Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Stingandi þversagnir Þórs Saari

Hinn geðugi og prúði alþingismaður Þór Saari ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann leggst eindregið gegn sameiningu sveitarfélags síns, Álftaness, við Garðabæ. Heldur því réttilega fram að ekki sé um sameiningu að ræða heldur yfirtöku.

Þversagnirnar í málflutningi Þórs eru stingandi. Hann vill ekki að Álftanes renni inn í Garðabæ en segir engu að síður:

Sjálfur er ég almennt hlynntur sameiningum sveitarfélaga þar sem það á við og tel að á höfuðborgarsvæðinu ætti að sameina öll sveitarfélögin í eitt en þó að því tilskildu að þau hefðu áfram ákveðið sjálfdæmi í ákveðnum málum og að aðkoma þeirra að heildarstjórninni sem hálf-sjálfstæðra eininga yrði áfram tryggð. 

Sem sagt: Þór er á móti sameiningu en er samt með sameiningum nema þetta og að undanskildu hinu.

Ekki er þetta nú merkileg pólitík. Hann er algjörlega orðinn eins og hinir pólitíkusarnir, getur í hvoruga löppina stigið og allt sem hann segir er með hrikalegum þversögnum.


Veiðigjaldið rústar fjármálum sveitarfélaga

Árið 2011 námu útsvarstekjur Grundarfjarðarbæjar um 332 milljónum kr. Fræðslumálin ein og sér, þ.e.a.s. rekstur grunn- og leikskóla, kostaði sveitarfélagið 308 millj. kr. sem er nánast sama fjárhæð og mun hverfa út úr litlu samfélagi til ríkisins.
 
Þetta segir Sigríður Finsen, hagfræðingur, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hún bendir á að ríkisstjórnin sé búin að senda sjávarútvegsfyrirtækjum í Grundarfirði gíróseðil fyrir 309 milljónum króna.
 
Það er ekki aðeins Sigríður sem hefur litla trú á að þessir peningar rati aftur til Grundafjarðar. Þó svo verði þá er hér einungis um að ræða lögbundna eignaupptöku ríkisins að ræða. Hún mun gera útaf við sjávarútveginn í landinu með geigvænlegum afleiðingum fyrir okkur almenning. Það kemur nefnilega að því að útsvarstekjur sveitarfélaga á landsbyggðinni munu lækka um rúmlega það sem ríkið ætlar að heimta af þeim.
 

Vilja sjá blóð renna ...

Eðli sumra er að þeir vilja sjá blóð renna. Hefndin er svo stór hluti af lund þeirra. Enn er ekki komin haldbær skýring á árás VG á Ríkisendurskoðun. Ekki dugar þessi eina og makalausa skýrsla. Enda er það sjaldnast svo að þegar vinstri grænir bíta eitthvað í sig fara þeir í felur með markmið sitt og vinna sem moldvörpur. Síðar mun þó í ljós hvers vegna þeir vilja láta reka sómamanninn Svein Ararson, ríkisendurskoðanda.
mbl.is Aðeins Alþingi getur rekið Svein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld sem verja okkur fyrir vinum okkar ...

Íslenskt samfélag er ótrúlega fjölbreytt og oftast skemmtilegt. Ég kann nógu mikið fyrir mér til að geta skipt um ljósaperu. Þegar málin flækjast á ég þess kost að hringja í vin minn og biðja hann um að laga eitthvað í rafmagninu, annar vinur gæti aðstoða við að laga tréverk og jafnvel á ég þess kost á að fá aðstoð við tölvuna. Og á móti kemur að margir vinir og kunningjar biðja mig um að telja fram fyrir sig, aðstoða við að svara skattinum eða jafnvel að skrifa minningargrein.

Eflaust væri ríkisskattstjóri eða fjármálaráðherra vís með að kalla þetta hinn svarta markað og jafnvel íhuga að kæra mig fyrir ólöglega atvinnustarfsemi.

Vissulega er orðið hart í ári eftir nær fjögurra ára óráðstíma norrænnar velferðarstjórnar. En væntanlega verður aldrei svo hart í ári að við samþykkjum að stóri bróðir skipti sér af félagslífi og vináttu fólks. Stjórnvöldum kemur það ekkert við fyrir hvern ég tel fram fyrir né heldur hvort að einhver vinur minn lagfæri eldhússkúffuna sem búin er að vera biluð í mörg ár.

En tökum eftir hvernig málin hafa þróast smám saman á síðustu áru. Í fyrra var ætlunin að banna fólki að baka kökur og annað í fjáröflunarskyni fyrir málstað sem það vildi styðja.

Til að passa okkur, hinn almenna borgara, vernda og gæta, er núna ætlunin að krefjast þess að íþróttafélög og ferðafélög þurfi að punga út með ferðaskrifstofuleyfi.

Ástæðan er sú að íþróttafélög senda ungmenni lengri og skemmri vegalengdir í rútu eða flugvél og stundum þarf að gista einhvers staðar yfir nótt eða tvær.

Eðli máls vegna getur hópur í fimmta flokki í KR að fara til Akureyrar til að skila fótbolta eða handbolta. Akureyringar, Hólmarar eða Ísfirðingar þurfa að fara suður og leika á móti Fram eða Val í einhverri íþrótt. Við veljum okkur ekki andstæðinga í hópíþróttum, tökum bara því sem kemur upp úr hattinum eða hvernig sem leikir æxlast.

Í nærri eitt hundrað ár hefur fólk myndað hópa og félög og farið í ferðir um Íslands. Ferðafélag Íslands var stofnað 1927 og víða um land eru starfandi þróttmiklar deildir sem byggja og reka fjallaskála og bjóða upp á frábærar ferðir. Útivist var stofnað 1975, byggir og rekur fjallaskála og býður eins og FÍ upp á fjölbreyttar ferðir um náttúru landsins.

Er ekki allt í lagi með stjórnvöld? Megum við ekki baka kökur og smyrja flatbrauð og selja til styrktar góðu málefni. Megum við ekki ferðast í friði um landið með góðum félögum undir fararstjórn jafningja? Þarf próf upp á allt? Þarf leyfi fyrir hverri hreyfingu? Eru vinir og kunningjar fyrirfram svindlarar þó þeir aðstoði hvern annan. Á að þurfa ferðaskrifstofu til að skipuleggja rútuferð eða flugferð með íþróttafólki og gistingu?

Nei það er ekki svo. Það er eiginlega kominn tími til að stjórnvöld endurskoði tilganginn með störfum sínum. Hann er að minnsta kosti ekki sá að eyðileggja heilbrigð og uppbyggileg samskipti og félagslíf.


Aðlögun stjórnarskrár að ESB

Í tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarrskrá segir í 111. grein:

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. 

Ekki kemur fram í greininni hvort heimildin sé veitt ríkisstjórn eða Alþingi.

Með þessu ákvæði er opnuð leið til að koma Ísland inn í Evrópusambandið. Fram kemur að bera skal síðar málið undir þjóðaratkvæði. Með þessu getur ósvífið ríkisvald og einfaldur (!) meirihluti á Alþingi komið sér í áróðurslega hagstæða stöðu og það án ... málþófs, svo gripið sé til þess orðs sem vinstrimenn nota jafnan yfir lýðræðislegar umræður andstæðinga þeirra.

Lítum síðan á annað atriði í tillögum stjórnlagaráðs. Í þeim eru engar takmarkanir gerðar á eignarhaldi erlendra aðila hér á landi, til dæmis í sjávarútvegi.

Í ljósi þess sem hér hefur verið nefnt á undan er klárt að verið er að búa í haginn fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en þar má ekki á nokkur hátt takmarka möguleika íbúa eða fyrirtækis eins ríkis á fjárfestingum eða kaupum á fyrirtækjum í öðru - jafnvel þó um sé að ræða hinn viðkvæma sjávarútveg okkar.

Í 72. grein íslensku stjórnarskrárinnar er þó afar mikilvæg vörn gegn þessu en þar segir.:

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi.

Útilokað er að setja samsvarandi ákvæði í lög og síst af öllu verði Ísland aðili að Evrópusambandinu.

Það er því rétt sem Jón Bjarnason, alþingismaður, segir, að verið er með þessu að beygja ísland undir kröfur ESB.

Raunar er það nákvæmlega þetta sem felst í aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Í þeim er ekki verið að undirbúa samning sem síðan má samþykkja eða synja. Verið er að aðlaga reglur, lög og stjórnarskrá að kröfum ESB.

Viljum við samþykkja tillögur stjórnlagaráðs undir þessum formerkjum? 


mbl.is Gætu keypt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinna fyrir alla skiptir miklu

Atvinna fyrir alla er grundvöllur heilbrigðs samfélags. Menntun eykur líkur á atvinnu. Svo einfalt er það. Hitt er svo annað mál að fólk er mismunandi af guði gert og hæfni þess til að stunda nám, sinna daglegum störfum, afla tekna er mismunandi.

Gera má ráð fyrir að alltaf verði fólk eftir á jaðrinum og það þarfnast aðstoðar. Aðstæður fólks geta verið afar ólíkar. Þar er þörf aðstoðar. 

Sjúkdómar, slys og áföll af ýmsu tagi geta skert getu margra til að takast á við verkefni í samfélaginu. Þar verður alltaf þörf aðstoðar.

Varast ber að ræða þessi mál með upphrópunum eða alhæfingum. Vandamál verða alltaf til staðar og til þess er þjóðfélagið að koma þeim til aðstoðar sem á þurfa að halda.  


mbl.is Samhæfing losi fólk úr fátæktargildru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún fær tækifæri uppi við altarið

Þessa frábæru örsögu með innofinni pólitískri tilvísun er að finna á vefnum Vinstri vaktin gegn ESB:
 
Fósturdóttirin vildi ekki giftast manninum. Steingrímur hikaði og vissi ekki hvað gera skyldi. En húsmóðirin æpti: Hún skal! Hún skal! Ég er búinn að tala við prestinn. Ég er meira að segja búin að kaupa brúðar­kjólinn. Við fósturdótturina sagði hún: Þú jafnar þig á þessu þegar þú hittir hann. Hann er óðfús að kvænast þér.

- Ég er margbúin að hitta manninn og hef oft talað við hann, svaraði Þjóðunn. Ég veit allt um hann og vil ekki giftast honum.

- Hvaða vitleysa er þetta, hrópaði Jóhanna og horfði hneyksluð á Þjóðunni.

En fósturdóttirin sat við sinn keip og sagðist ekki ætla að ganga í hjónaband með þessum manni.

Steingrímur horfði samúðarfullur á fósturdótturina og sagðist verða að viðurkenna að sér hefði aldrei litist vel á þennan ráðahag. Það hnussaði í Jóhönnu. Hún sagðist ekki skilja hvað hann ætti við. Stelpan gæti ekki leyft sér að vera með neitt bölvað múður því að hún hefði aldrei reynt í alvöru að kynnast þessum ágætismanni.

Steingrímur spurði þá varlega hvort ekki væri kannski rétt að doka við með að bjóða í brúðkaupið og biðja jafnframt prestinn að bíða með að koma því að varla yrði gift í bráð.

Nei, það vildi Jóhanna ekki hlusta á:

- Það er nú ekki eins og verið sé neitt að þvinga hana. Hún fær að ráða þessu sjálf, þegar þar að kemur og allt er tilbúið. Þá mun presturinn spyrja hana eins og vant er hvort hún vilji ganga í hjónaband með þessum manni. Og hún fær þá tækifæri til að segja já eða nei!

Steingrímur klóraði sér í skallanum. En fósturdóttirin rauk á dyr og skellti hurðum.  

Fróðlegar skýringar jarðfræðings á gígnum

Mogginn

Í sumar ritaði ég nokkrum sinnum um fallegan gíg sem er að finna sunnan við Hafnarfjall á svæði sem sumir telja til Hrossatungna. Síðasta mánudaginn birti Morgunblaðið svo afskaplega fallega mynd á forsíðunni  af gígnum og fylgdi með viðtal við Harald Sigurðsson, eldfjallafræðing. Hann hélt eins og ég að gígurinn væri eftir loftstein en komast að því við athugun á vettvangi að svo var ekki.

Í pistli mínum frá því í sumar vitnaði ég í Hjalta Franzson, jarðfræðing, sem ritaði doktorsritgerð sína um þetta svæði. Hefði Haraldi verið kunnugt um rannsóknir Hjalta hefði hann ekki þurft að fara á staðinn. Það gerði hann þó sem betur fer og útkoman var þessi stórkostlega fallega mynd sem hinn ágæti ljósmyndari Ragnar Axelsson tók. Mér finnst þó furðurlegt að Haraldur skuli ekki hafa vitað af rannsóknum Hjalta, hafi hann vitað af þeim gat hann þeirra ekki, hvorki í bloggi sínu né blaðaviðtalinu.

Á bloggsíðu Haraldar gerir Hjalti Franzson ansi góða athugasemd í gær og rekur rannsóknir sínar í mjög stuttu og skýru máli. Ég leyfi mér hér að birta athugasemd hans (greinaskil eru mínar):

811019-11

Mér þykir myndin sem birtist af fyrirbærinu í Hrossatungum hin fegursta og ekki undravert að hún hljóti forsíðuathygli. Mér fannst þó skýringarnar á fyrirbærinu e.t.v. ekki nægilega ítarlegar né í alla staði sannverðugar, og langar mig að gefa ítarlegri skýringar en fram hafa komið.

Allt Hafnarfjallssvæðið og allt austur að Draghálsi tilheyrir mikilli megineldstöð sem virk var frá um 5,5 milljónum þar til fyrir um 4 milljónum árum síðan, og var, í þeirri ritgerð sem ég skrifaði um svæðið, kölluð megineldstöðin í Hafnarfjalli og Skarðsheiði.  Eldstöðinni er skipt upp í ein fjögur tímasskeið, þar sem það elsta tengist  Brekkufjalli, en síðan taka við skeið sem taka mið af miðju virkninnar, þ.e. Hafnarfjalls-, Skarðsheiðar- og Heiðarhornsskeið.

Það skeið, sem hér er fjallað um og fyrirbærið finnst innan, er kennt við Hafnarfjall. Á því tímaskeiði framleiðir eldstöðin þunn basalthraunlög og síðan myndast mikil askja, sem jafnvel má skipta upp í þrjár samvaxnar og samtíma sigdældir. Þvermál öskjunnar er um sjö kílómetrar. Þykkt öskjufyllingarinnar er um eða yfir 800 m.

Þessi  öskjufylling er samsett úr brotabergi sem er allt frá þursabergi yfir í túff og augljóst að gosefnin hafa orðið til í vatnsumhverfi. Þótt við séum hér staðsett í miðri megineldstöð og með háhitakerfi í grenndinni, þá er það kalt grunnvatnskerfi sem ræður ríkjum í öskjufyllingunni og stjórnað af öskjuvatninu, ekki ósvipað og við sjáum í Öskju í dag. Móbergið er því tiltölulega ferskt að sjá, en er þrátt fyrir það um eða yfir 4 milljóna ára gamalt. Þetta er það umhverfi sem fyrirbærið skýst inn í.

Ég held að flestir geti verið sammála um að þetta er innskot. Rofið á þessu svæði gæti  ég giskað á að sé vart meira en 2-400 m frá því yfirborði sem þá ríkti í megineldstöðinni.  

Innskotið er sérstætt að því leyti að það er hringlaga kragi af þéttu lárétt stuðluðu basalti.

Innan kragans sést ekki í berggrunn og þakið lausum jarðlögum, og því ekki með öllu ljóst hvaða berg er um að ræða þar. Það er þó augljóslega linara í sér en í kraganum þar sem það hefur rofist niður af jöklinum.  

Mér sýnist helst að um grunnstæðan gígtappa sé að ræða, með vel kristallað ytra byrði en þar innan við er bergið sundurlausara og linara, eins og menn gætu gert sér í hugarlund ofarlega í gígrás.  

Ég vona að þetta skýri að nokkru tilurð þessarar fallegu skálar í Hrossatungunum. 

Meðfylgjandi mynd tók ég í flugferð með Arngrími Jóhannssyni þann 19. október 1981, það er fyrir næstum nákvæmlega þrjátíu og einu ári. Myndinni gleymdi ég svo þar til í sumar er ég skannaði hana og fleira í tölvutækt form. Þar með vaknaði athygli mín.

Ég gekk um svæðið í júlí og skoðaði gíginn. Sem leikmaður var ég þess fullviss að hann væri eldgígur jafnvel þó umhverfið væri úr móbergi, ekki tilviljunarkennd náttúrusmíð eða eftir lofstein. Því miður lenti ég í þoku og á ekki nógu góðar myndir af gígnum. Ég skrifaði einnig talsvert um gíginn á blogginu og fékk ágætar undirtektir. Meðal annars var gaukað að mér nokkuð flókinni og fræðilegri umfjöllun Hjalta Franzsonar, jarðfræðings, um gíginn.

Með ofangreindri umfjöllun Hjalta er nú komin ágætis endir á skemmtilegar vangaveltur sem hófust hjá mér í byrjun sumars og er nú mál að ljúka þessu.


Ráðherrar skulu gæta þingskapa ...!

Halldór Gunnarsson, fyrrum prestur í Holti undir Eyjafjöllum, er hreinskiptinn maður og segir jafnan það sem hann hugsar og ritar ágætar blaðagreinar um stjórnmál. Í Morgunblaðinu í morgun fjallar hann um hina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og gefur henni ekki háa einkunn.

Halldór rekur meðal annars ýmis atriði í tillögunum um nýja stjórnarskrá (feitletranir og greinaskil eru mínar):

Þegar tillögurnar eru bornar saman við gildandi stjórnarskrá kemur í ljós margt sem ekki er spurt um í seinni spurningunum. Óþörf útlegging á gildandi stjórnarskrá, sumt jafnvel hlægilegt eða órædd ný atriði, sem skipta verulegu máli um okkar stjórnarfar.

  • Nokkur dæmi: Í 23. gr.: »Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.«
  • Í 33. gr.: »Fyrir spjöll skal bætt eftir föngum« og ennfremur »Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi.«
  • Í 52. gr.: Nýjar óræddar tillögur um þingforseta að hann sé kosinn með 2/3 hluta atkvæða og sitji síðan á Alþingi án atkvæðisréttar - Hvað ef sá meirihluti næst ekki fram? Hvað á að kjósa oft og verður ef ekki næst niðurstaða að kjósa á ný til Alþingis?
  • Í 57. gr.: »Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi.«
  • Í 58. gr.: »Þingsályktunartillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þær eru ræddar á Alþingi.«
  • Í 62. gr. og 63. gr. Þar eru ný og órædd ákvæði um Lögréttu og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
  • Í 75. gr. um umboðsmann Alþingis.: »Ákveði ráðherra eða annað stjórnvald að hlíta ekki sérstökum tilmælum umboðsmanns skal tilkynna forseta Alþingis um ákvörðunina.« Hvað um framhaldið úr því þetta ákvæði á að setja í stjórnarskrá?
  • Í 89. gr. um ráðherra: »...gæta verða þeir þingskapa
  • Í 97.gr. um sjálfstæðar ríkisstofnanir: »Starfsemi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofnunum, nema með lögum sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi.«
  • Í 111. gr.: »Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.« 
Allir sem eitthvað hafa kynnt sér tillögur að nýrri stjórnarskrá hljóta að vera að minnsta kosti dálítið hugsi yfir þessari upptalningu. Hún styrkir að minnsta kosti afstöðu þeirra sem vilja segja NEI, NEI, NEI, NEI, NEI og NEI í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunni.

 

 

 


Afsakið - hlé

Svona vinnur ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi. Alveg fannst þeim það brilljant að hljóðrita ríkisstjórnarfundi, gott ef ekki var talað um að taka þá upp í mynd, helst þrívídd. Eftir að hafa verið í tæp fjögur á í ríkisstjórn eru nú einhverjar vomur komnar á hina norrænu velferðastjórn sem leggur ofuráherslu á opna stjórnsýslu eins og dæmin sanna.

Eftirfarandi samtal ku hafa farið fram í fundarherbergi stjórnarráðsins, tekið upp á gamalt segulbandstæki sem hent var í fyrradag, fannst og síðan selt í Góða hirðinum fyrir slikk:

Hún: Nei, við skulum bara hætta við upptökurnar. Það er tæknilegur vandi á framkvæmdinni. Frestum þessu bara þangað til Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í ríkisstjórn, það væri gott á hann.

Hann: Í staðinn skulum við bara setja inn ákvæði um ítarlegri færslu fundargerða.

Hún: Já, alveg stórsnjöll aðferð. Þá tekur enginn eftir að við höfum hætt við þessar árans myndatökur. 

Hann: En hvernig eigum við að segja frá þessu?

Hún: Ekkert mál, gerum bara eins og þeir hjá Sjóbartinu. Setjum bara upp skilti úti á grasinu og á því stendur Afsakið - hlé ... 

Hann: He, he, he ... 


mbl.is Hætt verði við að hljóðrita fundina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband