Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Greiða kröfuhöfum gömlu bankana út í krónum

Margir miklir spámenn eru búnir að tjá sig af mikilli speki um skuldir þjóðarbúsins og kröfuhafa gömlu bankanna. Sitt sýnist hverjum og margar kenningar á lofti um svokallaða snjóhengju og hvernig eigi að losna við hana.

Guðlaugur Þ. Þórðarson, alþingismaður, ritar grein í Morgunblaðið í morgun og fjallar þar á skýran og einfaldan hátt um þessi mál. Hann segir í lok greina sinnar:

Sú leið sem hefur minnsta áhættu í för með sér fyrir íslenskan almenning er að setja gömlu bankana í þrot og greiða eignirnar út í íslenskum krónum. Þá sitja allir kröfuhafar við sama borð og komið er í veg fyrir að almenningur borgi fyrir gjaldþrot einkabanka.

Ég legg til að þessi leið verði farin. 


Fullveldisafsal og náttúruauðlindir

Sama fólk og vill að „náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign“ vill að ríkisstjórn landsins á hverjum tíma sé megi framselja fullveldi okkar til alþjóðlegra stofanna.

Ég nefni þetta vegna þess að á þessu tvennu er ójafnvægi í tillögum stjórnlagaráðs. Látum vera rökræður um lögfræðilega skilgreiningu á orðinu þjóðareign og höldum okkur við þá eðlilegu skýringu að það sé íslensk eign ekki erlend.

Sama er með fullveldi okkar, það er íslenskt, aðrir hafa ekkert með það að gera. Samkvæmt 111. grein virðist ríkisstjórn heimilt að færa alþjóðlegum stofnunum hluta eða allt fullveldið svo framarlega sem það er í þágu friðar og efnahagssamvinnu.

Mér er ómögulegt að finna út hvernig afsal fullveldist geti tengst friði og líklega er orðið sett inn til að gera greinina áferðarfallega. Hitt veit ég mætavel að til að ganga inn í Evrópussambandi þarf Ísland að láta af hendi stóran hluta af fullveldi sínu.

Í 34. grein tillagna stjórnlagaráðs segir svo um náttúruauðlindir:

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Það hefur vakið athygli mína, raunar afar illyrmislega að ekki er með sambærilegum hætti kveðið á um fullveldi ríkisins í tillögunum. Í 111. grein tillagna stjórnlagaráðs segir:

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Hins vegar ætti þar að standa vegna þess að fullveldið er engu léttvægara en íslensk eign á landi:

Heimilt er að gera þjóðréttasamninga en þeir mega aldrei fel í sér framsal ríkisvalds til annarra landa eða alþjóðlegra stofanna. Íslenskt fullveldi er ævarandi bundið við íslenska þjóð og enginn getur fengið það eða réttindi tengt því, hvorki til skamms tíma né langs. 

Ég met fullveldi Íslands svo mikið að ég get aldrei samþykkt 111. grein stjórnlagaráðs og mun því segja NEI í við spurningunni um það hvort ég vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.

Svo velti ég fyrir mér hvers vegna ekki er spurt um 111. greinina í þeirri ráðgefandi skoðanakönnun sem fram fer næsta laugardag.

Að lokum er ekki úr vegi að benda á góða grein í Morgunblaðinu í morgun þar sem Magnús B. Jóhannesson ræðir um þetta mál. Ég tek undir hvert orð í grein Magnúsar. Hann segir meðal annars:

Vegna þessa er ekki laust við að sú tilfinning læðist að manni að verið sé að smygla þessari grein í gegn með því að beina athygli fólks að veigaminni atriðum stjórnarskrárinnar. Framkvæmd skoðanakönnunarinnar virðist að þessu leyti vera gölluð og því lítur allt út fyrir að undirritaður neyðist til að hafna tillögunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

 


Löngu vitað að gígurinn var ekki eftir loftstein

Í júlí síðastliðinn ræddi ég á bloggsíðu minni talsvert um þennan gíg. Ég hafði í fórum mínum rekist á mynd af gígnum en hana hafði ég tekið á flugi yfir svæðinu fyrir þrjátíu árum. Sú var ástæðan fyrir því að ég fór að fjalla um gíginn. Endaði með því að ganga á svæðið  í byrjun júlí sumar og skoða þetta skemmtilega fyrirbrigði í náttúrunni.

Ég ræddi við jarðfræðing sem vísaði mér á að Hjalta Franson, jarðfræðingur hefði kortlagt svæðið og skrifað um það doktorsritgerð sína. Hjalti var ekki á þeirri skoðun að þetta væri gígur eftir loftstein. Þurfti frekari rannsókna við?

Ég tel víst að Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, hafi fengið upplýsingar um þennan gíg í skrifum mínum. Hann getur þess þó einskis og ekki heldur Hjalta jarðfræðings sem þó hefur manna mest rannsakað svæðið. Þetta skiptir þó litlu máli en þó varpar það aðeins ljósi á manninn Harald sem mikið hefur verið lofaður, meðal annars í pistlum á þessu bloggi.

Haraldur fer á staðinn og kemur til baka og fullyrðir að gígurinn sé ekki eftir loftstein eins og hann hafi þó vonast eftir. Ferðina hefði hann mátt spara sér því Hjalti Franson hafði greint gíginn löngu áður. En vegna vinskapar Haraldar og hins frábæra ljósmyndara Ragnars Axelssonar var hægt að búa til tilgangslausa frétt sem miðaði að engu öðru en að ýkja hlut Haraldar úr engu yfir í eitthvað aldeilis mikið. Ekkert nýtt kemur fram í orðum Haraldar, bara tal sem miðast að því að upphefja hann sjálfan. Hins vegar má lofa myndir Ragnars af gígnum.

Hið eina sem situr eftir í huga mér er hvers vegna gígurinn er svona greinilegur þrátt fyrir að ekkert annað sjáist annars staðar. Þarna er sagt að ísaldarjökullinn hafi rofið landið en skilið þó eftir gíginn. Umhverfið er líka móberg en ekki gígurinn. 

Sjá nánar umfjöllun um gíginn hér.


mbl.is Ekki gígur eftir loftstein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KSÍ á að láta málið niður falla, strax!

Ætlar KSÍ að búa til framhaldssögu um fyrirliða landsliðsins? Manninum varð á að rugla um Albani, fullyrða að þjóðin sé öll eins og baðst afsökunar samdægurs. það gengur auðvitað ekki að KSÍ eða aðrir haldi áfram að velta sér upp úr þessu máli. 

Mikilvægt er að Aroni Einari Gunnarssyni sé fyrirgefin þessi eina yfirsjón sem honum hefur orðið á í opinberu lífi og síðan á að einhenda sér í næstu verkefni.

Það hefur ekkert upp á sig að velta þessu máli meira fyrir sér. Það sem er gert er gert og afsökunin og einlæg iðrun líka. Held að allir íþróttamenn láti sér þetta dæmi að kenningu verða og ræði opinberlega hér eftir varfærnislega um annað fólk, lið, hópa eða þjóðir. 


mbl.is Engin ákvörðun um fyrirliðabandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Jón Baldvin misst vitið?

Af hverju segja menn ósatt? Eftir miklar rannsóknir situr aðeins ein kenning eftir, menn segja ósatt af því að þeir geta það ... svo einfalt er'ða.

Ég hef stundum skrifað um Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum þingmaður, ráðherra, sendiherra og margt meira. Fátt leiðist mér meira enda hefur aldrei neitt gott og blessað komið frá honum. Hins vegar finnst mér þörf á því að tjá mig um það sem hann segir í þeirri veiku von að honum mæti eitthvað annað en bergmálið af eigin óhróðri.

Jón Baldvin er mikið niðri fyrir í grein sem hann segist hafa sent stórblaðinu Wall Street Journal vegna leiðara blaðsins um kvótakerfið á Íslandi. Í greininni eru Íslendingar hvattir til að hreyfa ekki við kvótakerfinu. Ég er ekki áskrifandi að WSJ og treysti hér á endursögn pressan.is sem segir um þessa grein: 

Leiðarahöfundurinn bendir á að sterk staða sjávarútvegsins á Íslandi sé ein helsta ástæða þess að endurreisn íslensks efnahagslífs gangi jafn hratt fyrir sig og raun ber vitni. Því megi teljast einkennilegt að ríkisstjórnin hafi það að markmiði að grafa undan kvótakerfinu sem reynst hafi svo vel. Hún hafi sett fram frumvarp sem koma eigi í veg fyrir viðskipti með aflaheimildir og að sífellt stærri hlutur kvótans verði úthlutað eftir pólitískum leiðum.   

Jón Baldvin tekur allt annan pól í hæðina og segir í bréfi sínu til blaðsins (feitletranir eru mínar):

The raging debate is about the hitherto corrupt practice of conservative politicians of handing out those privileges to a favoured few – to the exclusion of everybody else – in return for financial and political support. We are talking about billions of euros annually in give-aways by the state. This sort of political favouritism is known elsewhere under the name of crony capitalism. It is beyond doubt in breach of the basic principles of equality before the law and freedom of employment, protected under our constitution. This is in fact a case of blatant political corruption, contrary to accepted norms of market competition, which the state should uphold.

Maðurinn er hreinlega orðinn galinn, misst vitið. Samkvæm ofangreindu er enn verið að úthluta forréttindum í kvóta og á móti kemur gjöf til gjalda. Allir vita að þetta er ekki svona. Úthlutun kvóta hverju sinni er ekki byggð hugdettum einhverra íhaldsmanna. Þannig hefur það verið gert frá upphafi og aldrei neinar deilur um úthlutina sjálfa. Hins vegar hafa sumir sófaspekingar deilt á aðferðina en aldrei komið með neitt í staðinn sem dugar.

Jón Baldvin sat í ríkisstjórn, ekki löngu eftir að kvótinn var settur á. Aldrei datt honum í hug að leggja til breytingar. Það var ekki fyrr enn af kallinum rann og hann hætti á þingi að hann fór að rægja gamla samstarfsmenn og berjast fyrir því sem hann hafði áður engan áhuga á. Verst er þó að með orðum sínum vegur hann að heiðri fjölda manns sem starfa í stjórnsýsllun að úthlutun kvótans en honum er alveg sama því framar öllu vill hann koma höggi á íhaldið, helst með lygum.

Jóni Baldvini dettur ekki í hug að gæta að orðum vandaðra manna eins og til dæmis Ragnars Árnasonar, prófessors við Hálskóla Íslands sem segir í gær í viðtali við Morgunblaðið:

Stór hluti af auknum tekjum í sjávarútvegi fer í fjárfestingar og nú um mundir eru þetta ansi háar upphæðir á mælikvarða þjóðhagsstærða eða um 50-80 milljarðar. Þetta er mikil viðbót við fjárfestingagetu þjóðarinnar og mun auka við hagvöxt til lengri tíma þar sem þetta er upphæð sem fellur til á hverju ári. Hér ber þó að athuga að þessar upphæðir miða við óbreytt kerfi en róttækar kerfisbreytingar eru mjög líklegar til þess að hafa áhrif á þessa mynd.

 


Þverpólitískt framhjáhald ...

Framhjahald

Frakkar láta sér ekkert óviðkomandi lengur. Hér áður fyrr máttu stjórnmálmenn halda við hvern sem þeir vildu án þess að fjölmiðlar væru að velta því upp á síðum sínum.

Nú er öldin önnur. Frakklandsforseti á unnustu sem ekki hefur verið við eina fjölina felld og haldið við hægri og vinstri menn. Rituð hefur verið bók um athæfið eftir því sem segir í Morgunblaðinu mínu í morgun.

Eftirfarandi gullkorn er haft eftir höfundi bókarinnar:

Þegar blaðamaður [þ.e. unnusta forsetans] er í nánu sambandi við leiðtoga vinstrimanna eða leiðtoga hægrimanna hefur það áhrif á stjórnmálalífið. 

Stjórnmálalífið í Frakklandi hlýtur að vera afar blómlegt. 


Hellisheiðarvirkjun í skýrslunni um OR

IMG_0212 - Version 2

Skýrslan um Orkuveitu Reykjavíkur er saga skelfilegra mistaka, vanþekkingar og óheiðarleika. Í góðri fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag er rakið hvernig arðsemi Hellisheiðarvirkjunarinnar var vægast sagt óljós í upphafi.

Heildarkostnaður við virkjunina er um 73 milljarðar króna en átti að kosta 20 milljarða. Við sem þekktum landið þar sem framkvæmdirnar var lagt undir þekkjum það ekki lengur.

Vanfærður kostnaður, sá sem ekki er hægt að færa til nokkurrar bókar, er sá að Hellisheiði og Hellisskarð hefur verið eyðilög sem og Kolviðarhóll, Hamragil, Sleggjubeinadalur sömu leiðis. Stórlega sér á Skarðsmýrarfjalli, Hellisskarð, einnig svæðinu norðvestan við Kolviðarhól, sunnan Húsmúla og norðan við Gráuhnúka.

DSC_0205

Þarna var reist virkjun sem lítur einna helst út fyrir að vera flugstöð án flugbrauta. Ljótt mannvirki og gjörsamlega án nokkurra tengsla við umhverfi sitt.

Á Kolviðarhóli og nágrenni hefur verið vaðið áfram, lagt í landið með stórvirkum vinnuvélum og því gjörbylt, eyðilagt.

Í upphafi var ekki rætt um umhverfið og sagt si svona: Hér er fallegt land. Nú skulum við byggja jarðvarmavirkjun án þess að eyðileggja landið. Reynum eftir því sem kostur er að fela öll mannvirki, sýnum að umhverfismál eru okkar hjartans mál.

Nei, þess í stað var öllu umbylt og vinnubrögðin öll eru eins og í malarnámu undir Vífilsfelli. Allt er leyfilegt. Aðeins er spursmál hvenær farið verður inn í hinn fagra Innstadal eða litlu dalina vestan undir Hengil.

DSCN0611

Fram kemur í skýrslunni um Orkuveituna að þegar framkvæmdir hófust var ekki búið að fullmóta skipulag á svæðinu. Arðsemismat virkjunarinnar var ekkert, að minnsta kosti hafa höfundar hennar ekki fengið neitt slíkt í hendur.

Alvarlegast er þó að virkjunin var sögð svo mikilvæg að ef hún kæmist ekki í notkun myndi verða heitavatnslaust í Reykjavík. Hvað nefnist það á kjarnyrtri íslensku þegar vísvitandi er farið með rangt mál?

Svo er það allt annað og miklu alvarlegra að vísindamenn eru ekki á einu máli um endingu þess forða sem undir virkjuninni er. Margir hafa rætt um þetta og því er jafnvel haldið fram að Hellisheiðarvirkjun muni verða uppiskroppa með heitt vatn eftir tuttugu ár ...

Það er því ekki furða þótt Orkuveitan hafi verið uppnefnd hryðjuverkasamtök vegna Hellisheiðarvirkjunar og annarra mála.  

Efstu tvær myndirnar voru teknar fyrir ári en sú neðasta fyrir sex árum og hún sýnir landið undir Gráuhnúkum, sunnan suðurlandsvegar. Þar hefur leiðslunum nú verið fjölgað um tvær. Þarna fer fram niðurdæling sem valdið hefur miklum jarðskjálftum.

 


Söfnunarreikningur Samfylkingarinnar

Eyjamaðurinn og þingmaður Samfylkingarinnar, Róbert Marshall, tilkynnti í dag úrsögn úr flokknum og inngöngu inn í annan og nýstofnaðan flokk, Dögun heitir sá. Þar er annar flóttamaður fyrir, þingmaðurinn úr Framsóknarflokknum, Guðmundur Steingrímsson.

Vegna þessa flokkaferðalaga segir Ólafur Arnarson á timarim.is eftirfarandi og það ýfði upp gamalt bros hjá mér:

Það er ekki undarlegt þó að Björt framtíð sé kölluð söfnunarreikningur Samfylkingarinnar. Þingmenn flokksins fylgja stefnu Samfylkingarinnar í einu og öllu og munu augljóslega renna inn í Samfylkinguna á næsta kjörtímabili – fari svo að Björt framtíð fái kjörinn þingmann – eða í það minnsta leggja Samfylkingunni lið á Alþingi og mögulega í ríkisstjórn. 

Skemmtilega að orði komist, og Ólafur telur aukreitis að Samfylkingin hafi stefnu ...

Hlaupum í Skarðið ... frábært!

991127-6

Hornfirðingar ætla að bjóða upp á ansi skemmtilegt hlaup næsta sunnudag. Nafn hlaupsins er frábært: Hlaupum í Skarðið. Get ekki að því gert en ég get alltaf skemmt mér yfir góðum orðaleikjum. Tilvísunin er í sígildan barnaleik sem allir þekkja.

Ætlunin er að hlaupa upp gamla veginn í Almannaskarð en sem kunnugt eru nú komin göng undir Almannaskarð og þarna verður því engin truflun af umferð. Brekkan er brött upp í skarðið, líklega rúmur einn kílómetri að lengd og hæðarmismunurinn er um 150 metrar. Gæti vel trúað því að fæstir geti hlaupið alla leiðina, margir freistist til að ganga.

Svona er fréttin sem birtist á hornafjordur.is: 

991127-10

Sunnudaginn 14.október kl 13:00 ætlum við að standa fyrir viðburðinum Hlaup í Skarðið en þetta verður í 3ja sinn sem við Hlaupum í Skarðið.

Eins og nafnið gefur til kynna þá fer viðburðurinn fram í og við Almannaskarð. Hlaup í Skarðið er ekki hugsað sem eiginleg keppni, heldur frekar eins og Kvennahlaupið en þar fara allir á sínum hraða, þ.e. sumir hlaupa en aðrir ganga. Tekinn verður tími á hverjum þátttakanda þannig að í lok „hlaupsins“ fá allir þátttakendur viðurkenningarskjal með skráðum tíma.

Boðið verður upp á tvær vegalengdir. Upp Skarðið og niður aftur eða þá upp Skarðið, niður Skarðsdalinn og svo sömu leið til baka. Þátttökugjald er kr 500.- pr einstakling en hver fjölskylda greiðir aldrei meira en  kr 1.500.-

Hlaup í Skarðið er kjörinn viðburður fyrir fjölskylduna til að eiga saman skemmtilega stund í góðum félagsskap. 

Myndirnar eru teknar í Almannaskarði í kvöldsólinni 27. nóvember 1999. Sú efri er tekin efst í skarðinu og á myndinni sést hversu brattur vegurinn er. Hin er tekin skammt frá af skelfilegu lýti í fjallinu. Ótrúlegt að þarna skuli hafa verið leyft malarnám.

Hefði sjálfstæðismaður sagt þetta ...

Setjum sem svo að forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði látið út úr sér að „Óþarfi að amast yfir þessu“, og ætti við framkvæmdir Landsvirkjunar í Bjarnarflagi.

Þá yrði allt vitlaust. Jóhanna myndi standa upp og berja á honum og í kjölfarið kæmi Mörður og Marshall, Álfheiður og Árni Páll, Svandís og allir hinir með ákærur um stóriðjustefnu, náttúruskemmdir og allt það sem tilheyrir.

Svo er það hitt að það er ótrúlegt að Landsvirkjun skuli fara út í framkvæmdir í Bjarnaflagi í skjóli tíu ára gamals umhverfismats. Stundum flögrar að manni að fyrirtækið hugsi ekkert um almannatengsl og sé gjörsamlega alveg sama um álit fólks á því eða verkefnum þess. Það gengur auðvitað ekki að vaða áhfram í blindni og ætlast til þess að náttúra landsins og umhverfi sé einhver fjóshaugur. Bjarnaflag er ekki flag þó nafnið bendi til þess.

Enginn amast við Jóhönnu þó út úr henni hrökkvi orð sem beinlínis má túlka gegn náttúru- og umhverfisvernd. 


mbl.is „Óþarfi að amast við þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband