Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Ríkisstjórnin leggur Húsavík í einelti

Samdráttur í opinberum störfum á landsbyggðinni mun leiða til fækkunar. Sá lærdómur hefur fengist af fólksfækkun víðast um landi er að missi annað hjóna starf eru litlar líkur á því að það fái annað við hæfi, sérstaklega ef um sérhæft starf er að ræða. Þess vegna flytja hjón burtu þangað sem verulegar líkur eru á að bæði fái störf við hæfi. Uppsaganir 40 starfsmanna við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík má margfalda með þremur til fjórum. Hætta er á að allt að 160 manns flytjist á brott úr Þingeyjarsýslum.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar í heilbrigðisstofnunum víða um land mun án efa leiða annað hvort til viðvarandi atvinnuleysis eða fólksfækkunar. Þó getur ríkisstjórnin líklega haldið því fram að enga atvinnu sé að fá í á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna verði ekki um fólksfækkun að ræða til dæmis á Húsavík.

Vandamál Þingeyinga er hinn stóri vandi þjóðarinnar sem er ríkisstjórnin. Við erum fyrir löngu komin yfir hrunið en ríkisstjórnin þráast við. Hún sinnir ekki atvinnuuppbyggingu eða hvetur til verðmætasköpunar. Ráð hennar eru úrelt og til tómra vandræða. Niðurskurður á fjárlögum sem leiðir til atvinnuleysis, brottflutnings af landsbyggðinni og lakari heilbrigðisþjónustu. Við þetta er ekki búandi.

Ástæða er til að hvetja Þingeyinga til að berjast hatramlega á móti ríkisstjórninni. Að þeim er sótt víða, ekki aðeins í heilbrigðismálum heldur líka í atvinnumálum. Ekkert það sem Húsvíkingar vilja nær fram að ganga, allt stöðvar ríkisisstjórnin. Ljóst er að þeir hafa orðið fyrir barðinu á alvarlegu einelti ríkisstjórnarinnar.

Er ekki kominn tími á nýjar kosningar? 


mbl.is Borgarafundur boðaður á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyllidagaverkefni Jóns borgarstjóra

Hvernig skyldi standa á því að aldrei sjáist til Jóns borgarstjóran í Reykjavík nema við tyllidagaverkefni? Gæti verið að maðurinn sé bara til skrauts?

Ég sakna þess að hann taki ekki til máls á borgarstjórnarfundum og flytji pólitískar og einbeittar ræður um fjármál borgarinnar, stefnumörkun hennar í fjárþrengingum hennar og rökstyðji þær.

Allt sem sést af Jóni borgarstjóra er þegar hann tekur þátt í hinseigndögum, opnar skóla, tekur á móti útlendingum, stendur með mótmælaspjöld fyrir framan Alþingishúsið eða opnar grænar hjólaleiðir. Það verður þó ekki af Jóni borgarstjóra skafið að honum farast tyllidagaverkefnin vel, hann er sem sniðinn fyrir tækifæristilefni. Að öðru leyti er hann óskrifað blað. Hann þarf líklega gott handrit.


mbl.is Dalskóli tekinn formlega í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótboltafréttir í Mogganum mættu vera betri

Alfreð Finnbogason er tvímælalaust vel að þessari viðurkenningu kominn og ástæða er til að óska honum til hamingjum. Hins vegar er enn ríkari ástæða til að gagnrýna Morgunblaðið fyrir fréttir sínar af knattspyrnunni í sumar. Fyrir þá sem ekki eiga mögueika á að vera á staðnum og fylgjast með leikjum af áhorfendapöllum eða í sjónvarpi eru greinar íþróttafréttamanna Morgunblaðsins stundum ekki nógu góðar.

Nú orðið eru leikjum ekki lýst heldur plássið notað fyrir viðtöl eða hugleiðingar. Því læðist að manni sá grunur að þeir hafi ekki verið viðstaddir þá leiki sem skrifað er um. Sé svo er hreinlegast að segja frá því en þá er ómögulegt fyrir fréttamanninn að dæma einstaka leikmenn og veita þeim emm.

Sem trúfastur lesandi  knattspyrnufrétta Moggans kemur oft fyrir að ég fæ litla tilfinningu fyrir því hvernig knattspyrnuleikurinn þróaðist, hvernig einstakir leikmenn stóðu sig og hvernig mörk urðu til eða aðrir atburðir á vellinum eins og brot eða dómar. Þetta er slæmt því íþróttafréttamenn hljóta að vera sérfræðingar í knattspyrnu og eiga að varpa hlutlausu ljósi á leikina, upplýsa lesandann.

Emmin margumræddu hafa því miður gengisfallið. Ekki virðist vera nein regla í veitingu þeirra heldur virðist þeim annað hvort vera dreift af ótrúlegri gjafmildi meðal leikmanna eða þeim sáldrað upp í vindinn. Hér er ég ekki að tala um hina knáu sóknarmenn íslenska boltans, hetjutenórana sem allir fylgjast með, heldur hina sem fylla töluna, eru þátttakendur í því að eitt lið stendur sig betur en annað. Markmenninga, vörnina, miðverðina, kanntmennina og alla þessa sem sinna sínum hlutverkum svo einhver megi nú skora mark. Og hvernig er það með þjálfarana, eru þeir ekki ómissandi hluti af liði sínu, eiga þeir ekki skilið emm fyrir frammistöðu sína?

Raunar finnst mér einkunnagjöf Fréttablaðsins alls ekki svo vitlaus. Þar fá leikmenn einkunn og með henni fæst nokkuð skilmerkileg mynd af stöðu liðsins sem heildar.

Ég vona svo að íþróttadeildin taki þessa gagnrýni ekki óstinnt upp því vinur er sá er til vamms segir. 


mbl.is „Þarf nýja áskorun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörmulega illa staðið að ráðningu framkvæmdastjóra

Í sjálfu sér er ekki flóknara að ráða mann í starf hjá opininberu fyrirtæki eða einkafyrirtæki. Sömu reglurnar gilda að mestu um báðar ráðningar. Það flækir þó málið að hjá hinu opinbera eiga reglur og ferlar að vera gagnsæir. 

Þeir höfðu óskaplega gaman að því vinstri menn að reyna að snýta Sjálfstæðisflokknum vegna ráðninga og héldu því fram að flokksgæðingar fengu stöður frekar en aðrir. Einkum var Björn Bjarnason gagnrýndur fyrir skipun dómara. Þegar grannt var skoðað var það aðeins ein stöðuveiting sem hægt var að gagnrýna og það var ekki Björn sem réð í hana. Allt annað voru staðlausir stafir.

Nú eru hörðustu gagrýnendurnir við kjötkatlana og hafa orðið uppvísir af ótrúlegum æfingum í stöðuveitingum. Og ekki virðist vera hægt að ráða framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs þrátt fyrir að fjöldi hæfra manna hafi sótt um, umsóknarfrestur löngu liðinn og nýr framkvæmdastjóri ætti að vera tekinn til starfa. 

Vinstri menn hafa fallið flatir ofan í þann pytt sem þeir vildu af hjartans einlægni að Sjálfstæðismenn hefðu verið að svamla í. Þeir grípa nú til þess að auglýsa aftur eftir framkvæmdastjóra rétt eins og það sé einhver lausn. Þvert á móti er það uppgjöf og ótrúleg vanvirðing við þá sem sóttu um í fyrra skiptið. Gegn vilja sínum hefur það ágæta fólk, hvar í flokki sem það stendur, verið misnotað sem statistast í lélegu leikriti.

Mikilvægast að stjórnvöld hafa gefist aftur upp á ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs og þar með er komin viðurkenning á ráðningin átti að vera pólitísk.

Er ekki kominn tími á þessa ríkisstjórn? 


mbl.is Aftur auglýst eftir framkvæmdastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þetta voru vinir hennar ...

Furðar sig engan á að Hjörleifur Sveinbjörnsson segi sig úr Samfylkingunni. Hann hefur líklega áttað sig á að með svona vini í farteskinu þurfa menn enga óvini.

Jafnaðarmenn á Íslandi hafa aldrei farið vel með formenn sína. Þeim hefur því sem næst alltaf verið útskúfað þegar móti hefur blásið, ýmist í embætti eða á eftir.

Fyrrum formanni og brautryðjanda þessa ógæfusama flokks hefur nú verið sýnd sú mesta óvirðing sem nokkrum manni getur hlotnast.

Á meðan standa Sjálfstæðismenn sem órofa fylking móti pólitísku áhlaupi á fyrrverandi formann sinn.

Margir Samfylkingarmenn skilja ekki prinsíp og ekki heldur stefnufestu. Ekki þurfa allir Sjálfstæðismenn að vera sammála Geir H. Haarde en allir sjá þeir að málatilbúnaður rannsóknarnefndarinnar og meirihluta Alþingis á hendur honum er kolrangur sem og upphlaupið gagnvart þremenningunum sem sluppu naumlega undan ákæru.

Ég spái því að Samfylkingin klofni nú í kjölfar þessara atburða. Ótrúlegt til þess að vita að vinir Ingibjargar Sólrúnar noti núna tækifærið og stingi hana í bakið.


mbl.is Hjörleifur sagði sig úr Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófræðilegt álit stjórnmálafræðings

Ekki virkar þetta nú sannfærandi hjá stjórnmálafræðingnum. Á síðustu áratugum hafa aldrei komið fram stjórnmálaflokkar sem hafa enst. Þessir smáflokkar eiga það eitt sameiginlegt að klikka flestir á grundvallaratriðum; hugmyndabaráttu og eigingirni eða síngirnd stofnendanna. Lítum bara á drusluganginn í Borgarahreyfingunni sem þingmennirnir klufu sig úr og stofnuðu Hreyfinguna. Lítum á samskipti þessara þingmanna í byrjun, baktalið og ruddamennskuna. Hreyfingin hefur enga stefnu og svo virðist sem að hún gangi út á það að eignangri sig frekar en að vinna með öðrum. Næst þegar hún klofnar verður nafnið eflaust stytt í ... ingin og kölluð Engin því hún skiptir ekki nokkru einasta máli í þróun íslenskra stjórnmála eftir hrun.

Það þarf meira til að stofna stjórnmálaflokk en að einhver stjórnmálafræðingur vaði upp á dekk og spái endalokum ríkisstjórnarsamstarfs. Á stjórnmálafræðingurinn þá við að einhverskonar Besti flokkur bjóði fram í næstu þingkosningum? Þá er ég sammála, en sá flokkur mun ekki hafa erindi sem erfiði. Fyrir þjóðinni blasir svipaður flokkur í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann hefur ekkert gert, stefnulaust rekald sem byggir á uppákomum borgarstjórans sem veit ekkert, fylgist ekki með neinu en baðar sig í sviðsljósinu og það kann hann. Því miður skiptir Besti flokkurinn máli í borgarstjórn þar sem hann hefur nógu marga fulltrúa og styðst við Samfylkinguna sem er gagnrýnislaus á samstarfsflokkinn. En að Besti flokkurinn verði leiðarljós til framtíðar er gjörsamlega útilokað. Almenningur lætur ekki plata sig tvisvar í röð.

Líklegst er að stjórnmálafræðingnum langi persónulega í nýja flokka og með viðtalinu sé hann að undirbúa hugsanlegan jarðveg fyrir þá. En þetta álit hans er engu að síður ófræðilegt og grautarlegt.


mbl.is „Skíthræddir“ við nýtt framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband