Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Bretar fá aðrar ráðgjöf ASG en Íslendingar
20.7.2012 | 09:55
Sjóðurinn segir að ef efnahagslífinu takist ekki að rétta úr kútnum á fyrri hluta árs 2013 ætti breska ríkið að draga úr niðurskurðaráformum og einbeita sér að því að fjárfesta í innviðum, sem sé samgöngum og öðru slíku, og grípa til tímabundinna skattalækkana.Fyrir skömmu tilkynnti bresk fjármálaráðuneytið og Englandsbanki um 50 milljarða punda aðgerð til að auka lánsframboð á betri kjörum handa breskum heimilum og fyrirtækjum til að koma efnahagslífinu á hreyfingu.AGS sagði að þetta væri djörf aðgerð en að það þyrfti aukinn slaka í peningamálastefnuna, þar með talið að lækka frekar vexti.
Tíu mistök og svik stjórnmálamanns
20.7.2012 | 00:50
Stjórnmálamönnum leyfist ýmsilegt. Þeir mega gera mistök, mega mismæla sig, keyra fullir, halda framhjá, tapa peningum, fara á hausinn og svo framvegis. Við erum öll breysk og okkur getur vissulega orðið á í messunni. Þetta eru hins vegar ekki neinar dauðasyndir, við getum lagað stöðuna, betrumbætt okkur og gengið síðan götuna fram eftir veg.
Dauðasyndirnar eru hins vegar svik og óafturkræf mistök. Þær eru til dæmis þessar:
- Segist vera á móti ESB en samþykkir engu að síður aðildarviðræður á þingi sem og aðlögun íslenskrar stjórnsýslu við stjórnkerfi ESB.
- Hatast við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í stjórnarandstöðu en breytir um skoðun sem ráðherra og vinnur náið með honum.
- Leggur fram frumvarp til laga um að þjóðin borgi Icesave, þingið samþykkir en þjóðin fellir með yfirgnæfandi mun.
- Leggur aftur fram frumvarp til laga um að þjóðin borgi Icesave, þingið samþykkir en þjóðin fellir með yfirgnæfandi mun.
- Telur kjósendum sínum trú um að hann sé maður fólksins en efnahagsaðgerðir hans beinast meira eða minna að því að segja ríkisstarfsmönnum upp störfum og koma því á atvinnuleysisskrá.
- Telur sér og samstarfsmönnum sínum um að hann þekki þjóðina og geti sannfært hana um stefnu sína en það reynist haldlaust grobb. Þjóðin hefur hafnað honum í endurteknum þjóðaratkvæðagreiðslum.
- Berst gegn endurkjöri forseta og tapar hrikalega.
- Heldur því fram að 2,5& hagvöxtur stafi af aðgerðum ríkisstjórnarinnar
- Reynist illur í samstarfi, flokkur hans klofnar og nánir vinir og samstarfsmenn hrökklast í burtu og stofna eigin flokka.
- Fjórum árum eftir hrun kennir hann öðrum um allt það sem miður fer en sjálfur þykist hann eiga heiðurinn af því sem vel gengur.
Myndir þú, ágæti lesandi, kaupa notaðan bíl af manni sem hefur á eftir sér svona slóð?
Eða leyfist allt í pólitík vegna þess að við kjósendur munum ekkert, gleymum því jafnóðum sé eitthvað gert á hluta okkar.
Mun ESB hætta aðildarviðræðum vegna makrílsins?
18.7.2012 | 11:51
Evrópusambandið gæti fengið bakþanka vegna fyrirhugaðrar valdbeitingar til að koma vitinu fyrir Íslendinga í makríldeilunni. Það er einfaldlega ekki markmið sambandsins að berja á öðrum þjóðum í krafti stærðarinnar. Verið getur að einhverjir kommissarar átti sig á þessari staðreynd.
Óvinveittar aðgerðir
Flestum er enn í minni deilur Breta, Vestur-Þjóðverja og fleiri þjóða vegna útfærslna íslensku landhelginnar. Menn muna að Bretar sendu herskip á Íslandsmið í þeim tilgangi að verja togara sína við veiðar. Bretar og Vestur-þjóðverjar uxu ekki í áliti vegna þorskastríðanna og almenningsálitið var þeim andsnúið jafnvel eftir samninga sem taldir voru aðeins hagstæðir Íslendingum.
Enn betur muna menn ákvarðanir Breta um að beita hryðjuverkalögum sínum, Anti-terrorism, Crime and Security Act, gegn Landsbankanum, sem þótti og þykir enn gríðarlega óvinveitt aðgerð gegn þjóð sem er með Bretum í Nato.
Brestur í Nató
Svo umdeild var hún að hún olli miklu uppþoti innan Nató og hefur eiginlega sýnt fram á alvarlegan brest í bandalaginu. Sameiginlegur málstaður aðildarþjóða kann að reynast minniháttar miðað við sérhagsmuni einstakra þjóða. Þetta kann að sýna að aðildarríkin standi í raun ekki eins þétt saman eins og þau vilja vera láta. Þó Nató hafi stuðlað að því að sáttir hafi einhvern tímann náðst í þorskastríði er ekki þar með sagt að bandalagið hafi pólitíska getu til að gera það aftur, til þess er það orðið of sundrað.
Ríkisstyrktur sjávarútvegur
Auk ofangreinds er öllum það fullkomlega ljóst að íslenskur sjávarútvegur nýtur engra opinberra styrkja og umhverfið hans og fiskvinnslunnar er algjörlega sjálfbært. Þetta á ekki við sjávarútveg allra annarra ríkja Evrópusambandsins og vinnur með Íslendingum.
Brussel á í miklum vandræðum vegna marílveiða Íslendinga, segja má að óeirðir séu innan ESB og Evrópuþingsins vegna mikillar heiftart Íra og Skota. Í báðum löndum á sjávarútvegur undir högg að sækja vegna minnkandi kvóta og ESB er kennt um allt sem miður ferð. Um þetta vita kommissararnir í Brussel og hafa af því miklar áhyggjur. Ekki bætir heldur úr skák að afstaða Norðmanna er eins og olía á eldinn.
Aðildarviðræðurnar vandamál
Að öllum líkindum á ESB aðeins eitt ráð áður en aflsmunur er látinn ráða. Það er að hætta samningaviðræðum við Ísland um aðilda að ESB og bera fyrir sig markílveiðunum og áhugaleysi Íslendinga um sættir. Ákvörðunin um þetta þarf ekki að vera svo ýkja erfið. Öllum má vera ljóst að þjóðin mun kolfella aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu og breytingar á þeirri afstöðu verða engar á næstu árum. Ríkisstjórnin má ekki við enn einni þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fer gegn stefnu hennar.
Hagfelld pólitísk lausn
Pólitískt séð er getur verið hagfelld leið fyrir ESB að hætta aðildarviðræðunum í refsingarskini vegna makrílveiða Íslandinga. Ef til vill er þetta góð leið fyrir ríkisstjórnina sem sér vart til sólar vegna þessa leiðindamáls. Steingrímur J. Sigfússon kvartan undan því að þetta mál skyggi á afrek ríkisstjórnarinnar. Sé því ýtt út af borðinu kunna vinstri grænir að eiga einhvern sjéns í komandi kosningabaráttu. Flokkuinn er gjörsamlega klofinn, innan flokksins er mikil andstaða er við hann persónulega og viðbúið er að flokkurinn tapi meira en helmingi af kjörfylgi sínu. Steingrímur gerði óskapleg mistök með því að samþykkja aðildarviðræðurnar, hann áttaði sig ekki á afstöðu eigin flokksmanna og þjóðarinnar til ESB eða hélt í einfeldni sinni að hann gæti kjaftað sig og flokk sinn út úr hugsanlegum vandræðum.
Allt annað á við um Samfylkinguna. Öll pólitík hennar miðast við aðild að ESB og það verður því hrikalegt áfall fyrir flokkinn forystu hans hætti ESB við viðræðurnar. Hið eina sem kjarni Samfylkingarinnar gæti gert til að laga stöðuna væri að gjörbreyta um forystu og þingflokk - enn einu sinni. Staðan er hins vegar svo erfið fyrir flokkinn að eiginlega getur hann ekkert gert til betrumbóta, hann er dauðadæmdur.
Kátir að losna við Ísland
En í Brussel geta menn kæst. Ekki þarf lengur að beita afli gegn litla Íslandi, ekki verður farið með herskip á Íslandsmið, enginn biður um innrás í landið, Írar og Skotar verða rólegir enda sáttir við afgerandi viðræðuslit sem á yfirborðinu eru rakin til makrílsins. Friður er tryggður í bili, þar til á næsta ári er makrílveiðarnar hefjast á ný. En þá verður Steingrímur líklega búinn að semja og það mun kosta hann þingsæti.
Og hér heima kætast allir nema Steingrímur og Jóhanna en það skiptir engu máli því íslensku þjóðinni er nokk sama hvoru megin hryggjar þau liggja - svona pólitískt séð.
Vinstri grænir í hernaðarbrölti
17.7.2012 | 10:33
Um hertar aðgerðir alþjóðasamfélagsins gagnvart voðaverkum Sýrlandsstjórnar gegn þegnum sínum er lítill ágreiningur. Það eru helst Rússsar og Kínverjar sem halda uppi andófi rétt eins og þegar styðja þurfti uppreisnarmenn í Líbíu eða þegar innrásin var gerð í Írak. Þeir eru hagsmunaaðilar svo gripið sé til kunnuglegs frasa.
Vinstri grænir hafa verið óþreytandi í heilagri baráttu sinni gegn uppreisnum í einræðisríkjum. Þeir hafa krafist rannsóknar á meintum stuðningi Íslands við innrásina í Írak. Þeir stóðu engu að síður að stuðningi við loftárásir Nató í Líbíu. Greinilega er engra rannsókna þar þörf. Vinstri grænir styðja hernaðarbrölt þegar það hentar þeim en sérstaklega þegar þeir eru í ríkisstjórn.
Næst á dagskránni verður áreiðanlega að styðja beint eða óbeint uppreisnarmenn í Sýrlandi með vopnasendingum. Síðan koma loftárásir og loks innrás. Vinstri græni munu styðja þetta allt saman af því að þeir eru í ríkisstjórn. Þó kann sú staðreynd að breyta einhverju um afstöðu þessa hentistefnuflokks að kosningar eru á næsta ári. Haldreipi hans reynist kannski stefnuskráin þó hún sé nú rykfallin í neðstu skúffu til vinstri í skrifborði formannsins.
Styðja aðgerðir gegn Sýrlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Töff hjá Kristjáni Júlíussyni
17.7.2012 | 08:47
Töff hjá Kristjáni að fara á sjó í þinghlé. Hann er maður sem vílar ekki fyrir sér að taka til hendinni þar sem það á við. Slíkt ættu fleiri þingmenn að gera og þeir eru til. Hins vegar eru líka til þingmenn sem hafa hrakist af sjó og í land, sóst eftir huggulegu innidjobbi í anda Njóla-Gnarrs og stefna að því að innlima þjóðina í ESB.
Makríllinn sækir inn í íslenska lögsögu vegna þess að þar fær hann mikið æti. Hví skyldum við ekki veiða þann fisk sem hér finnst, étur frá öðrum tegundum og safnar forða. Eigum við að eftirláta Norðmönnum eða ESB þjóðum veiðarnar upp á þessi skipti?
„Við eigum þessi kvikindi“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Afrekalisti ríkisstjórnarinn er langur og merkilegur
16.7.2012 | 10:12
Mikið má maður þakka ríkisstjórninn vel fyrir þann árangur sem hún hefur náð. Hann er stórfenglegur þegar litið er til þess að fyrir fjórum árum tæpum lentum við í efnahagshruni. Og hvað skyldi ríkisstjórnin hafa gert til að koma okkur út úr kreppu og óáran? Allt, allt - nema að losa okkur við njólana á umferðareyjum í Reykjavík, en þeir skipta svosum ekki máli enda bara urt á Merði.
Veðrið hefur leikið við landsmenn í meira en tvo mánuðu. Sól nær upp á hvern einasta dag en rigning í Evrópu. Og þetta gerist þrátt fyrir að Veðurstofan fái ekki eina einustu krónu aukalega á fjárlögum heldur byggir hún á hvatningu og gælum umhverfisráðherra sem enn er við störf þótt fáir sjái til hennar.
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar leysti úr læðingi sköpunarkraft landsmanna og því varð vanilluísinn til en hann gerði Íslendingurinn Stefán Crosser.
Anný Mist sem sigraði á heimsleikunum í crossfit er lifandi dæmi um þann þrótt sem lifnað hefur í æsku landins í kjölfar ódrepandi hvatningar frú Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hefur verið óþreytandi að hvetja landsmenn til afreka, rétt eins og Jón forseti Sigurðsson, frá Dýrafirði.
Aukið hefur verið við afla á Íslandsmiðum um heil þrjátíu þúsund tonn. Það mun þýða tíu milljarða króna aukalega í veltu landsins. Sjávarútvegsráðherra hefur, þó hljótt fari dags daglega, unnið sína heimavinnu og fóðrað þorskin á orðgnótt sinni.
Íslensk erfðagreining hefur fundið út staðsetningu á parkinsonveikinni í genum Íslendinga. Þetta hefði áreiðanlega ekki verið hægt nema fyrir heillandi hvatningu velferðaráðherrans sem hefur til að bera svo mikla útgeislun og persónutöfra að eitt orð, kannski tvö eða þrjú, hafa þær afleiðingar að fólk gleymir amstri dagsins og axlar sína haka og axir og ryður nýjan skóg.
Hagvöxtur í efnahag landsins hefur risið í óþekktar hæðir og mælist nú 2,5% vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Efnahagsmálaráðherrann þurfti ekki annað en að ræða um aukin afköst og þá reis hagvaxtarkúrfan samstundis og vekur undrun allra hagspekinga, innlendra og erlendra, sem vilja svo gjarnan fá þennan töframann til að stjórnar efnahag ESB og Grikklans, helst í einum pakka.
Svo eru það hinar óstaðfestu fréttir. Heyrst hefur af fötluðum manni sem kastaði hækjum sínum eftir að hafa lesið viðtal við forsætisráðherra og gengur nú óstuddur. Kýr nokkur sem talin var geld varð fyrir svo miklum áhrifum af landbúnaðarráðherra að hún mjólkar nú skyri, jógúrt með jarðaberjabragði, AB mjólk og venjulegri mjólk í þúsundlítravís. Svo vel hefur innanríkisráðherra staðið við baki þjóðkirkjunar að hún kaus sér konu sem biskup sem aldrei hefur gerst áður. Spánarsnigillinn hefur ekki numið land hér á landi enda er landbúnaðarráðherra á móti honum.
Svona má lengi telja af afrekalista ríkisstjórnarinnar og vissulega er allt þetta þakkarvert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Áhyggjur dómara af afkomu sinni
15.7.2012 | 17:30
Ævilaunþegi ríkisins, Jón Steinar Gunnlaugsson, lætur nýfallinn áfellisdóm Mannréttindadómstóls Evrópu yfir íslensku réttarkerfi ekki á sig fá.Jón var í golfi í veðurblíðunni í síðustu viku þegar DV leitaði viðbragða hans vegna dómsins. Jón vildi ekkert segja. Hann er vanur að sveifla hamri réttvísinnar á launum en mun frá og með október næstkomandi geta sveiflað golfkylfum sínum án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
Enn tómt rugl í frétt
15.7.2012 | 17:19
Eitthvað hefur skolast hér til í fréttinni eða hún er tekin meðvitundarlaust upp af vef hjá Landsbjörg. Raunar er ekki vansalaust hversu oft er farið með staðlausa stafi á vef Landsbjargar, þó ég hafi ekki skoðað það í þetta sinn.
Fyrir ofan Glym er hvergi erfitt að komast að fyrir björgunarfólk eða aðra. Á efri myndinni sést Botnsá þar sem hún rennur eftir tiltölulega sléttu landi uns hún hverfur ofan í gljúfrið. Þar eru engin vandræði, raunar er hægt að aka þangað upp.
Með gljúfrinu eru víða staðir þar sem erfitt er fyrir björgunarfólk að komast að til að liðsinna göngufólki og þar er líka víða erfitt fyrir þyrlu að athafna sig.
Munurinn á aðstæðum sjást greinilega á þessum tveimur myndum sem ég tók í fyrra. Botnsárgljúfrið er stórfengleg náttúrusmíði en gengt er með því beggja vegna. Hins vegar þarf að fara varlega rétt eins og annars staðar.
Nú kann einhver að spyra hvort það skipti nokkru máli þó einhver villa sé í fréttinni. Ég fullyrði á móti að skilningi lesandans er ávallt ofboðið ef frétt stenst ekki fyllilega, bæði hvað varðar landafræði sem og önnur atriði.
TF-LÍF sótti konu í Hvalfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þrjár flugur ...
14.7.2012 | 22:09
Jóhanna Sigurðardóttir hefur frá því að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 þráð að breyta stjórnarskránni. Henni mistókst það hrapallega fyrir kosningar 25. apríl 2009. Henni mistókst að láta kjósa stjórnlagaþing. Henni mistókst að standa þannig að afgreiðslu alþingis á tillögum stjórnlagaráðs að hún hafi komið málinu á beinu brautina.Jóhönnu var svo mikið í mun að halda í kröfu stjórnlagaráðs um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur þess að hún samþykkti skoðanakönnun sem þjóðaratkvæðagreiðslu. Jóhanna gleymdi að fara að lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Innanríkisráðuneytið veit ekki hvenær atkvæðagreiðslan, sem kostar 250 milljónir króna, á að fara fram.Að Jóhanna veldi þann kost að vinna að stjórnarskrármálinu í ágreiningi milli stjórnmálaflokkanna varð Ólafi Ragnari Grímssyni hvati til að bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn í óþökk Jóhönnu.Þess eru engin dæmi að forsætisráðherra nokkurs lýðræðisríkis hafi haldið jafnilla á tillögu um breytingar á stjórnarskrá. Jóhanna lætur ekki segjast. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður hana og vinstri-grænir líka. Stjórnarskrármálið snertir tilverugrundvöll ríkisstjórnarinnar eins og ESB-aðildarumsóknin. Færi ríkisstjórnin frá yrðu þessi tvö vandræðamál úr sögunni í núverandi mynd. Að ríkisstjórn vilji lifa fyrir málstað af þessu tagi segir allt sem segja þarf um hversu óhæf hún er.
Kerlingin gat ekki Kerlingar aðeins Haraldar
14.7.2012 | 15:14
Segja má að ég sé í aðdáendaklúbbi Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings, í Stykkishólmi. Ekki aðeins myndum við teljast sveitungar, báðir fæddir þarna, þó talsverður sé aldursmunurinn, heldur er áhugi beggja á landinu gríðarlegur. Þar með lýkur samanburðinum. Hann er virtur fræðimaður í jarðvísindum og víðfarinn og virtur en ég er bara að krafsa hér heima án nokkurrar stefnumörkunar.
Jæja. Í Mogganum í morgun birtist viðtal við Harald, ágætt viðtal, svo langt sem það nær. Eiginlega fannst mér það ekki nógu gott, heldur stutt og ómarkvisst. Þó tók hún Kolbrún Bergþórsdóttir það og yfirleitt er fátt upp á hana að klaga í blaðamennskunni. Ég get samt ekki orða bundist, allt þó í góðu þrátt fyrir fyrirsögnina hér að ofan sem mér finnst bara nokkuð skondin.
Meðfylgjandi er blaðsíða með mynd og texta frá viðtalinu. Alveg stórkostleg mynd. Og hver skyldi myndatextinn vera: Hluti af rútínu minni er að fara út klukkan sjö á morgnanna og upp í fjöllin.
Er hægt að birta nærmynd af einu merkilegasta fyrirbrigði íslenskrar náttúru, því sem á uppruna sinn í mörgum þekktum þjóðsögum og hefur gnæft yfir vegarendum allan þann tíma sem þjóðleið lá yfir Snæfellsnesfjallgarð, án þess að geta þess í myndatexta?
Auðvitað er þetta Kerlingin sem gnæfir fyrir ofan skarðið sem dregur nafn sitt af henni. Um Kerlingarskarð lá þjóðvegurinn í tugi ára og víst að flestir sem áttu leið þarna um gutu augunum upp til Kerlingarinnar, stundum með óttablöndnum áhuga.
Enginn hjónasvipur er með Haraldi og Kerlingu á myndinni, þrátt fyrir menntun sína alla, frægð og frama er hann bara sem lítið peð. Og svo er um okkur hina líka. Víst er að einn daginn ætla ég að banka upp á hjá Haraldi og fá að fara með honum upp í fjöllin.
En hér er sagan um Kerlinguna í Kerlingarskarði. Af henni er enn fleiri útgáfu og tengingar. Látum þessa þó nægja.
Kerlingin lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hafði hún með sér hest og á honum klifjar með skyrtunnu og heysátu, sumir segja að hún hafi einnig haft með sér hafur. Kerlingin var nokkuð sein til ferðarinnar og varð að flýta sér nokkuð. Þegar kerlingin var komin áleiðis vestur fjallgarðinn á móts við Ljósufjöll losnaði sátan af klifjunum og varð eftir þar sem nú heitir Sátan. Kerling brá þá á það ráð að hanga sjálf í klifjunum á móti tunnunni. Hesturinn þreyttist nú fljótt og gafst að lokum upp þar sem Hesturinn er nú. Kerling ætlaði þá að bera tunnuna sjálf en gafst upp og skildi hana eftir þar sem Skyrtunnan er nú. Hafurinn gekk með Kerlingu en hún var á mikilli hraðferð þar sem brátt myndi dagur rísa og skildi hafurinn eftir í fjallinu sem nú er þekkt sem Hafursfell.
Þegar Kerlingin var komin þangað sem nú er Kerlingarskarð ætlaði hún að stökkva yfir skarðið en þurfti að bíða því menn voru í skarðinu. Sumir segja að þar hafi Þangbrandur eða aðrir kristnir menn verið á ferð að boða kristni og hafi hitinn verið svo mikill að Kerling gat ekki stokkið yfir áður en sólin kom upp og varð því að steini. Einnig er sagt að ferðamaður hafi verið þar og sagt: "líttu í austur kerling" í þann mund er sólin kom upp og hafi kerlingin orðið að steini.