Skrökvar forseti Alþingis?

Forseti Alþingis gerði athugasemd við Fésbókarfærslu Birgittu Jónsdóttur, alþingismanns. Sú síðarnefnda hélt því fram að vegna ótta við ólæti hefði setning Alþingis verið fært frá því kl. 13:30 á laugardaginn til kl. 10:30 um morguninn. Þetta segir forseti Alþings vera rangt og krafið þingmanninn um leiðréttingu. 

Þegar hér er komið sögu er ekki nema eðlilegt að vísa til málefnalegrar umfjöllunar í Staksteinum Morgunblaðsins um málið. Í þeim segir: 

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, fann að skrifum þingmanns sem vitnaði til fréttar Morgunblaðsins um að þingsetningu hefði verið flýtt. Í stað þess að vera klukkan hálftvö eftir hádegi yrði hún haldin um morguninn.

Ásta Ragnheiður heldur því fram að þetta sé rangt og þingsetningu hafi ekki verið flýtt. Hún væri á þeim tíma sem þingfundir væru haldnir þegar þeir væru á laugardögum.

Svo óheppilega vill til fyrir þingforseta að Alþingi hefur verið sett áður og þess vegna eru fordæmi fyrir því hvenær Alþingi er sett.

Í seinni tíð hefur það verið kl. 13:30, hvort sem um er að ræða miðja viku eða laugardaga.

Árið 2005 var 1. október síðast á laugardegi og þá var þingið sett kl. 13:30.

Næst þar á undan bar 1. október upp á laugardegi árið 1994 og þá var þingið líka sett kl. 13:30.

Sú fullyrðing að ekki sé verið að flýta þingsetningunni er þess vegna augljóslega röng.Hvers vegna kemur þingforseti sér í þá aðstöðu að telja sig þurfa að segja ósatt um setningu Alþingis?

Er þetta liður í þeirri viðleitni að auka virðingu Alþingis?

Mér þykir það ákaflega leiðinlegt þegar sá sem gegnir hinu virðulega embætti forseta Alþingis hreinlega skrökvar um lítið og eiginlega ákaflega ómerkilegt mál. Það skiptir engu máli heldur er það verknaðurinn sem slíkur sem manni gremst.

Þegar upp er staðið hvarflar sú hugsun að manni að ástæðan fyrir skröki forseta Alþingis og tilfærslu á setningu þingsins sé vegna þess að stjórnarflokkarnir eru dauðhræddir við mótmæli. Þeir vita sem er að hafi einhvern tímann verið ástæða til að berja í búsáhlöld er það núna. 

Nú eru 11.300 manns atvinnulausir, meira en 12.500 manns hafa flust af landi brott frá því 2008, verðbólgan er á uppleið, stýrivextir Seðlabankans hafa verið hækkaðir, fjármagnsskortur þjáir fyrirtækin í landinu og fátt eitt er gert til að efla innlenda og erlenda fjárfestingu.

Berjum í búsáhöld á laugardaginn og í allt haust. Komum þessari ríkisstjórn frá. Sú næsta hlýtur að verða betri, botninum hefur verið náð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband