Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Gallaður iPhone betri en aðrir símar

dsc00020.jpg

iPhone kom fyrst á markað 2007. Mikið asskoti langaði manni þá í hann. Það gekk samt ekki upp enda lokaður að mestu nema þeim löndum sem hafa aðgang að iTunes. Frá þessu skilyrði er afar dýr undantekning. Ísland er úti í kuldanum nema fyrir um 130.000 krónur. Jafnvel mér finnst það of mikill peningur fyrir gsm síma sem aðrar þjóðir fá fyrir þriðjunginn af þessari fjárhæð.

Ég verð að viðurkenna að enn langar mig í iPhone og ekki síður í iPhone4, skiptir mig engu þó einhverjir gallar kunni að vera á honum. Þeir sem ég þekki og hafa notað þennan síma segja hann frábæran. Jafnvel gallaður iPhone er sagður betri en ógallaður af annarri tengund.

Aðrir símaframleiðendur eru nú farnir að hanna og selja svipaða síma með snertiskjá og ýmis konar forritum. Það er líklega eins og að bera saman Kók og Pepsí, þýskan bjór og bandarískan, danskan mat og enskan, harðfisk og hákarl, íslenskt heiðarvatn og útlent,  ... Nei, nú er maður kominn út í tómt rugl. Ég á bara við að enginn sími kemst nálægt þeim gæðum sem iPhone hefur.

Maðurinn á myndinni skeiðaði niður í Apple umboð um leið og síminn barst þangað sem var í byrjun júlí 2007. Í augunum er undarlegur glampi og fasið ber vott um óviðráðanlegan spenning.

Síðan eru liðin þrjú ár. Tveir símar hafa farið um hendur mannsins og hvorugur þeirra líkist á nokkurn hátt hinum fræga iPhone. Spenningurinn yfir tækniþróuninni er hins vegar enn til staðar og aðdáunin á Apple hefur síður en svo beðið neina hnekki.

 


mbl.is Bæta iPhone 4
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuveitan á engar hækkanir „inni“

Varla hefur nokkur starfsmaður Reykjavíkurborgar boðið af sér jafnlítinn þokka og Haraldur Flosi Tryggvason, starfandi stjórnarformaður Orkuveitunnar, í viðtali við morgunútvarp Rásar2. Hann vissi fátt, var syfjaður, flissaði, skildi ekki spurningar og fannst greinilega ekki mikið þörf á að veita hlustendum sannfærandi svör. Í þokkabót eru spyrlar morgunútvarpsins arfaslakir og leyfa viðmælendum sínum að komast upp með alls kyns málfundaæfingar sem skila hlustendum nákvæmlega engu.

Grundvallaratriðið fyrir Orkuveituna sem og önnur fyrirtæki er að talsmenn hennar séu skýrir og greinagóðir í svörum.

Hvað þýðir að Orkuveitan „eigi eitthvað inni“ í gjaldskrárhækkunum? Er átt við að hún geti hækkað gjaldskrána um 40 eða 50% af því að tvö eða þrjú ár eru síðan það hækkaði síðast.

Undanfarin fjögur ár hafa nýjir meirihlutar í borgarstjórn látið gera úttekt á Orkuveitunni. Hvernig má það vera að staða hennar sé óljós eftir allar þessa vinnu? Eða eru borgarbúar enn að bíta úr nálinni með risahumareldi R listans og aðrar álíka gáfulegar „fjárfestingar“ R listans sáluga? Eða hafa meirihlutar tekið hagnaðinn ótæpilega úr fyrirtækinu til að greiða upp hallarekstur borgarinnar? Þetta þýðir einfaldlega að gjaldskráin hefur verið allt of há og „ekkert er lengur inni“ í hækkunum.


mbl.is Gjaldskrárhækkanir óhjákvæmilegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji kosturinn er að reka „velferðarstjórnina“

Höfundar skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru íslenskir. Skýrslan var yfirfarin og samþykkt af sjóðnum og hann skráður sem útgefandi og höfundur.

ASG hefur hingað til lagt áherslu á að þær þjóðir sem fá aðstoð breikki skattgrundvöllinn, hvetji til aukinnar neyslu og fjárfestinga, frekar en að skattleggja almenning og fyrirtæki í drep.

Afskipti sjóðsins af innri málefnum landsins eru ósæmilegar í alla staði. Ekki síst er það ultimatium undarlegt að valið standi hreinlega á milli stöðugs efnahaggs eða hárra skatta. Hreint útilokað er að kostrnir í stöðu þjóðarinnar séu aðeins tveir.

Háir skattar eru síst af öllu ávísun á stöðugt efnahagskerfi. Þeir leiða til viðvarandi atvinnuleysis, til verðbólgu, til sóunar frekar en verðmætasköpunar. Einfalt er að bera saman þjóðarframleiðslu hjá þeim þjóðum sem byggja á háum sköttum og svo þeim sem eru með lægri skatta.

Hitt er svo annað mál að ríkisstjórnin ætlar hvergi að koma nálgægt neinum efnahagsumbótum hér á landi. Hún lætur ASG um að koma stefnumálum sínum á framfæri og þær eru einungis skattar og aftur skattar.

Þetta endar með byltingu, ríkisstjórn norrænnar velferðar og hinna vinnandi stétta verður bylt af hinum vinnandi stéttum sem vilja varðveita velferðina. Þriðji kosturinn er að losana við vinstri velferðarstjórnina.

 


mbl.is Tveir slæmir kostir í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Embættið, það er ég, ég, ég, ég, ég ...

Ástæða er til að beina því til talsmanns neytenda að gera skýran greinarmun á þeirri persónu sem gegnir starfanum og embættinu sjálfu.

Í yfirlýsingunni, sem um er rætt í fréttinni, talar embættismaðurinn eins og hann eigi embættið og allt sem frá því komi sé hans. Þetta hlýtur að vera alröng nálgun mannsins frá sjónarhorni stjórnsýslunnafræða.

Það sem þetta embætti lætur frá sér fara er embættisins. Forstjóri þess getur ekki talað eins og sólkonungurinn forðum daga „Ríkið, það er ég“ og sagt „Embættið, það er ég“. Hér eru dæmin:

 

  1. ... vil ég koma á framfæri eftirfarandi ... 
  2. Ég tel FME og SÍ hafa skort heimild ...
  3. Þá tel ég að tilmælin ... 
  4. Að mínu mati er ekki útilokað ...
  5. Loks ber að mínu mati að ...
  6. ... samræmi við þau áform sem ég kynnti opinberlega ... 
  7. Sem fyrr er ég sem talsmaður neytenda vitaskuld reiðubúinn ...
  8. Ég tel rétt að stofnanirnar endurskoði aðkomu ...
  9. Hef ég því með vísan framangreinds ... 

 

Stórlega er til efs að nokkur annar sá sem gegnir mikilvægu embætti láti frá sér fara yfirlýsingu sem er jafn sjálfhverf í uppruna sínum eins og talsmaður neytenda.

Hér er ekki verið að gagnrýna efnislega tilmæli embættisins sem um er rætt í fréttinni. Flestir ættu að gera verið henni sammála.

Embættismaðurinn að taka sig á. Hann kann nú þegar að skrifa lagatexta og annað á óaðfinnanlegri bjúrókratísku og klassískri kanselísku og því lagt talsvert á sig til að gera sig illa skiljanlegan. Það bætir því ekki úr skák að lesandi ábeningarinnar hefur það á tilfinningunni að hann hafi líklega bara samið lögin sjálfur og sé af guði skapaður í þetta starf. 

Ljóst er að ekki eru gerðar neinar kröfur til embættismanna ríkisins að þeir séu sæmilega skrifandi en þó hljóta vera til einhverjar leiðbeinandi reglur eða tilmæli um að embættismenn geri skýran greinarmun á þeim sjálfum og því embætti sem þeir gegna. 

Eins og lesendur pistilsins kunna að taka eftir er hann ekki ritaður í 1. persónu. 

 


mbl.is Afturkalli tilmæli sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fláráða ríkisstjórnin beitir ASG fyrir sig

Hvernig stendur á því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kemur með tillögur um skattalækkanir? Staðreyndin er sú að þessar tillögur hafa frá upphafi verið unnar í fjármálaráðuneytinu eða af aðilum því tengdu. Fyrir þessu eru traustar heimildir.

Fjármálaráðuneytið vinnur tillögurnar og leggur þær síðan fram hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem fer yfir þær og gerir loks að sínum. Um er að ræða ítrustu hugmyndir um skattahækkanir sem hugsast getur án þess að tekjuöflun landsmanna bíði af þeim umtalsverða hnekki.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn krefst þess að dregið verði saman í rekstri ríkisins og til að Ísland fái samþykkta endurskoðun á framhaldi lána þá er þetta krafan.

Síðan kemur sjóðurinn með tillögurnar og í því skyni að bera klæði á vopnin heldur hann því fram að Íslendingar geti staðið jafnfætis öðrum þjóðum ef ekki betur innan þriggja ára.

Fjármálaráðherra stendur keikur fyrir utan allt þetta. Hann hefur opinberlega hvergi komið nærri og jafnvel forsætisráðherra getur þóst rífa kjaft. Allt líkist þetta umræðunni eftir dóm Hæstaréttar um gengistrygginguna. Jóhanna og Steingrímur etja öðrum á foraðið og segjast sem fyrr vera að byggja upp skjaldborgina margfrægu sem líkist í mörgu alræmdu tónlistarhúsi. Þegar byggingu þess lýkur verða orðnir svo fáir eftir í landinu að notkun þess mun ekki svara kostnaði. 

Er ekki kominn tími til að losna við fláráða ríkissjórn. 


mbl.is Matarverð rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjáið þá sem brugðust íslensku trausti

„Tiltrú almennings ...“ Að sjálfsögðu er þetta það sem skiptir máli í stjórnmálum. Það er hins vegar ekki á vísan að róa með kjósendur. Hluti þeirra breytir um skoðun og um leið er minnihluti orðinn meirihluti, ráðherra hverfur og annar kemur í hans stað, þingmaður fellur út af þingi, sveitarstjórnarmaður missir sæti sitt.

Stjórnmálamenn geta ekki byggt stefnu sína á skoðanakönnunum eða því sem þeir halda að meirihlutinn vilji. Mestu skiptir að hafa ákveðna stefnu og reyna að afla henni fylgis, byggja upp eldmóð meðal stuðningsmanna og svo ekki síst koma stefnu sinni í framkvæmd ef hún nýtur traust í kosningum.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kom sá og sigraði í síðustu forsetakosningum. Hann er sjónvarpsvænn maður, talar fallega, lofar öllu fögru og ræðusmiðir hans hafa byggt upp áferðafögur slagorð. Það gagnast hins vegar ákaflega lítið ef viðkomandi er framkvæmdafælinn maður.

Hér á landi er gríðarlegt atvinnuleysi. Ríkisstjórnin hefur ekki geta unnið bug á því. Lækkandi hlutfallstölur atvinnulausra byggjast á því að fjölmargir flýja land og atvinnulausir ganga í þeirra störf. Annað er það ekki og annað hefur ekki verið í boði. Slík er helstefna ríkisstjórnarinnar.

Vandinn er sá að þegar nýr maður kemur í stjórnkerfið verður hann annað hvort góður stjórnandi eða kerfið gleypir hann með húð og hári og hann gerist kerfiskall eða kelling. Þetta er staðreynd og engu skiptir hvort viðkomandi er sjónvarpsvænn eða ekki.

  • Sjáið bara hvað varð um byltingaleiðtogann úr búsáhaldabyltingunni, Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra. Hann er orðinn vörslumaður kerfisins númer eitt. Stendur fastur gegn dómi Hæstaréttar um gengistryggðu lánin sem hafa mergsogið heimilin og hirt af þeim alla eignamyndun.
  • Sjáið Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hinn byltingarleiðtoga alþýðunnar. Hann hefur nú lagt fram gríðarlegar skatthækkanir á Íslandi og beitir nú Alþjóða gjaldeyrissjóðnum fyrir sig til að koma með enn frekar skattahækkanir. 
  • Sjáið konuna sem eitt sinn hrópaði: Minn tími mun koma! Hann kom vissulega og Jóhann Sigurðardóttir stendur stjórnarráðþrota ásamt restinni af flokki sínum og ríkisstjórn sem berst á banaspjótum yfir smáatriðum. Ætli hún hafi nú ekki viljað að þessi tími hefði aldrei runnið upp.

Allt eru þetta varðhundar kerfisins, fólk sem kann ekkert, getur ekkert en talar flátt. Tiltrú almennings á þessari ríkisstjórn er þrotin vegna þess að hún býr ekki yfir neinni stjórnvisku, aðeins gamaldags úrræðum sem eiga ekki við í nútímanum.


mbl.is Treysta ekki lengur Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin breyting á fjölda atvinnulausra

atvinnuleysi_1008179.jpg

Atvinnuleysi er ekki bara tölur á blaði. Að baki þeirra eru þúsundir einstaklinga, heilu fjölskyldurnar sem eiga í vandræðum með að hafa í sig og á. Og samt fagnar ríkisstjórninn og heldur því fram að miklum árangri hafi verið náð með því að atvinnulausum fækkar á milli mánaða.

Þetta er auðvitað bæði rangt og ber vitni um skort á yfirsýn. Engin breyting hefur orðið á fjölda atvinnulausra frá því í fyrra. Tölurnar benda aðeins til þess að hlutfall þeirra sveiflist á sama hátt og þá.

Í sól og sumaryl er auðvelt að trúa því að atvinnulausum fækki. Það er hins vegar mikil blekking.

Atvinnuleysið sveiflast milli árstíða. Í vetur var mest atvinnuleysi í febrúar og mars. Það var svipað á árinu 2009 rétt eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti Vinnumálstofnunar. Eftir því sem líður á árið fækkar atvinnulausum og þeim fjölgar svo með haustinu.

Þannig var atvinnuleysið hæst 9,1% og lægst 7,2% á árinu 2009. Í ár var atvinnuleysið hæst í febrúar og mars 9,3% og er nú komið ofan í 7,6%, svipað og það var í ágúst í fyrra.

Það er afspyrnu heimskulegt að leyfa sér að tala um breytingar á atvinnuleysi þegar sveiflan er mjög svipuð og í fyrra. Um leið er ljóst að núverandi ríkisstjórn, sem fengið hefur 17 mánuði til að koma með heilsteyptar tillögur í atvinnumálum þjóðarinnar, hefur brugðist hrapalega.

Ekki nokkur skapaður hlutur skiptir jafn miklu máli og að draga úr atvinnuleysinu. Það er þjóðarböl sem verður að vinna á rétt eins og forðum daga þegar verðbólgan var kveðin í kútinn.

Hins vegar þarf nýjar kosningar fyrst ríkisstjórnin vildi ekki segja af sér og mynda þjóðstjórn. 


mbl.is Dregur úr atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjó mokað árlega úr Gunnlaugsskarði - yfirlýsing

Yfirlýsing frá vefkefnahópi Gunnlaugskarðs hjá embætti borgarverkfræðings Reykjavíkurborgar.

“Í nærfellt tíu ár, allt frá því að Kjalarneshreppur sameinaðist Reykjavíkurborg, hefur stór hópur verkamanna verið sendur á hverju vori upp í Gunnlaugsskarð til snjóruðninga. Þessi 30 manna hópur hefur dvalið uppi á fjallinu í þrjár til fjórar vikur hverju sinni, búið í tjöldum við ákaflega erfiðar aðstæður. Verkefni hans eru að ryðja snjó ofan af fjallinu til þess eins að Esjan líti betur út í augum íbúa á höfðuborgarsvæðinu.

Verkefnið var ákveðið á dögum háttvirts borgarstjóra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, en starfsnefnd á vegum borgarinnar þótti hin svokölluðu gróðurhúsaáhrif ekki ekki hafa nóg áhrif á norðurslóðum. Að auki þótt borgarstjóra á þeim tíma að norðantrekkurinn inn um skrifstofugluggan sinn væri frekarkaldur .

Árangur verkefnisins er ótvíræður. Hitastig umrædds trekks hefur hækkað að mun eftir að hópurinn hóf að moka snjónum úr Gunnlaugsskarði og var því snarlega ákveðið að hann skyldi líka moka af Kerhólakambi.

Ljóst er að umræddur hópur hefur staðið sig afar enda má ljóslega sjá að trjárækt á höfuðborgarsvæðinu er miklu gróskumeiri en áður.

Að auki má benda á að mikil fjölgun borgarstjóra í Reykjavík má beinlínis rekja til snjóleysis í Esju.

Loks má benda á að fjölmiðlar hafa sýnt skaflinum í Esju mikinn áhuga og ef verkefnið hefði ekki komið til hefði mikilli prentsvertu og ómældum tíma verið eytt í tóma vitleysu.

Upplýsingafulltrúi embættis borgarverkfræðings“

Ég skil ekkert í því hvers vegna hinir og þessir senda á mig alls kyns yfirlýsingr og leyniskjöl rétt eins og ég sé einhver fjölmiðill. Umslag með ofangreindri yfirlýsingu var á útidyramottunni þegar ég fór til vinnu í morgun. Hún kemur mér ekkert á óvart. Var einu sinni í þessum vinnuflokki. Hundleiðinlegt djobb.


mbl.is Skaflinn í Esjunni er að hverfa tíunda árið í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö eldgos eftir að formaður Útivistar hætti

Þessar brýr eru afskaplega nauðsynlegt fyrir ferðamenn og opna svæði sem lengi hafa verið lokuð nema þeim sem nennt hafa að vaða Krossá. Heiðurinn af brúnum á fyrrum formaður Útivistar, Árni Jóhannsson, en hann hefur verið óþreytandi í uppbyggingarstarfi fyrir félagið.

Árni hélt föstum höndum um fjármál félagsins sem styrktust afar mikið í tíð hans. Einnig virðist sem hann hafi haft föst tök á náttúru svæðisins. Það sést best á því að aðeins nokkrum dögum eftir að hann lét af embætti gaus á Fimmvörðuhálsi.

Greinilegt var að nýir stjórnendur félagsins höfðu engin tök á náttúruöflunum því þegar loks náðist að kveða gosið á Hálsinum niður gaus í Eyjafjallajökli.

Draumspakir menn halda því svo fram að á næstunni muni gjósa í Kötlu enda benda er óróinn farinn að færast undir pilsfaldinn hjá kellu.

Í sannleika sagt finnst mér full ástæða til að Árni komi nú aftur að stjórn Útivistar áður en allt fer í tóma vitleysu. Nóg er af náttúruhamförum af mannavöldum svo Katla bætist ekki líka við.


mbl.is Göngubrýr á hjólum yfir Krossá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húnvetningum sagt stríð á hendur

Þjóðvegir landsins eru almennt slæmir. Víðast eru ekki nein skil á milli akstursstefna. Vegirnir eru eru ekki sléttir, þeir eru almennt ójafnir og ófyrirsegjanlegir. Ótal einbreiðar brýr eru vegfarendum til stórkostlegrar hættu.

Stjórnmálamenn hafa enn ekki haft í sér dug til að taka um það ákvörðun á aðalþjóðvegur landsins, hringvegurinn skuli vera tvöfaldur. Slíkur er aumingjaskapurinn er og skortur á framtíðarsýn. Samt er ætlunin að taka á móti milljón ferðamönnum innan tíu ára ...

Nú hefur það gerst að sveitarfélagið Akureyri hefur sagt Blönduósi og Húnavatnshreppi stríð á hendur. Atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga reið á vaðið og lagði ómælda vinnu í að fá Akureyringa til að senda Húnavatnshreppi athugasemdir um aðalskipulag hreppsins. Tilgangurinn er sá að stytta veginn frá Reykjavík til Akureyrar um það bil þrjár mínútur.

Fyrir vikið á að byggja veg framhjá Blönduósi og yfir fúamýrar í Húnavatnshreppi og byggja að auki nýja brú yfir Blöndu. Kostnaðurinn er um þrír milljarðar króna. Einn milljarður á mínútu.

Hverskonar dómsdags vinnubrögð eru það að efna til stríðs milli sveitarfélaga þegar margt annað er mikilvægara.

Eru menn virkilega sáttir við einbreiðu brýrnar? Er engin þörf á að aðskilja aksturstefnur á hringveginum? Er engin þörf á sléttum vegum í stað þeirra sem nú eru? Vill enginn að þjóðvegir landsins séu fyrirsjáanlegir fyrir ökumenn eða eiga óvæntir krókar og bólgur í malbiki að koma á óvart um ófyrirsjáanlega framtíð.

Markaðsstofa Norðurlands hefur í langan tíma unnið að því að byggja upp flugumferð til útlanda frá Akureyrarflugvelli. Ástæðan er einfaldlega sú landsbyggðin á ekki að vera upp á suðvesturhornið komið í atvinnumálum.

Má gera ráð fyrir því að bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórnir Hörgárbyggðar, Grýtbakkahrepps, Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar séu komin í stríð við Blönduós og Húnatnshrepps? Að minnsta kosti eru fulltrúar þessara sveitarfélaga í stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Þessi sveitarfélög eru greinilega á þeirri skoðun að upphaf og endir tilverunnar sé Reykjavík. Það er aumlegt viðhorf.

Er ekki nær að sameinast um verkefni í samgöngumálum sem skipta öll sveitarfélög máli? 


mbl.is Vilja styttri þjóðveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband