Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Verður jafnréttisstofa önnur lögregla?

Skilji ég frumvarpið rétt er ætlunin að jafnréttisstofa fái lögregluvald. Það get ég engan veginn samþykkt. Ekki frekar en að mannanafnanefnd fái heimild til að rannsaka hvort að foreldrar kalli börnin sín einhverjum „ónefnum“ eða einhver stofnun geti beitt menn viðurlögum fyrir að tala rangt mál.

Þetta segi ég ekki af því að ég er á móti jafnrétti. Þvert á móti er ég hlynntur því. Hvernig má það vera öðru vísi? Ég á dóttur og sonardætur. Óska þeim sömu réttinda og karlar njóta og þannig á það að vera.

Hins vegar er það ansi mikið að veita stórnsýslunefnd lögregluvald til rannsókna. Væntanlega á hún að geta í kjölfarið fellt áfellisdóm, rétt eins og hún hefur gert. Þetta samrýmist ekki nútíma stjónrsýslu að sami aðili rannsaki og úrskurði. Er ekki lausnin einfaldlega sú að jafnréttisráð kæri til lögreglu meint brot á lögum? 


mbl.is Jafnréttisstofa fái auknar heimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Druslur og lufsur norrænu velferðarríkisstjórnarinnar

Nú vaða þeir upp á dekk gömlu sósíalistarnir sem aldrei hafa migið í saltan sjó og gera kröfur. Halda því fram að þjóðareign á auðlindum gefi stjórnvöldum leyfi til að ofurskattleggja sjávarútveginn.

Þetta lið heldur því jafnframt fram að skatttekjur af sjávarútvegi sé sömu fjármunir og áður var lagt í laun, fjárfestingu og markaðsstarf. Það er alrangt.

Þjóðareign á auðlindum þýðir í sannleika sagt ekkert annað en að auðlindir þjóðarinnar geti ekki verið eign annarra þjóða eða þær nýttar af öðrum þjóðum. Lagaleg túlkun á þessu ákvæði getur ekki verið önnur

Skattlagning með auðlindagjaldi mun gjörsamlega gera útaf við sjávarútveginn. Enginn hvati verður eftir í að greiða góð laun, standa undir fjárfestingu, markaðsstarfi eða öðrum rekstri. Þegar þessir fjármunir hafa verið teknir af útvegnum stendur sáralítið eftir. Eða hvaða gagn höfum við af veiðunum ef við getum ekki selt afurðirnar?

Og Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og aðrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, eru í raun og veru ekkert annað en druslur og lufsur því þeir ætla að enda kjörtímabilið á því að gera útaf við atvinnulífið í landinu. Ástæðan er einföld. Þeir kunna ekki aðra pólitík en skattlagningu. Þeim hefur ekki á þessum tæpu fjórum árum tekist að hvetja landsmenn til að rísa upp aftur og þeir fáu sem geta það hafa fengið á sig slíka skattar að reksturinn getur aldrei staðið undir sér.

Norræn velferðarstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skilur eftir sig slóða gjaldþrota fyrirtækja, skuldsettra heimila, atvinnuleysi og aðrar þá óáran sem best verður lýst sem náttúruhamförum af mannavöldum. Jafnvel hrunið sjálft kemst ekki í hálfkvisti við svik ríkisstjórnarinnar. 


mbl.is „Getum ekki verið þær druslur og lufsur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlitsstofnun með aflandskrónum

Króna er ekki króna nema hún sé króna með upprunastimpli. Þetta er svo yfirgengilega gáfuleg tillaga frá Sigriði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, að ég hvet til þess að hún verði einróma kjörin formaður flokksins.

Þessi þingmaður Samfylkingarinnar reynir við öll tækifæri að tala gjaldmiðil þjóðarinnar niður eins og hún mögulega getur. Það gengur auðvitað ekki að þingmenn sýni ekki samfélaginu tilhlýðilega virðingu. 

Svo er það hitt, að það er útilokað að takmarka fjárfestingar af því tagi sem konan talar um. Þeir aðilar sem eiga aflandskrónur eru ekki eyrnamerktir eða skylt að klæðast einhverjum auðkennisklæðnaði. Þeir eiga auðvelt með að stofna hlutafélög til að kaupa fasteignir og fá heimamenn til að leppa þau fyrirtæki fyrir sig.

Sigriður væri þá vís til að leggja til að stofnuð verði eftirlitsstofnun ríkisins með aflandskrónum svo ekkert fari á milli mála. Raunar væri það eftir öllu að Samfylkingin stæði að þessu. Í sjálfu sér kann slíkt að vera atvinnuskapandi verkefni en ...


mbl.is Vill takmarka fjárfestingu í fasteignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegir snúningar forsetaframbjóðenda

USA frambjÞegar lítill munur þótti á fólki hér áður fyrr var oft sagt að sami rassinn væri undir því öllu. Með góðum rökum má segja að lítill munur sé á stóru flokkunum Bandaríkjunum. Þess vegna er það svolítið undarlegt að fylgjast með kosningabaráttunni héðan af Íslandi þar sem báðir flokkar myndu áreiðanlega halda því fram að ríkti kommúnismi.

Mitt Romney var ríkisstjóri í Massachusetts á árunum 2003 til 2007. Þar átti hann við ramman reip að draga því demókratar réðu ríkum á ríkisþinginu og barátta Romneys við meirihlutans nær vonlaus. Hann notaði til dæmis margoft neitunarvald sitt gegn lögum sem ríkisþingið samþykkti margsinnis en það var alltaf brotið til baka aftur.

Þó furðulegt megi telja lagði hann fram frumvarp á ríkisþinginu um heilbrigðismál, Health Care, sem raunar var nefnt Romney Care, og fékk það samþykkt. Þvert á þessa stefnu sína hefur hann lagst hart gegn Helath Care stefnu Obama. Hann hefur auk þess farið nokkrar hringi í fóstureyðingarmálum og virðist nú vera harður andstæðingur þeirra.

Barak Obama hefur tvímælalaust valdið vonbrigðum sem forseti þó fullyrða megi að hann muni hafa betur í forsetakosningunum í dag. Hann hefur þótt úrræðalítill og óákveðinn. Hefur lítil tök á samflokksmönnum sínum á þingi og gerir lítið í því, mörgum til mikillar gremju. Og rétt eins og Romney hefur hann farið í nokkra hringi með stefnumál sín. Hann ætlaði að draga Bandaríkin út úr öllum stríðsátökum en það gekk ekki eftir heldur hefur hann þvert á móti aukið við þau með þvi að heimila árási með ómönnuðu herflugvélum sem hann skirrist ekkert við að nota. Fangabúðirnar á Kúbu standa enn þrátt fyrir að lokun þeirra hafi verið kosningaloforð hans.

Ég held engu að síður að Obama vinni kosningarnar. Hann hefur mildilegra yfirbragð en Romney sem lítur út fyrir að vera haukur í flestum málum. 

Fyrir okkur Íslendinga er munurinn á milli þessara frambjóðenda sáralítill. Okkur þykir til dæmis undarlegt að í Bandaríkjunum skuli ekki vera heilsugæsla á borð við það sem er hér á landi og víðast í Evrópu. Dómskerfið er stórundarlegt. Menntamálin eru í lamasessi. Fátækt er yfirþyrmandi sem og atvinnuleysi.

Mér þykir alltaf dálítið aumingjalegt þegar vinstri sinnaðir íslenskir stjórnmálamenn vilja samsama sig við Obama sem er sagður vinstri maður í sínu heimalandi. Í sannleika sagt eru báðir forsetaframbjóðendurnir sem og flokkar þeirra langt, langt til hægri við Sjálfstæðisflokkinn, svo langt að ég er þess fullviss að stefnuskrá þeirra myndi aldrei verða samþykkt á landsfundi.

Hvernig stendur á því að í 300 milljón manna ríki skulu aðeins tveir flokkar standa uppúr? Við erum með offramboð af stjórnmálaflokkum en erum þó aðeins rétt rúmlega 300 þúsund manna þjóð.

Myndin er eftir Helga Sigurðsson og tekin með ófrjálsri hendi úr Mogganum í dag. Biðst afsökunar á því. 


Er óþarfi að setja fram skýr markmið?

Fyrir minn hatt hafa þessi fundarhöld verið óþarflega mikil og ágreiningur mjög takmarkaður, ef nokkur. Það hefur verið deilt mjög um orðalag en enginn efnislegur ágreiningur er, hvorki á milli nefndarmanna né við utanríkisráðherra. Fyrir mér er hefur þessi deila staðið um keisarans skegg, að minnsta kosti á síðari stigum.

Þetta segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar í viðtali við Morgunblaðið í morgun. Pólitísk sýn Marðar er einfaldlega sú að nú eigi að hætta umræðum, allir séu hvort eð er sammála. gott ef hann fer ekki að ákæra stjórnarandstöðuna um málþóf sem er nú vinsælasta ávirðingin sem meirihlutinn hefur getað fundið upp.

Lái stjórnarandtöðunni hver sem er en loforð ráðherra ríkisstjórnarinnar hafa ekki reynst pappírsins virði. Þess vegna er mikil ástæða til að fara að orðum Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem segir í sama viðtali í Mogganum:

Við þurfum bara að segja hlutina eins og þeir eru og vera skýr í þeim kröfum sem við teljum óumsemjanlegar.

Skilur Mörður ekki þetta? 
mbl.is „Deilt um keisarans skegg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, nei - ekki svona jafnaðarmennsku

Ég er íhald. Mér þykir afar vænt um sumardaginn fyrsta og vegna þess að ég vil halda í gamla og góða siði. Ég vil ómögulega „afhelga“ sumardaginn fyrsta með því að færa hann til.

Svo íslenskur er þessi dagur og það frí sem veitt er með honum að með sanni má segja að hann er hluti af þjóðareinkennum okkar. Við eigum frí á sumardaginn fyrsta en engar aðrar þjóðir og við höldum upp á daginn þó'ann snjói og vart sé hundi út sigandi ... Þess vegna erum við þjóð.

Sama er að segja með þjóðhátíðardaginn okkar, 17. júní. Hátíðarhöld vegna hans geta aldrei farið fram nema nákvæmlega á þessum degi. Þessi dagur var ákveðinn 1944, sama ár og stjórnarskráin okkar tók gildi, og af hverju eigum við að breyta honum? Bara af því að við þurfum að vinna daginn eftir? Nei, það eru ekki boðleg rök.

Stundum eru stórubrandarjól og stundum litlubrandarjól. Mér finnst ég engu tapa þó jólafrídagarnir séu einum eða tveimur færri þetta árið. Allt jafnast þetta upp. Og það er nákvæmlega það sem gerir tilveruna svo skemmtilega.

Með fullri virðingu fyrir þingmanni Bjartrar framtíðar verð ég að segja að með þessu er jafnaðarmennskan farin að fletja út tilveruna, gera hana miklu fyrirsjáanlegri og leiðinlegri þegar til lengdar lætur. Ef fjöllin eru okkur til vandræða er lausnin ekki sú að moka þeim í burtu. Við lifum einfaldlega með þeim. Það er svo óskaplega gaman.


mbl.is Hátíðisdagar færðir að helgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB og Orwellskan

Getur launastefna íhaldsmannsins Boris Johnsons „brjóti hugsanlega í bága við löggjöf Evrópusambandsins“. Það er þá þannig komið í altumlykjandi veröld ESB að lágmarkslaun eru ekki lengur það sem orðið merkir heldur um leið hámarkslaun. Ekki sé lengur leyfilegt að greiða hærri laun en sem nemur lágmarkslaunum.

Er nú eiginlega ekki nóg komið af þessari vitleysu? Það er eins og að engin sé lengur eftir í ríki ESB sem þorir að beita eðlilegri skynsemi nema því aðeins að einhverjar reglur banni slíkt. Þá hljóta viðurlögin að vera allsvakaleg.

Einhvern veginn hélt ég að sú hræðilegasta framtíðarsýn sem um getur væri lýst í bók George Orwells, „1984“. Líklegast er það enn verra sem er að gerast í reglugerðarverki ESB. 


mbl.is Hærri laun hugsanlega lögbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vefsíða vegna prófkjörsins

Vefsí#18B536Um helgina tókst okkur að ganga frá og opna vefsíðu um framboð mitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna næsta vor. Hann er á www.sigsig.is, þokkalega stytting á nafni mínu.

Heiðurinn af hönnun síðunnar á Sandra Espersen sem starfar við vef- og auglýsingahönnun hjá auglýsingastofunni Babylon. Síðan er vel og smekklega unnin. Kosturinn er sá að ég get breytt síðunni að vild og það freistast maður til að gera og skemma þannig flotta hönnun.

Á vefsíðunni leitast ég við að kynna mig eins og tilhlýðilegt þykir fyrir frambjóðanda í prófkjöri. Þarna birti ég stefnu mína og kemur þar þeim fátt á óvart sem lesið hafa pistla mína á Moggablogginu. 

IMG_6522 jakkinn

Af mikill færni en um leið nákvæmu miskunnarleysi tók Sandra myndir af mér og valdi síðan þær sem á síðunni birtast. Þar með ein sem var samdóma álitin best. Hún er hér til hægri. Í umsögn meirihlutans segir að því minna sem sjáist í andlit mitt því betra ... Og svo hló meirihlutinn en mér stökk ekki bros á vör - eða þannig. 

Allt fólk er margbreytilegt og þannig er ég. Áhugamálin eru mörg. Frá barnæsku hef ég haft mikinn áhuga á stjórnmálum og sagnfræði. Einnig hef ég mikinn áhug á útiveru og ferðalögum um landið og það hefur leitt til þess að ég er náttúruverndarsinni. Þessu geri ég öllu grein fyrir á framboðssíðunni. Þar er einnig að finna svokallaðar reynslusögur. Þetta eru nokkurs konar gamansögur um það sem ég hef gert, oftar en ekki í ferðalögum á fjöllum.

Það er einlæg von mín að fyrir vikið átti lesendur sig betur á því hver ég er og hvaða stefnu ég hef. Drifkrafturinn í lífi mínu er réttlætiskennd sem byggir á almennri skynsemi og rökhyggju.

Ég hvet Sjálfstæðismenn sem og aðra til að skoða síðuna og láta mig vita um að sem betur má fara. Það má gera með tölvupósti og einnig er í lagi að hringja til mín.


Ekki-veiðar og bílatryggingar

Sé gengið út frá því vísu að takmarka þurfi veiðar á rjúpnastofninum vegna þess að hann er ekki nógu stór standa engin rök til þess að fjölga veiðidögum. Veðrið hefur áreiðanlega verið rjúpunni talsverð ógn enda lífsbaráttan hörð og ekki aðeins vegna veiðanna.

Ég man eftir því að í veiðiferð á Vesturlandi þann 9. nóvember 2001 var snælduvitlaust veður og varla stætt þar sem maður var að snöfla eftir fuglinum. Þessi helgi var gjörsamlega ónýt og enga rjúpu að fá. Enginn krafðist aukaveiðidaga þá.

Þetta man ég svo glöggt vegna þess að það var svo hvasst að þar sem við ókum kom hviða sem bar með sér sand og lakkið á vinstri hliðinni á tveimur bílum okkar stórskemmdist.

Eftirleikurinn var dálítið fyndinn, svona eftirá séð. Við, bíleigendurnir, vorum ekki hjá sama tryggingarfélaginu. Ég fór til Tryggingamiðstöðvarinnar og óskaði eftir því að fá bætur vegna skemmdanna. Svarið var hins vegar þvert nei og hvernig sem ég andskotaðist í félaginu var því ekki breytt.

Eigandi hins bílsins var hjá VÍS. Fyrsta svarið sem hann fékk vegna bóta var nei, rétt eins og hjá mér. Hann gaf sig ekki og hótaði loks að hætta með allar tryggingarnar hjá Vís og fara með þær eitthvað annað. Það dugði og hann fékk bílinn sprautaðan upp á nýtt.

Ekki þýddi neitt fyrir mig að hóta Tryggingamiðstöðinni hinu sama. Þeir hlógu að mér og sögðu mér að fara hvert á land sem ég vildi. Þetta gátu þessir djöflar enda var ég bara með tryggingar bílsins hjá þeim.

Ég lærði þó eitt af þessu. Reglur tryggingafélaganna eru bara fyrir þá sem minna eiga undir sér.


mbl.is Vilja uppbót á rjúpnadaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en 3244 pistlar á sex árum

Síðustu vikur hafa nokkrir þungavigtarmenn og -konur gefið kost á sér í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Þá vísa smáfuglarnir ekki til fólks sem hefur velgst [velkst] um innan flokksins árum saman og lítið lagt til málanna heldur þá sem hafa tekið baráttu fyrir frelsi einstaklinga og atvinnulífs föstum tökum.

Sigríður Á. Andersen gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Smáfuglarnir nefna til dæmis Óla Björn Kárason, Sigríði Andersen og Brynjar Níelsson. Hver þessara einstaklinga hefur lagt mikið á sig í gegnum árin til að stuðla að auknu frelsi og minni ríkisafskiptum. Þetta eru einstaklingar sem hafa tekið mikið á sig persónulega og þurft að þola linnulausar árásir vinstrimanna þegar það hefur sagt skoðanir sínar í fjölmiðlum.

Ofangreind tilvitnun er af vefnum amx.is sem ég hef nokkrum sinnum vitnað í hér á þessum vettvangi, flestum lesendum mínum án efa til ánægju. 

Ég er fyllilega sammála því að það skorti nokkuð upp á að frambjóðendur í prófkjörum hafi kynnt sig skýrt svona pólitískt séð. Þó er ég vissum að flestir frambjóðenda myndu sóma sér vel á þingi. Mér finnst þess vegna lítil ástæða til að hnjóða í fólk með þessum hætti jafnvel þó amx.is vilji reka áróður fyrir Óla Birni, Sigríði og Brynjari Níelssyni.  

Ég þekki Óla Björn ágætlega og styð hann eindregið, hann er málefnalega sterkur frambjóðandi. Brynjar þekki ég vel. Hann er gamall nágranni minn og raunar eru bræður hans, Guðlaugur og Gústaf æskuvinir mínir, sá fyrrnefndi sem er jafnaldri minn. Sigríði þekki ég ekki persónulega en hún er ein af útgefendum Vefþjóðviljans, einum þeim besta stjórnmálavef sem ég þekki.

Ég er einn af nítján frambjóðendum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Mér telst þó til að á undanförnum sex árum hafi ég ritað um 3.244 pistla hér á Moggabloggið, og er þá þessi meðtalinn. Í þeim hef ég meðal annars lagt mikla áherslu á frelsi einstaklingsins, uppbyggingu atvinnulífsins, gagnrýnt núverandi ríkisstjórn, barist gegn aðildinni að ESB og raunar fagnað því sem vel er gert og gagnrýnt annað. Ég skrifa um margt fleira. Ég ann landi mínu, ferðast um það og hef birt frásagnir og myndir frá forvitnilegum stöðum. Gaman hefur verið að finna fyrir áhuga á slíkum pistlum.

Það gleður hjarta mitt að fólk vilji lesa pistlana mína. Tölfræðin lýgur ekki og samkvæmt yfirliti Moggabloggsins hafa rúmlega 3.000 manns lesið þá í hverjum mánuði að undanförnu og þeim fer fjögandi.   Þetta þýðir um 17 þúsund flettingar, svo gripið sé til annars mælikvarða.

Síst af öllu er ég skoðanalaus og ég er óragur við að tjá þær. Það kunna áreiðanlega margir að meta og þess vegna hvet ég þá til að leggja mér lið í prófkjörsbaráttunni.

Gaman væri að geta sannað að frambjóðandi þurfi ekki endilega að njóta velþóknun þeirra sem vinna að pólitískri skoðanamyndun til að ná árangri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband