Færsluflokkur: Ferðalög

Væri Vífilsfell ekki á sínum stað vantaði mikið

Vífilsfell2

Við gos undir jökli myndast móbergsfjöll, og nái gosið að bræða sig upp úr jöklinum þannig að ekki komist bræðsluvatn að gígnum renna hraun. Slík fjöll, með hraunlögum ofan á móberginu, nefnast stapar.

Þekktustu dæmin um stapa á Íslandi eru Hlöðufell og Herðubreið. [...]  

Stallurinn á Vífilsfelli er stapi, það er efsti hluti hans er blágrýtislög en móberg undir.

Toppurinn á Vífilsfelli er hins vegar yngri myndun sem liggur ofan á blágrýtinu og utan í vesturhlíð stapans. Hann er úr móbergi og er hluti af NV-SA gossprungu sem teygir sig frá Henglafjöllum suður fyrir Sandskeið. [...]

Vífilsfell er semsagt myndað í tveimur gosum, þar sem hið síðara varð undir þykkari jökli en hið fyrra -- sennilega hvort á sínu jökulskeiði.

Ekki Vífilsfell2

Mér þykir afskaplega varið í Vífilsfell. Tel það með fallegustu fjöllum á landinu. Bæði er að tilsýndar er það einkar fallegt, sérstaklega úr norðri eða vestri. Ekki síður er móbergið uppi á toppfjallinu afskaplega fallegt, sérstaklega sunnan megin.

En hvernig skyldi Vífilsfell líta út ef toppurinn hefði ekki myndast samkvæmt því sem segir hér að ofan (tekið af Vísindavef Háskóla Íslands)?

Einhverjir gætu nú gert þetta betur en ég, en þetta var tilraunarinnar virði. Raunar hefði ég líka átt að fjarlægja Vífilsfellsöxl, það er fellið vinstra megin við Vífilsfell.

Mikið ansi verður nú fjallagarðurinn kollóttur og lítið skemmtilegur ef toppurinn á Vífilsfelli væri þar ekki. Eflaust hefði stapinn fengið annað nafn, Vífill leysingi hefði ábyggilega ekki nennt að hlaupa upp á þessa þúfu til þess að kanna fiskigengd í Faxaflóa eins og sögusagnir herma.  

Svona virðist nú landslagið vera rétt saman sett að maðurinn getur eiginlega ekki bætt um betur. 


Er Norræna húsið við Tjörnina?

Af hverju í ósköpunum þarf Mogginn minn alltaf að fara rangt með í landafræði? Ég hrökk dálítið við og fór að pæla í því hvar þetta Blautalón sé. Man ekki eftir því á Fjallabaksvegi nyrðra. Munum að ekkert er til sem heitir FjallabaksLEIÐ. Þetta er vegur sem heitir Fjallabaksvegur nyrðri. Höfum það líka hugfast.

Í stuttu máli sagt er Blautalón ekki til á Fjallabakvegi nyrðri. Skiptir engu hversu mikill viljinn er, það er barasta ekki til þar. Blautulón (takið eftir muninum á örnefnunum) eru hins vegar til sunnan við fjall sem nefnist Grettir og erum um tíu kílómetra norðan við Fjallabaksveg nyrðri, í áttina að Langasjó. 

Þessi fína mynd sem Ragnar Axelsson tók er hins vegar frá nágrenni Eldgjár. Nánar tiltekið norðan við hana. Hafi ég rangt fyrir mér þá munu einhverjir velviljaði sem leiðrétta mig.

Svo er ekki úr vegi, að minnsta kosti ekki 10 km, að beina því til tveggja ágætra ritstjóra Morgunblaðsins að hvetja blaðamennina til að leggja áherslu á landafræðina. Þetta með Blautulón er eins og að segja að Norræna húsið sé við Tjörnina í Reykjavík. Hvort tveggja er fjarri lagi.

Miklu skiptir að fréttir séu á lýtalausri íslensku. Sama á við landafræðina. Hið síðarnefnda er ég tilbúinn til aðstoða Moggann með.


mbl.is Rúta valt ofan í Blautulón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauðisandur, einn fegursti staður landsins

dsc_0289.jpg

Rauðisandur er ekki mjög þekktur ferðamannastaður en það á örugglega eftir að breytast. Hann er syðst á Vestfjarðakjálkanum, nálægt Barðaströnd í samnefndri sýslu.

Í huga mér er Rauðisandur sveipaður mikilli dulúð. Þangað kom ég sem lítill strákur á ferðalagi með foreldrum mínum. Þá var mikil byggð í sveitinni en nú hefur hún dregist mikið saman eins og svo víðar á landinu. Mér er ákaflega minnisstætt þegar við ókum á Volkswagen bjöllu yfir krókóttan og ósléttan fjallveginn sem endaði í miklum bratta þar sem hann hlykkjaðist niður á láglendið. Á leiðinni, rétt eins og núna, blasir við Bæjarvaðallinn og hvítir skeljasandar og er þá sem umhverfið lýsist upp.

dsc_0458.jpg

Hvergi á landinu held ég að umhverfið sé öllu fegurra. Hamragirt sveitin horfir móti sólu, blár og mislyndur Breiðafjörður liggur með landi og hinum megin er Snæfellsjökull, svo voldugur og mikill, rétt eins og þegar horft er á hann hinum megin frá.

Rauðisandur er réttnefni, samt er sandurinn að hluta til gulur. Bæjarvaðallinn er flæðareyrar eða lón sem tekur yfir meirihlutann af sveitinni. Þar fellur sjórinn inn og yfir megnið af sandinum og á fjöru kemur allt upp aftur. Annað undirlendi er lítið en grænt og hlýlegt.

dsc_0346.jpg

Skýringin á nafninu er ekki einhlít. Sumir segja að sveitin sé kennd við Ármóð hinn rauða sem nam þarna land. Sé svo er nafnið á mörgum landakortum rétt, en þar stendur víða Rauðasandur. Hins vegar notuðu foreldrar mínir fyrra nafnið og því held ég hér. Munum að nafnið er ekki eins í nefnifalli og aukaföllunum.

Ferðamaðurinn sem kemur á Rauðasand í góðu veðri ekur því sem næst að kirkjustaðnum Saurbæ og þar liggur lítill vegarslóði niður graslendið. Þar er gott að leggja bílnum og ganga yfir rauða, leirborna sandinn og niður í gula skeljasandsfjöruna. Á björtum degi er stórkostlegt að ganga berfættur í heitum sandinum - næstum því eins og í útlöndum, bara miklu betra.

dsc_0332.jpg

Kaffihús er á Rauðasandi. Þegar við áttum leið þarna um fyrir nokkrum dögum sat fjölmenni fyrir utan dyra, naut sólar og gæddi sér á því sem á boðstólnum var. Við áðum ekki þarna þarna að þessu en gerum áreiðanlega síðar.

Saurbæjarkirkja virðist vera nýlega uppgerð, sker sig úr umhverfinu með sínu svarta lit, reisuleg og falleg. 

Mikil saga er bundin Rauðasandi. Innst í sveitinni, undir brattri fjallshlíð stóð bærinn Sjöundaá. Um aldamótin 1800 bjuggu þar tvenn hjón. Sambúð þeirra endaði með því að eiginmaðurinn úr öðru hjónabandinu og eiginkonan úr hinu myrtu maka sína. Af þessu varð mikið dómsmál sem endaði með því að þau voru dæmd til lífláts. Hann var tekinn af líki haustið 1805 í Noregi en hún lést nokkru áður í fangahúsinu í Reykjavík og var dysjuð á Skólavörðuholti. Hét þar allt fram á 20. öld Steinkudys.

dsc_0326.jpg

Undir Stálfjalli er Skor og þar var áður útræði. Þekktastur er staðurinn fyrir það að þaðan lagði Eggert Ólafsson í sína hinstu för vorið 1768. Hann var þá nýgiftur og sigldi frúin með honum skip þeirra og fylgdarmanna sökk þennan dag. Lengi var ljóð Matthíasar Jochumssonar kennt í barnaskólum og nemendur látnir læra það utanað. Það var lítill vandi því vel er það samið. Fyrsta erindið í þessum heillandi ljóðabálki er svona:

Þrútið var lofti og þungur sjór,

þokudrungað vor.

Það var hann Eggert Ólafsson,

hann ýtti frá kaldri skor. 

Ég mæli með Rauðasandi. Skemmtilegast er að aka til Stykkishólms og sigla með Baldri yfir Breiðafjörð að Brjánslæk, þaðan um Barðaströndina, yfir í Patreksfjörð og þá til Rauðasands. Til baka er einstaklega gaman að aka alla firðina austur sýsluna.

 


Á pilsfaldi spákonunnar

dsc_0120_702901.jpgHaustið er komið, því verður víst ekki á móti mælt. Treglega verð ég að viðurkenna það. Jörð var nefnilega grá er ég gekk út í morgun og upp með hlíðum Spákonufells, um pislfald spákonunnar, ef svo má segja. Snjórinn var þó ekki mikill, eiginlega ekkert nema ... grámi. Oft veit snjór á haust, jafnvel veturkomu.

Dagurinn var fallegur. Gola af norðaustan og inn í Húnaflóa sigldu af og til éljaklakkar. Þeir komu fyrir Skaga og liðu yfir miðjan Flóann og kannski inn í Hrútafjörð eða yfir á Strandir. Dularfullir skýjabakkar sem sigldu móti skammdegissól, svo hægt að varla mátti greina. Skagafjöllin voru greinilega fyrirstaða fyrir vindinn og hann þurfti að krækja framhjá þeim. Samt sáldraðist mjöllin stundum niður hlémegin við Spákonufell þar sem ég kjagaði uppávið.

Skýjafarið lék sér með sólargeislanna. Stundum var skjannabjart á efri hluta fjallsins, Spákonufellsborgina, og þess á milli var sem hún nær myrkvaðist.

Ég gekk ekki alla leiðina upp. Nennti því ekki í þetta sinn. Lék mér að því að taka myndir og njóta kuldans. Já, það er stundum alvega einstaklega gott að vera úti í frosti. Engum verður meint af því, aðal atriðið er að klæða sig vel og hreyfa sig. Ég tók myndir, þóttist taka góðar myndir, en þær er ekki eins góðar og ég hélt, bara svona miðlungs. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband