Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Starf ehf sýnir atvinnulausum óvirðingu

Vinsælir frasar eins og „vinnumarkaðsúrræði“, „þjónusta við þig“, „við þjónustum þig“ eru vinælir hjá nýstofnuðu fyrirtæki sem ASÍ og Samtök atvinnulífisins standa fyrir enda er miðað þjónustu við þá sem eru atvinnulausir.

Umhyggja þessa fyrirtækis fyrir atvinnulausa er svo mikil að þeir eru þvingaðir með valdi til að sækja námskeið sem þeir hafa enga þörf fyrir. Þjónustulundin er svo rík að enginn sleppur. Ekki frekar en gamla konan sem skátinn „hjálpaði“ yfir götuna þó svo að hún væri á allt annarri leið ...

Staðreyndin er sú að fyrir flesta er það hreinasta hörmungarlíf að verða atvinnulaus. Enginn velur sér slíka stöðu. Þess vegna er það hræðilegt fyrir þann atvinnulausa að láta tuska sig til rétt eins og enginn sé rökhugsunin, engin sjálfsbjargarviðleitni eða viðkomandi liggi daglangt grátandi í rúmi sinu.

Daglega eru sendu út bréf til atvinnulausra og þeim gert að sækja námskeið, fjögurra daga námskeið, þrír tímar í senn. Fyrir marga sem ekki kunna að gera ferilskrá, sækja um störf, leita að vinnu, kunna svona námskeið að vera til góðs.  

Það er hins vegar með öllu óhæft að þvinga fullorðið fólk, án tillits til menntunar, þekkingar og reynslu, til að mæta á námskeið sem ætlað er öllum. Þar með er ekki tekið  tillit til þarfa eða óska einstaklingsins heldur gert ráð fyrir að aðstæður allra séu hinar sömu. Þetta er algjörlega óásættanlegt og í raun frekar hugsunarlaus svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Fjölmargir þurfa ekkert á svona námskeiði að halda. Þetta er rétt eins og að krefjast þess að allir taki þátt í stærðfræðinámskeiði eða ökunámi, skiptir engu þó sá atvinnulausi sé stærðfræðingur eða ökukennari. 

Námskeið er ekki einhvers konar töfraorð þar sem má nota í þeirri vona að einhver hafi gagn af einhverju einhvern tímann undir vissum kringumstæðum, kannski ... ef ... Aldrei er hægt að bjóða upp á úrræði sem henta öllum, það er einfaldlega útilokað.

Þeir sem gera athugasemd við að þurfa að sækja svona námskeið eru af starfsfólki Starfs ehf. álitnir kverúlantar sem ekkert gott kunna að meta, vita ekki hvað er best fyrir þá.

Talað er niður til þeirra rétt eins og þeir séu börn og bullað um að enginn hafi nú neitt slæmt af því að sinna vinnuleit í tvo til þrjá tíma á dag ...

Undirliggjandi meiningin er hins vegar þessi: „Ef þú mætir ekki á fína námskeiðið okkar, óbermið þitt, þá færðu ekki hinar rausnarlegu atvinnuleysisbætur. Við sjáum til þess. Bíddu bara.

Og sá atvinnulausi sér sitt ofvænna, beygir bak sitt er hann heyrir í svipunni og hrökklast í burtu.


Vandi íslenskra heimila er ... ærin ...

Einn af skemmtilegustu dálkunum í Morgunblaðinu er Vísnahornið sem ég les daglega mér til mikillar skemmtunar. Hef enda lengi ætlað að gerast hagyrðingur og halda til streitu þeim áformum þar til yfir lýkur.

Þeir feðgar Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður og ráðherra, og Pétur, blaðamaður, sonur hans, hafa skipt á milli sín umsjón dálksins. má ekki á milli sjá hvor er ferskari og skemmtilegri í vísnavali sínu.

Í blaði dagsins á Pétur orðið og hann segir:

Í ályktun húsnæðisnefndar á þingi ASÍ fyrr í mánuðinum hófst önnur málsgrein svona: „Vandi íslenskra heimila er ærin“. Ágúst Marinósson dró þá ályktun að þarna vantaði eitt „n“ í orðið „ærin“, en stóðst ekki mátið.

Skuldavandann skelfist ég

og skjálfa á mér lærin.

Þjóðin fetar vondan veg

því veldur bannsett ærin.

Og þá hló ég hrossahlátri ... 


Meðaltekjur verði skattfrjálsar

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru meðallaun á mánuði 469 þúsund krónur á síðasta ári. Markmið nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja tekjuskattfrelsi meðaltekna. Þegar átta krónur af hverjum tíu sem ríkið fær af tekjuskatti renna til greiðslu vaxta er svigrúmið augljóst. Forsendan er lækkun skulda m.a. með sölu ríkiseigna og að söluverð þeirra renni ekki í botnlausa ríkishítina heldur til launamanna. Eftir sem áður mun ríkissjóður fá umtalsvert í sinn hlut í formi tekjuskatts þeirra sem eru yfir meðallaunum. Það sem meira er, óbeinar tekjur ríkisins (virðisaukaskattur, tollar o.s.frv.) munu hækka verulega.
 
Til að þetta verði að veruleika þarf aðeins pólitískan kjark, festu í ríkisfjármálum og nýja ríkisstjórn með skýra sýn til framtíðar.
 
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar áhugaverða grein í Morgunblaðið í morgun og er ofangreind tilvitnun úr henni. Ástæða er til að hvetja áhugafólk um stjórnmál til að lesa greinina enda hefur Óli Björn þann ágæta hæfileika að geta hugsað út fyrir hinn ímyndaða ramma sem svo margir stjórnmálamenn eru fastir í.
 
Hann vill til dæmis að ný ríkisstjórn selji lífeyrissjóðunum helmingshlut í Landsvirkjun á móti ríkissjóði. Með því móti er hægt að fjármagna greiðslu skulda ríkissjóðs sem er 774 milljarðar króna eða um 9,7 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu samkvæmt greininni.
 
Þar af leiðandi getur Óli Björn fullyrt að við lækkun skulda ríkisins myndast slaki sem hægt er að nýta til að gafnema tekjuskatt af meðaltekjum almenns launafólks í agöngum á nokkrum árum.
 
Þetta er verkefni Sjálfstæðisflokkurinn á að skoða nánar. Aðrir munu ekki gera það.

Svört vinna er holl og góð í kreppu

Svört vinna

Enn treður ríkisskattsstjóri fram í sviðsljósið og kvartar undan „svartri vinnu“, þá hoppar Halldór Grönvold hjá ASÍ á vagninn og talar um svik, svindl og svínarí í sjónvarpinu og allir hneykslast með. Meðfylgjandi úrklippa er úr Mogganum í morgun.

En veltum því fyrir okkur hvað svört vinna er. Þrátt fyrir allar skilgreiningar er hún ekkert annað en yfirlýsing um að skattbyrði sé of há og atvinnuleysi of mikið. Sem sagt miklir erfiðleikar í efnahagslífi hins almenna launamanns sem að sjálfsgöðu endurspeglar efnahag þjóðarinnar.

Fólk reynir að bjarga sér, afla aðeins meiri tekna en það hefur möguleika á samkvæmt „löglegu“ leiðinni. Þetta er skiljanlegt.

Þar af leiðandi er lausnin ekki fólgin í því að berja á þeim sem hafa vit og getu heldur að laga efnahagslíf þjóðarinnar. Það skyldi þó ekki vera að þakka megi svartri atvinnustarfsemi þann litla hagvöxt sem ríkisstjórnin gumar nú af.

Skúli Eggertz, ríkisskattstjóri, vill skjótvirkari úrræði. Hann skilur ekki málið enda er lausnin ekki sú að haga sér eins og Stasi gerði í Austur-Þýskalandi, eða nasistar, KGB og allar þessar stofnanir sem settar voru upp til að berja niður frjálsa hugsun og troða öllum í sama mót. Skjótvirku úrræði einvaldsaflanna eru einföld og áhrifarík. Grunaðir eru skotnir eða þeim hent án dóms og laga í einangrunarbúðir, hvort tveggja ku auka hagvöxt. 

Lausnin er einfaldlega sú að gera svik og svindl gegn velferðarkerfinu óarðbært. Og hvernig förum við að því?

Ef lesandinn þarf að spyrja, þá er hann tvímælalaust í vondum málum. Atvinnuleysi, verðbólga, of háir skattar og önnur efnahagsleg óáran hefur mikla fylgikvilla. Þess vegna bera að vinna að meininu sjálfu en ekki afleiðingum þess.

Það er því ástæða fyrir Skúla Eggertz, ríkisskattstjóra, Halldór Grönvold, hjá ASÍ, og aðra sem hafa hneykslun og reiði að atvinnu, að gæta að ofangreindu, sem og þessu: Svört vinna er t.d. góð fyrir þá sem atvinnuleysi, efnahagshrun, kreppa og fáttækt hefur bitið.


Af hverju kjósum við ekki á netinu?

Það var ekki fyrr en í sunnudagskvöld að niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu frá því á laugardaginn voru ljósar. Þetta er eins og í vanþróuðum ríkjum en ekki einu af fámennustu og tæknivæddustu ríkjum í heimi.

Þetta er auðvitað til háborinnar skammar. Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki tæknivætt kosningar, gert þær rafvæddar? Í Reykjavík var ekki hægt að klára talningu vegna þess að húsakynni voru svo þröng! Í landsbyggðarkjördæmunum tefst talning vegna þess hversu víðfeðm þau eru.

Auðvitað eigum við að geta kosið með aðstoð tölvu. Hæglega er hægt að gera ráðstafanir til að við getum greidd atkvæði í gegnum öryggisvætt kerfi eins og skattur.is eða bankanna. Á báðum stöðum er þess gætt að óviðkomandi komist ekki þangað nema þeir sem geta gert grein fyrir sér með aðgangsorðum, lykilorðum og jafnvel auðkennislykli. Dugi þetta ekki hlýtur að vera tiltölulega auðvelt að útbúa kosningavef sem er algjörlega öruggur, í það minnsta jafnöruggur og netbanki.

Með þessu ætti að vera hægt að nálgast kjörseðil, kjósa, jafnvel geyma kjörseðil og loks senda. Kjördagur í hefðbundinni merkingu þess orðs myndi breytast frá því að vera sá dagur sem kosið er yfir í að vera síðasti dagurinn til að skila atkvæði í rafrænni kosningu.

Niðurstaða kosningar verður síðan til klukkutíma til tveimur tímum síðar, þ.e. þegar lokið er við að stemma af kosninguna.

Þeir sem vilja kjósa á hefðbundinn hátt verða þó að eiga möguleika á að gera það. Hingað til hafa verið hægt að greiða atkvæði utan kjörstaða og má hugsa sér að þannig verði aðstaðan til atkvæðagreiðslu án rafrænnar aðstoðar.

Með þessu móti næst margt. Þjóðaratkvæðagreiðslur verða auðveldari, allar kosningar ódýrari og einfaldari og niðurstöður koma fljótt. 

Undarlegt að skrifa svona pistil. Það er svo margt sem við getum gert á netinu. Við fyllum út skattframtalið, göngum frá bankamálunum, sendum bréf, tölum við annað fólk á Skype eða tölvusíma, leitum okkur upplýsinga, vinnum og sendum umsóknir og svo framvegis.

Af hverju kjósum við ekki á netinu? Þá þurfum við engin sérstök húsakynni, ekki þarf að aka langar vegalendir með atkvæði, utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hættir og það verður sjálfsagt mál að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna að fullnægðum ákveðnum skilyrðum.


Opnuðum kosningaskrifstofu vegna prófkjörsins

Frambod

Þeim ánægjulega áfanga hefur nú verið náð að ég er opinberlega orðinn frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna næstu alþingiskosninganna.

Föstudaginn 19. október fórum við í Valhöll og afhentum Jónmundi Guðmarssyni, framkvæmdastjóra flokksins, yfirlýsingu um framboð og lista yfir 25 flokksmenn í Reykjavík sem styðja framboðið.

Alveg ótrúlega vel gekk að safna stuðningi og náðist það í raun og veru á þremur dögum. Það þótti mér vel unnið.

Á meðfylgjandi mynd eru Jónmundur, framkvæmdastjóri, frambjóðandinn og Grétar Sigfinnur Sigurðarson sem stýrir kosningaskrifstofu framboðsins. Myndina tók Kristinn G. Atlason.

Og nú hefur öðrum áfanga til viðbótar hefur líka verið náð í framboðinu. Hann er sá að ég hef í samvinnu við stuðningsmenn mína opnað kosningaskrifstofu að Laugavegi 7. Hún er á fjórðu hæð og þaðan er víðsýnt yfir borgina. Af skrifstofunni sést ágætlega til Esju sem mér þykir nokkuð varið í enda spáir maður jafnan í veður og veðurhorfur með því að líta til hennar.

Eðli máls samkvæmt verður unnið að framboði mínu á kosningaskrifstofunni og þar er auðvitað opið hús daglega frá klukkan níu til fjögur. Ég hvet þá sem vilja leggja framboðinu lið að koma og hitta mig og aðra. Ef betur hentar að koma að kvöldlagi þá er það sjálfsagt. Eftir því sem nær dregur prófkjörinu þann 24. nóvember verðum við meira á kvöldin á kosningaskrifstofunni.

Stuðningsmenn á yfirlýsingu framboðsins eru þessir í þeirri röð sem þeir skrifuðu nöfn sín: 

  1. Grétar Sigfinnur SigurðssonLaugavegur NV
  2. Helga Sveinsdóttir
  3. Lovísa Sigurðardóttir
  4. Björg Helgadóttir
  5. Soffia Sigurðardóttir
  6. Úlla Káradóttir
  7. Þuríður Benediktsdóttir
  8. Berta Snædal
  9. Kári Tyrfingsson
  10. Kári Snædal
  11. Arnar Snædal
  12. Tyrfingur Kárason
  13. Gunnlaugur Snædal
  14. Soffía KáradóttirIMG_0600 - Version 2
  15. Ívar Pálsson
  16. Gerður Thoroddsen
  17. Sigurður Arnljótsson
  18. Haukur Þór Hauksson
  19. Ásta Möller
  20. Sonja Arnarsdóttir
  21. Viktor B. Arnarsson
  22. Bergþóra Kristín Grétarsdóttir
  23. Dögg Pálsdóttir
  24. Ingvar Víkingsson
  25. Sveinn Sigfinnsson
Til gamans má geta þess að þrettán konur skrifuð undir og tólf karlar. Það var svo sem ekki með vilja gert að hafa þetta svona jafnt á milli kynja, þetta bara gerðist. Og þannig á þetta auðvitað að vera í daglegu lífi, jafnrétti kynjana á að vera sem mest.

Mynirnar hægra megin voru teknar af þakinu á Laugavegi 7, sólarlag í norðvestri og horft niður Laugaveginn.


Eftirminnilegar konur í Mogga dagsins

Mogginn

Oft er Mogginn minn frábær til aflestrar og það ekki síður í dag en áður. Fréttir og frásagnir um konur eiga óskipta athygli mína að þessu sinni.

Á forsíðu blaðsins er glæsileg mynd af kvennalandsliði Íslands í hópfimleikum. Þetta er líklega ein af fáum íþróttum þar sem konur koma fram, gríðarlega vel til hafðar, rétt eins og þær séu að fara á dansleik eða jafnvel fegurðarsamkeppni. Og eftir heljarstökk af öllu tagi hefur hárgreiðslan ekkert aflagast, þeim sprettur varla sviti. Fyrir stökk, í stökki og eftir stökk brosa þær alltaf af innstu hjartans einlægni svo gamlir karlfauskar geta ekki stillt sig um brosgrettu.

Árangur stúlkna- og kvennalandsliðsins í Evrópumeistaramótinu er ekkert minna en frábær.

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður, er ekki aðeins góður blaðamaður heldur líka einstaklega vel máli farin og hnyttin. Hún segir í dálknum Ljósvakinn á bls. 38 og þegar ég las eftirfarandi skellti ég uppúr enda er ég afskaplega sammála:

Skjár einn hefur verið iðinn við að auglýsa þáttinn Sönn íslensk sakamál en fyrsti þáttur verður sýndur í kvöld. Eflaust eiga þessir þættir stóran hóp aðdáenda þótt ég sé ekki þar á meðal. Ég hef ekki áhuga á sönnum sakamálum, bara upplognum sakamálum í skáldsögum.

Valsstúlkur unni frækinn sigur á liði Valencia um helgina, rúlluðu bókstaflega þeim spænsku upp. Í skemmtilegu viðtali segir Hrafnhildur Skúladóttir, hinn glaðlegi leikmaður Vals, að spænska liðið hafi gert taktísk mistök fyrir leikinn og ekki síður í honum:

„Valencia var búið að tala við rúmenska liðið sem við mætum í næstu umferð, eitthvað að reyna semja við þær um næstu leiki. Þær héldu að það væri bara formsatriði að valta yfir okkur. Þær hafa væntanlega lært af þessu,“ segir Hrafnhildur en það verða Valskonur sem mæta hina gríðarsterkar rúmenska liði Zalau í næstu umferð en það komst í úrslitaleikinn í þessari keppni í fyrra 

Og svo vann kvennalandsliðið okkar í fótboltanum landslið Úkraínu. Heimaleikurinn er eftir og eitt er víst að þær munu ekki vanmeta andstæðinginn eins og spænsku handboltastelpurnar.


Hafi þátttaka í forsetakosningunum verið léleg ...

Kosningathatttaka
Það var náttúrulega dræm kosningaþátttaka og ég held að menn verði nú aðeins að horfa til þess og líta til þess að þarna eru mjög léleg kosningaþátttaka, sennilega sú næstversta sem þarna er fengin og menn verða auðvitað að horfa til þess.

 

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, eftir síðustu forsetakosningar. 

Hérna fyrir ofan er svo súlurit sem Morgunblaðið birti í morgun og sýnir kjörsókn. Persónulega finnst mér að allar þessar súlur líta vel út að undanskyldum tveimur. 

Svo er það alltaf þannig að því meir sem reynt er að tala niður því meiri líkur eru á að sá hinn sami rekist á súlu og skaði sig. Nema því aðeins að viðkomandi geti dansað á milli súlna ... 


Uppspuni í frétt Ríkisútvarpsins um þjóðareign

Langflestir sögðu já við spurningu tvö, hvort í nýrri stjórnarskrá eigi náttúruauðlindir að vera þjóðareign, séu þær ekki þegar í einkaeign. Þetta vilja 18.425 í Reykjavík norður, 2.205 eru andvígir þessu. 1.912 stendur á sama, og merktu því ekki við þessa spurningu.

Ofangreint er úr frétt ruv.is (Fyrst birt: 21.10.2012 23:15, Síðast uppfært: 22.10.2012 00:10).

Með hvaða rökum getur fréttamaður haldið því fram að þeir sem sleppa að svara þessari spurningu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnarskrárráðs „standi á sama“ ...? Hann getur það einfaldleg ekki og því er þessi hluti fréttarinnar uppspuni.

Þeim til fróðleiks sem ekki átta sig á hversu alvarleg þessi túlkun er skal hér komið með átta skýringar á því hvers vegna kjósendur taka þarna ekki afstöðu:

  1. Þeir vilja vera hlutlausir 
  2. Þeir hafa þann skilning að orðið „þjóðareign“ sé lögformlega ekki til
  3. Þeir skilja ekki spurninguna
  4. Þeir hafa ekki áhuga á málefninu
  5. Þeir gleymdu að svara
  6. Þeim finnst spurningin ekki áhugaverð í stjórnarskrá
  7. Þeim stendur á sama
  8. Og fleiri og fleiri skýringar má nefna

Fréttamaður getur hins vegar ekki alhæft á þann hátt sem hann gerir og ætti raunar að fá tiltal fyrir viðvikið.

Svo er það annað mál að það fer aldrei vel á að byrja setningu á tölustöfum. Sá sem það gerir hefur ekki tekið eftir í íslenskutímum í skóla og ætti þar af leiðandi að fá síðbúna tilsögn.


Hvað er nú gott betra eða best?

Við hverja á Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri græna og atvinnuvegaráðherra, við þegar hann segir að einhverjir aðilar hafi reynt „að draga úr vægi þessara kosninga í umræðunni að aðdraganda þeirra en það hefur greinilega mistekist“?

Ekki varð það Sjálfstæðisflokkurinn en formaður hans sendi flokksmönnum bréf og hvatti þá til að taka þátt. Formaður Framsóknarflokksins tók í sama streng.

Eini flokksformaðurinn sem ekki hvatt fólk til að kjósa var formaður Vinstri grænna. Hann neitaði einnig að gefa upp hvað hann ætlaði sjálfur að kjósa. Hreytti því út úr sér með hundshaus að þetta væru leynilegar kosningar. Rétt eins og menn vissu það ekki.

Svo er það spurningin hvað er góð kosningaþátttaka. Sé tæplega 50% þátttaka í kosningum góð má telja að 63% þátttaka sé afar góð en það er hlutfall þeirra kjósenda sem kusu í fyrri Icesave kosningunum.  Í þeim síðari var kosningaþátttakan 75% sem hlýtur samkvæmt formerkjum Steingríms að vera voða, voða góð eða jafnvel best.

Þegar kosið var til stjórnlagaþings var kosningaþátttakan aðeinns 35%. Það hlýtur að vera obbboðslega lélegt.

Steingrímur kann að koma sér fyrir í skotgröfunum og þangað er hann nú kominn aftur. Eiginlega væri það gustukaverk að moka yfir karlkvölina þar sem hann liggur og ætlar að skjóta. 


mbl.is Þjóðin tók tækifæri sitt alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband