Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012
Valgerður stuðlar að hroðvirkni þingsins
30.11.2012 | 13:14
Lýðræðið er bara í nösunum á Valgerði Bjarnadóttur, þingmanni, og félögum hennar í vinstri meirihlutanum á þinginu. Með offorsi er ætlunin að þvinga þingið til að afgreiða frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Skiptir engu þótt skoðanir séu skiptar í þjóðfélaginu um það. Jafnvel helstu fræðimenn þjóðarinnar eru undrandi á flýtinum og skilja ekki hvernig hægt er að þaulvinna svona mikilvæg lög á eins skömmum tíma.
Skýringin er einföld. Valgerður og samþingmenn hennar eru ekki fagleg. Þeim nægja innantóm orðin, aðeins að þau séu áferðafalleg og sennileg. Þeim finnst minna skipta hvort þau standist í raunveruleikanum þegar til kastanna kemur.
Alltof oft koma illa unnin mál frá Alþingi. Hraðinn er oftast ástæða hroðvirkninnar. Menn einfaldlega komast ekki lengra yfir en fæturnir bera þá.
Væri nú ekki tímabært að þingmenn íhuguðu stöðu sína og gæfu þjóðinni frí, til dæmis í einn vetur. Hverju skyldi það skipta ef engin lög yrðu samþykkt fram til vors? Til að allrar sanngirni sé gætt skulum við leyfa þeim að samþykkja fimm lagafrumvörp að því tilskyldu að tveir þriðju þingmanna greiði þeim atkvæði sitt.
Þetta held ég að þeim verði ofraun en dálítið skemmtilegt. Svipað og þegar Egill Skallagrímsson ætlaði að henda úr sjóðum sínum yfir þingheim til þess eins að sjá þá kasta frá sér öllum áhuga á þingstörfum og berjast og slást til að hirða nokkra peninga.
Verður of seint í lok janúar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Olíuræningjar í malarnámum
29.11.2012 | 16:14
Ég hef stundum verið að býsnast yfir því hvers vegna við sem höfum ánægju af fjallaferðum getum ekki ekið að fjallsrótum Vífilsfells og gengið þar upp eins og við erum vön. Þá hef ég tekið sem dæmi mannvonsku þeirra sem stunda malarnámið á þessum slóðum. Þeir loka fyrir fínan veg að fjallinu.
Nú hef ég fengið réttar upplýsingar og ástæðan yfir lokun vegsins er ekki mannvonska. Glæpahundar fara þarna í skjóli nætur og pumpa olíu af vinnuvélum sem eru á svæðinu. Þetta getur ekkert fyrirtæki búið við og þess vegna er malarvinnslufyrirtækið að undirbúa lokun á veginum inn í námuna við Suðurlandsveginn.
Ræningjar eru svo latir að þeir nenna ekki að ganga þessa leið fram og til baka.
Eldsneyti dælt af sjúkrabíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Aftur er Bjarni pólitískt á götunni
29.11.2012 | 12:14
Skelfing er hann Bjarni Harðarson, bóksali, umkomulaus eftir að hafa hrökklast úr Framsóknarflokknum yfir í Vinstri hreyfinguna grænt framboð ofl. og svo úr þeim flokki. Hann er nú á götunni, svona pólitískt séð. Líklega kominn á sama stað og hann var á áður en hann varð landsfrægur fyrir ... man ekki hvað.
Svona gerast nú kaupin á hinni pólitísku eyri. Menn veltast hingað og þangað eftir því hvernig straumurinn ber þá nema því aðeins að þeir hafa einhverja skoðun og berjast fyrir henni. Hefur Bjarni einhverjar skoðanir? Er ekki dálítill meiningarmunur á því að vera Framsóknarmaður og Vinstri grænn?
Hins vegar tek ég ofan fyrir manninum að hafa farið úr VG vegna ESB.
Bjarni farinn úr VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Málið eru þrjár fræðandi línur í Mogganum
29.11.2012 | 11:01
Fjölmiðlar geta eru almennt upplýsandi en þeir geta líka verið fræðandi. Á þessu tvennu er dálítill munur sem ég ætla þó ekki að fara út í núna að öðru leyti en að benda á Morgunblaðið í fræðilega tillitinu.
Á blaðsíðu þrjátíu og þrjú, móti teiknimyndasögunum, innan um Sudoko, Krossgátu og Orðarugl, er Málið. Þar er tekið á daglegu máli með upplýsandi dæmi um rétt mál. Aldrei meira en þrjár línur.
Fátt er meira fræðandi en þessi litli dálkur og ég les hann daglega. Í dag er orðið snurða skýrt út. Ég þekkti til orðsins en það er alltaf hollt að hressa upp á þekkingu sína. Þarna segir:
Snurða er hnökri eða lítill harður samsnúningur á snúnum þræði. Hafi snurða hlaupið á þráðinn hefur eitthvað orðið til tafar eða vandræða en gangi allt vandræðalaust gengur það snurðulaust. Snuðra á þræði er kannski munntamari en snurða skal það vera.
Illvirkin á veginum inn í Bása og Þórsmörk
29.11.2012 | 00:04
Vaxandi umferð einkabíla, fólksflutningabíla svo ekki sé talað um flutningabíla hefur farið illa með vegina. Fjallvegirnir spænast upp og grafast niður og verða fljótt ófærir vegna vatnselgs eða forar. Á vorin opnast þeir ekki fyrr en seint og um síðir og þeir lokast óþarflega fljótt vegna þess að snjór safnast í þá þótt umhverfið sé nær snjólaust. Og hvað gera þá ökumenn? Jú, eins og göngumennirnir krækja þeir fyrir verstu pyttina, aka út fyrir eins og það er kallað. Að lokum verður landið umhverfis roföflunum að bráð.
Ofangreint er úr grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 10. maí 2004. Tilefnið var grein sem Árni Jóhannsson, þáverandi formaður Útivistar, ritaði í blaðið um mánuði fyrr. Í henni ræddi hann um breytingar sem verið var að gera á veginum inn í Þórsmörk. Útivist hafði ekki óskað eftir þessum breytingum, að sögn Árna.
Árni segir í grein sinni:
Hverjum er svona mikið í mun um að eyðileggja þá upplifun sem felst í því að aka yfir óbrúaðar ár og njóta sæluvistar í paradís að leiðarlokum? Ekki veit ég svarið en þegar þessi ósköp hófust reyndi ég að grafast fyrir um það án árangurs. Ég hafði samband við aðra rekstraraðila, Vegagerðina og þingmenn, en allt kom fyrir ekki - enginn kannaðist við glæpinn. Hins vegar var staðan sú að á Vegaáætlun hafði verið úthlutað 50 milljónum til framkvæmda á þessum vegi og ekki er í mannlegu valdi að stöðva eða breyta því fjárstreymi.
Daginn eftir var vitnað í grein Árna í leiðara Morgunblaðsins og þar segir: Morgunblaðið tekur undir hvert orð í grein Árna Jóhannssonar, formanns Útivistar.
Nokkru áður hafði Árni Alfreðsson, líffræðingur og áhugamaður um útiveru, ritað grein í Morgunblaðið um lagfæringar á veginum inn í Þórsmörk. Hann sagði í grein sinni:
Hverjum er svona mikið í mun að eyðileggja þetta ævintýri sem Merkurferðir hafa hingað til þótt? Hverjir hafa slíkra hagsmuna að gæta að "ríkið" ætlar að eyða tugum eða hundruðum milljóna í veg sem án efa verður mjög viðhaldsfrekur og dýr. Það er deginum ljósara að það eru aðilar í ferðaþjónustunni sem knýja á um þessa aðgerð. Eðlilega berast böndin að þeim aðilum sem hafa svokallað húsbóndavald í Þórsmörk; Ferðafélaginu, Útivist og Austurleið-SBS eða öðrum sem hafa tekjur af Mörkinni á einn eða annan hátt.
Vegagerðin segir að í "bili" hafi verið ákveðið að leggja veginn "aðeins" inn að Jökullóni. Vegur inn að Jökullóni er nánast alla leið inn á Þórsmörk. Hvort sem smáspotti verður skilinn eftir í "bili" eða ekki þá er hér um að ræða miklar landskemmdir sem eðlilega fylgja upphækkuðum vegi í tiltölulega ósnortnu umhverfi auk þess að eyðileggja áðurnefndan ævintýrablæ. Þegar slíkur vegur, innan tíðar með slitlagi, er kominn nánast alla leið hlýtur það einungis að vera tímaspursmál hvenær hann er kláraður.
Nú eru liðin átta ár frá því að þessar þrjár greinar og leiðari voru ritaðar og enn hamrar Árni Alfreðsson járnið þó það sé langt í frá heitt. Hann ritar í dag grein í Fréttablaðið um málið og segir:
En nú eru blikur á lofti. Jarðýtur og gröfur eru farnar að vinna í gilkjafti Hvannár með risaræsi og fyrirhleðslugrjót. Mér er spurn. Hver þrýstir á að Hvanná sé brúuð? Engin leyfi eru þarna fyrir hendi enda telur verktakinn engin leyfi þurfa þar sem framkvæmdin sé ekki "svo stór" í sniðum. Með sömu rökum má brúa allar ár og læki á leiðinni inn í Þórsmörk í áföngum án nokkurra leyfa. Sem er sennilega ætlunin. Ef þessi ráðagerð verður að veruleika þá verður lítill sjarmi af Merkurferð í framtíðinni. Og Þórsmörkin breytist sjálfkrafaí sjoppuvædda rútubílamiðstöð líkt og Gullfoss og Geysir.
Í dag hefur svæðið ákveðna sérstöðu sem margir sækja í, Íslendingar sem og útlendir ferðamenn. Þrátt fyrir að aðgengi að svæðinu sé takmarkað vegna náttúrulegra aðstæðna (óbrúaðar ár) þá er ágangur ferðamanna það mikill að víða sjást þess ljót merki. Er virkilega þörf á ótakmörkuðu aðgengi og þar með margfalt meiri átroðningi?
Það stendur enn sem ég sagði 2004 og endurtek í upphafi þessa pistils að fjallvegir verða aldrei fornminjar. Umferð bíla slítur þeim og eyðir og gera þarf við þá. Hins vegar flögraði aldrei að mér að til stæði að fara í slíkar framkvæmdir er farið hefur verið í síðustu árin. Eitthvað má nú á milli vera þess sjónarmiðs sem ég stóð fyrir og þeirra þriggja sem ég hef hér vitnað í. Í raun erum við fyllilega sammála.
Miskunnarlaust hafa jarðýtur verið settar á torleiði á veginum inn í Þórsmörk. rör hafa verið sett undir veginn innan við Merkurbæi og þar eru ekki lækir lengur til trafala.
Rutt hefur verið úr Akastaðaánni og er hún slíkur aumingi að Toyota Jaris gæti farið yfir hana.
Fyrir innan Langanes hefur verið hlaðinn mikill garður og gerð hraðbraut með ræsum inn að Jökulsá.
Steinsholtsá var einu sinni mikill farartálmi vegna þess að þröskuldur var í henni skammt neðan við vaðið. Þar safnaðist oft mikið vatn og var þá mjög erfitt að aka yfir hana. Ég man oft eftir því að pallbíll sem ég ók lyftist að aftan og við lá að hann snérist þó maður æki skáhalt yfir skaðræðið. Sá tími er liðinn, jarðýtan ruddi fyrirstöðunni úr ánni og nú er hún vesöl og ómerkileg.
Sama var með lækinn úr Stakkholtsgjánni. Hann bar með sér möl, gróf sig niður æði oft. Nú hefur jarðýtan farið í hann og rutt niður bökkunum beggja vegna og opnað fyrir læknum þar fyrir neðan. Nú er Jarisfært yfir.
Með hlíðinni inn að Stakk var stundum mikið vatn, þar vildi oft vatn flæða yfir veginn í vatnavöxtum. Þegar fór að frjósa mynduðust þarna krapaskarir sem voru erfiðar yfirferðar. Nú eru þarna eitt eða tvö ræsi og enginn tók eftir því er þeim var komið fyrir.
Hvanná var alltaf yndislegt skaðræði. Flæmdist um frá Álfakirkju við Réttarfell að Stakk og jafnvel lengra. Stundum gróf hún sig og var djúp og erfið í einni bunu, en svo breytti hún sér og var ekkert nema blíðan, lak í ótal sprænum. Ummerkin um hamfarir Hvannár eru greinileg. Aurkeilan frá Hvannárgili er kúpt, hæst í miðið en lækkar til beggja hliða. Nú er verið að gelda Hvanná og er það gert með því að setja hana í ræsi uppi við Gunnufuð eða þar sem næst.
Básalækurinn kemur úr Básum og rennur vestan undir Réttarfelli og fer út í Krossá við Álfakirkju. Skammt frá henni er ræsi og er þessi ljúfi lækur sem í umhleypingum minnir ótæpilega á sig orðin að bölvaðri druslu sem Jaris fer létt með.
Krossá er enn mikið vandamál. Gera má ráð fyrir að yfir hana verði sett hengibrú á tveimur stöðum, við Langadal og einnig við endann á Merkurrana. Nema auðvitað að gerð verði göng undir hana.
Aldrei flögraði það að mér að Vegagerðin myndi gera neitt annað en að sinna eðlilegu viðhaldi á veginum inn í Þórsmörk og Goðaland. En að hún stæði fyrir illvirkjum á þessu svæði er ótrúlegt. Ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að taka fram fyrir hendurnar á Vegagerðinni þá er það núna.
Nú þurfa Árni Jóhannsson, Árni Alfreðsson og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins að taka á honum stóra sínum. Ég skal aðstoða ef leggjast þarf á járnkallinn.
Þetta gengur ekki lengur. Eða með orðum Árna Alfreðssonar:
Ef þessi ráðagerð verður að veruleika þá verður lítill sjarmi af Merkurferð í framtíðinni. Og Þórsmörkin breytist sjálfkrafa í sjoppuvædda rútubílamiðstöð líkt og Gullfoss og Geysir.
Myndir:
Efsta myndin er tekin innan við Langanes þar sem hefur verið gerður vatnargarður til að hafa heimil á Markarfljóti.
Næsta mynd er af Jóhannesi, bjargi á Steinsholti. Þar vætlar nú Steinsholtsáin í kringum hann.
Rúta á leið frá Langanesi á tíunda áratug síðustu aldar
Vegurinn frá Stakkholtsgjá. Í fjarska sést Réttarfell og lengst til vinstri er Stakkur. Þarna má greina lækjarsprænu sem kemur úr ræsi undir veginum.
Fyrir gosið í Eyjafjallajökli var oft mikið ævintýri að komast yfir útfallið úr Lóninu. Nú er það allt breytt og þurfti ekki Vegagerðina til.
Síðasta myndin er af bíl í Hvanná.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Borgríki verður til á Skólavörðuholti
28.11.2012 | 16:25
Nýr Landspítali verður hrottalegt lýti í byggðinni á Skólavörðuholti. Eiginlega múr eða borgríki í borg. Ótrúleg þessi róttæka breyting sem þarf að verða á öllu. Allt gamalt og gott skal víkja fyrir einhverju sem enginn veit hvað er eða verður.
Landspítalinn virðist geta þanist út á kostnað annarra sjúkrahúsa. Hann á að vera miðlægur og til að hann geti staðið sem slíkur verður að draga úr öllum kostnaði við sjúkrahús í nærliggjandi byggðum sem og á gjörvallri landsbyggðinni. Að öðrum kosti er ekki rekstargrundvöllur fyrir honum.
Vandinn er sá að stjórnvöld hafa ekki beðið neinn hlutlausan aðila að kanna stöðu Landspítalans, skoða hvernig rekstrargrundvelli hans er háttað. Svo afkastamikið er þetta bákn að það stjórnar allri miðlun upplýsinga, ekki nokkur leið er að sannreyna eitt eða neitt sem frá því kemur. Og ekki nóg með það. Þeir örfáu sem að veikum mætti reyna að malda í móinn er mætt af hörku af Landspítalanum og sé málum vísað til velferðaráðuneytisins sitja þar í öllum lykilstöðum fyrrverandi starfsmenn Landspítalans.
Enginn hlustar þegar þeir sem til þekkja halda því fram að við þurfum ekki stærri spítalann en til dæmis Norðmenn telja nægja fyrir mun fjölmennari landshluta.
Deiluskipulagi nýs Landspítala frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hlægileg ráðstöfun Vegagerðarinnar
27.11.2012 | 11:46
Hvað gerist þegar vegur rofnar? Jú, það er gert við hann. Menn böðlast hins vegar ekki við að taka efni úr öðrum vegi og bera í þann skemmda.
Baldur nefnist ferjan sem siglir yfir Breiðafjörð, frá Stykkishólmi á Snæfellsnesi til Brjánslækjar á sunnanverðum Vestfjörðum. Baldur er varaskeifa fyrir Herjólf sem siglir milli lands og Eyja.
Má gera ráð fyrir að ferjan sem gengur milli lands og Hríseyjar sé varaskeifa fyrir Baldur og hraðbáturinn sem siglir yfir í Aðalvík á sumrin sé varaskeifa fyrir Hríseyjarferjuna ...? Hvaða árabátur skyldi koma í staðinn fyrir Aðalvíkurbátinn ...?
Það einfaldlega hlægileg ráðstöfun að kippa Baldri úr áætlun til að redda Eyjamönnum. Allir eru óánægðir með þetta. Vegagerðin kann hins vegar að rökstyðja málið með því að fullyrða að fleiri ferðist milli lands og Eyja heldur en yfir Breiðafjörð.
Af sömu gáfulegu ástæðunni krefst Vegagerðin þess að vegir eru hafðir mjórri eftir því sem lengra dregur frá höfuðborgarsvæðinu. Jú, umferðin er minni fjarri suðvesturhorninu, segir þessi opinbera stofnun. Þá gleymist það hins vegar að bílar mjókka ekki eftir því sem þeim er ekið lengra út á land. Né heldur gerist það að fólk á Vestfjörðum þurfi ekki á Baldri að halda þegar Herjólfur bilar.
Þetta, góðir lesendur, er meðal annars ástæðan fyrir því að opinberir þjónusta verður alltaf lakari en sú sem rekin er af einkaaðilum. Svo má alveg rökræða um það hvort Vegagerðin stendur sig í stykkinu, svona yfirleitt.
Fjarveru Baldurs harðlega mótmælt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lýðræðið er bara leir, er þa'ki?
27.11.2012 | 11:12
Mikið er talað um lýðræði. Margir eru svo uppteknir af hugtakinu að þeir víla ekki fyrir sér að kalla sumt fólk ólýðræðislegt, aldrei þó pólitíska samherja.
Að sjálfsögðu er lýðræðið leir sem má móta að vildi. Nú er mörgum prófkjörum lokið og sýnist sitt hverjum um niðurstöðurnar. Verst þykir þegar útkoman er með kynjahalla. Þá mun vera átt við að fyrir einn karl skuli ekki vera ein kona. Það er ótækt og þá þarf að móta lýðræðið samkvæmt gefnum forsendum.
Uppáhaldsútkoma í prófkjöri er þessiu: Karl, kona, karl, kona osfrv. Eða Kona, karl, kona, karl ... Slík niðurstaða kemur seint út úr persónukjöri og er þess vegna svo agalega ólýðræðislegt. Vandinn er sá að margir kjósa út frá öðrum forsendum en kyni, til dæmis fegurð, klæðnaði, limaburði, lunderni, hárprýði, stærð, augnlit, eyrnastærð og öðrum mikilvægum forsendum.
Svo eru þeir bjánar til sem kjósa eftir því hvað frambjóðendur hafa fram að færa og hversu vel þeir færa rök fyrir máli sínu. Þetta er ólýðræðisleg nálgun.
Þar sem það er fyrirfram gefið að kyn frambjóðanda skiptir meiru máli en til dæmis fegurð, eyrnastærð eða málefni, þarf að lagfæra lýðræðið. Þá er frambjóðandi færður um sæti sé hann sama kyns og sá fyrir ofan hann.
Nýjasta nýtt í tilrauninni um lýðræðið er sem hér segir: Fólk af sama kyni má vera í tveimur samhliða sætum svo fremi sem að fólk af öðrum kyni sé í næstu tveimur sætum og svo koll af kolli.
Hugmyndum manna um breytingar á röðun lýðræðislega kjörins fólks er engin takmörk sett. og það er svo óskaplega gaman því lýðræðið er bara leir og sumt er svo ákaflega lýðræðislegri leir en annað. Sjáum bara hverjir möguleikarnir eru í framtíðinni til að lagfæra lýðræðið.
Nei, nei, þetta er allt lýðræðislegt og langt frá því að tengjast fasisma eða kommónisma.
Hugsunarleysi Landsbjargar og leti fréttamanna
26.11.2012 | 13:19
Hvað er með því fyrsta sem lesandi fréttar um óhöpp eða slys á sjó eða á landi vill vita? Jú, hann vill vita hvar vettvangurinn er. Það er grundvallarmál fyrir utan áhyggjur fólks af vinum og ættingjum.
Ekki dugar fyrir fjölmiðil að birta sem staðreynd að árekstur hafi orðið í nágrenni Lækjargötu þegar hann var í raun og vera á Suðurgötu. Þennan leik iðka þó margir fréttamenn, ef til vill til að fela þekkingarleysi í landafræði eða leti. Veit ekki hvort er verra.
Eflaust má rökstyðja það að fiskibátur sem strandar við Straumnes hafi strandað í nágrenni Aðalvíkur, eins og einn fjölmiðillinn orðaði það. Á vefsíðu Marine Traffic má sjá hvar hver og eitt einasta skip er staðsett og í ljósi þess annað hvort hægt að birta skjámynd af vefnum eða merkja inn á kort og birta.
Þetta beinir augum að Landsbjörgu en vefsíða hennar er uppspretta allra frétta þegar björgunarsveitir eru kallaðar til. Því miður verður að segjast eins og er að ritstjórn hennar er ekki nógu góð. Þetta hef ég sannreynt margoft. Mjög brýnt er að landafræðinni sé gerð góð skil, þó ekki sé til annars en að fyrirbyggja allan misskilning. Fjölmiðlar taka oft fréttir af landsbjorg.is hráar upp. Þess vegna verða fréttirnar að vera skotheldar, ekki vansagðar eins og svo oft vill verða.
Ofangreint afsakar alls ekki meðhöndlun frétta á fjölmiðlum landsins. Þeir eiga að leggja sjálfstætt mat á það sem þeir hirða af vefsíðu Landsbjargar og reyna að auka við fréttina, t.d. með korti eða ljósmynd. Kópí/peist er ekki góð fréttamennska og raunar til mikillar skammar þegar fréttamenn grípa til slíks.
Klofningsflokkur fjórklofnar
26.11.2012 | 12:41
Í hversu mörgum flokkum hefur Þór Saari, alþingismaður, verið á tæpum fjórum árum? Mig minnir að hann hafi stofnað Borgarahreyfinguna, sem hann klauf og stofnaði Hreyfinguna ásamt þremur öðrum þingmönnum sama stjórnmálaflokks. Hreyfingin er nú klofin í þrennt, Þór fer í Dögun, Birgitta fer í sjóránið og Margrét fer í Samstöðu. Þráinn Bertelsson hvarf úr Borgarahreyfingunni og í Vinstri græna þar sem hann ku vera enn.
Það verður að segja eins og er að Hreyfingin hefur fyllilega staðið undir nafni. Hreyfiaflið gagnrýnir svo harðlega aðra stjórnmálaflokka en kann svo ekki að vinna saman. Er hægt að vinna með svona fólki?
Ætlar að gefa kost á sér fyrir Dögun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |