Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Er allt er á fallanda fæti ... eða hvað?

Sigurður Þór Guðjónsson er einn snarpasti bloggari hér á landi. Hann er oft afar lúmskur á nibus gloggi sínu, frekar fáorður nema þá aðeins hann er að fjalla um veður. Þó er eftirfarandi pistill nafna míns afar stuttur og er hann engu að síður að fjalla um verður. Held að boðskapurinn sé gagnrýni á þetta eilífa kif, að allt sé á fallanda fæti eða í ætt við það sem Cicero sagði forðum daga; O tempora o mores (þvílíkir tímar, þvílíkir siðir), og kynslóðir hafa alla tíð síðan munað.

  • Svalasti júlídagur í sögu mælinga á Englandi.
  • Kaldasta júlíbyrjun í París í 80 ár. 
  • Gífurlegar rigningar í Mið-Evrópu og stórflóð í Dóná. 
  • Fjörtíu stiga hiti á Spáni og allt að skrælna. 
  • Ofsahitar í Kansas, allt upp í 45 stig. 
  • Hundruðir farast vegna flóða í Dhamaputra á Indlandi. 
  • Já, það er ekki á veðurfarsöfgarnar logið.
- Þetta var í júlí 1954.

Ofangreint hefði alveg getað verið í fjölmiðlum dagsins og þá hefði ekki vantað fólkið sem talar áður en það skilur, skrifar áður en það hugsar, og það hefði sagt: Auðvitað er þetta allt gróðurhúsaáhrifunum að kenna.

Færri hefðu nefnt þá staðreynd að sem einnig kunni að skipta máli að umhleypingar í veðurfari hafa alla tíð átt sér stað hér á jörðu.


Gnarr og fjármál Reykjavíkurborgar

Hvar er borgarstjórinn þegar svara þarf fyrir fjármál borgarinnar? Jón Kristinsson Gnarr er týndur og tröllum gefinn nema þegar klippa þarf á borða, fara í hinsegin göngu eða fara almennum orðum um eitt og annað smálegt.

Þegar kemur að sérhæfðum málum þá sést eitt augnablik undir skósóla Jóns og hann er horfinn í rykmekki og lætur embættismenn um að svara.


mbl.is Fjármál Reykjavíkur skoðuð nánar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halloka Skakklöpp

Ég hef áður skrifað um úrskurði mannanafnanefndar ríkisins og held því nú áfram. Rifja upp að úti í bæ sitja nokkrir glaðir, miðaldra karlar, hverra nöfn ég held hér leyndum, og hafa það fyrir stafni að semja nöfn sem þeir svo senda þessari nafnamannanafnanafnamannanefndnefnd ríkisins til umsagnar - og hafa gaman af.

Rætt hefur verið um kvenmannsnafnið Laugalind, endurtek Laugalind. Það þykir einstaklega vel saman sett og hentar vel fyrir foreldra sem eru dálítið rómantískir, sérstaklega móðirin sem ræður væntanlega för en karlinn dregur sig til hlés og samþykkir allt sem hún segir. Laugalind, t.d. Magnúsdóttir virðist vera létt í munni og uppfylla öll skilyrði móðurmálsins.

Þá kemur að karlmannsnafninu Raunsannur, endurtek Raunsannur. Nafnið er undurfagurt og í senn karlmannlegt og eðlilegt sem mikil þörf virðist vera á í dag. Raunsannur, t.d. Magnússon virðist ganga ákaflega vel og uppfyllir skilyrði móðurmálsins. Samsetning tveggja eða fleiri nafna kemur hér sterkt út. Til dæmis Raunsannur Örn Magnússon eða Raunsannur Kálfur Mannsson (hið síðarnefnda kann að valda misskilningi eins og skopsagan sannar, en hún er um fund um álfa í félagsheimilinu. Fyrirlesari byrjaði á því að spyrja hvort einhver í sveitinni hefði verið með álfum. Enginn rétti upp hönd en svo læddist upp ein lengst úti í horni. Já, hrópaði fyrirlesarinn æstur. Hér er einn og þú, þú góði, þú hefur væntanlega verið með álfum. Erþaki? Ha, sagði þá sá sem átti höndina. Álfum, nei ... heyrðist þú segja kálfum ...).

Skaklöpp þykir ekki gott kvenmannsnafn þar sem það gæti haft í för með sér einelti fyrir þann sem ber það. Að öðru leyti ætti það að ganga enda móðurmálslega fagurt. Nafnið er samansett út sögninni að skaka og klöpp (hverjum datt í hug að það væri lýsingarorðið skakkur og löpp ...?).

Loks er ekki úr vegi að geta nýnefnisins Hallloki, samansett úr tveimur nöfnum, Halli og Loki. Þetta gengur svo ákaflega vel saman að unun er á að hlusta. Kosturinn við nafnið er að það gengur listilega vel sem kvenmannsnafn og er þá Hallloka. Maður sér hreinlega fyrir sér að Halloka Skaklöpp Raunsannsdóttir reyna sig í badminton við Evrópumeistara kvenna og auðvitað fer hún ... á kostum.

 


mbl.is Mega heita Dante og Rorí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiður Guðnason missir stjórn á sér vegna joðs

Hann Eiður Guðnason, fyrrum sendiherra, ráðherra og alþingismaður, dundar sér við að skrifa á heimasíðu sína um málfar í fjölmiðlum. Og gerir það vel, svona efnislega.

Hins vegar hefur hann skrýtinn ritstíl. Best að lýsa honum þannig að hann sé önugur, fúll á móti. Hranlegur og leiðinlegur stíll mannsins gerir það að verkum að ég nenni sjaldnast að lesa skrifin eftir Eið, þó ég hefði nú gott af því (svona efnislega). 

Hvað um það. Ég álpaðist til að lesa einn pistil eftir Eið og í honum stendur meðal margs annars (feitletrunin er mín):

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins náði nýjum botni í skrifum sínum á miðvikudag (11.07.2012). Djúpt var niður á botninn áður. Enn dýpra nú. Hann skrifar um umfjöllun Styrmis Gunnarssonar um Steingrím J. Sigfússon ráðherra og segir: Veit Styrmir ekki hvað J. í nafninu stendur fyrir? Júdasartilvísunin æpir á lesandann. Verri getur nokkur maður varla verið en svikarinn Júdas. Áhangendur Morgunblaðseigenda og skrifara nota gjarnan nasistatilvísanir og tala um föðurlandssvikara þegar rætt um þá sem styðja Evrópusamstarfið. Nú hefur nýr maður verið leiddur til leiks á síðum Moggans, – svikarinn Júdas. Svona hefði Matthías aldrei skrifað, – ekki Styrmir heldur. Þetta er heldur ógeðfellt.

Þetta minnir mig á manninn sem saknaði 5.000 króna seðilsins. Hann leitaði í öllum vösum og litaðist síðan um í herberginu þar sem nokkrir menn voru auk hans. Gekk síðan á hvern og einn og ásaskaði um stuldinn. Allir báru þeir af sér sök og tóku í raun áburð mannins óstinnt upp.

Sá var nú orðinn sannfærður um að einhver hefði stolið frá sér og stakk höndum í vasann, þungbrýnn mjög og horfði morðaugum á félaga sína. Örskömmu síðar birti yfir honum er hann dró seðilinn upp úr vinstri buxnavasa sínum. Og af barnslegri gleði hrökk út úr honum: „Ó, hérna er hann þá“. Svo hélt hann áfram við störf sín og skeytti engu þó hann hafði fyrir örfáum mínútum ásakað samstarfsmenn sína um þjófnað.

Sama er með Eið Guðnason, þann „besservisser“. Hann er svo illa að sér eða bráður nema hvort tveggja sé, að hann stekkur upp með hinn eina og sanna skilning á ómerkilegu joði og fimbulfambar um Júdas, nasisma og föðurlandssvik. Ekki dettur honum í hug að höfundur Staksteina hafi einfaldlega átt við að joðið í millinafni Steingríms J. Sigfússonar, allsherjarmálaráðherra, gæti staðið fyrir upphrópuninni „JÁ“. „Já ESB aðild“.

Eins og maðurinn í sögunni þá mun Eiður ábyggilega tauta í barm sér: Ó, átti höfundurinn við það. Og svo heldur Eiður áfram aðfinnslum sínum, eða öllu heldur önugu nöldri sínu, rétt eins og ekkert hafi í skorist. Þykist engum skulda afsökunarbeiðni. 


Sæla náðhúsa

860712

Hvort tveggja eru falleg orð, sæluhús og náðhús. Fátt er betra þreyttum ferðamanni en að komast í skjól, slíkt er mikil sæla. Sömuleiðis er hverjum manni sæla að létta á sér. Náðin er eiginlega hin sama í báðum tilfellum. Hins vegar er afar skítt, ef svo má að orði komast, að svo fagurt orð sem náðhús sé notað yfir kamar eða klósett. 

Það breytir ekki málinu. Hér eru nokkrar myndir sem voru ástæðan fyrir þessum pistli. 

880728-40

Fyrsta myndin er af kömrum sem stóðu við Dettifoss 1986. Birtan var falleg, umhverfið stórbrotið ... og því tók ég mynd af tveimur kömrum. Raunar tók ég miklu fleiri myndir af enn áhugaverðari mótívum. Hins vegar verður að viðurkennast að þetta er nokkuð falleg mynd, samsvarar sér vel í breytileika sínum.

880728-47

Myndin er slides en nokkuð óskýr eftir skönnun. Skanninn minn er eiginlega ekki nógu góður, HP Scanjet G4050. Sé dálítið eftir að hafa keypt hann. Forritið sem er fyrir Makka er drasl, illa hannað og möguleikar fátæklegir. En það er nú annað mál. Kaupi bara aðra tegund þegar fjárhagurinn leyfir.

Næsta mynd var tekin sumarið 1988 við Álftavatn. Myndin er ekkert sérstök, og þó. Takið eftir bakpokanum sem liggur fyrir utan annan kamarinn. Og þá fer myndin allt í einu að segja sögu.

Þriðja myndin er frá Hvanngili á Fjallabaki syðra. Þar er gamall gangnamannaskáli og fyrir utan hann var lítill kamar sem einhver skildi eftir opinn. Fyrir vikið verður myndin skemmtilegri og enn má greina sögu. Hitt er líka áhugavert hversu allt stefnir upp á myndinni.

880728-18

Síðasta myndin er algjört ógeð ... eins og margir myndu segja. Hvað um það? Ekki hverfur úrgangurinn úr fólki er það lokar á eftir sér kamrinum. Á einhverri stundu fyllist hann og einhver þarf þá að sinna þessum málum. Það var verið að gera í Hrafntinnuskeri er ég kom þarna að einhvern tímann sumarið 1988 með hóp á vegum Útivistar.

Á myndinni er gamli skálinn í Hrafntinnuskeri sem var fluttur í Botna eftir að Höskuldarskáli var byggður. Ef til vill stendur sá nýji þar sem haugurinn er á myndinni. Hver veit? Maður veit aldrei á hverju hús eru byggð eða hvað sé í grunninum. Einhvers staðar er skrifað: „Maður byggði hús sitt sandi ...“ 

Og ef einhver mynd getur sagt sögu þá eru hér í forgrunni ótal smásögur sem þó er engin ástæða til að fara nánar út í. 

 

 

 


Auðvelt að leysa mál hælisleitenda

Skörulegur forstjóri Útlendingastofnunar, Krístín Völundardóttir, vakti athygli skömmu eftir áramótin er hún lét hafa það eftir sér að ráða þyrfti tvo starfsmenn til að gera útaf við biðlista stofnunarinnar.

Velferðarstjórnin lætur þó ekki að sér hæða. Hún hefur tileinkað sér hið versta úr bjúrókratíinu og svarar ekki beiðnum eða vísar til aðstsæðna í fjármálum. Skiptir ekki máli hvort um er að ræða fólk sem bíður eftir nýjum mjaðmalið eða útlendinga sem óska eftir að fá að setjast hér að.

Auðvitað vinnur vit betur en strit. Vinstri stjórnin vill hins vegar frekar vera með „lager“ af hælisleitendum sem bíða, margir milli vonar og ótta. Það er svo ósköp gott að þykjast vera góður við minni máttar.

Þó gerðu menn sér ekki grein fyrir hliðarverkunum á þessum vanda. Sumir koma hingað í mikilli nauð vegna hræðilegra ofsókna heima fyrir. Aðrir koma hingað vegna leitar að betra lífi. Þriðji hópurinn er auðvitað til og hann er sá sem er ósköp sama hvar hann lendir, vill bara ekki vera heima. Að sjálfsögðu ber okkur skylda til að taka á móti fólki og aðstoða þá sem eru í neyð.

En ef til vill er fjórði hópurinn til en hann má ekki nefna. Gæti verið að til hans heyri fólk sem ferðast með óhreinlyndi og fer með rangt mál? Og svo auðvitast skarast þessir fjórir hópar á ýmsan hátt.

En er ekki bara hægt að verða við óskum útlendingastofnunar? Er ekki hægt að taka tvo til fjóra lögfræðinga úr stjórnsýslunni þar sem þeir eru að vinna nauðugir, viljugir að einhvers konar aðlögun íslenskrar stjórnsýslu við þá hjá ESB? Og málið leyst.


Fíkniefni flæða inn í landið

Fréttaflutningur síðustu daga veldur dálítilli undrun hjá þeim sem fylgjast vel með. Þetta stendur uppúr:

Mikið af fíkniefnum í umferð
Lítið finnst af fíkniefnum við tollskoðun
Landamæraeftirlit ríkisins er götótt

Maður veltir því fyrir sér hvort illa sé staðið að landamæraeftirliti ríkisins, stjórnuninni sé ábótavant eða starfsfólk kærulaust. Þetta leiðir auðvitað athyglina að Schengen-samkomulaginu, hvort það sé yfirleitt þjóðinni í hag. Persónulega finnst mér ekkert eftirsóknarvert að geta sleppt því að sýna vegabréf við komuna til Evrópu ef það kostar að við þurfum að galopna landamæri okkar fyrir smygli og glæpalýð.

Eftirlit með landamærunum virðist líka vera gallað þegar hver sem er getur komist út á frísvæði og inn í flugvélar. Sé þetta svona auðvelt hvað með líkurnar á hermdarverkum? 

 


mbl.is Mikið af fíkniefnum í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gönguferð að meintum gíg

DSC_0026

Oft er veiðin sýnd en ekki gefin. Þannig fór um fjallaferð mína í dag er ég gekk á fjöll til að skoða gíginn þann sem ég hef sagt hér frá og er skammt frá Skarðsheiði. Raunar austan við Blákoll og sunnan við Hafnarfjall.

Þegar upp var komið, skall á þoka og síðan hellirigning og lítið varð því um myndatökur. Ég er ekki jarðfræðingur og hef litla þekkingu á þeim fræðum. Þó gat ég ekki séð að þarna væri móberg. Aðeins „venjulegt“ grágrýti.

Ég gat ekki betur séð en þetta væri gígur, annað er útilokað. Þá ályktun dreg ég af gígbarminum. Hann er hærri en umhverfið allan hringinn, legg þó ekki höfuð mitt að veði fyrir þessari skýringu.

DSC_0028

Ekkert móberg er sjáanlegt ofan á fjallshryggnum og ekki heldur í gígnum, hvorki inni í honum né utan. Grágrýtið er þarna vaxið miklum mosa, hraungambra, held ég. Engin merki eru að gígurinn hafi myndast vegna skriðufalla.

Gígurinn er utan í hæð á fjallshrygg. Gígurinn er ílangur, um 200 metrar á breidd og um 150 á lengd. Gígbotninn er láréttur, ef til vill örlítill halli í NV. Þar eru tvö op, annað er djúpt gil og bratt og hitt er þannig að um 10 m af gígbarminum vantar. Þarna er gígbarmurinn aðeins um tveir til fimm metrar á hæð. Hin langhliðin er mun hærri, ca. um 40-60 metrar. 

DSC_0046

Ég gekk um annað opið og inn í gíginn og síðan upp með gígbarminum þar sem hann var efstur. Þar eru hamrar og hefur hrunið úr þeim. Svæðið er um þriggja milljón ára gamalt samkvæmt mínum heimildum og auðvitað greinir leikmaðurinn engin merki um eldvirkni 

Efsta myndin er tekin úr suðri og sýnir gíginn í farska. Auðvelt er að ganga framhjá honum enda er fátt sem bendir til annars en að þarna séu bara hamrar.

Önnur myndin sýnir hann nokkru nær og sú þriðja er tekin ofan á hæðinni horft er í NV og þarna er gíbarmurinn um þriggja til fjögurra metra hærri en umhverfið. Þannig er það allan hringinn.

Google kort

 Ég ók sem leið lá að Ölveri sem er sunnan við Hafnarfjall og síðan malarslóða, sunnan undir Blákolli, að svökölluðu Hestagili. Gekk þar upp með því og eftir fjallshryggnum að gígnum. Þetta eru um fjórir kílómetrar, rúmlega klukkustundar gangur. Dálítið bratt í fyrstu en auðvelt land til göngu. Fór síðan svipaða leið til baka. Samtals um átta kílómetra ganga á þremur tímum.

Síðasta myndin sýnir gíginn. Smellið tvisvar eða þrisvar á myndina og hún verður skýrari og þægilegir aflestrar.

Þetta er nú skársta myndin enda fengin úr jarðargúgli. Hinar einkennast af slagveðri dagsins. Bið forláts en vona að einhver hafi gagn af þeim og texta. 

Þegar ég hafði lokið við að birta þennan pistil, sem þó er varla fugl né fiskur, barst mér skýring ættuð frá Hjalta Franzyni, sem kortlagði svæðið á sínum tíma og skrifaði um það doktorsritgerð. Hann segir:

Þetta er afar sérstæður gígtappi, um 240 x 140 m. Ytra byrðið er fallega lárétt stuðlað dólerítlegt innskot. Þykkt þessa ellipsulagaða lags er 10-20 m. Það sem er undarlegt er að innri skilin eru fínkorna sem bendir til að þar séu skilin á tappanum. Hvað er fyrir innan í miðhlutanum er ekki ljóst þar sem ekki sést í berg. Þessi sérkennilega myndun er í "móbergfyllingu" öskjunnar í Hafnarfjalli og hefur líklegast rofist þar niður um 200-300 m frá yfirborði öskjunnar.  


Varað við valdaframsali til ESB

Hins vegar teldi ég eðlilegt að breyta stjórnarskránni þannig að hægt sé með ákvörðun Alþingis að deila fullveldisréttinum [með ESB] í tilvikum eins og þessum. Það leysir málið að hluta. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir þeim ágöllum EES-aðildarinnar sem hér býr að baki. Mín lausn á vandanum er að ganga í ESB og verða þátttakandi í þessu ferli, og ekki bara þiggjandi. Aðrir verða svo að gera grein fyrir sinni lausn.
 
Þessi tilvitnun er úr niðurlagi fróðlegrar fréttaskýringar í Morgunblaðinu í morgun. Meðal annarra er rætt við Mörð Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, sem mælir ofagreind orð. Þarna er verið að ræða lögmæti nýrrar reglugerðar vegna losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda.
 
Björg Thorarensen, lagaprófessor, og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, telja reglugerðina feli í sér valdaframsal til ESB.
 
Í fréttaskýringunni segir: 
 
Þótt ekki sé kveðið á um reglugerðina í frumvarpinu skapar samþykkt laganna umgjörð sem reglugerðin fellur að. Má hér nefna að í greinargerð umhverfisráðuneytisins segir að annað meginmarkmið loftslagslaganna sé „að innleiða reglur um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda sem eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.“
 
Hafi einhver verið í vafa um að Ísland standi í aðlögunarviðræðum er þetta einn ein staðfestingin en það sem er alvarlegast er að þetta framsal er ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá og á það benda lagaprófessorarnir.
 
Gott og vel, þá hlýtur að vera næst á dagskránni að lagfæra þetta. Draga lögin og reglugerðina til baka.
 
En er það svona einfalt? Nei, Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur aðra skoðun. Hann ætlar að troða þjóðinni inn í ESB með góðu eða illu. Næst á dagskránni hjá honum er bara að breyta stjórnarskránni og leyfa þetta fullveldisafsal.
 
Það má þó hæla Merði fyrir hreinskilnina. Fáir aðrir stjórnarliðar hafa talað af slíkri léttúð um alvarlegt mál. Þó honum finnist valdaframsal þjóðarinnar léttvægt finnst mér og mörgum öðrum það gríðarlega alvarlegt.

Logið að ESB um fylgi við aðild

Óháð því hvar menn skipa sér í flokka hljóta flestir að undrast hegðun forystumanna Vinstri grænna. Yfirlýst stefna flokksins er að standa utan Evrópusambandsins. Engu að síður samþykkir þingflokkur VG að sækja um aðild undir því falska yfirskini að um sé að ræða könnunarviðræður en ekki aðlögunarviðræður.

Svo hart kveður að sinnaskiptum þingflokksins að foyrstumennirnir verja nú orðið aðlögunarviðræðurnar og telja það einhvern lið í því að „kíkja í pakkann“ og réttlæta svo allt með því að þjóðin muni á endanum taka afstöðu til aðildarinnar.

Í upphafi krafðist Sjálfstæðisflokkurinn þess að leitað yrði álits þjóðarinnar áður en farið væri í viðræður við ESB. Þessu höfnuðu Vinstri grænir og Samfylkingin. Raunar hlógu ráðherrar og stjórnarliðar að þessari tillögu. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, hrópuðu þeir upp yfir sig í vandlætingu sinni. Til hvers? Það er alveg nóg að hafa eina í lokin. Þeir eru nú að bíta úr nálinni vegna þessarar afstöðu sinnar.

Eftir því sem á kjörtímabilið hefur liðið hefur komið í ljós að um var að ræða aðlögunarviðræður. VG og Samfylking eru búin að gera þjóðina að fífli fyrir það að sækja um aðild án þess að hugur fylgi máli. Ríkisstsjórnin hélt að smám saman myndi þjóðin átta sig og flykkjast um ESB aðildina. Þvert á móti hefur hún sameinast um andstöðu sína.

Vinstri grænir sitja nú í pólitísku keraldi og vilja helst fela sig fyrir þjóðinni. Málefnalegir menn eins og Ragnar Arnalds eru langþreyttir og afar ósáttir við loðin og aumingjaleg svör forystu flokksins. Sama er að segja um langflesta flokksmenn. Menn skilja ekki á hvaða vegferð forystan er. Þjóðin áttar sig ekki á Vinstri grænum.

Í sjálfu sér er allt í lagi að menn hafi ákveðnar skoðanir í stjórnmálum og láti ekki stjórnast af flöktandi vindinum. En þá eiga menn að segja það. Ekki halda því fram í öðru orðinu að þeir séu á móti ESB aðild og hinu að þeir vilji halda áfram aðlögunarviðræðunum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Vinstri grænir geta ekki snúið til baka. Þeir eru komnir of langt. Jafnframt vita þeir að viðsnúning hefur í för með sér alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir þá persónulega - mjög alvarlegar, ríkissstjórnarsamstarfið mun springa og kosningar munu gera út af við þingflokkinn. 

Þetta er þó bara aukaatriði. Það sem mestu skiptir er einfaldlega að stefna VG og Samfylkingarinnar hefur farið hriklalega með orðspor þjóðarinnar. Þeir hafa logið því að Evrópusambandinu að meirihluti væri fyrir aðildinni eða þá að auðveldlega megi snúa þjóðinni til fylgis. Þegar upp kemst um lygina, og það gerist fyrr en síðar, mun ESB ekki taka léttilega á því, skiptir engu hverjir verða við stjórnvölinn. Engin kemst upp með að ljúga að stórþjóð eða ríkjasambandi án þess að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér.

 


mbl.is Gagnrýnir forystumenn VG harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband