Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Engin afsökun hjá Ögmundi sem klórar í bakkann

Ogmundur, mbl

Hver er munurinn á því að biðjast velvirðingar á ummælum eða biðjast afsökunar? Án þess að ég hefi flett því upp þykir mér ljóst að sá sem biðst velvirðingar vill að einhver annar virði það sem hann sagði til betri vegar. Sá sem biðst afsökunar á ummælum sínum er einfaldlega að draga þau til baka og viðurkenna að hann hafi jafnvel haft rangt fyrir sér.

Þessu velti ég fyrir mér þegar ég las yfirlýsingu og viðtalið við manninn í Morgunblaðinu í morgun. Það varð mér tilefni til dálítilla vangaveltna.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur haft það að atvinnu í mörg ár að tala og eiginlega talar hann svo mikið að hann er orðinn snillingur í að afvegaleiða viðmælendur sína. Leiða má að því líkum að það sé ástæðan fyrir því að hann er af og til ráðherra.

Á þingi fór Ögmundur rangt með staðreyndir. Reyndar má halda því fram að hann hafi sagt ósatt þegar hann lét eftirfarandi út úr sér í þinginu:

Staðreyndirnar eru þessar: Ofsaveður gekk yfir Norðurland í fyrri hluta september. Önnur staðreynd: Enginn spáði þessu fyrir, engin varnaðarorð voru gefin út.

Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, virðist hæglátur og kurteis maður. Í veðurfréttum Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöldið sýndi hann í mestu rólegheitum spákortið sem gert var fyrir óveðrið í byrjun september.

Þá, og raunar fyrr, hefði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra átt að biðjast afsökunar í stað þess að reyna að klóra í bakkann og biðja fólk að virða það sér til betri vegar að hafa þó sagt eitthvað meira um eitthvað annað.  


Leiga fyrir 160 þúsund eða afborgun láns

Fjármögnun húsnæðis er eitt af því sem Gylfi segir að sé fólki erfið. Dæmið lítur oft svipað þessu út.

Íbúð kostar 21 milljón, hámarkslán er 16,8 milljónir og því þarf kaupandi að leggja fram 4,2 milljónir króna.

Þetta fé eiga margir ekki til, ekki síst þar sem mánaðarleg greiðslubyrði á leigumarkaði er þyngri en afborgun af húsnæðisláni, í flestum tilvikum, og því er söfnun sparnaðar oft erfið og mjög hæg. Kaupendur eigna eru því oftast nær að fá lán frá aðstandendum, og þetta segir Gylfi að sé einfaldlega ekki í boði fyrir þá sem ekki eigi vel stæða að, og ýti undir stéttaskiptingu.

„Það þarf að koma hér upp húsnæðisfjármögnunarkerfi þar sem leigutakar geta leigt til lengri tíma, og búa við öruggara umhverfi þegar kemur að leigunni. Þannig að það sé ekki hægt að henda því út við fyrsta hentugleika.“

Þetta er kafli úr viðtali við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, á visir.is. Gylfi kemur þarna að vandamáli sem er mjög stórt og er útborgun fólks í íbúðarhúsnæði. Þar sem fólk á ekki til þessar 4,2 milljónir króna lendir það í að leiga húsnæði sem kostar yfirleitt jafn mikið eða meira heldur en sem nemur afborgunin af 100% húsnæðisláni. 

Þá verður til annað vandamál. Af því að húsaleigan er svo há verður erfiðara fyrir fólk að spara til að eiga fyrir útborgun til kaupa á húsnæði. Vandamálið bítur þannig í skottið á sér og til verður vítahringur sem erfitt er að komast úr.

Öryggi leigjenda á leigumarkaði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er lítið og getan til að kaupa húsnæði er oft ekki fyrir hendi. Það er því ekki nema eðlilegt að mönnum dett í hug svona húsnæðisfjármögnunarkerfi eins og Gylfi nefnir. 

Hitt gæti verið til athugunar að bjóða upp á að lánið sé tvískipt. Annars er um að ræða hefðbundið húnsæðislán og hins vegar húnsnæðislán fyrir útborguninni. Forsendan er að leysa úr vandamálum þeirra sem geta greitt af húsnæðislánum en mega það ekki vegna forsendna sem fjámálastofnanir gefa sér. Út úr þeim ramma verða menn að hafa hugrekki til að líta og gefa fólki kost á að eignast þak yfir höfuðið.

Dæmið lítur þannig:

  • 80 ferm íbúð kostar 21 milljón króna
  • Húsnæðislánið er 16,8 milljónir króna
  • Útborgunin er 4,2 miljónir króna

Mánaðarleg leiga samsvarandi íbúðarhúsnæðis er 160.000 krónur. Sé ofangreint metið kann niðurstaðan að vera þessi, lauslega reiknað:

  • Mánaðarleg afborgun af 16,8 milljónum er í upphafi um 78.000 krónur á mánuði.
  • Veitt er fjögurra ára lán fyrir útborguninni, 4,2 milljónir kr, afborgun er um 77.000 krónur á mánuði.
  • Þetta er um 155.000 krónur á mánuði. 

Hagræðið við að eignast eigið húsnæði með ofangreindum kjörum er tvímælalaust hagstæðara fyrir fólk en að leigja íbúð á ótryggum markaði fyrir sömu fjárhæð. Eða á bara að segja að fólk sem svona er ástatt fyrir verði bara að þreyja þorrann upp á von og óvon og halda áfram að kasta peningum út um gluggann?

Þá er það spurningin um hinn ótrygga markað. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ vill taka upp húsnæðisfjármögnunarkerfi fyrir húsaleigumarkað. Ég get ekki betur séð en að slíkt kerfi geti allt eins vel sinnt þörfum íbúðarkaupanda. Þetta má skilyrða á þann veg að þetta bjóðist aðeins ungu fólki sem og þeim sem ekki eiga íbúð fyrir eða hafa misst íbúð vegna efnahagshrunsins.

Ég hvet til þess að þetta mál fái meiri umræðu því Gylfi hefur vakið máls á mjög krefjandi máli. 


Framboðsleikur Helga Hjörvars

Það er auðvelt fyrir Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar, að standa núna upp þá hundraðasti dómurinn kemur um gengislánin og halda því fram að ekkert sé að vanbúnaði að hefja endurútreikning lána.

Hvað sagði þessi þingmaður þegar Árnalögin voru samþykkt? Hver voru viðbrögð hans við hverjum dómi hæstaréttar á fætur öðrum sem gerðu gengislánin ólögleg?

Jú, hann gætti hagsmuna fjármálafyrirtækjanna. Hann og aðrir þingmenn ríkisstjórnarinn töldu það óhæfu að ekkert kæmi í staðinn fyrir gengisviðmiðunina. Sló skjaldborg um fjármálafyrirtækin.

Og núna, þegar ljós er að þjóðin er að flengja ríkisstjórnarflokkana í skoðanakönnunum, prófkjör er í nánd og þingkosningar á næsta ár þá nennir hann loks að standa upp og þykjast vera í liði með almenningi. Menn sjá í gegnum svona leikaraskap.

Hagsmunir Helga Hjörvar liggja í því að hann vill halda áfram þingmennsku en sér sitt óvænna vegna þess að eftirspurn eftir honum og öðrum Samfylkingarmönnum hefur dregist saman.


mbl.is Styður við fram komin sjónarmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík

Furðulegt er að fylgjast með rökfærslu í umræðupólitíkinni undanfarin misseri. Nú eru „hagsmunir“ ljótt orð sem og allar tengingar við það t.d. „hagsmunagæsla“. Þetta datt mér í hug þegar ég las dæmalaust óvandaða grein í Mogganum í morgun eftir Gunnar H. Gunnarsson, verkfræðing, og Örn Sigurðsson, arkitekt. Greinin á að einhvers konar andsvar gegn skrifum sjö bæjarstjóra sem vilja að flugvöllurinn í Reykjavík fái að standa áfram.

Þeir tvímenningar nefna greinina „Bæjarstjórarnir sjö í bullandi kjördæmapoti“. Þeir höfðu samt ekki árangur sem erfiði vegna þess að samstundis fékk ég samúð með málstað bæjarstjóranna. Ég tek raunar ofan fyrir sjömenningunum að halda þessu máli vakandi enda er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina að ekki verði hreyft við flugvellinum.

Það eru líka hagsmunir Reykjavíkur og þar með borgarbúa að flugvöllurinn verði áfram á þeim stað sem hann er núna. Rökin eru margvísleg. Nefna má að flugvöllurinn skapar atvinnu og ekki síður tekjur til borgarinnar. Flugvöllurinn gagnast landsbyggðinni afskaplega vel en myndi ekki gera það yrði hann fluttur. Raunar benda líkur til að innanlandsflugið muni að stórum hluta leggjast af verði flugvöllurinn fluttur. 

Ég er afar ósáttur við röksemdafærslu þeirra Gunnars og Arnars. Þeir fara með staðlausa stafi, veltast um í einhverju rugli um fjórflokk, landsbyggðin stjórni Alþingi og svo framvegis.

Þá er ekki úr vegi að ég gefi út kosningaloforð, þar sem ég er í framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna næsta vor. 

Nái ég þeim árangri í prófkjörinu að ég fái sæti á framboðslistanum í Reykjavík mun ég leggjast gegn öllum áformum um að flytja flugvöllinn. Punktur.


Skagaströnd, höfuðstaður Norðurlands

Höfu#195423

Akureyri er ekki höfuðstaður Norðurlands. Hefur aldrei verið það þó svo að margir burtfluttir Akureyringar dásami æskustöðvarnar og vilji halda þessu fram. Hreppakrytur koma einnig að þessu og vilja margir bæjarfulltrúar halda þessu fram í þeirri von að nafngiftin skapi þeim einhverja sérstöðu, nái að fá einhvern forgang gagnvart öðrum. Það er nú langt í frá að það geti gerst.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Norðurland frá Hrútafirði í vestri til Langaness í austri. Landshlutinn er gríðarlega ólíkur innbyrðis og ekki furða þótt honum sé að öllu jöfnu skipt í Norðurland vestra og eystra. Raunar ætti þriðja skiptingin að fylgja með sem er Eyjafjörður. Veðurfarslega eru þessu hlutar Norðurlands afar ólíkir. Menningarlega eru þeir ólíkir sem auðvitað er mjög jákvætt. Fólkið er mismunandi og markast ef til vill af nánasta umhverfi sínu.

Ég bjó í nokkur ár á Norðurlandi vestra og aldrei varð ég þess var að nokkur maður liti þar til Akureyrar sem höfuðstaðs. Þangað er fátt að sækja fyrir íbúana, hvorki í stjórnsýslu né annars. Jú, auðvitað má ég ekki gleyma því að veikist einhver alvarlega þá verður hann að fara til Akureyrar eða Reykjavíkur því svo illa hefur verið dregið úr heilbrigðisþjónustu annars staðar.

Akureyri er fallegur bær og þar býr gott og duglegt fólk. Ekki flögrar að mér að halda það að allir Akureyringar telji bæinn sinn höfuðstað nema auðvitað nærsveitanna. Og ekki heldur flögrar það að mér að segja eins og Austfirðingurinn sagði: „Það er svo óskaplega gaman að koma til Akureyrar en enn betra er að fara þaðan.“ Þetta er auðvitað illa sagt nema það sé slitið úr samhengi við gamanið sem það hlýtur að tilheyra.

Hins vegar er ég á því að ef einhver staður á Norðurlandi eigi skilið að vera höfuðstaður Norðurlands þá er það Skagaströnd. Hvergi annars staðar er jafnmikið menningarlífs, ríkt skólastarf, viðkunnanlegri stjórnsýsla, meira íbúalýðræði, fleiri listamenn og fallegra mannlíf - ja, nema ef vera skyldi á Blönduósi, já eða Sauðárkróki, og ekki má gleyma Hvammstanga eða Hofsós, já og Þórshöfn, Kópasker, Raufarhöfn Húsavík, Grenivík eða Grímsey ...

 


Glaðir Árni eða dapur, skiptir engu

Afsakið innskotið. Er eitthvað annað í boði en að una niðurstöðu lýðræðislegra kosninga. Hins vegar munu fæstir hafa af því áhyggjur hvort Árni verði glaður eða dapur eftir talninguna. Samfylkingin er hvort eð er á leiðinni ofan í smáflokkahítina. Og það er vel.
mbl.is „Mun glaður una niðurstöðunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfaldast að fresta gildistökunni um eitt ár

Úr því að 7% virðisaukaskattþrep er að mati ríkisstjórnarinnar einhvers konar afsláttarskattþrep eða aumingjaskattþrep er þá ekki hreinlegast að gera annað hvort? Hætta við að leggja 25,5% vask á gistiþjónustu eða frekast gildistökunni um eitt ár.

Í raun og veru voru aðalröksemdir ferðaþjónustunnar þær að of skammt væri í gildistökuna. Ferðir hingað til lands fyrir árið 2013 hefðu þegar verið seldar með gistingu sem ekki innihéldi þessa hækkun. Annað gildir með árið 2014.

Svo gerist það auðvitað næsta vor að við Sjálfstæðismenn munum mynda ríkisstjórn og sameina skattþrep virðisaukaskattsins í eitt, endurskoða alla skattlagningu á almenning og fyrirtæki og hafa það sem markmið að skatturinn verði ekki letjandi til vinnu eða framkvæmda eins og nú er.

Svo má allaf rökræða hvort ekki sé ástæða til að takmarka ferðir útlendinga hingað til lands? Þolir náttúran álagið meðan við gerum ekkert til að byggja upp ferðamannastaði og gönguleiðir? 


mbl.is Rætt um nýtt skattþrep
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra fer með rangt mál og fær hnífinn í bakið

Þegar ég heyrði af orðum ráðherra í þinginu þess efnis að enginn hefði spáð fyrir um óveðrið í byrjun september varð ég hugsi. Mig minnti endilega að spár í sjónvarpi og útvarpi hefðu verið þess efnis og ég taldi mig hafa séð á vefnum að hvassast yrði á norðausturhorninu .

Nú er það svo að að yfirleitt ber innlendum spáaðilum saman, Veðurstofunni og vefmiðlinum belgingur.is. Fleiri leggja ekki stund á veðurspár, held ég. 

Svo sá ég þessa fínu kynningu á veðurspánni fyrir 10. september í sjónvarpinu í gær og á mundi ég eftir öllu saman. Ráðherrann hafði einfaldlega farið með rangt mál.

Nú er beðið eftir afsökunarbeiðni frá honum. Hún kemur áreiðanlega og án nokkurs trega. Hitt vekur athygli að umhverfisráðuneytið skuli hnýta í innanríkisráðuneytið með fréttatilkynningu. Það er áreiðanlega einsdæmi að horfa upp á slíkt. Ráðuneyti eiga ekki að skattyrðast opinberlega, þau hljóta að hafa einhvern vettvang fyrir slíkt. Gæti það heitið ríkisstjórn ...? En hvað veit maður sosum um þessa vinstri stjórn? Bakstungur eru þar daglegt brauð.


mbl.is Ummæli ráðherra komu Veðurstofunni í opna skjöldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundar Landsbankinn njósnir og persónugreiningu?

Bankinn minn er kominn með nýtt öryggiskerfi. Ég fyllist þakklæti og ánægju yfir því. Hugsa svo ekki meira um það. Ekki fyrr en vandaður maður upplýsir hvernig nýja öryggiskerfið virkar. Þá stend ég eiginlega frammi fyrir tveimur vandamálum. Vondu gæjarnir komast síður inn á bankareikninginn minn en bankinn minn er kominn inn á gafl í tölvunni minni, safnar upplýsingum og nota þær til persónugreiningar ...

Hvur fjandinn er hér á ferðinni? Er enginn munur lengur á milli góðu gæjanna og þeirra vondu. Þarf ég að greiða fyrir fjárhagslegt öryggi mitt með því að bankinn viti allt um mig?

Ég oft vitnað í skrif Marinós G. Njálssonar hér. Hann heldur úti afar ítarlegri bloggsíðu og hefur fengist við að rannsaka skuldamál heimilanna, dóma Hæstaréttar um gengismál og verðtrygginguna. Hann er sérfræðingur á sviði upplýsingaöryggimála með meira en 20 ára reynslu á því sviði.

Marinó segir um þetta mál í pistli á bloggsíðu sinni (feitletranir og greinaskil eru mínar):

Þar sem ég er viðskiptavinur Landsbankans, þá hef ég kynnt mér hið nýja öryggiskerfi þeirra. Staðhæfing bankans er að könnun á hegðun einstaklingsins færi honum og bankanum meira öryggi.

Ég er alveg viss um að hluti slíkra upplýsinga þurfi að vera IP-tala, ýmis auðkenni tölvunnar, útgáfunúmer og heiti vafra og fleira tengt umhverfinu sem notandinn tengist frá.  Hann er því með leynd að sækja upplýsingar til notandans, sem notandi hefur ekki hugmynd um að hann sé að veita bankanum.  

Þetta eru upplýsingar sem mjög algengt er að sóttar séu til notandans, en þá ekki í þeim tilgangi að nota í persónugreiningu. Samkvæmt persónuverndarlögum þarf það því að liggja fyrir (óski notandinn þess) hvaða upplýsingar Landsbankinn safnar og notar til að auðkenna notandann og þar með tryggja öryggi viðskiptanna.

Mann rekur í rogastans. Landsbankinn aflar ekki leyfis hjá viðskiptavinum sínum, gerir ráð fyrir því að þeir mögli ekki og ræðst í verkefnið. Auðvitað möglum við ekki um það sem við vitum ekkert um.

Gera menn sér grein fyrir því hversu dýrmætar persónugreindar upplýsingar eru. Ekki aðeins fyrir banka, heldur tryggingafélag, kortafyrirtæki, verslun ... svo ekki sé minnst á lögreglu, skattayfirvöld, atvinnuleysistryggingasjóð og raunar gildir þetta fyrir næstum allan ríkis- og einkarekstur.

Kortafyrirtækin gætu rennt persónugreindum upplýsingum saman við sínar upplýsingar um til dæmis viðskiptahegðun í verslunum, ferðir, póstverslun og svo framvegis. Dag einn fær svo neytandi tilboð frá stórverslun sem hann skilur ekkert í en þetta hentar honum svo ósköp vel. Annar fær tilboð um nokkrar bækur sem hann gæti þurft á að halda vegna áhugamáls eða starfs. Sá þriðji fær kannski heimsókn frá lögreglunni sem hefur haldbærar upplýsingar um að hann geti mögulega verið í þann veginn að fremja glæp. Sá fjórði þarf að svara fyrir innlegg inn á bankareikninginn sinn og sanna að hann sem atvinnulaus maður á bótum sé ekki að fá greiðslur fyrir einhver viðvik eða stunda svarta atvinnustarfsemi. Sönnunarbyrðin hér er öfug.

Dæmin um misnotkun persónuupplýsinga gætu verið óteljandi en lesandi hlýtur nú að skilja hversu alvarlegt þetta mál er. Ekki þannig að ég gruni Landsbankann um græsku en ... möguleikinn er alltaf fyrir hendi.

Marinó G. Njálsson ræðir nokkuð um það sem forsvarsmenn Landsbankans hafa nefnt „falskt öryggi“ og eiga þá líklega við svokallaða auðkennislykla sem eru hluti af þriggja þátta öryggi sem víðast telst gott.

Marinó segir:

Næst má spyrja fyrir hvern er hið falska öryggi.  Fyrir mig sem einstakling, eiganda lítils rekstrar og vinnandi fyrir erlent stórfyrirtæki, þá býr hið nýja kerfi Landsbankans til óásættanlega áhættu!

Landsbankinn ætlar nefnilega að fylgjast með "hegðun í..vafri og stýrikerfi".  Hann ætlar sem sagt að hnýsast um hvað viðskiptavinirnir geri á tölvunum sínum.  

Það getur hann ekki gert nema að fá að setja inn söfnunarforrit, sem hann treystir að fá leyfi fyrir, og þetta söfnunarforrit mun senda upplýsingar til gervigreindarforritsins.  

Það getur vel verið að í Bandaríkjunum og einhverjum þriðja heims löndum tíðkist að fyrirtæki njósni um viðskiptavini sína til að safna upplýsingum um hegðun þeirra.

Facebook, Microsoft og Google gera þetta, þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi bannað þá hegðun og svo er örugglega um mörg önnur fyrirtæki. 

Síst af öllu er ég sérfræðingur í öryggismálum. Það eitt veit ég þó, að neytandinn vill að kerfið virki og hann sé öruggur gagnvart glæpalýð sem og njósnum, skiptir engu hverjir standa að þeim. Ef annað hvort er ekki í lagi þá þarf lögregla að taka á þeim málum af festu og tryggja öryggi borgaranna. 

Ég spái því að þetta mál eigi eftir að verða Landsbankanum til vandræða sé það rétt sem Marinó segir. 


1262 land ...

Undarlegt hversu fólk bregst illa við meintri nafnbreytingu á landinu okkar. Ólygin sagði mér ... að í Brössel væri búið að ákveða að landið ætti að ganga undir númerinu 1262 eftir að það gerðist aðili að ESB. Líkleg er átt við einhverja reglugerð eða lög ... Veit það þó ekki alveg. Getur einhver hjálpað?
mbl.is „Byggt á algjörum misskilningi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband