. 


mbl.is Óðinn kastaði 17,62 metra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítt þekktar náttúruperlur á Íslandi

Fróðárdalur
Um daginn nefndi Ómar Ragnarsson nokkra staði sem honum eru hugstæðir en eiga það sameiginlegt að fáir leggja leið sína á þá. Hann sagði meðal annars og átti við útlenda ferðamenn:
 
Öllum er beint á "Gullna hringinn" og það í svo miklum mæli, að halda mætti að ekkert annað markvert sé að sjá á Íslandi. En því fer víðs fjarri. Undur náttúru Íslands eru enn að mestu óþekkt og þar af leiðandi hvergi nærri metin að verðleikum.
 
Undir þetta má vissulega taka. Ég hef eiginlega alla mína tíða verið ákaflega undrandi yfir þekkingarleysi íslenskra ferðaskipuleggjenda á landinu. Manni sýnist að hver skipuleggjandi fari í forspor hins, svona með örfáum undantekningum.
 
DSC_0025 Foss í Gjánni í Þjórsárdal
Ómar benti á eftirfarandi staði:
  • Gjástykki
  • Hveragil í Kverkfjöllum
  • Sönghofsdalur
  • Dynk
  • Gljúfurleitafoss
  • Hvanngiljafoss
  • Grímsvötn
  • Norðurgil við Mýrdalsjökul
  • Jökulgil við Torfajökul
  • Strandarhellarnir vestan við Þorlákshöfn
  • Hraukarnir í Kringilsárrana
  • Sauðárhraukar við Sauðárflugvöll
  • Grágæsadalur
  • Eldvörp
DSC_0181 Af Uppgönguhrygg ti Torfajökuls
Erfitt er að komast að sumum þessara staða sem Ómar nefnir og dregur það væntanlega úr vinsældum þeirra. Þá þeirra sem ég þekki er ég fyllilega sammála Ómari um.
 
Vatnsdalur
Mig langar að feta í fótspor Ómars og koma með lista yfir þá staði sem mér finnst einstaklega merkilegir en eiga það líka sameiginlegt að fáir leggja leið sína þangað. Í upphafi hélt ég að ég gæti takmarkað mig við ca. sama fjölda og Ómar en það reyndist ómögulegt. Alltaf bættust við staðir sem manni finnst að eigi skilið að komast á listann. Þannig getur hann orðið margfalt lengri en ég læt þessa duga:
L 0107 080907
  • Hattver í Jökulgili skammt frá Landmannalaugum og raunar Jökulgil allt 
  • Gjáin fyrir ofan Stöng í Þjórsárdal
  • Rauðibotn, Hólmsá og Hólmsárlón
  • Hólmsárfossar neðan við Mælifellssand
  • endalausidalurÁ og foss sem fellur í hvelfingu efst í Fróðárdal, vestan Draugamúla. Einstaklega fallegt er ofan fossins. Þekki ekki nöfn á þessum stöðum
  • Rauðisandur
  • Spákonufell við Skagaströnd
  • Dyrfjöll
  • Borgarfjörður eystri
  • Vatnsdalur við Heinabergsjökull í VatnajökliDSC_0243, Dyrfjöll, Dyrnar, Stóraurð, tvípan - Version 2
  • Kálfafellsdalur
  • Vestrahorn, gönguleiðin undir frá Papaósi að Horni, einnig gönguleiðin upp Kastárdal og í niður skriðurnar við Kambshorn.
  • Gönguleiðin um Endalausadal
  • Ketillaugarfjall
  • Esjufjöll
  • Grímsvötn
  • NúpsstaðaskógarKálfafellsdalur
  • Upptök Bláfjallakvíslar norðan Öldufells
  • Þjófadalir
  • Heiðmörk
Þessum stöðum er ekki raðað í neina sérstaka röð hérna, rita þá eftir því sem þeir koma upp í hugann. Það er þó staðreynd að fjöldi staða á Íslandi eru tiltölulega óþekktir og fáir leita þeirra vegna þess að þeir vita ekki af þeim.



Fúll þingmaður mætir ekki til innsetningar forseta

Virðing er merkilegt hugtak sem nauðsynlegt er að allir íhugi. Hún virkar eiginlega í báðar áttir og tengist sæmd hvers manns. Til þess að samfélagið gangi snurðulaust fyrir sig er nauðsynlegt að hver og einn beri virðingu fyrir náunganum, eignum annarr, sameignum, fólki sem hefur með höndum ákveðin störf og svo framvegis.

Þetta átti nú ekki að vera neinn heimspekilegur pistill en ástæðan er brýn. Á þessum vettvangi hefur ég oft gagnrýnt ráðamenn og ýmsa aðra. Ég dreg þó enga dul á að ég ber virðingu fyrir embættum ráðherra, þingmanna og annarra og skiptir engu hver gegnir þeim. Sómi minn byggist síst af öllu á einhverjum fúkyrðum um aðra.

Í dag verður Ólafur Ragnar Grímsson settur í fimmta sinn í embætti forseta Íslands. Í sjálfu sér skiptir það engu máli hvort menn hafi kosið manninn eða ekki, hvort þeim líkar við hann eða hatast. Aðalatriðið er að hann gegnir virðulegasta embætti lýðveldisins.

Það er því allsendis ósæmilegt þingmönnum að mæta ekki til innsetningarinnar og síst af öllu er þingmanni boðlegt að segja eftirfarandi: 

Það er að mínu mati úrelt fyrirkomulag að forseti sé settur í embætti í Alþingishúsinu og lagt sé að þingmönnum að vera viðstaddir klæddir í kjól og hvítt. Hér er ekki þinglega athöfn að ræða og þingmönnum ber engin skylda til að vera við innsetningu forseta í embætti. [...]

Ólafur Ragnar Grímsson hefur nánast hótað því að afnema þingræði á Íslandi þegar honum hentar svo að gera og talað mjög fjálglega um vald forseta. Í því ljósi er það meira kaldhæðnislegt að hann skuli settur í embætti í sjálfu þinghúsinu sem hýsir elsta þjóðþing í heimi.

Honum hlýtur að vera skemmt við húrrahróp og fagnaðarlæti kjólfatakæddra þingmanna við innsetninguna í dag, honum til heiðurs.

Þar verð ég ekki. 

Þetta ritar Björn Valur Gíslason, þingmaður og formaður þingflokks VG. Svo litla virðingu ber hann fyrir lýðveldinu og ekki síður lýðræðislegri niðurstöðu forsetakjörs, sem honum var ekki að skapi, að í heift sinni ætlar hann ekki að mæta í viðhöfn sem þó er hluti af starfi hans sem þingmanns. Hann er „fúll á móti“.

Um leið ruglar þingmaðurinn saman embætti forseta Íslands og þeirri persónu sem gegnir því. Hagar sér eins og fúllynt barn sem neitar að koma inn að borða af því að það er ekki pizza og ís í matinn.

Ég held að við Íslendingar þurfum að vanda betur valið á því fólki sem gegnir því virðulega starfi sem þingmennskan er. Svo má alltaf ítreka það sem Guðni rektor sagði í gamla daga að það vantar alltaf duglega menn á sjó. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband