Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Þau hlífðu eigin ráðherrum en ákærðu Geir

Meirihluti Alþingis ákvað fyrir rúmu ári að draga Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdóm. Afskaplega athyglisvert er að skoða hvernig einstakir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði. Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir þetta að umræðuefni á vef sínum. Hann segir (feitletrun er mín):

Eftirtaldir þingmenn [allir í Samfylkingunni] studdu ákæruna gegn Geir en lögðust gegn því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Helgi Hjörvar.

Eftirtaldir þingmenn voru á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu en töldu rétt að stefna Árna M. Mathiesen fyrir landsdóm:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Eftirtaldir þingmenn studdu ákæruna gegn Geir en vildu ekki ákæra Björgvin G. Sigurðsson [allir í Samfylkingunni]:

  • Helgi Hjörvar,
  • Magnús Orri Schram,
  • Oddný G. Harðardóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Valgerður Bjarnadóttir
Mörður Árnason greiddi ekki atkvæði um ákæruna gegn Björgvin G. Sigurðssyni.

Með hliðsjón af atkvæðagreiðslunni geta menn velt því fyrir sér hve mikil sanngirni og réttlæti ríki í hugum þeirra þingmann Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði með ofangreindum hætti. 

Finnst ekki fleirum en mér að mikillar ósamkvæmni gæti í atkvæðagreiðslu ofangreindra þingmanna? Voru þessir þingmenn ekki bara að gæta hagsmuna eigin flokksmanna?


Kjánalegt

„... fella niður þessa ákæru í máli sem hefur verið dómtekið,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Þjóðin hlustar og veltir fyrir sér hvort enn falli öll vötn til Dýrafjarðar.

Æ oftar virðist forsætisráðherra vera fyrirmunað að fara með rétt mál. Hugtökin vefjast fyrir henni sem og helstu staðreyndir. Þetta er farið að vera dálítið kjánalegt svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Landsdómsmálið er þingfest en ekki dómtekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obbboðslegur yfirgangur ...

Fullyrða má að það sé ótrúlega ólýðræðislegt af alþingismanni að leggja fram tillögu til þingsályktunar á löggjafarsamkundunni. Og þvílíkur yfirgangur að gera þetta aðeins átta dögum fyrir jól. Ekki beint lýðræðislegt eða jólalegt ...

Já, þvílíkur ruddaskapur að fá ekki fyrirfram leyfi hjá ríkisstjórninni. Hún var búin að reikna með því að komast í langþráð leyfi.

Skyldi hinn meinti yfirgangur Sjálfstæðisflokksins vera fólginn í því að svo kynni að fara að þingmenn ríkisstjórnarinnar muni margir greiða atkvæði með því að hætt verði við málshöfðunina gegn Geir. H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra? 

 


mbl.is „Ótrúlegur yfirgangur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave málið er fyrirfram tapað fyrir EFTA dómstólnum

Eru nokkrar líkur á því að ríkisstjórnin geti varið málstað Íslands vegna Icesave málsins fyrir EFTA dómstólnum? Tvisvar var ríkisstjórnin gerð afturreka með samninga við Breta og Hollendinga. Þjóðin rasskellti ríkisstjórnina í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og nú lætur hún eins og ekkert hafi í skorist, situr þrátt fyrir sviðann.

Íslensk stjórnvöld voru krafin um skýringar af hálfu ESA sem er Eftirlitsstofnun EFTA. Svör þeirra hafa hingað til verið þess eðlis að stofnunin hefur greinilega ekki tekið mark á þeim og því ákveðið að höfða mál geng ríkinu.

Þrátt fyrir háleit orð Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann hefur til dæmis fullyrt að lagalegur ágreiningur sé um ríkisábyrð á innistæðuskuldbindingum. ESA hefur ekki tekið nokkurt mark á Árna og telur engan lagalegan ágreining vera um ríkisábyrgðina.

Staðreyndin er sú að þetta mál er fyrirfram tapað vegna þess að það hefur greinilega verið illa á því haldið fyrir hönd þjóðarinnar. Annars hefði ESA ekki ákveðið að höfða mál gegn ríkinu.

Málið verður ekki fellt niður vegna þess að Ísland er svo lítið land og þar búa svo fáir. Skiptir engu þó Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon tali digurbarkalega og hvetji til samstöðu. Samstaða mun ekki heldur fá ríkið sýknað frammi fyrir dómstól EFTA, ekki frekar en að notuð yrðu þau rök að að náttúrufegurðin sé einstaklega mikil hér á landi ...

Íslenskum stjórnvöldum ber að hlýta úrskurði EFTA dómstólsins og því getum við allt eins tekið undir orð formanns utanríkismálanefndar Alþingis sem svo málefnalega sagði í viðtali við Morgnblaðið  27. september síðast liðinn:

ESA getur ákveðið að kaupa rök íslenskra stjórnvalda og fella málið niður, stofnunin getur líka komist að þeirri niðurstöðu að þetta breyti engu um afstöðu hennar og eins gæti verið að óskað yrði eftir frekari svörum frá Íslandi. 

Svona bull kemur frá þeim sem eiga um málið að véla fyrir hönd okkar, þjóðarinnar. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, er rétt eins og hinir úr þessu liði sem vildi að þjóðin samþykkti Icesave. Hvernig í ósköpunum er hægt að treysta gjörsamlega vanhæfu fólki fyrir fjöreggi þjóðarinnar? 

Hvað er þá til ráða? Ég vísa bara í forystugrein Morgunblaðsins í dag sem rekur hvernig málatilbúnaður EFTA er í málinu. Ég skora á fólk að lesa þennan leiðara. Í niðurlagi hans segir um þau raunverulegu ráð sem líklegast munu ríkinu að lokum standa til boða:

Lengi virðist vont geta versnað þegar þessi ólánsríkisstjórn á í hlut. Það er þó huggun harmi gegn að raunverulegt dómsmál um Icesave, verði af því, fer ekki fram á þessu leiksviði. Endi málið hjá alvöru dómstólum, sem ekkert bendir ennþá til að það muni gera, þá verða kröfuþjóðirnar að stofna til þess og beina kröfum sínum að íslenskum yfirvöldum og útkljá málið fyrir íslenskum dómstólum. Kröfuþjóðirnar hafa enn ekki orðað slíkt opinberlega í hinu langa og leiðinlega ferli. Það segir alla söguna. 


Hákarl og skata ...

Eins gott að Íslendingar bjóði ekki gestum sínum upp á óþvera eins hákarl og skötu. Þá fyrst væri orðstír þjóðarinnar í verulegri hættu.
mbl.is Íslenskt brennivín var lágpunkturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfur, úlfur ... eða kannski ekki!

 

Vestfirðir eru stórkostlegir, náttúrufegurðin er hrikaleg. Þar þekki ég margt gott fólk, hörkuduglegt og skynsamt. Ef ég væri beðinn um að benda á landsvæði þar sem eftirsóknarvert væri að eyða sumarfríi myndi mér án efa vefjast tunga um höfuð. Velta því fyrir mér hvað sá sem spyr sækist eftir. Væru það fjallgöngur, gönguferðir, skoðunarferðir, áhugi á söfnun eða sagnaarfurinn myndi ég án efa benda á Vestfirði. Þar er þróttmikil ferðaþjónusta og hvort sem fólk er að leita að afþreyingu sem greiða þarf fyrir eða ókeypis þá er um auðugan garð að gresja á Vestfjörðum.

Svo er líka gott að búa á Vestfjörðum. Eitt sinn bjó ég á Ísafirði í nokkra mánuði og hafði bæði gagn og gaman af. Þéttbýlisstaðirnir eru margir og allir hafa einhverja kosti. Um gallanna fjölyrðir maður ekki, þeir eru svo léttvægir að það tekur því ekki. Raunar má segja að litlu máli skipti hvar búið er, gallarnir eru oftast hinir sömu.

En vinur er sá er til vamms segir. Vestfirðingar eru duglegir baráttumenn fyrir hagsmunum sínum. Stundum fara þeir offari og það er síst af öllu góð auglýsing fyrir landshlutann. Þess vegna er oft betra að fara sér hægt og haga hagsmunabaráttunni á þá leið að hvorki heimamenn né aðrir fái það á tilfinninguna að slæmt sé að búa á Vestfjörðum.

Nú er fjallað um samgönguáætlun. Í henni er gert ráð fyrir að jarðgöngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði byggð eftir árið 2022. Það er nú helvíti aumingjalegt af enn aumingjalegri ríkisstjórn sem þykist byggja á norrænni velferð að hafa ekki döngun í sér til að fjármagna þessi göng.

Miðað við hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum má eiginlega þykja gott að Dýrafjarðargöngin hafi komist á áætlunina. Ríkisstjórnin lifir nefnilega á efnahagshruninu, hefur hvorki þekkingu né getu til að draga þjóðina upp úr kreppunni. Þess vegna er kreppan alveg lífsnauðsynleg fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna ætli flokkanir að halda völdum. 

Þess vegna hagar bæjarfulltrúinn í Ísafjarðarbæ, Sigurður Pétursson, orðum sínum á þennan veg (feitletranir eru mínar):

Enn ein frestunin á framkvæmdum við Dýrafjarðargöng er hættuleg fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum og hindrar frekari þróun í atvinnuháttum og byggðaþróun. Þróun sem Vestfirðingar gera sér vonir um að geti hafist nú, með nýrri sjávarútvegsstefnu og uppbyggingu í fiskeldi og fleiri greinum. Seinkun Dýrafjarðarganga mun draga enn úr nýrri sókn byggðanna. Það eru ekki þauskilaboð sem Vestfirðingar þurfa, eftir hrakfarir síðustu áratuga undir ofríki rangláts kvótakerfis, einkavinavæðingar og öfgafrjálshyggju. Nú verða Vestfirðingar að standa saman um kröfuna um Dýrafjarðargöng á næstu fimm árum. Allir sem einn. 

Þarna kemur enn og aftur fram þessi úrsérgengni vælutónn og klisjur sem fær aðra landsmenn til að hugsa sig tvisvar um í alhæfingunni: Eru Vestfirðingar allir eins og þessi Sigurður Pétursson. Manninum finnst allt er kolómögulegt og hættulegt fyrir framtíð byggðar ... Kannski er bara best að halda sig sem lengst frá þessum undarlega landshluta. Ekki búa þar, ekki ferðast þangað.

Nei, Vestfirðingar hljóta að geta fundið sér betri málsvara. Þessi sameinar alla vega ekki Vestfirðinga alla sem einn undir þessum frýjunarorðum. Sagan segir okkur að þó einhverjir hrópi úlfur, úlfur þá er ekki endilega víst að rétt sé með farið.

 


Forðað eða komið í veg fyrir?

Var öðru Icesave máli forðað eða var komið í veg fyrir annað Icesave mál?

Er hægt að forða blaðamanni frá slæmu máli eða er hægt að koma í veg fyrir að hann skrifi slæmt mál? 


mbl.is Tókst að forðast annað Icesave-mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfélaginu blæðir linnulaust vegna innlánsstofnana í slitameðferð

Hvað gerir einstaklingur sem á í vandræðum þegar afborganir og vextir vegna eru orðnar hærri en svo að hann ráði við þær? Jú, hann reynir að semja við kröfuhafa, fá skuldirnar lækkaðar eða dreifa þeim á lengri tíma svo mánaðarlegar afborganir verði viðráðanlegri.

Ríkissjóður Íslands áætlar að greiða 78,4 milljarða króna á næsta ári í fjármagnskostnað, stærsti hlutinn er vegna afleiðinga efnahagshrunsins.

Skuldir ríkissjóð eru núna 1.406 milljarðar króna, 475 milljörðum hærri en árið 2008 og nærri 1.100 milljörðum hærri en 2007.  

Semja um skuldir ríkissjóðs 

Þór Saari, þingmaður, hefur hvatt til þess að semja „eigi við eigendur þeirra skulda að fresta þeim vaxtagreiðslum, eða hluta þeirra, um einhvern tíma, á meðan við komumst upp úr hruninu. Þá sé hægt að sleppa niðurskurði í heilbrigðis- og menntamálum. Þetta er skynsamlega mælt hjá honum.

Losna við hrunbankanna 

Marinó G. Njálsson bendir á í dag í pistli á bloggi sínu að þó vöruskiptajöfnuður hafi verið jákvæður um 427 milljarða króna frá hruni styrki það ekki krónuna. Ástæðan er einfaldlega sú að hann er aðeins hluti af viðskiptajöfnuði sem hefur á sama tíma verið neikvæður um 411 milljarða króna. Hann segir:

Þegar tölur Seðlabankans eru skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að þjóðfélaginu blæðir linnulaust vegna innlánsstofnana í slitameðferð.  Þannig hafa þáttatekjur vegna þeirra frá hruni verið neikvæðar um 434,8 ma.kr. á móti 409,3 ma.kr. vegna annarra þátta.  Værum við laus við hrunbankana, þá væri viðskiptajöfnuður á þessu tímabili jákvæður um 24,1 ma.kr.  Svo sem engin stór upphæð, en samt jákvæð tala.

[...] Vandinn er því tvíþættur.  Annars vegar er það eyðsla um efni fram í gegn um tíðina og síðan er það lántökur og vaxtagreiðslur af þeim.  Undanfarin fjögur ár hafa vaxtagreiðslurnar bitið harkalega og er lífsnauðsynlegt að losna við stærsta hlutann af þeim sem fyrst.  Glíman við það er einfaldlega mikilvægasta viðfangsefni stjórnvalda og Seðlabanka um þessar mundir. 

Auka innanlandsframleiðslu 

Marinó heldur því fram að miðað við ofangreindar tölur þá sé eðlilegt að krónan styrkist ekki enda engin innistæða fyrir styrkingu. Hann fullyrðir að mikilvægast verkefni stjórnvalda og Seðlabanka sé að losna við stærsta hluta vaxtagreiðslna.

Lykillinn að endurreisninni, ekki bara hér á landi, heldur á Vesturlöndum líka, er að hvert land um sig auki innanlandsframleiðslu til að draga úr innflutningi eða svo útflutningur geti aukist til að vega upp á móti nauðsynlegum innflutningi. 

Þetta er nú nákvæmlega það sem margir hafa sagt og því gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að stefnu hennar í skattamálum. Í stað þess að fjölga skattgreiðendum, fyrirtækjum og einstaklingum, með hvetjandi aðgerðum, eru þeir skattlagðir nær því í gröfina. 

„Réttur“ hrunbankanna 

Marinó spyr mjög spurningar sem gerist mjög áleitin eftir því sem maður veltir henni meira fyrir sér. Og hann svarar um leið:

Er það rétt nýting á þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið, að nota hluta hans til að greiða vexti vegna fjármálafyrirtækja í slitameðferð?  Er bara yfirhöfuð rétt að nota eitt einasta sent eða penní vegna innlendra eigna erlendra aðila meðan staðan er svona erfið?  

[...] Ennþá fáranlegri er sá hluti samnings Steingríms J. við kröfuhafa bankanna, að þeir eigi rétt á allt að 320 ma.kr. viðbótargreiðslu frá hrunbönkunum vegna betri innheimtu. Þetta er sáraeinfalt:  Við höfum ekki efni á því að láta þann gjaldeyri af hendi. Mér er bara alveg sama hvað erlendir kröfuhafa hafa tapað miklu, meðan gjaldeyristekjur þjóðarbúsins standa ekki undir eftirspurn eftir gjaldeyri, þá er það hreint og beint brjálæði að auka við eftirspurnina á þennan hátt. 

Semjum aða ákveðum einhliða

Staðan er sú að ríkissjóður á í stórkostlegum erfiðleikum. Við þær aðstæður er afskaplega ósanngjarnt að skattleggja og skera um leið niður ríkisútgjöld með öllum þeim vandræðum sem hvort tveggja hefur í för með sér.

Skynsamlegra er að semja um skuldir og vexti, niðurfellingu og frestun. Ef í hart fer taka einhliða ákvarðanir. Við þurfum að tóra til að geta greitt. út á þetta gengur hin eiginlega pólitík. Það geta nær allir þóst vera að stjórna og gera svo ekkert annað en það sem virðist vera gáfulegt en er svo allri þjóðinni til óþurftar.


Stóru kallarnir hleraðir

Fjölmargir telja sér nú það til tekna að hafa grun, jafnvel fullvissu, um að sími þeirra hafi verið hleraður, sérstaklega í pólitískum tilgangi. Yfirleitt á það að hafa gerst á tímum kaldastríðsins eða jafnvel síðar. Frægt er að Jón Baldvin Hannibalsson telur sig svo merkilegan að hafa verið hleraður og því hefur verið haldið fram að sími föður hans hafa líka verið hleraður. Af öllum mönnum telur Ómar Ragnarsson að sími hans hafi verið undir þessu oki.

Sko, eitt er að komast að meintri landráðastarfsemi vondu kommanna með hlerunum eða glæpum spilltra bankamanna, allt annað er að stórmerkilegir kjaftaskar hafi verið hleraðir.

Síðan eru það undrunarefnin og undir þau flokkast meint hlerun á síma elskulega skemmtikrafts sem öllum þykir vænt um, enginn grunar um nokkra græsku. Meint hlerun á síma Ómars er svo absúrd að engu tali tekur. Helst að manni detti í hug að samkeppni skemmtikrafta sé komin úr öllum böndum.

Hitt verða þó allir að viðurkenna að varla tekur því að hlera síma einhverra smáfiska, stóru kallarnir hljóta að hafa verið hleraðir. Verst er eiginlega að tilheyra lista smámenna. Aldrei hefur síminn minn verið hleraður - held ég ...

Verð í þessu sambandi að geta um afskaplega ómálefnalega smágrein sem ég skrifaði um þetta efni fyrir um fimm árum er mest var gapað um símhleranir. Hún nefnist „Eineygður öðru megin“.


mbl.is Upplýstu grunaða um símahleranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn í vinsældaleit

Höfum endilega ákveðin prisipp. Tvö virðisaukaskattþrep eru hluti af slíku. Gerum síðan undantekningar á öllu sem hljómar vel og er fallegt og skemmtilegt. Fyrr en varir missa prinsippin marks.

Sama er með virðisaukaskattsþrepin. Tilhneigingin er að færa allt hið mjúka niður um flokk en halda því ljóta og leiðinlega uppi. Þegar tímar líða verður fátt eftir í efri flokki. Þess vegna er skynsamlegra að hafa aðeins einn hóflegan virðisaukaskattflokk.

Að minnsta kosti verður hann ekki í vegi fyrir stjórnmálamönnum í vinsældaleit.


mbl.is Skattur á smokkum lækki í 7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband