Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
Steingrímur leiðréttir
30.12.2011 | 20:29
Mann léttir nú hálfpartinn. Alltaf gott að fá línuna frá honum Steingrími. Jón Bjarnason var búinn að segja við alþjóð að hann hefði verið rekinn vegna andstöðu hans við ESB. Eitthvað var hann að misskilja málin því hann var bara rekinn vegna breyting á verkaskiptingu á mannskap en ekki stefnu.. Stefnan er sumsé enn inn í ESB.
Steingrímur leiðrétti einnig þann leiða misskilning Hreyfingarinnar að hún hafi verið beðin um að styðja ríkisstjórnina fyrir vantrausti. Samkvæmt Steingrími var það Hreyfingin sem bað um að fá að ræða við ríkisstjórnina um að koma í veg fyrir að vantraust á hana verði samþykkt. Hið síðarnefnda virðist líka vera miklu eðlilegra og lógískara svo ekki sé talað um góðfúslegan vilja ríkisstjórnarinnar til að spjalla.
Steingrímur segir að ríkisstjórnin sé í óbreyttum farvegi. Mikið er nú gott til þess að vita. Velti því þó fyrir mér hvort ekki sé tími til að einhver fari út að ýta.
Tengist ekki Evrópumálunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Órhróður Þorvaldar Gylfasonar
30.12.2011 | 17:29
Hrikalega er málfutningur Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðings, ógeðfelldur. Hann hikar ekki við að fara með staðlausa stafi og kann ekki að skammast sín.
Í nokkuð langan tíma hefur honum verið tíðrætt um einhverja sem hafa viðhaft frasann svokallað hrun um efnahagshrunið haustið 2008. Ekki hef ég hugmynd um hverjir það eru. Það skiptir svo sem engu máli. Verra er að hann heldur að hrunið sé eitthvað verkfræðilegt afrek þeirra sem eru á önduverðum meiði við hann í stjórnmálum.
Þorvaldur kann enga sanngirni. Hann reyndir að klína þessu og öðrum óhróðri á pólitíska andstæðinga. Og þetta er maðurinn sem auðfyrirtæki keypti og lét skrifað áróðursgreinar um andstæðinga þess.
Hann var málaliði auðvaldsins, þeirra sem áttu stærstan þátt í hruninu.
Hann hefur varið þessa kolómögulegu ríkisstjórn sem undir yfirskini velferðar hefur ráðist svo heiftarlega að kjörum almennings að engin dæmi eru um slíkt í sögu þjóðarinnar. Þetta er ríkisstjórn sem svikið hefur gerða samninga og sáttmála. Aldrei hefur Þorvaldur gagnrýnt þessa félegu félaga sína sem purkunarlaust svíkjast aftan að almenningi.
Gerast góðir hlutir núna hratt?
30.12.2011 | 14:26
Ekkert liggur á, var oft sagt í gamla daga. Lengi var því haldið fram að góðir hlutir gerist hægt. Í þessu tvennu er dálítið þægilegt samræmi.
Tímarnir eru breyttir og ekki víst að allt í góðu gengi. Á tæplega þriggja ára valdatíma norrænnar velferðarstjórnar á Ísland virðist allt komið á hliðina, öllu á að breyta, helst gjörbreyta. Og sú grunsemd læðist að manni að breytingar eigi sér aðeins forsögu í sjálfum breytingunum.
Helst á að breyta stjórnarskránni, henda þeirri gömlu og taka nýja upp. Hvers vegna er ekki ljóst. Ýmislegt má eflaust breyta í þeirri gömlu en þarf að gjörbreyta ...?
Verið er að gjörbreyta stjórnsýslunni. Gömul ráðuneyti hafa verið lögð niður og starfsemin sameinuð öðrum. Allt gert með einhverri hagkvæmni að leiðarljósi. Og hverjum skyldi hafa dottið í hug nöfnin á þessum ráðuneytum.
Skattkerfið hefur þanist út, nýjir skattar orðið til, virðisaukaskattarnir orðnir þrepaskiptir ... Maður hefur færri peninga í buddunni en áður.
Allt þetta og miklu meira til hefur gerst á þremur árum. Hvers vegna lá svona mikið á. Hefur þessum breytingum fylgt einhver gæfa, gerast góðir hlutir hratt?
Lágt sjálfsálit?
29.12.2011 | 19:57
Aðspurð sagðist hún [Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar] þó ekki geta tjáð sig um það hvaða breytingar á ríkisstjórninni yrðu lagðar til og þá ekki síst vegna þess að hún vissi ekki hverjar þær væru.
Sjálfsálit málsvara ríkisstjórnarflokkanna hlýtur að vera orðið ansi lágt. Vanþekking hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að þeir tjái sig með miklu orðskrúði og list. Eða eins og sagt er um einn góðan Samfylkingarmann: Hann getur lengi, lengi rætt um það sem hann veit ekki án þess að koma nokkurn tímann að kjarna málsins.
Breytingar á ríkisstjórninni ræddar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verkalýðsrekandi vaknar með andfælum
27.12.2011 | 20:15
Hvað er eiginlega að þessum verkalýðsrekendum? Í þrjú ár hefur atvinnuleysið farið vaxandi og nú eru opinberlega um tólf þúsund manns án atvinnu. Ótaldir eru þó þeir sem flúið hafa land og fundið vinnu annars staðar, ekki eru þeir heldur taldir með sem hafa hrokkið af atvinnuleysisskrá þar sem þeir hafa verið þar of lengi. Og allir eru búnir að gleyma litlu manninum, þeim sem voru verktakar í ýmsum störfum og eiga engan rétt inni á skránni.
Og núna hleypur Sigurður Bessason uppá dekk og talar óðamála um atvinnuleysi og fjárhag heimilanna rétt eins og vandamálin hafi orðið til í fyrradag. Hvar hefur maðurinn haldið sig undanfarin ár? Hvers vegna hefur hann ekki tekið höndum saman með kollegum sínum og krafist úrbóta frá hinni norrænu velferðarstjórn.
Atvinnuleysi er mannskemmandi og af öllum þeim ávirðingum sem hægt er að klína með réttu á stjórnvöld er það einna alvarlegast. Vonandi vita ummæli Sigurðar Bessasonar á gott, að eitthvað sé nú að gerast hjá launþegahreyfinginunni vegna atvinnuleysis og fjárhag heimilanna.
Getum ekki sætt okkur við atvinnuleysið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyrirtækjasamsteypa í eigu Framtakssjóðs
27.12.2011 | 12:11
Fyrir jól ritaði Þorkell Sigurlaugsson, stjónarformaður Framtakssjóð Íslands, grein í Fréttablaðið. Í henni mærir hann eðlilega sjóðinn og framtakssemi hans. Sjóðinn stofnuðu sextán lífeyrissjóðir fyrir tveimur árum og markmiðið er ... að fjárfesta í íslenskum yfirtækjum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll ..., eins og Þorkell orðar það í grein sinni. Hann segir:
Markmiðið var að byggja upp öflug fyrirtæki og um leið skila góðri ávöxtun til fjárfesta. Það er ekki markmið Framtakssjóðsins að eiga fyrirtæki til lengri tima þvert á móti á Framtakssjóðurinn að selja hluti sína að hluta eða öllu leyti innan nokkurra ára, eða þegar hlutverki hans er lokið, meðal annars með skráningu á hlutabréfamarkað.
Þetta eru háleit og virðingarverð markmið en manni er engu að síður órótt. Hér er komið mikið vald og ógrynni af peningum í eitt saman fyrirtæki. Völdin eru mikil og því vakna auðveldlega grunsemdir um meðferð og stjórnun þessara fyrirtækja.
Í allri grein Þorkels finn ég enga umhyggju fyrir almenningi, þjóðinni. Ekki heldur er reynt að greina fyrir hvað þau fyrirtæki sem Framtakssjóðurinn vélar um standa í raun og veru fyrir. Þetta veldur mér vonbrigðum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að fyrirtæki er starfsfólkið, ekkert annað. Ábyrgð stjórnandans er fyrst og fremst gagnvart því og síðan fjárfestum. Ég held það sé komið nóg af dekri við alls kyns fjárfesta sem hugsa fyrst og fremst um skjótfenginn gróða. Ég sakna gamalla og gróinna fyrirtæki sem nú er búið að rústa og sum hver eru ekki lengur starfandi. Þar réðu ríkjum gamaldags kapítalistar sem hugsuðu um fyrirtækið framar öllu, gerðu sér grein fyrir að það var skjól fyrir starfsmenn, lifibrauð þeirra. Þessi gildi hurfu einhvern vegin á síðustu árum eftir skefjalausa sókn í skyndigróða. Enginn mátt vera að uppbyggingu. Fyrirtækin voru tætt í sundur, skuldsett og yfirgefin.
Ég er hrikalega tortrygginn gagnvart risastórum sjóði sem ætlað er að kaupa upp vænleg fyrirtæki. Sérstaklega ef tilgangurinn er að ná góðri ávöxtun á það fjármagn sem bundið er i sjóðnum .... Fyrirtækin í eigu sjóðsins eru óskaplega stór, virka sem samsteypa og geta starfað sem slík meðan verið er að gera þau aðlaðandi í augum fjárfesta. Þau þurfa ekki að taka tillit til neins nema samsteypunnar.
Eru jólin uppskeruhátíð kapítalismans?
26.12.2011 | 14:53
Gleðileg jól, kæru lesendur (... finnst dálítið yfirlætislegt að taka þannig til orða, en fyst aðrir gera það þá get ég það líka).
Jólin eru á margan hátt hátíð. Kristin fólk heldur upp á fæðingu frelsarans og allir fagna því að daginn er tekið að lengja. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa verið alinn upp af góðri móður og föður, alþýðufólki sem átti sína trú og gætti hennar vel. Það er svo allt annað mál hvernig ég hef rækt og þroskað trúna allan þann tíma sem liðinn er frá því ég var barn. Líklegast hefur allt farið á versta veg í þeim efnum, og þó ...
Vonandi held ég eitthvað í eitthvað af boðskapnum, siðfræði kristinnar trúar. Ef til vill er það þess vegna sem mér gremst svo ákaflega mikið kaupmennska jólanna. Það er eins og verslunin sé upphaf og endir kristinnar trúar. Og ég þá gat varla trúað mínum eigin augum þegar ég las eftirfarandi undir fyrirsögninni: Jólin eru uppskeruhátíð kapítalismans. Fyrirsögnin ein hlýtur að ofbjóða hverjum og einum upplýstum manni.
Á jólunum eru kostir markaðshagkerfisins hvað sýnilegastir. Nóg er að horfa yfir hlaðið borð kræsinga þegar jólin hringja inn. Villibráð er frá Bretlandi, vín frá Ítalíu, maís frá Bandaríkjunum, ávextir frá Suður Afríku, tómatar frá Portúgal, ferskt krydd frá Ísrael og gosdrykkir úr Reykjavík. Þegar svo kemur að jólagjöfum eru leikföng barnanna frá Malasíu, Suður Kóreu, Indónesíu og Kína. Þeir sem hafa arin kveikja svo upp arinkubbi frá Bandaríkjunum og bæta við birki frá Egilstöðum. Svona mætti áfram telja.
Þetta stendur skrifað á vefnum amx.is sem ég les oft mér til ánægju og gangs. Þetta er svo sem allt satt og rétt en þessar staðreyndi eiga ekker endilega við um jólin heldur en hversdaginn. Séu jólin uppskeruhátíð kapítalismans hvar stendur þá trúin? Hvort kemur á undan í mikilvægi? Svo má auðvitað endalaust ræða upp barnaþrælkun, sviknar vörur og lág laun í þróunarlöndunum.
Er til dæmis hægt að halda jól án þess að kapítalisminn sé virkur? Flestir myndu ætla að svo sé. Þá má á móti spyrja hvort hægt að halda uppskeruhátíð kapítalismans án jóla? Vissulegar er það gert og það dags daglega. Kapítalisminn er einungis aðferð, alls ekki hátíð eða trúarbrögð frekar en prentlist eða heilbrigður lífsstíll. Uppskeruhátíð á ekki hér við frekar en aðra daga ársins. Það er líka gjörsamlega smekklaust að orða hlutina á þennan hátt.
Jólin eru ekki og hafa aldrei verið uppskeruhátíð kapítalismans. Hún er trúarhátíð og kemur efnislegum hlutum svo til ekkert við þó svo að tekist hafi að snúa henni upp í andhverfu sína með gengdarlausum áróðri sem boðskapur kristinnar trúar á ekki nokkra möguleika til að snúa við. Og hver ætti svo sem að tala máli trúarinnar eða boðskapsins? Kirkjan, segir einhver ...! Því miður, kirkjan er illa haldin af innanmeinum og óvíst hvort hún lifir það af. Hins vegar lifir trúin og ekki síðst sá boðskapur sem felst í kristinni trú.
Ég hef lengi aðhyllst kapítalismann, telst þar af leiðandi hægri maður. Engu að síður getur mann gramist pólitísk misnotkun á því sem telst til staðreynda í tilverunni. Eins og áður sagði kann að vera eitthvert vafamál hvernig ég hef ræktað barnstrúna og allra síst er ég kirkjurækinn maður. Ég ber þó virðingu fyrir þeim gildum sem ég ólst upp með. Ungur tók ég pólitíska afstöðu og hef staðið vel í ístaðinu á þeim vettvangi eins og margir vita.
Frá því í sunnudagsskóla KFUM í gamla daga man ég alltaf þetta:
Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli.
Fnykur af soðinni, útmiginni skötu veldur náttúruhamförum
23.12.2011 | 10:23
Kári var spurður hvort rétt væri að menn léttu á sér í skötubinginn til að hraða kæsingunni. Þetta er orðin svo eftirsótt vara að við höfum engin vafasöm orð um það, sagði Kári hlæjandi og neitaði því staðfastlega að þessi brögð væru viðhöfð við verkunina nú til dags. Ætli það hafi ekki gerst í gamla daga, þegar skatan lá úti við beitningaskúrana, að menn hafi tappað af sér í sama horninu?
Ekki er nóg með að útlendingum sé talin trú um að míginn hákarl og skata sé þjóðlegur matur heldur gera fjölmiðlar sitt til að halda þessari sögu að landsmönnum. Hið eina þjóðlega við þetta er að þetta er þjóðsaga.
Ofangreind tilvitnun er úr Mogganum í dag, en dag segir í fyrirsögn: Skötuilminn að vestan leggur yfir landið. Í fréttinni er sagt frá tindabikkju- og skötuverkun og upplýst að hér áðurfyrr hafi verið migið á fiskinn til að hraða verkuninni. Þó því sé neitað að slíkt sé gert enn þann dag í dag læðist alltaf sú hugsun að manni að sú sé engu að síður staðreyndin. Það getur einfaldlega ekki verið jafn vond lykt af neinum mat eins og af kæstri skötu eða tindabikkju nema því aðeins að migið hafi verið á hann meðan á verkuninni stóð. Sé það rangt er málið enn alvarlegra. Hvernig í ósköpunum getur verið svona vondur fnykur af nokkrum mat hafi ekki verið migið á hann?
Enginn, ekki einu sinni forfallnir skötufíklar, getur haldið því fram að bragðið af kæstri skötu sé gott. Svo hrikalega stækt er það, að sá sem slafrar þessu óhroða upp í sig í einhverjum magni á Þorláksmessu á það á hættu að líkaminn losi sig við eitrið í gegnum fret, rop og svita langt fram yfir áramót. Og það öllum nærstöddum til óskaplegrar armæðu. Skötuátið er því umhverfisvandamál. En meira er í þessu.
Ég hef það fyrir satt (og trúið mér því þetta er ríkisleyndarmál) að jarðvísindamenn fullyrði að skötuát á Þorláksmessu auki hættuna á auknu kvikustreymi frá iðrum jarðar með tilheyrandi jarðskjálftum og jafnvel eldgosum á komandi ár. Sel þetta þó ekki dýrara en ég keypti.
Hér til vinstri er jarðskjálftakort frá því um miðjan dag á Þorláksmessu á síðasta ári. Þar koma greinilega fram skjálftar á öllum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum, beggja vegna Húnaflóa og svo í Reykjavík. Annars staðar er skötufíknin miklu minni. Þetta er merkilegt fyrir þær sakir að jarðskálftar eru mjög sjaldgæfir á Vestfjörðum og við Húnaflóa.
Af þessu má sjá að skötuát er stórkostlega hættulegt þar sem það veldur náttúruhamförum.
Alvörublóð úr platjólasveini
22.12.2011 | 18:22
Velta má eftirfarandi fyrir sér:
- Jólasveinninn er ekki til
- Blóð rennur ekki í æðum hans
- Hann gefur því ekki blóð
- Blóðið væri þá gerfiblóð
- Nema því aðeins að einhver þættist vera jólasveinn
- Þá fengi Blóðbankinn alvörublóð
- Nema því að jólasveinninn sé til
- Þá gæti hann gefið blóð
Blóðið flæðir um jólin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.12.2011 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlé milli gosa hefur ekkert spádómsgildi.
22.12.2011 | 16:26
Við höfum oft heyrt það sagt, að Katla sé komin á tíma, að nú hljóti að fara að gjósa vegna þess að viss tími sé liðinn síðan síðasta stórgos var, árið 1918. Þetta er misskilningur. Reynslan sýnir, að eldgos eru yfir leitt það sem vísindin kalla stochastic process. Það er að segja: fyrri atburður eða tímalengd milli atburða hefur engin áhrif á tímasetingu næsta atburðar. Það fæst því engin spá að viti með því að mæla tíðni gosa og lengd goshlés. Hins vegar eru jarðeðlisfræðileg merki mikilvæg. Þau gera ekki spá mögulega, en þau mynda kerfi af upplýsingum, sem kunna að gefa viðvörun um yfirvofandi gos.
Þetta segir Haraldur Sigurðsson, jarðeðlisfræðingur, í bloggi sínu í gær. Og mikið ári kemur hann okkur leikmönnum á óvart. Nú erum við í tugi ára búnir að bíða eftir eldgosi í Kötlu af því að eldstöðin er komin fram yfir meðalhvíldartíma. Jafnvel Katla veit ekkert af þessu heldur hefur boðið upp á óróa undanfarna mánuði rétt eins og hún sé að kynda upp.
Af öllum tek ég mest mark á Haraldi og síðan hinum óglögga draumamanni sem sífellt dreymir um væntanlegt eldgos í Kötlu. Hann hefur þó brugðist mér ótal sinnum. Haraldur bregst hins vegar ekki og því hvet ég áhugamenn um jarðfræði að lesa nýjasta bloggið hans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)