Ráðherrann Jóhanna og stjórnarandstöðuþingmaðurinn Jóhanna

Af mjög praktískum ástæðum les ég ekki Fréttablaðið oft. Þá sjaldan sem ég geri það kemur fyrir að ég rekist á merkilegt efni í því. Hæst ber auðvitað afbragðs skrípó og myndasögurnar eru bara ansi góðar. En í dag las ég leiðara helgarblaðsins sem ritstjórinn, Ólafur Stephensen, ritar. Óli er góður eins og svo oft áður. Hann segir:

Þingtíðindin muna allt sem sagt er á Alþingi, þar á meðal orð Jóhönnu Sigurðardóttur sem var öskuill í ræðu 20. nóvember 1996 yfir svari við fyrirspurn sinni um húsnæðismál frá Páli Péturssyni, þáverandi félagsmálaráðherra. Jóhanna kallaði svörin „ámælisverð og ófyrirleitin“. Þar kæmu fram „villandi og beinlínis rangar upplýsingar þannig að við jaðrar að um beina fölsun á staðreyndum sé að ræða“ – og svo alvarlegir hlutir að jafna mætti við „hreina valdníðslu“.

Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðarsdóttir, er ekki sama konan í stjórn og stjórnarandstöðu. Halda mætti að sú í stjórnarandstöðunni hafi fengið högg á hausinn við að verða allt í einu aðal. Óli ritstjóri skrifar:

Þegar hún var í stjórnarandstöðu lagði hún einu sinni fram 107 fyrirspurnir á 17 mánuðum, frá október 2003 fram til febrúar 2005. Þá var reiknað út að þetta væru hátt í fjórar fyrirspurnir á hverri viku sem þingið sat og að færu sex vinnustundir að meðaltali í að svara hverri þyrfti stjórnarráðið að hafa tvo deildarsérfræðinga í því verki einu að undirbúa svör til Jóhönnu.

Og svo kemst upp um konuna þegar hún reynir að blekkja þingið með því að svara ekki Guðlaugu Þ. Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann reyndi að fá upplýsingar um kostnað vegna ráðgjafastarfa. Í fyrstu umferð hafði forsætisráðherra „gleymt“ að taka fram ákveðnar upplýsingar, sérstaklega um greiðslur til annarra en einstaklinga, en það er ljóst að fjölmargir verktakar í álitsgerðum hafa stofnað einkahlutafélaga til að komast hjá eðlilegri skattlangningu tekna. Ritstjóri Fréttablaðsins skrifar:

Viðbrögð forsætisráðherra við aðfinnslum þingmannsins við hið upphaflega svar eru hins vegar umhugsunarverð. Í bréfi sem Jóhanna skrifaði Alþingi og Ríkisendurskoðun í janúar var hún sármóðguð í garð Guðlaugs, sem hafði komið auga á misræmi í tölunum. Jóhanna sagði aðfinnslurnar „alvarlegri en gengur og gerist því þingmaðurinn sakar forsætisráðherra landsins beinlínis um að leyna þingið vísvitandi upplýsingum“. Slíkt væri „í besta falli kjánalegt“. 

Jóhanna Sigurðardóttir þótti í stjórnarandstöðu vera mikið fyrir stóru orðin og sparaði þau hvergi. Hún var sem erfið í stjórnarsamstarf, dró ekkert af gagnrýni sinni á eigin flokksforystu sem og eigin ríkisstjórn. Sem sagt hún hefur alltaf verið til vandræða. Og þetta orð, vandræði, skýrist auðvitað af ófyrirleitinni hegðun hennar þegar hún er sjálf orðin forsætisráðherra. Þá skapast vandræðin af kjánalátum annarra. Óli Steph. ritstjóri Fréttablaðsins er hógvær í gagnrýni sinni en Jóhönnu svíður örugglega inn að beini við orð hans:

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrann Jóhanna lendir í vandræðalegri mótsögn við stjórnarandstöðuþingmanninn Jóhönnu. Hefði hún ekki átt að spara stóru orðin og leggja bara áherzlu á að stjórnarráðið vandaði sig betur við að svara fyrirspurnum þingmanna? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sannarlega blikur á lofti í Samfó ef Óli er farinn að skrifa svona. Nú eru menn farnir að óttast kosningar og þá verður að skipta um í brúnni. Fylgishrap Samfó er skrifað á hana að sumu leyti réttilega, en alls ekki á grunnþátt stefnunar: Að draga þjóðina öskrandi og sparkandi inn í ESB.  Það hvarflar ekki að Ólafi að það geti verið orsökin fyrir fylgishruninu.

Menn eru greinilega búnir að sammælast um arftaka og ef það er Össur, þá er það hið besta mál frá mínum bæjardyrum séð.  Það gerði loks endanlega út um málið. 

Það er hlaupinn flótti í menn og báðir stjórnarflokkarnir klofnir í tvennt. hver ætlar að taka coup de grace? Verður það Sigmundur eða Bjarni sem mæta í nautabanaátfittinu til næsta þings.

Spennan magnast.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.7.2011 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband