Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Löngu dáin ríkisstjórn brettir upp ermar

Lífi ríkisstjórnar hefur verið bjargað en hún er engu að síður löngu dáin. Það minnir nú á hann Breshnev gamla sem var aðalritari sovéska kommúnistaflokksins. Hann ku hafa dáið nokkrum sinni í lok ferils síns sem æðsti valdamaður Sovétríkjanna. Hann vissi þó ekkert af endurteknum dauða sínum og var líklegast bara þeirri stundu fegnastur er hætt var að kalla hann til lífsins.  

Fyrir okkur, venjulegt fólk, er afar erfitt að skilja Magma málið. Því lauk fyrir tæpu ári en var nú vakið upp á ný löngu eftir að allt er frágengið.

Ríkisstjórn sem fyrir löngu er dáin ætlar að hætta við mál sem er fyrir löngu er frágengið og fær til þess aðstoð frá þingmönnum sem fyrir löngu eru orðnir leiðir á að ríkisstjórnin viti ekki hvoru megin grafar hún á að liggja.

Tilgangurinn er líklegast sá að gefa hinum órólegum þingmönnum úr Vinstri grænum tækifæri til að blása út, fá einhverja úrlausn vegna óanægju sína með framgöngu flokksins í allt öðrum málum; ESB, Icesave, atvinnuleysi o.s.frv.

Það verður hins vegar að viðurkenna að tímasetningin var snilldarleg því í þrjár vikur hefur ekki verið rætt um annað í ríkisfjölmiðlunum og jafnvel hinum líka. Jafnvel leyndarskjöl Bandaríkjamanna fá ekki viðlíka umfjöllun. 

Niðurstaðan er nú sú að ríkisstjórnin ætlar að gera eftirfarandi:

 

  1. Rannsakað verður hvenær Magma fékk að kaupa hlutinn í Hitaveitunni
  2. Kannað verður hvort Magma sé kanadískt skúffufyrirtæki í Svíþjóð
  3. Athugað verður hvort svona geti gerst aftur
  4. Tekið verði loforð af Jóhönnu og Steingrími að viðlíka muni aldrei gerast aftur 
  5. Órólega deildin í VG fær pulsu og kók í Bæjarins besta

 

Á meðan á þessu öllu stendur, líklega fram í október, mun enginn tala um atvinnuleysið í landinu, lausn á Icesave, fyrirtækjadauðann, yfirtöku banka á fyrirtækjum og öðru álíka smálegu. Ekki furða þó hún Þórunn Sveinbjarnardóttir, ... þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverand ráðherra umhverfismála, ... sé hamingjusöm. 

 


mbl.is „Farvegurinn er fundinn.“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama hvaðan gott kemur

Líklega er sama hvaðan gott kemur. Ef um stjórnmálamann væri að ræða yrði Landsvirkjun örugglega gagnrýnt fyrir að múta manni. Ekki nokkrum mann dettur í hug að Ómar láti bera á sig fé. Hann þekkjum við öll sem heilan og óspiltan mann. Persónulega líkaði mér ekki við stjórnmálamanninn Ómar.


mbl.is Landsvirkjun styrkir Ómar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlamenn gleypa við öllu

Góðan daginn Vörður varðstjóri. ég er með eitt smávægilegt vandamál. 

Lát heyra, Gáttaþefur, lögregluþjónn.

Jú, við vorum að rúnta um Selfoss í góða veðrinu í nótt og þá hittum við Nonna glæp. Hann benti okkur á að Logi lögbrjótur væri með maríjúana heima hjá sér. Auðvitað fórum við heim til Loga og tókum hann fastan. Og hvað heldurðu? Hann var bara með efnið uppi á stofuborði.

Það er nú aldeilis gott hjá þér Gáttaþefur, lögregluþjónn.

Já, þakka þér fyrir Vörður varðstjóri. Alltaf gott að fá hrós fyrir vel unnin störf þó launin séu lág. Hins vegar erum við í vanda með fréttatilkynninguna. Nonni glæpur setti það sem skilyrði að við segðum ekki frá því að hann hefði ljóstrað upp um Loga lögbrjót. Ella á hann það á hættu að Logi kjafti frá næst þegar Nonni brýtur lögin.

Auðvitað verðum við að virða nafnleynd heimildarmanna okkar. Hins vegar er þetta ekkert vandamál.

Gat nú skeð, Vörður varðstjóri. Þú ert alltaf með ráð undir hverju rifi.

Tja, maður er nú ekki fæddur í gær. Sko, nú skrifar þú fréttatilkynningu og segir í henni að tveir lögreglumenn hafi verið akandi á eftirlitsferð í góða veðrinu og þá hafi þeir bara fundið lyktina af 100 gr af maríjúnana!

Nei, getum við haldið því fram? Enginn trúir því að einhver geti fundið lykt af 100 gr efní gegnum hús og bíl ...

Jú, blessaður vertu. Þú heitir nú ekki Gáttaþefur fyrir ekki neitt. Segðu bara að lögreglumennirnir hafi ekið afar hægt og verið með gluggana opna af því að veðrið var svo gott. Og fjölmiðlafólkið gleypir við þessu eins lax flugu. Ég skal veðja að fyrir klukkan sjö verður komin frétt um þetta í mbl.is án nokkurra athugasemda. Og Rúv mun skemmta sér afar vel yfir þessu í morgunútvarpinu.

En verðum við ekki að passa okkur á helvítis bloggurunum, þeir gera örugglega athugasemdir.

Ertu eitthvað verri? Gáttaþefur lögreglumaður. Bloggarar eru bara kverúlantar sem enginn tekur mark á.


mbl.is Runnu á lyktina af maríjúana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkar aðstæður nú og þá

Að mörgu leyti eru aðstæður núna afar ólíkar þeim fyrir einu og hálfu ári. Afleiðingar hrunsins eru komnar fram og snerta pyngju hvers einasta Íslendings. meira er í vændum ef áætlanir fjármálaráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stótrauknar skattahækkanir ná fram að ganga.

Í svokallaðri búasáhaldabyltingu urðu til margar hetjur og sumar þeirra náðu að komast í ráðherrastóla og á þing. Engin af þeim hefur staðið undir væntingum.

Þar má fremstan telja Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann leggst eindregið gegn dómi Hæstaréttar Íslands sem vill dæmt hefur gengistrygginguna ógild. Hann vill breyta niðurstöðum dómsins og bæta fjármögnunarfyrirtækjunum þann skaða sem þau verða fyrir með óbreyttum dómi.

Hinar hetjurnar sitja í ríkisstjórn sem engu afrekar nema bann við súlustripli, bann við notkun ljósabekkja og töfum á uppbyggingu atvinnulífsins.

Því miður virðist stjórnarandstaðan ekki hafa nýtt tíma betur en ríkisstjórnin. Ef til dæmis Sjálfstæðisflokknum væri nokkur alvara í sínu starfi hefði hann kallað saman alla þá bestu menn og konur til tillögugerðar í efnahags- og atvinnumálum.

Nú er þörf á New Deal, nýjum aðgerðum sem byggja upp von og trú til framtíðar þvert á móti því sem ríkisstjórnin býður upp á. Aðalatriðið er að eyða atvinnuleysi í landinu. Það er hin mesta skömm sem hvílir á Alþingi, meirihluta og minnihluta.


mbl.is Endurspegli viðhorf meirihluta þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt að toppa þetta

Uss, þetta er ekkert hjá honum Björgvini. Ég toppa þetta auðveldlega. Á laugardaginn sló ég geysilega fínt og flott teighögg á 1. braut á Blönduósvelli. Það rataði beint út í óræktina. Daginn eftir var ég staddur á 3. braut á Skagastrandarvelli og sló af teignum beina leið út í óræktina.

Svona gerist aldrei hjá Björgvini.


mbl.is „Náttúrulega ótrúlegt að þetta skuli gerast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ógnaði stöðugleikanum fyrir gengisdóminn?

Stundum er nauðsynlegt að skoða málin frá gangstæðum sjónarhól. Sé frétt mbl.is um „matsfyrirtækið“ rétt væri forvitnilegt að fyrirtækið skoðaði þær afleiðingar sem gengistryggðu lánin höfðu á kjör almennings og fyrirtækja.

Það getur einfaldlega ekki verið gott fyrir efnahag þjóðarinnar að eignamyndun almennngs sé nákvæmlega engin á stærstum hluta afborgunar bílalána og stórum hluta íbúðarlána.

Þessi staða hefur m.a. eyðilagt markað fyrir bíla og atvinnutæki, bæði ný og notuð, fasteignamarkaðinn er í molum, eðlileg endurnýjun á ökutækjum hefur tafist, litlar sem engar nýframkvæmdir eru til í þjóðfélaginu, litlu og meðalstóru verktakarnir sitja flestir auðum höndum og svo má lengi telja. Þessu til viðbótar má nefna gríðarlegt atvinnuleysi vegna þessara ónýtra markaða.

Fitch Ratings sagði ekki nokkurn skapaðan hlut þegar þetta gerðist. Hafði þó ýmsar skoðanir á bankahruninu og efnahagsástandinu. Ekki nefndu þeir að gangislánin í kjölfar hrunsins myndu seinka efnahagsbatanum. 

Vandinn er bara sá að þessi Paul Rawkins og aðrir spekúlantar horfa á efnahagsmál í gengnum Excelskjöl og fyrirframuppsett módel sem miðast við stórþjóðirnar. Ummæli þeirra hafa sáralítið að segja um stöðu efnahagsmála hér innanlands enda getur varla verið að þekking þeirra risti svo djúpt að þeir skilji aðstæður öðruvísi en í gegnum greiningartækin. Þeir höfðu engar áhyggjur af gengislánunum þó þau ætu allar eignir upp og skiluði ekki einni einustu krónu í eignamyndun. Mér er það stórlega til efs að þeir skili út á hvað gengistrygging eða verðtrygging gengur.

Stöðugleikinn í íslenska fjármálakerfinu og efnahagsmálum þjóðarinnar byggist á þeirri einföldu staðreynd að eignamyndun almennings sé fyrir hendi. Þjófnaður gegnislánanna var ekki jafn mikið vandamál fyrr en halla tók undan fæti síðla árs 2007 og upphafi 2008. Það getur maður séð núna. Hins vegar heitir þetta þjófnaður engu að síður skv. dómi Hæstaréttar.

Gengislánin áttu stóran þátt í að eyðileggja íslenskt efnhagaslíf frá því fyrir hrun og fram að dómi Hæstaréttar. 


mbl.is Dómar Hæstaréttar ógna stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama gamla tuggan - engin frétt.

Þetta er tugga. Flestir hljóta að átta sig á því að á föstudögum er mikil umferð af höfuðborgarsvæðinu og á sunnudögum til baka. Sérstaklega á þetta við sumarið.

Í raun og veru er þetta engin frétt og því beinlínis hlægilegt þegar sjónvarpsstöðvar skipta yfir úr stúdíói og út á Vesturlands- eða suðurlandsveg, og ekki til annars en að sýna strjála umferð. Og hvað með það þó hún sé mikil? Aðalvandamálið eru vegirnir. Báðir áðurnefndir þjóðvegir anna ekki umferð á álagstímum.

Væri nú ekki gáfulegra fyrir fréttamenn að tyggja á þeirri staðhæfingu að enn séu vegir á Íslandi ekki nógu góðir fyrir bíla landsmanna? 


mbl.is Mikil umferð til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauðisandur, einn fegursti staður landsins

dsc_0289.jpg

Rauðisandur er ekki mjög þekktur ferðamannastaður en það á örugglega eftir að breytast. Hann er syðst á Vestfjarðakjálkanum, nálægt Barðaströnd í samnefndri sýslu.

Í huga mér er Rauðisandur sveipaður mikilli dulúð. Þangað kom ég sem lítill strákur á ferðalagi með foreldrum mínum. Þá var mikil byggð í sveitinni en nú hefur hún dregist mikið saman eins og svo víðar á landinu. Mér er ákaflega minnisstætt þegar við ókum á Volkswagen bjöllu yfir krókóttan og ósléttan fjallveginn sem endaði í miklum bratta þar sem hann hlykkjaðist niður á láglendið. Á leiðinni, rétt eins og núna, blasir við Bæjarvaðallinn og hvítir skeljasandar og er þá sem umhverfið lýsist upp.

dsc_0458.jpg

Hvergi á landinu held ég að umhverfið sé öllu fegurra. Hamragirt sveitin horfir móti sólu, blár og mislyndur Breiðafjörður liggur með landi og hinum megin er Snæfellsjökull, svo voldugur og mikill, rétt eins og þegar horft er á hann hinum megin frá.

Rauðisandur er réttnefni, samt er sandurinn að hluta til gulur. Bæjarvaðallinn er flæðareyrar eða lón sem tekur yfir meirihlutann af sveitinni. Þar fellur sjórinn inn og yfir megnið af sandinum og á fjöru kemur allt upp aftur. Annað undirlendi er lítið en grænt og hlýlegt.

dsc_0346.jpg

Skýringin á nafninu er ekki einhlít. Sumir segja að sveitin sé kennd við Ármóð hinn rauða sem nam þarna land. Sé svo er nafnið á mörgum landakortum rétt, en þar stendur víða Rauðasandur. Hins vegar notuðu foreldrar mínir fyrra nafnið og því held ég hér. Munum að nafnið er ekki eins í nefnifalli og aukaföllunum.

Ferðamaðurinn sem kemur á Rauðasand í góðu veðri ekur því sem næst að kirkjustaðnum Saurbæ og þar liggur lítill vegarslóði niður graslendið. Þar er gott að leggja bílnum og ganga yfir rauða, leirborna sandinn og niður í gula skeljasandsfjöruna. Á björtum degi er stórkostlegt að ganga berfættur í heitum sandinum - næstum því eins og í útlöndum, bara miklu betra.

dsc_0332.jpg

Kaffihús er á Rauðasandi. Þegar við áttum leið þarna um fyrir nokkrum dögum sat fjölmenni fyrir utan dyra, naut sólar og gæddi sér á því sem á boðstólnum var. Við áðum ekki þarna þarna að þessu en gerum áreiðanlega síðar.

Saurbæjarkirkja virðist vera nýlega uppgerð, sker sig úr umhverfinu með sínu svarta lit, reisuleg og falleg. 

Mikil saga er bundin Rauðasandi. Innst í sveitinni, undir brattri fjallshlíð stóð bærinn Sjöundaá. Um aldamótin 1800 bjuggu þar tvenn hjón. Sambúð þeirra endaði með því að eiginmaðurinn úr öðru hjónabandinu og eiginkonan úr hinu myrtu maka sína. Af þessu varð mikið dómsmál sem endaði með því að þau voru dæmd til lífláts. Hann var tekinn af líki haustið 1805 í Noregi en hún lést nokkru áður í fangahúsinu í Reykjavík og var dysjuð á Skólavörðuholti. Hét þar allt fram á 20. öld Steinkudys.

dsc_0326.jpg

Undir Stálfjalli er Skor og þar var áður útræði. Þekktastur er staðurinn fyrir það að þaðan lagði Eggert Ólafsson í sína hinstu för vorið 1768. Hann var þá nýgiftur og sigldi frúin með honum skip þeirra og fylgdarmanna sökk þennan dag. Lengi var ljóð Matthíasar Jochumssonar kennt í barnaskólum og nemendur látnir læra það utanað. Það var lítill vandi því vel er það samið. Fyrsta erindið í þessum heillandi ljóðabálki er svona:

Þrútið var lofti og þungur sjór,

þokudrungað vor.

Það var hann Eggert Ólafsson,

hann ýtti frá kaldri skor. 

Ég mæli með Rauðasandi. Skemmtilegast er að aka til Stykkishólms og sigla með Baldri yfir Breiðafjörð að Brjánslæk, þaðan um Barðaströndina, yfir í Patreksfjörð og þá til Rauðasands. Til baka er einstaklega gaman að aka alla firðina austur sýsluna.

 


Gullið í Drápuhlíðarfjalli

0590_drapuhli_arfjall_samsett_2.jpg

Drápuhlíðarfjall er skammt fyrir ofan Stykkishólm er eitt stórkostlegasta fjall á Íslandi. Ekki hefur það formfegurð Herðubreiðar, tign Eiríksjökuls, hrikaleika Eyjafjallajökuls, aðdráttarafl Keilis og Baulu, glæsileika Búlandstinds svo nokkur dæmi séu tekin.

Ekki er það heldur hæðin sem sker Drápuhlíðarfjall frá öðrum fjöllum. Nei, það er „aðeins“ 527 m hátt sem þykir nú alls ekkert lítið en í samanburði við fjöllin í nágrenninu.  

Munurinn er fyrst og fremst hið glóandi bjarta berg í fjallinu sem nefnist líparít. Við vissar aðstæður varpar það gullitum ljóma á umhverfið og ástæðan er einföld. Þegar ég var lítill var mér sagt að gull væri að finna í fjallinu og enn þann dag í dag trúi ég því. Til sönnunar er þessi mynd hér hægra megin sem ég tók fyrir nokkrum dögum. Fjallið hreinlega logar í kvöldsólinni og þarna glampar ekki á líparít heldur gullið.

Sagan um gullið í Drápuhlíðarfjalli er lífseig og sem betur fer hefur hún aldrei verið afsönnuð þó margir hafi leitað að því.

dsc_0759.jpg

Eggert Ólafsson taldi forðum daga Drápuhlíðarfjall merkilegasta fjall á Íslandi eftir Snæfellsjökli. Það er auðvitað tóm vitleysa. Drápuhlíaðrfjall er hið merkilegasta í öllum heiminnum. Ekki vegna þess að þar er verið að finna gull heldur fyrst og fremst fyrir hin ótrúlegu litbrigði sem fjallið býr yfir. Því til sönnunar birti ég aðra mynd af fjallinu.

Hún er tekin daginn eftir þá fyrri. Sólin er þarna rúmlega í hádegisstað og Drápuhlíðarfjall er því í felubúningi líparíts. Ekkert bendir til þess að í því sé gull.

Annars heitir Gullberg á einum stað í Drápuhlíðarfjalli. Þarf frekari sannana við ...?

Fyrir neðan Gullberg eru Beinadalir. Þar segja munnmæli að fundist hafi hvalbein sem menn trúðu að væru frá dögum syndaflóðsins. Ekki er heldur ástæða til að efast um þá sögu. Staðreyndin hlýtur að vera sú að hvalirnir hafi drukknað í syndaflóðinu. Varla dregur nokkur að í efa.

Við Drápuhlíðarfjall eru örnefni eins og Írafell og Pekronsdalur sem benda til írskrar byggðar. Það minnir mig á að móðir mín, sem fædd var í Hvammsveit í Dalasýslu, var alla tíða sannfærð um það að hún væri komin af Auði djúpúðgu, landnámsmanni í Dölum. Hún og aðrir heimamenn kölluðu landsnámskonuna alltaf Unni og eru líkur á því að það sé réttara. Kannski að Pekron þessi hafi komið með Auði og búið að Írafelli.

Frá því ég var strákur hefur því verið haldið að mér að gull væri að finna í Drápuhlíðarfjalli og ég hvattur til að finna það. Aldrei hef ég þó gengið á Drápuhlíðarfjall en þess í stað gengið á ótalmörg önnur og ómerkilegri hrúgur víða um landið. Bragarbót ætla ég þó að gera hið fyrsta.

Mér var líka sagt að gull væri að finna í litlum hólma í Maðkavík í Stykkishólmi. Hann heitir auðvitað Gullhólmi. Á sjötta eða sjöunda ári reyndi ég að finna gullið. Þó vopnaður væri þungri skóflu þurfti ég og félagi minn frá að hverfa vegna þess að kríur gerðu miskunarlausar árásir á okkur. Síðan hef ég ekki reynt að ná gulli úr Gullhólma. Tel það algjörlega kolómögulegt.


Utanríkisráðherra í kveðjuferð

Utanríkisráðherra heldur áfram í kveðjuferð sinni til nágrannalanda Íslands. Þakkar þeim fyrir auðsýndan stuðning, hvetur þau til að ganga í ESB. Honum er tekið með kostum og kynjum enda er það með Össur sem sagt var um annan góðan mann: Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekkt'ann.

Vissulega er Össur hinn vænsti maður og hann hefur verið mælskur frá því í gamla daga í Háskólanum. Þá var hann kommi, nú er hann vinstri krati. Kína hefur lengi sýnt Íslendingum vinsemd og vonandi verður þar engin breyting á þótt Össur dvelji þar lengur en í öðrum ríkjum.

Um daginn var utanríkisráðherra í Króatíu og fullyrti þá að ekkert efnahagshrun hefði orðið á Íslandi hefði landið verið hluti af ESB. Auðvitað leit hann viljandi fram hjá efnhagserfiðleikum Grikkja og annarra Miðjarðarhafsþjóða.

Meðan Össur kveður ríki heims á ríkisstjórnin hans í miklum erfiðleikum. Umhverfisráðherra vegur að iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra krefst skattahækkana, forsætisráðherra hafnar þeim. Enginn nema viðskiptaráðherra og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur ríkisstjórninni til varnar í efnahagsmálum. Forsætisráðherra ver umsóknina í ESB meðan Vinstri grænir hafna þeim. Jafnvel VG hafnar forystu formanns síns. Iðnaðarráðherra er staðinn að ósannindum. Ráðherrar Samfylkingarinnar standa berskjaldaðir en þingflokkurinn er í fríi meðan aldar óstjórnar í efnahagsmálum brenna um allt land.

Ekki furða þótt Össur farið í kveðjuferð til útlanda - ríkisstjórnin er fallin, hún veit bara ekki af því. Farið hefur fé betra.


mbl.is Kínverskur landstjóri þakkar Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband