Meirihlutinn og vilji einstaklingsins

Gott er og gagnlegt að fólk komi saman og ræði stjórnarskrána og breytingar á henni. Það getur ekki verið nema til góðs. Hins vegar er ástæða til þess að minna á að engin krafa er uppi um að allir eigi að vera sammála niðurstöðum hans.

Jafnvel þó allir á þjóðfundinum séu t.d. þeirrar skoðunar að forsætisráðherra skuli vera þjóðkjörinn og ráðherrar skuli ekki sitja á Alþingi þýðir það ekki að þú, lesandi góður, þurfir að vera sammála. Skiptir þá engu hvort þú ert í kjöri til stjórnlagaþings eða ekki.

Niðurstöður þjóðfundarins eru einungis tilmæli eða ábendingar til stjórnlagaþingsins.

Ég á þá skoðun heitasta að þeir sem þar kunna að ná kjöri haldi sjálfstæði sínu og breyti ekki skoðunum sínum eða taki upp það sem þjóðfundurinn ályktar nema þeir séu fullkomlega á sama máli. Mikilvægast af öllu er að fólk myndi sér eigin skoðun en lepji ekki gagnrýnislaust upp það sem virðist vera skoðun meirihlutans. Staðreyndin er nefnilega sú að meirihlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.

Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að auðvitað hlýtir maður niðurstöðum meirihlutans en ekki þar með að maður fyrirgeri rétti sínum til að reyna að afla fylgis fyrir öðru en meirihlutinn vill.

Þetta er í sjálfu sér það sem lýðræðið gengur út á og stjórnmál byggjast á. Þjóð getur seint verið sammála í öllum aðalatriðinum þó ef til vill náist samkomulag um grunnatriði.

Þar með er komið að því sem mikilvægast er. Stjórnarskrá má ekki vera of löng. Almenn lög eiga að vera framhald af því sem segir í stjórnarskránni vegna þess að hún er grunnlög ekki útlegging.

Svo er það allt annað mál að það sem þjóðfundurinn ályktar, stjórnlagaþingið tekur undir og leggur til, þarf ekki að fá brautargengi á Alþingi. Það verður vegna þess að fólk á að halda í skoðanir sínar af festu en ekki fórna þeim eftir því sem vindar almenningsálitsins blása.


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll samála og þegar flokksræðið tekur völdin þá virkar lýðræðið ekki og því er stjórnkerfi okkar gallað, hefur færst frá almenningi í flokksræði og  ger spillta einkavinavæðingu!

Sigurður Haraldsson, 7.11.2010 kl. 19:32

2 Smámynd: Björn Leifur Þórisson

Sæll, ég sat fundinn sem fór betur fram en ég þorði að vona. 1000 manns eru marktækt úrtak af þjóðinni og skoðanir sem þarna koma fram endurspegla auðvitað vilja þjóðarinnar. Sá maður sem er í framboði til hverskonar embætta og tekur ekki mið af því sem þjóðin vill ætti ekki að vera í framboði. Með kveðju, Björn. 

Björn Leifur Þórisson, 7.11.2010 kl. 21:02

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Til hamingju með fundinn, Björn.

Enginn ætti að fórna skoðun sinni, jafnvel þó við ofurefli eða mikinn meirihluta sé við að etja. Hins vegar getur hann látið gott heita. En hvað vill þjóðin svona yfirleitt? Ekki er ég spurður.

Að halda því fram sá sem ætli í framboð EIGI að vera sammála „vilja þjóðarinnar“ eins og hann kemur fram í niðurstöðu þjóðfundar er einfaldlega kúgun og á ekki að viðgangast. Skiptir engu hversu „marktækt“ úrtakið er. Menn eiga ávallt að mynda sér sína eigin skoðun og standa við hana, afla henni fylgis ef því er að skipta.

Þjóðfundur segir mér ekki hver skoðun mín á að vera. Það er svo annað mál að ég get verið sammála ýmsu í niðurstöðum fundarins.+

Látum ekki segja okkur fyrir verkum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.11.2010 kl. 21:13

4 Smámynd: Björn Leifur Þórisson

Sæll, þetta er áhugavert, spurning sem gæti vaknað í framhaldi af þessu, ættu alþingismenn t.d. þá ekki að fara að vilja þjóðarinnar hversu skýr sem hann er? Kveðja, Björn.

Björn Leifur Þórisson, 7.11.2010 kl. 21:22

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Eigum við nokkuð að breyta þessu, Björn?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.11.2010 kl. 22:03

6 Smámynd: Björn Leifur Þórisson

Sæll aftur. Ef alþingismenn sem og aðrir kjörnir fulltrúar hlusta ekki á rökstuddar og skynsamlegar tillögur kjósenda þá finnst mér jú að þessu orðalagi eigi að breyta. Þjóðfundurinn er svolítið annað mál því hann á beinlínis að vera leiðarljós fyrir stjórnlagaþing. Auðvitað á að hafa stjórnarskrána eins og meirihluti almennings (1000 manns er miklu meira en nóg til að fá marktækar niðurstöður) vill hafa hana en ekki samkvæmt einhverri óskilgreindri sannfæringu fárra manna. Ertu nokkuð ósammála því? Kveðja, Björn. 

Björn Leifur Þórisson, 7.11.2010 kl. 23:48

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Góð rök hjá þér, Björn. Vissulega getur vilji kjósenda og vilji þingmanna átt samleið en það þarf ekki að vera svo og ástæðurnar eru óteljandi.

Væri ég þingmaður færi ég fyrst og fremst eftir sannfæringu minni. Gæti ekki annað. Þannig vona ég að flestir séu, taki hjálparlaust málefnalega afstöðu.

Afar erfitt væri að breyta stjórnarskrárákvæðinu sem ég nefndi í athugasemd nr. 5.

Myndir þú vilja fella það niður? Eða viltu orða það þannig að hafi yfirgnæfandi meirihluti í skoðanakönnum ákveðna skoðun beri þingmanni að greiða atkvæði í samræmi við það ...

Nei, fjanda kornið, það hvort tveggja væri afar misráðið.

Hvort ætti ég nú, væri ég þingmaður, að greiða atkvæði með eða gegn ESB aðild? Fyrir þremur árum var meirihluti fyrir henni, en ekki nú ...

Ég myndi áreiðanlega vilja halda þessu stjórnarskrárákvæði óbreyttu. Það er farsælast.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2010 kl. 00:04

8 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Er betra að þeir sitji og standi eins og flokksforystunni hentar í það og það sinnið, og hendi hugsjónunum og sannfæringunni út um gluggann?

Sigríður Jósefsdóttir, 8.11.2010 kl. 12:14

9 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Sannfæring getur falist í því að gera það sem flokkurinn býður.. er það ekki??

Við skulum ekki gleyma því hvernig félagsstarf er allmennt uppbyggt, yfirleitt eru aðalfundir eða landsþing æðsta vald í málefnum viðkomandi félags eða flokks, og þingmönnum eða öðrum kjörnum fulltrúum ber að hlýta því ekki satt??

Flokksforusta sem gengur þvert gegn ályktunum landsþings á að víkja, en því miður hefur það ekki alltaf gegnið eftir og það er einmitt þessvegna sem "hefðbundið" flokksstarf er ekki að virka sem skildi.

Ég tek undir margt af því sem að Sigurður talar hér um, við þurfum að hafa einfaldar og skýrar leikreglur ekki margar og flóknar sem má túlka hægri vinstri efti geðþótta hvers og eins.

Eiður Ragnarsson, 8.11.2010 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband