Hryðjuverk í Eldvörpum

Eldvorp

Fæstir þekkja Eldvörp norðan Grindavíkur og enn færri hafa komið þangað. Það er miður en land er ekki síður mikils virði þó fáir skoði það.

Þarna á nú að fara í boranir og hugsanlega virkja. Manni bregður við og hugsar með sér að þetta geti nú ekki verið. Og þó það ætti að bora þarna, hvers vegna er þarf að stórskemma svæðið?

Ómar Ragnarsson ritar hörkuprédikun í Fréttablaðið í gær. Hann segir í grein sinni:

Nú skal kveðið skýrt að: Af hverju yrði Eldvarpavirkjun tilefni til að kalla allar núlifandi kynslóðir Íslands sem komnar eru til vits og ára "sjálfhverfu kynslóðirnar"?

Af hverju yrði hún heimskulegur, siðlaus og óskiljanlegur umhverfisglæpur?

Það er vegna þess að með virkjun Eldvarpa á ekki aðeins að umturna og eyðileggja gígaröð, einstætt náttúruverðmæti, heldur líka að stytta endingartíma sameiginlegs jarðhitageymis Eldvarpa og Svartsengis úr 50 árum niður fyrir 30 ár en fullyrða samt að um sé að ræða endurnýjanlega orkunýtingu sem fyrirmynd fyrir heimsbyggðina!

Þetta eru ekki upphrópanir út í loftið, vísindaleg gögn liggja fyrir þessu.

Og það á líka að ráðast á svipaðan hátt á næstu gígaröð, Sveifluháls, austan Eldvarpa, sem hefur á sér form svonefndra móbergshryggja, en þeir eru gígaraðir sem mynduðust undir jökli. Og þá er spurt: Hvaða máli skiptir það?

Og svarið er einfalt: Hvergi á þurrlendi jarðar er að finna gígaraðir eins og á Íslandi. 

Fleiri en Ómar lætur málið til sín taka. Fjöldi fræðimanna og leikmanna hefur áhyggjur af því sem þarna á að gerast og ekki vegna þess að fólk er á móti virkjunum, rafmagni eða atvinnuuppbyggingu. Nei, vegna þess að þarna er verið að skemma einstæðar jarðminjar, fara í óafturkræfar breytingar á landi. 

Á vef framtidarlandid.is segir:

Virkjun myndi hafa mikil áhrif á bæði náttúru- og menningarminjar á svæðinu, þar á meðal sjálfa gígaröðina og Sundvörðuhraun. Gígaraðir eru eitt verðmætasta og sérstæðasta sérkenni íslensks landslags. Eldvörp eiga enga hliðstæðu fyrr en komið er austur að Lakagígum. 

Mer finnst of mikill hraði á mörgum málum. Er ómögulegt að fara sér hægar og skoða málin nánar og koma til móts við sjónarmið sem eru andstæð virkjun? 

Meðfylgjandi mynd tók Ómar Ragnarsson. Smellið nokkrum sinnum á myndina og skoðið hana stærri. Þvílíkur aðskotahlutur sem borplanið er á þessum slóðum. Þetta er sama vitfirringin og átti sér stað þegar farið var í Hellisheiðarvirkjun. Allt skemmt og eyðilagt svo landið verður á eftir gjörsamlega óþekkjanlegt. Hryðjuverk eiga ekki að leyfast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er mér óskiljanlegt af hverju flestir telja jarðhitavirkjanir umhverfisvænni en vatnsaflsvirkjanir.  Bæði  út frá sjónrænum áhrifum, mengun og ósvöruðum spurningum um hvað mikið má taka af þessari orku án þess að blóðmjólka kerfið.

Þórir Kjartansson, 23.11.2012 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband