Eftirminnilegar konur í Mogga dagsins

Mogginn

Oft er Mogginn minn frábær til aflestrar og það ekki síður í dag en áður. Fréttir og frásagnir um konur eiga óskipta athygli mína að þessu sinni.

Á forsíðu blaðsins er glæsileg mynd af kvennalandsliði Íslands í hópfimleikum. Þetta er líklega ein af fáum íþróttum þar sem konur koma fram, gríðarlega vel til hafðar, rétt eins og þær séu að fara á dansleik eða jafnvel fegurðarsamkeppni. Og eftir heljarstökk af öllu tagi hefur hárgreiðslan ekkert aflagast, þeim sprettur varla sviti. Fyrir stökk, í stökki og eftir stökk brosa þær alltaf af innstu hjartans einlægni svo gamlir karlfauskar geta ekki stillt sig um brosgrettu.

Árangur stúlkna- og kvennalandsliðsins í Evrópumeistaramótinu er ekkert minna en frábær.

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður, er ekki aðeins góður blaðamaður heldur líka einstaklega vel máli farin og hnyttin. Hún segir í dálknum Ljósvakinn á bls. 38 og þegar ég las eftirfarandi skellti ég uppúr enda er ég afskaplega sammála:

Skjár einn hefur verið iðinn við að auglýsa þáttinn Sönn íslensk sakamál en fyrsti þáttur verður sýndur í kvöld. Eflaust eiga þessir þættir stóran hóp aðdáenda þótt ég sé ekki þar á meðal. Ég hef ekki áhuga á sönnum sakamálum, bara upplognum sakamálum í skáldsögum.

Valsstúlkur unni frækinn sigur á liði Valencia um helgina, rúlluðu bókstaflega þeim spænsku upp. Í skemmtilegu viðtali segir Hrafnhildur Skúladóttir, hinn glaðlegi leikmaður Vals, að spænska liðið hafi gert taktísk mistök fyrir leikinn og ekki síður í honum:

„Valencia var búið að tala við rúmenska liðið sem við mætum í næstu umferð, eitthvað að reyna semja við þær um næstu leiki. Þær héldu að það væri bara formsatriði að valta yfir okkur. Þær hafa væntanlega lært af þessu,“ segir Hrafnhildur en það verða Valskonur sem mæta hina gríðarsterkar rúmenska liði Zalau í næstu umferð en það komst í úrslitaleikinn í þessari keppni í fyrra 

Og svo vann kvennalandsliðið okkar í fótboltanum landslið Úkraínu. Heimaleikurinn er eftir og eitt er víst að þær munu ekki vanmeta andstæðinginn eins og spænsku handboltastelpurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband