Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012
Rjóðir kappar í kinnum
31.5.2012 | 13:29
Rökfimi Samfylkingarmanna hefur förlast talsvert frá því um síðustu kosningar. Þá ætluðu þeir að bjarga þjóðinni upp úr öskustó hrunsins og líklega gott betur. Eftir því sem á kjörtímabilið hefur liðið hafa þessir kappar haft hægt um sig. Í síðustu eldhúsdagsumræðum ruglaðist til að mynda Magnús Orri Schram á þingræðum og tók fyrir mistök eina frá því rétt eftir síðustu kosningar og flutti eins og hún væri nýorpin.
Annar kappi, Skúli Helgason, alþingismaður, telur sér sæmast að brúka kremlarlógíuna, berja á einstökum fyrirtækjum í stað þess að leyfa gremju sinni að fá útrás á þeim sem hafa valdið henni. Já, auðvitað er það Atlantsolíu að kenna að bensínið er dýrt. Gleymum ekki að ríkisstjórnarliðið hafnaði því á Alþingi í vetur að lækka tímabundið álögur á bensíni.
Og svo í þokkabót telja þessir kappar og aðrir álíka allt sér til tekna sem jákvætt gerist í þjóðfélaginu. Góða veðrið er með engu móti hægt að rekja til ríkisstjórnarinnar. Ekki heldur er hægt að rekja þann litla hagvöxt sem orðið hefur til aðgerða ríksstjórnarinnar. Hins vegar má þakka ríkisstjórninni fyrir minnkað atvinnuleysi, því hún hefur með aðgerðaleysi sínu hrint fólki til útlanda og fjölmargir fá ekki atvinnuleysisbætur og því tilgangslaust að skrá sig hjá Vinnumálastofnun.
Þeir eru rjóðir í kinnum, þessir kappar Samfylkingarinnar, en það er ekki af kappi heldur skömm.
Segjast hafa skilað lækkuninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Strútsland, Húnavaka og Skagaheiði
31.5.2012 | 11:31
Í síðustu viku kom gaf Útivist út kort og leiðarlýsingar um Strútsland, svæðið sunnan við Torfajökul og norðan Mýrdalssands. Umsjón með útgáfunni hafði góður vinur minn, Óli Þór Hilmarsson, og hann fékk mig til að skrifa texta.
Strútsland er nýtt nafn í land sem ekkert hafði fyrir. Okkur fannst þetta tilvalið en nafngiftin fékk samt dálitla gagnrýni sem ég held þó að hafi ekki verið á rökum reist. Staðreyndin er einfaldlega sú að örnefni eru afar fá á hálendinu og þau sem fyrir eru miðast við búskap fyrri alda. Að sjálfsögðu ber að halda þau í heiðri en ný vantar svo hægt sé að rata um landið og tjá sig af einhverju viti um það. Hvort nafnið Strútsland nái að festast í sessi er erfitt að spá um, það er þó þjált í munni og hefur skírskotun til annarra landsvæða eins og til dæmis Goðalands.
Kortið er gott og á því eru fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir. Landið sunnan undir Torfajökli er stórkostlegt. Þar er skáli ferðafélagsins Útivistar og skammt er í Strútslaug og góðar gönguleiðir eru norður í Landmannalaugar, inn á Laugaveginn og austur í Álftavötn og Hólaskjól og jafnvel að Langasjó.
Fyrir stuttu kom út ársritið Húnavaka en Ungmennasamband Austur-Húnvetninga hefur gefið það út í áratugi. Meðan ég bjó fyrir norðan varð ég nokkrum sinnum þess heiðurs aðnjótandi að fá að skrifa í ritið. Tók eftirminnilegt viðtal við Hallbjörn Hjartarson, kántrýkóng. Hann hafði frá mörgu forvitnilegu að segja og var afskaplega skemmtilegur sem viðmælandi.
Síðar tók ég viðtal við stórbóndann Jóhannes Torfason á Torfalæk. Raunar hafði það viðtal alvarleg áhrif á mig enda er Jóhannes greindur maður, víðlesinn og frjálslyndur. Hafi ég einhvern tímann verið að líta hýru auga til ESB aðildar þá sýndi hann mér það ljóslega hversu stórhættuleg aðildin er fyrir litla þjóð úti í miðju Atlantshafi. Hann fræddi mig eftirminnilega um fæðuörygg þjóðarinnar og hvaða afleiðingar kæruleysi í þeim málum gæti haft.
Allt sem hann sagði við mig virtist koma heim og saman þegar Eyjafjallajökull gaus og flugumferð stöðvaðist í allri Evrópu og hafði meðal annars þær afleiðingar að ýmis matvæli sem framleidd eru utan álfunnar komust ekki á þangað. Mér var þá hugsað til enn frekari hamfara af náttúrunnar völdum eða manna sem gætu komið þjóð okkar illa.
Í Húnavöku ársins á ég eina aldeilis stórskemmtilega grein, þar sem ég læt móðan mása um gosin á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli auk þess að fá að birta nokkrar myndir.
Húnavaka er einstakt rit. Í því er gríðarlegur fróðleikur um samfélagið og einstaklinga í sýslunni. Þar er sagt frá fólki, gamlar sögur og nýjar birtast, fólk segir frá ferðum sínum og reynslu og birtar eru smásögur, vísur og kvæði. Merkilegt hvernig allt þetta birtst á einfaldan og sannfærandi hátt í Húnavöku. Ritstjórinn er Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, góður vinur minn og nokkuð betri golfari en ég. Það horfir nú til bóta ...
Í febrúar kom út bæklingur sem ég hafði skrifað um veiði á Skagaheiði. Í hann hafði ég safnað upplýsingum um veiðivötnin á þessum slóðum og aðgang að þeim. Þótt bæklingurinn sé ekki stór fór í hann gríðarleg vinna við söfnun efnis og ekki síður myndatökur. Bæklingurinn heitir Veiði á Skagaheiði og fæst á Skagaströnd og víðar.
Og svo er væntanleg út á næstu dögum bók eftir mig um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Nánar um það síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjónn, það er Grikki í súpunni mini
31.5.2012 | 10:24
Uppbygging gönguleiða á Íslandi
31.5.2012 | 09:49
Hvers vegna er átroðningur ferðamanna á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur? Flestum er svarið ljóst. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hún er orðin svo þekkt. Frá því á áttunda áratug síðasta aldar, að umferð hófst um hana í einhverjum mæli, hafa fáar aðrar lengri gönguleiðir notið jafn mikilla vinsælda.
Ferðafélag Íslands hefur gert út á þessa gönguleið, raunar eignað sér hana. Félagið hefur fjölgað gistirýmum í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn og Hvanngil og í Botnum og hyggst halda því áfram. Í mörg ár hefur verið uppselt með löngum fyrirvara í flestar ferðir FÍ sem og þær fáu sem Útivist hefur boðið upp á. Þá eru ótaldar ferðir á vegum annarra aðila, innlendra og erlendra ferðaskrifstofuaðila. Síðast en ekki síst verður að geta um ótrúlegan fjölda fólks, innlendra og erlendra, sem ganga þarna á eigin vegum.
Þá kemur að því, hvers vegna aðrar lengri gönguleiðir hafi ekki náð viðlíka vinsældum og Laugavegurinn. Af nógu er þó að taka. Ástæðan er fyrst og fremst uppbygging Ferðafélagsins á Laugaveginum. Hún vekur traust hjá ferðafólki. Í öllum skálum eru skálaverðir og treysta má því að fá að minnsta kosti neyðaraðstöðu ef eitthvað bregður útaf með veður og ég veit til þess að skálaverðir reyna að fylgjast með því að fólk skili sér í næsta skála. Slæmu hliðarnar á þessari uppbyggingu eru þær sem fæstir höfðu líklega búist við; of margir ferðamenn. Þeir eru orðnir svo margir að jafnvel forseti FÍ hefur talað um að gera þurfi gönguleiðina að einstefnuleið svo göngufólk finni ekki eins mikið fyrir fjöldanum ...!
Ferðafélagið Útivist hefur brotið blað, byggt upp á gönguleiðir allt frá Langasjó í Bása og styttri kafla innan þeirrar leiðar. Félagið hefur raunar eignað sér þessa gönguleið. Það hefur byggt upp aðstöðu í Strútslandi sem svo er kallað, svæðið sunnan Torfajökuls.
Ferðafélagið hefur lítið gert annað en að boða skálabyggingu á afar vinsælli gönguleið yfir Fimmvörðuháls. Maður hefði nú haldið að jafn öflugt félag myndi sinna brautryðjendastarfi betur en sú fyrirætlan ber vott um. Þó verður að segja sem er að deildir félagsins hafa verið afskaplega duglegar að byggja upp gönguleiðir. Nefna má skála og gönguleiðir í Kollumúla og Lónsöræfum sem fæstir þekktu.
Langt er síðan FÍ byggði skála við Þverbrekknamúla og setti brú á Fúlukvísl. Með því opnaðist frábær gönguleið frá Hveravöllum, um Þjófadali, í Þverbrekknamúla og að Hvítárvatni. Hún er talsvert vinsæl, þó ekkert í líkingu við Laugaveginn.
Einstakir aðilar og sveitafélög hafa sýnt mikla útsjónarsemi við uppbyggingu stytttri gönguleiða og má til dæmis nefna gönguleiðir við Borgarfjörð eystri. Afskaplega fallegt land um víkur og í Dyrfjöll. Allt þar til mikillar fyrirmyndar.
Uppbygging gönguleiða er dýr fer oft fyrir bí vegna þess að þeir sem um slík mál véla hafa ekki reynslu í gönguferðum. Sama er með byggingu skála. Margir hafa misheppnast í byggingu vegna þess að arkitektarnir hugsuðu meira um útlit og stíl en not svo úr hafa orðið það sem jafnvel sem nefna má ónot.
Innan Útivistar og Ferðafélags Íslands og deilda þess er mikil reynsla í uppbyggingu skála og gönguleiða. Þar eru starfandi öflugir liðsmenn, fólk sem ber virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Þetta fólk þarf að virkja í uppbyggingu fleiri gönguleiða. Það er einfaldasta, ódýrasta og skynsamasta leiðin. Félögin eiga þó hvort um sig nóg með rekstur sinn og hafa greinilega ekki mikið fjármagn né kraft aflögu til að leggja í nýtt landnám. Hafi stjórnvöld áhuga á að sinna þessum málum er ætti ekkert annað að koma til greina en að nýta sér sjálfboðaliðastarf í félaganna og öðrum smærri víða um land.
Árleg fjárhæð upp á aðeins eitt hundrað milljónir króna sem lagðar væru árlega í uppbyggingu gönguleiða og skála væri vel varið. Ég fullyrði að áðurnefnd félög myndu saman geta tvöfaldað þessa fjárhæð með því að safna styrkjum og leggja til sjálfboðaliða í verkefnin. Sé skipulega gengið í að málum er trúlegt að straumur ferðamanna myndi jafnast út um landið og enginn einn staður líða fyrir átroðning. Það er auðvitað markmið í sjálfu sér.
Meðfylgjandi myndir eru teknar við veginn yfir Kjöl. Næst neðsta myndin sýnir haganlega gerðan steinboga sem einhverjir ferðamenn höfðu byggt á tveimur klettum fyrir um tíu árum. Árið eftir hafði hann hrunið eins og sjá má á neðstu myndinni.
Þingmaður án jarðtengsla
30.5.2012 | 11:12
Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með eldhúsdagsumræðurnar á Alþingi. Þar vall mærðin upp úr hverjum þingmanninum á fætur öðrum og ræðumenn Hreyfingarinnar vissu eiginlega ekki hvar þeir voru með hjal sitt.
Einna helst varð það Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fór hamförum í gangrýni sinni á ríkisstjórnina, og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra og formaður vinstri-grænna (úff, langur titill þetta ...) sem aftur á móti kenndi stjórnarandstöðunni um allt sem miður hefur farið og þakkaði ríkisstjórninni hitt.
Fleiri en ég eru á þeirri skoðun að umræðurnar hafi verið lítt áhugaverðar. Páll Vilhjálmsson, sá ágæti bloggari segir í fyrirsögn á bloggi sínu: Jörð kallar: Magnús Orri, ertu þarna?
Og það var ekki að ástæðulausu sem Páll tekur svona til orða:
Þingmaður Samfylkingar (auðvitað) sagði þetta á þingi í kvöld:
Hann sagði að jafnaðarmenn hafi talið það bestu leiðina til að losna úr baslinu að sækja um aðild að ESB. Þó hart sé sótt að þeim sem vilja aðild muni jafnaðarmenn halda sínu striki.
Höfundurinn er ekki góðkunningi af skjánum, sem stundum ráfar um alþingi kenndur, heldur Magnús Orri Schram.
Magnús Orri hefur áhyggjur af basli ungs fólks á Íslandi og vill ganga í ESB. Hann gleymdi að minnast á hvort í boði væri írsk, spænskt eða grískt atvinnuleysi - en prósentutalan hleypur á 15 til 50, eftir aldurshópum.
Játuðu aðild að úraráni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alræmdur mannasættir ...
30.5.2012 | 10:15
Höfundur Staksteina Morgunblaðsins er hnyttinn í dag og kemst vel að orði. Hann ræðir um manninn sem er formaður þingflokks vinstri-grænna. Sá hefur unnið sér það helst til frægðar í starfi sínu að tala áður en hann hugsar. En í Staksteinum dagsins stendur þetta:
Hinn alkunni mannasættir Björn Valur Gíslason hefur nú kynnt sáttatillögu í atvinnumálanefnd þingsins. Sættirnar eiga að því er virðist að ganga út á að heldur færri útgerðarfyrirtæki fari á hausinn næsta árið en gert var ráð fyrir í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Litlum hluta vandans á með þessu að fresta um ár.
Á þeim tíma á að starfa veiðigjaldanefnd til að viðhalda óvissunni og freista þess að knýja fram hærri álagningu síðar.
Svona sáttatillögur geta aðeins komið frá jafn alræmdum mannasætti og Birni Vali. Aðeins sá sem efnir hvarvetna til ófriðar gæti látið sér detta í hug að sættir næðust um slíka tillögu.
Breytingartillaga Björns Vals er viðurkenning á að sjávarútvegsfrumvörp Steingríms J. Sigfússonar eru ónothæf og óboðleg eins og þeir sem umsagnir hafa veitt eru sammála um.
Slík frumvörp verða ekki nothæf við það eitt að draga fram sáttatillögu á síðustu dögum þingsins og ætlast til að hún fáist afgreidd með þeim skaða sem hún augljóslega mundi valda efnahag landsins.
Lagasetning Alþingis getur ekki verið prúttmarkaður fyrir óprúttna stjórnmálamenn. Stórkostleg hækkun skatta verður ekki skapleg við það að hækkunin kunni að vera heldur minni en óboðleg frumvörp gerðu ráð fyrir.
Stórkostleg fjallasýn af Tindstaðafjalli
29.5.2012 | 22:23
Á annan í hvítasunnu gekk ég inn Blikdal og á tilkomumikið fjall sem ég hef eiginlega aldrei verið viss um hvað heitir. Blikdalsmegin heitir það Selfjall, en að norðan, Miðdalsmegin, heitir það Tindstaðafjall. Svo kemur fyrir örnefnið Dýjardalstindur. Hef gúgglað þessi nöfn og fleiri en ég rugla með þau. Hins vegar held ég að meðfylgjandi mynd sýni rétta staðsetningu Dýjardalstind en svo vantar rétta nafnið á fjallið. Hins vegar er síður en svo óþekkt að fjall heiti tveimur nöfnum.
Hér verður að taka það fram að fjallið er nær órjúfanlega tengt Esju eins og kunnugir vita. Góð og nokkuð vinsæl gönguleið er til dæmis hringinn í kringum Blikdal og er það komið niður Lág-Esju, um 9-10 klst. gangur.
Gönguleiðin er ágæt norðanmegin á fjallinu, þar eru brattar hlíðar, vel manngengar, en aungvir hamrar.
Á efstu myndinni sést leiðin sem ég fór. Hún er vissulega ekki hefðbundin en það leyfist vissulega í gönguferðum. Bratt var upp gilið sem ég fór, en flott útsýni og auðvitað best þegar upp var komið.
Setti inn til gamans myndina af höfuðborgarsvæðin sem greina má ofan við Lág-Esju, á fjallinu heita Smáþúfur.
Nú, ég freistast til þess að birta hér fleiri myndir. Veðrið var alveg stórkostlegt og einstaklega gaman að taka myndir.
Þriðja myndin er í vestur og sér yfir Hvalfjörð og til Akrafjalls. Raunar sást allt til Snæfellsjökls en hann rennur saman við hvíta birtuna á þessari mynd.
Hamrarnir eru stórkostlegir á þessum slóðum og þó græni sumarliturinn sé enn ekki kominn á landið er þó mikið vor í lofti og múkkinn leikur sér í björgunum og væntir sín.
En þetta var nú ekki tilefni pistilsins heldur útsýnið til norðurs þegar upp var komið.
Tilefnið var þessi mynd, hið stórkostlega útsýni inn í landið. Ég hef bætt inn á myndina nokkrum örnefnum. Vonandi hef ég varið rétt með en lesendur leiðrétta mig bara ef svo er ekki.
Þarna sjást stórkostleg fjöll og jöklar. Okið, Langjökull, Hvalfell, Botnsúlur, Skriðan og jafnvel sér til Kerlingafjalla ef mér skjátlast ekki.
Endorfínið er enn í æðum mínum og ég trúi því að fleiri hafi gaman af því og þá er tilganginum náð.
Ég byjaði pistilinn á örnefnum og spurði um rétt nafn á fjallinu. Tindstaðir er bær í Miðdal, norðan við fjallið. Dýjadalur hlýtur að vera dalurinn fyrir norðan fjallið, kannski fyrir ofan Kerlingagil.
Melseljadalur heitir þar nokkru fyrir neðan, held ég. Þar er komið tilvísun í Seljafjallið, en hvort hún dugar veit ég ekki.
Dalurinn milli Tindstaðafjall og Lág-Esju heitir Blikdalur en fleiri en ég hafa kallað hann Blikadal sem líklega er rangt.
Ráðlegt er að tvísmella á myndir til að stækka þær, þá er hægt að njóta þeirra betur. Sama á við um kortið en það tók ég ófrjálsri hendi frá ja.is en höfundarréttinn á Samsýn ehf., frábært fyrirtæki.
Villikattarþvottur og villigötur VG
29.5.2012 | 14:28
Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er oft meinhæðinn. Í dagbókarpistli á heimasiðu sinni í gær segir hann:
Í valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur tvisvar verið boðað til leiðtogafunda NATO. Jóhanna hefur sótt þá báða með stuðningi stjórnarflokkanna. Á hinum fyrri var samþykkt ný varnarstefna fyrir NATO. Á hinum síðari var ákveðið að virkja eldflaugavarnarkerfi NATO sem verið hefur á döfinni í um 30 ár.
Skömmu áður en Jóhanna hélt til Chicago komu vinstri-grænir saman á einhverjum fundi og ályktuðu gegn aðild Íslands að NATO. Ályktunin var villikattarþvottur. Þeir eiga hins vegar fjóra ráðherra í ríkisstjórn Íslands og formann utanríkismálanefndar alþingis. Hann lætur eins og hann ætli að kalla Jóhönnu á teppið eftir NATO fundi. Það er álíka mikið í nösunum á honum eins og hann segist andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Andstaða vinstri-grænna við NATO-aðildina er einfaldlega hlægileg þegar litið er til þess sem þeir hafa samþykkt sem stjórnarflokkur. [...]
Allt gerist þetta meira eða minna í kyrrþey af því að stjórnarflokkunum og spunaliðum þeirra innan og utan stjórnarráðsins finnst óþægilegt að rætt sé um málið. Þeir vilja hafa það á sama gráa svæðinu og ESB-viðræðurnar og geta hagað málflutningi eins og þeim hentar hvað sem líður sannleikanum.
Þessi orð minntu mig á orð annars manns sem líka er fyrrum alþingismaður og ráðherra. Ragnar Arnalds heldur úti mjög snörpu bloggi gegn aðild Íslands að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB. Þar kemur eftirfarandi fram í dag:
... mjög mikið af fólki í þessum flokkum [VG og Samfylkingu] sem vill áframhaldandi samstarf. Unga fólkið okkar vill áframhaldandi samstarf og vinnur mjög vel saman á þingi og í sveitarstjórnum og víðar, sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður VG m.a. í löngu og gagnmerku viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar nú á hvítasunnumorgni. Hann viðurkennir að ESB umsóknin hafi leikið flokkinn grátt, sé andstæð því sem hann sjálfur lýsti yfir fyrir kosningar en færir samt rök fyrir að halda henni til streitu.
Það leynir sér ekki í pistlunum á Vinstrivaktinni að höfundur er orðinn langþreyttur á þeim skemmdarverkum sem forysta VG hefur unnið á flokknum. Flokkurinn er rúinn öllu trausti og mikill kosningasigur er að glutrast niður í ekki neitt. Ragnar sér í lokin:
Vorið 2009 gekk VG bundið til kosninga með loforði um að vinna með Samfylkingunni þar sem flokkurinn lýsti því yfir að hann færi ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Engin sambærileg yfirlýsing barst frá mótaðilanum í trúlofun þessari, hinum meinta vinstri flokki Samfylkingu.
Afleiðingin var sú að eftir kosningar var Samfylkingin í þeirri óskastöðu að deila og drottna en samningsstaða VG var lakari þrátt fyrir gríðarlegan kosningasigur. Nú í aðdraganda kosninga 2013 endurtekur sagan sig. Formaður og varaformaður VG biðla til Samfylkingarinnar en hvar eru undirtektirnar? Enn sem komið er hefur enginn Samfylkingarmaður tekið undir. Það er samt ekki eins og orð VG um áframhaldandi samstarf hafi komið frá ómarktækum smámennum þess flokks. Hér eru á ferðinni formaður og varaformaður.
Getur verið að VG sé hér á villigötum og eigi eins og lengstum hefur þótt farsælast í pólitík að ganga óbundið til næstu kosninga?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Málþóf, ekki málþóf eða bara málþóf
29.5.2012 | 09:28
En þessi mikla umræða á föstudag kom mér á óvart. Ef til vill fara öll mál sem komast á dagskrá í málþóf, en ég veit ekki hvort þetta var málþóf eða hvað. Það voru fleiri en stjórnarandstæðingar í þessari umræðu. Stjórnarsinnar voru það líka. Það er búið að ræða allar hliðar málsins og þá hlýtur það að ganga til atkvæða. Þá kemur vilji þingsins fram.
Töfrandi dropsteinninn var að ómerkilegu grjóti
29.5.2012 | 09:07
Hellar eru margir hverjir með stórkostlegustu náttúruundrum á Íslandi, sérstaklega hraunhellar eins og Raufarhólshellir, Surtshellir og svo Jörundur.
Eftir því sem fleiri ganga um land verða afleiðingarnar sjáanlegri og því miður eru þær oft mjög skaðlegar eins og ég hef ítrekað bent á í þessu pistlum mínum. Verstur vandinn eru gönguleiðir þar sem landi hallar, þegar þær hafa markast kemur oft vatn í gjölfarið og grefur niður. Ótal dæmi eru um slíkt og má fullyrða að fjöldi gönguleiða hafi látið verulega á sjá.
Í hellum eru eðlilega takmarkað rými og til þess þurfa ferðamenn að taka tillit til. Í geislum handljósa er veröldin þarna oft sem töfrum líkust og fólk sækist eftir minjagripum, lætur hendur sópa um dropsteina, brýtur þá niður til að finna þann sem þeim finnst fallegastur og fyrr en varir eru þeir allir brotnir og staðurinn misst hluta af töfrum sínum.
Fyrir um þrjátíu árum kom ég í hellinn Jörund, en mynd af honum fylgir fréttinni. Þeir sem fundu hann báðu mig lengstra orða að fara varlega um hellinn, varast að brjóta neitt og ekki fara þar um er dropsteinarnir eru þéttastir. Auðvitað fylgdum við þessu.
Í hellinum lágu hér og nokkrir dropsteinar sem líklega höfðu fallið niður í jarðskjálfta. Ég tók einn með mér út, verð að viðurkenna það, en eftirfarandi réttlætir það kannski. Þegar ég tók steininn upp og skoðaði hann í dagsljósi var hann eins og hvert annað grjót. Töfrarnir voru farnir. í þessu er lexían falin, oftast er útilokað er að flytja náttúruundur með þér, þau njóta sín hvergi annars staðar en á upprunalegum stað.
Það var hins vegar mikið ævintýri að fara um Jörund. Leiðin inn í hann var afskaplega þröng og ekki laust við að maður fengi innilokunarkennd skríðandi í miðjum göngum sem lágu inn í aðalgöngin. Þessar myndir tók ég í ferðinni. Gerði þessari ferð skil í tímaritinu Áfangar sem ég gaf út á þessum árum.
Sem betur fer hefur Jörundi verið lokað fyrir almenningi. Það er hart en hvernig er annars hægt að varðveita viðkvæma náttúrufegurð.
Svo má í þessu sambandi ekki gleyma frumkvöðlastarfi Árna Stefánssonar, augnlæknis, sem hefur unnið að því að opna Þríhnúkahelli fyrir almenningi. Einnig hefur hann unnið að því að gera Vatnshelli í Purkhólahrauni á Snæfellsnesi aðgengilegan. Ef opna á hella fyrir almenningi þarf það að vera gert á réttan hátt og með skynsemi.
Loka þyrfti 15-20 hellum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |