Sæla náðhúsa

860712

Hvort tveggja eru falleg orð, sæluhús og náðhús. Fátt er betra þreyttum ferðamanni en að komast í skjól, slíkt er mikil sæla. Sömuleiðis er hverjum manni sæla að létta á sér. Náðin er eiginlega hin sama í báðum tilfellum. Hins vegar er afar skítt, ef svo má að orði komast, að svo fagurt orð sem náðhús sé notað yfir kamar eða klósett. 

Það breytir ekki málinu. Hér eru nokkrar myndir sem voru ástæðan fyrir þessum pistli. 

880728-40

Fyrsta myndin er af kömrum sem stóðu við Dettifoss 1986. Birtan var falleg, umhverfið stórbrotið ... og því tók ég mynd af tveimur kömrum. Raunar tók ég miklu fleiri myndir af enn áhugaverðari mótívum. Hins vegar verður að viðurkennast að þetta er nokkuð falleg mynd, samsvarar sér vel í breytileika sínum.

880728-47

Myndin er slides en nokkuð óskýr eftir skönnun. Skanninn minn er eiginlega ekki nógu góður, HP Scanjet G4050. Sé dálítið eftir að hafa keypt hann. Forritið sem er fyrir Makka er drasl, illa hannað og möguleikar fátæklegir. En það er nú annað mál. Kaupi bara aðra tegund þegar fjárhagurinn leyfir.

Næsta mynd var tekin sumarið 1988 við Álftavatn. Myndin er ekkert sérstök, og þó. Takið eftir bakpokanum sem liggur fyrir utan annan kamarinn. Og þá fer myndin allt í einu að segja sögu.

Þriðja myndin er frá Hvanngili á Fjallabaki syðra. Þar er gamall gangnamannaskáli og fyrir utan hann var lítill kamar sem einhver skildi eftir opinn. Fyrir vikið verður myndin skemmtilegri og enn má greina sögu. Hitt er líka áhugavert hversu allt stefnir upp á myndinni.

880728-18

Síðasta myndin er algjört ógeð ... eins og margir myndu segja. Hvað um það? Ekki hverfur úrgangurinn úr fólki er það lokar á eftir sér kamrinum. Á einhverri stundu fyllist hann og einhver þarf þá að sinna þessum málum. Það var verið að gera í Hrafntinnuskeri er ég kom þarna að einhvern tímann sumarið 1988 með hóp á vegum Útivistar.

Á myndinni er gamli skálinn í Hrafntinnuskeri sem var fluttur í Botna eftir að Höskuldarskáli var byggður. Ef til vill stendur sá nýji þar sem haugurinn er á myndinni. Hver veit? Maður veit aldrei á hverju hús eru byggð eða hvað sé í grunninum. Einhvers staðar er skrifað: „Maður byggði hús sitt sandi ...“ 

Og ef einhver mynd getur sagt sögu þá eru hér í forgrunni ótal smásögur sem þó er engin ástæða til að fara nánar út í. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband